Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 17/2014

Úrskurður


Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 14. október 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 17/2014.

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 5. febrúar 2014, fór Vinnumálastofnun þess á leit við kæranda, A að hann greiddi skuld við stofnunina innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Fram kom í bréfinu að skuldin væri tilkomin vegna þess að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 1. ágúst til 19. ágúst 2011 og uppfyllti því ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006 á þeim tíma. Skuldin nam 82.242 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 12.336 kr. eða samtals 94.578 kr. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 10. febrúar 2014. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 4. maí 2010. Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur til 19. ágúst 2011.

Kærandi fékk greiddan lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á tímabilinu janúar til ágúst 2011 auk greiðslna atvinnuleysisbóta og lá tekjuáætlun kæranda fyrir. Kærandi fékk að meðaltali greiddar 16.607 kr. frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá Tryggingastofnun, en í ágúst 2011 fékk kærandi greiddar 808.264 kr. Í gögnum málsins kemur fram að þar sem þessar upplýsingar hafi ekki legið fyrir fyrr en í september 2011 hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. til 19. ágúst 2011.

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru að hann hafi verið öryrki í atvinnuleit og síðan öryrki á bótum hjá Tryggingastofnun ríkisins og frá því í ágúst 2013 hafi hann einnig verið á framfærslu lífeyrissjóðs. Kærandi kveðst ekki geta séð hvernig krafa Vinnumálastofnunar sé tilkomin. Hann hafi heldur engin ráð til þess að greiða hana.

 Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 26. mars 2014, bendir Vinnumálastofnun á að málið varði þá ákvörðun stofnunarinnar að skerða afturvirkt atvinnuleysisbætur kæranda á grundvelli 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem hafi leitt til skuldamyndunar. Kærandi hafi fengið greitt frá Tryggingastofnun ríkisins í ágúst 2011 að fjárhæð 808.264 kr. Fram kemur að meginreglna um skerðingu atvinnuleysisbóta sé í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segi að gert sé ráð fyrir því að hvers konar tekjur eða greiðslur úr öðrum tryggingakerfum komi til frádráttar atvinnuleysisbótum hins tryggða. Sé tekið fram að miðað skuli við óskertan rétt umsækjanda til atvinnuleysisbóta.

Skerðing vegna tekna sé síðan framkvæmd þannig að óskertur réttur atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki sé dreginn frá samanlögðum tekjum hans og þeim atvinnuleysisbótum sem hann eigi rétt á. Helmingur þeirrar fjárhæðar sem nái umfram fullar atvinnuleysisbætur ásamt frítekjumarki myndi skerðingu atvinnuleitanda. Staðið hafi verið að skerðingu í máli þessu með þessum hætti. Þar sem tekjur kæranda í ágúst 2011 hafi skert bótarétt hans að fullu hafi honum borið að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Innheimta ofgreiddra atvinnuleysisbóta sé byggð á 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt framangreindri lagagreind sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta greiðslur atvinnuleysisbóta og innheimta þær bætur sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi ekki áhrif á skyldu viðkomandi til þess að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. mars 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 11. apríl 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2.      Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vegna ágústmánaðar 2011 að fjárhæð 82.242 kr. auk 15% álags sem nemur 12.336 kr., eða samtals að fjárhæð 94.578 kr. Skuld kæranda á rætur sínar að rekja til þess að hann fékk greiddan lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins í ágúst 2011 að fjárhæð 808.264 kr.

Samkvæmt gögnum þessa máls bárust Vinnumálastofnun fyrst upplýsingar um framangreinda lífeyrisgreiðslu í september 2011 og var ekki hægt að miða greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir ágústmánuð við það. Umrædd lífeyrisgreiðsla var það há að hún skerti bótarétt kæranda að fullu í ágúst 2011 skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þannig að kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir þann mánuð.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistrygginga segir að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt framangreindri 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda að endurgreiða skuld sína við Vinnumálastofnun að fjárhæð samtals 94.578 kr.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A, samkvæmt innheimtubréfi frá 5. febrúar 2014, þess efnis að hann endurgreiði stofnuninni 82.242 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 12.336 kr. eða samtals að fjárhæð 94.578 kr. er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta