Mál nr. 156/2012
Fimmtudaginn 2. október 2014
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 8. ágúst 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 10. júlí 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 13. ágúst 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 7. september 2012.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 12. september 2012 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust 14. október 2012.
I. Málsatvik
Kærandi er fædd 1951 og býr ásamt dóttur sinni, sem er í menntaskóla, í eigin 65 fermetra íbúð að B götu nr. 25 í sveitarfélaginu C.
Kærandi er öryrki og óvinnufær. Hún er félagsráðgjafi að mennt. Tekjur hennar eru lífeyrisgreiðslur að fjárhæð 246.656 krónur á mánuði.
Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til þess að hún ákvað að minnka við sig húsnæði. Hún hafi átt raðhús sem hafi verið of stórt og greiðslubyrði áhvílandi lána of mikil fyrir fjárhag hennar. Kærandi hafi keypt litla íbúð í byrjun árs 2008 og þannig hafi hún talið sig lækka greiðslubyrði og losa það fé sem hún hafi átt í raðhúsinu. Veðsetning íbúðarinnar við kaupin hafi verið 67,5% vegna 12.500.000 króna láns frá Íbúðalánasjóði. Raðhúsið hafi ekki selst fyrr en einu og hálfu ári síðar. Þá hafði verðmæti hússins minnkað og áhvílandi lán hækkað sökum efnahagshrunsins. Eign hennar í húsinu hafi aðeins verið 2.700.000 krónur og þá fjármuni hafi hún þurft að nota til að greiða ýmsan kostnað og lausaskuldir auk þess sem endurbætur hafi verið gerðar á íbúðinni. Nú hafi áhvílandi lán á íbúðinni hækkað langt umfram verðmæti hennar og hún geti ekki greitt af láninu.
Kærandi hafi fengið greiðsluaðlögun vegna samningsskulda með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur árið 2009 og hafi allar samningsskuldir hennar þá verið felldar niður. Á þeim tíma hafi ekki verið sambærileg úrræði fyrir veðskuldir einstaklinga.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 22.401.739 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.), nema námslán að fjárhæð 3.279.465 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað við Íbúðalánasjóð á árinu 2008 vegna fasteignakaupa.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 16. maí 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Umsjónarmaður gerði frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings og sendi það kröfuhöfum. Athugasemd barst frá Íbúðalánasjóði en sjóðurinn vildi ekki fallast á eftirgjöf fasteignaveðkrafna. Nýtt frumvarp var þá gert og meðal annars miðað við ný neysluviðmið. Kærandi hafi ekki viljað samþykkja frumvarpið. Hafi því ekki verið annar möguleiki fyrir hendi en að reyna að selja íbúð kæranda.
Að sögn umsjónarmanns hefur kærandi ekki fallist á sölu fasteignar sinnar að B götu nr. 25 í sveitarfélaginu C samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. Umsjónarmaður hafi reynt að lækka framfærslukostnað kæranda til að hún geti greitt hæfilega fjárhæð inn á veðkröfur en kærandi hafi ítrekað hafnað slíkum tillögum. Telji umsjónarmaður því óumflýjanlegt að mæla með niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt 5. mgr. 13. gr. lge. Umsjónarmaður hafi tilkynnt umboðsmanni skuldara með bréfi 14. mars 2012 að kærandi hafi ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns um sölu fasteignar sinnar, sbr. 1. og 5. mgr. 13. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara sendi kæranda ábyrgðarbréf 9. maí 2012 þar sem henni var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður hafi ekki fengið svar við þessu bréfi en ábyrgðarbréfið hafi verið endursent 13. júní s.á. Þá hafi verið gerð árangurslaus tilraun til að senda afrit bréfsins með tölvupósti á netfang sem kærandi hafði gefið upp með umsókn sinni um greiðsluaðlögun. Einnig hafi starfsmenn embættisins gert ítrekaðar tilraunir til að ná í kæranda í síma.
Með bréfi til kæranda 10. júlí 2012 felldi umboðsmaður skuldara niður ákvörðun sína frá 16. maí 2011 um heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess í fyrsta lagi að hún fái sanngjarna og réttláta málsmeðferð um greiðsluaðlögun sem miðist við fjárhags- og fjölskylduaðstæður hennar. Í öðru lagi krefst hún þess að mat umboðsmanns skuldara á greiðslugetu hennar verði látið standa án þess að svipta hana heimilinu. Þá er þess í þriðja lagi krafist að hún endurheimti allar eða hluta af þeim eignum sínum sem Íbúðalánasjóður hafi tekið eignarnámi. Loks óskar kærandi eftir því að kærunefndin veiti henni frest þar til niðurstaða liggi fyrir í dómsmáli er höfðað hafi verið til að skera úr um lögmæti verðtryggingar á neytendalánum.
Að því leyti sem málið er lagt fyrir kærunefndina verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærandi lýsir því að eftir skilnað á árinu 2006 hafi hún búið í raðhúsi sem hafi verið of stórt og dýrt fyrir hana. Kærandi hafi ætlað að aðlaga útgjöld sín að eigin fjárhag og hafi keypt 65 fermetra íbúð í upphafi árs 2008. Áhvílandi á íbúðinni hafi verið Íbúðasjóðslán að fjárhæð 12.500.000 krónur en það hafi verið 67,5% veðsetning miðað við kaupverð. Greiðslubyrði kæranda hafi eftir þetta átt að verða mjög lág eða 15.000 til 20.000 krónur á mánuði en það hafi verið í samræmi við fjárhag hennar. Hún hafi síðan ætlað að selja raðhúsið en kærandi hafi gert ráð fyrir því að hrein eign hennar í því væri 15.000.000 til 20.000.000 króna. Raðhúsið hafi ekki selst í mars 2008 eins og kærandi hafi stefnt að því að fasteignahrun hafi orðið viku eftir að húsið var sett á fasteignasölu. Húsið hafi loks selst í ágúst 2009 og þá á undirverði. Söluverðið hafi aðeins verið 2.700.000 krónur umfram veðsetningu og þeir peningar hafi að mestu farið í sölulaun til fasteignasala og til greiðslu lausaskulda sem safnast hafi upp hjá kæranda. Einnig hafi hluti fjárins verið notaður til að endurbæta íbúðina; endurnýja baðherbergi, mála og skipta um gólfefni.
Við hrunið hafi kærandi orðið eignalaus í einu vetfangi og því leitað til umboðsmanns skuldara. Hafi hún fengið greiðsluaðlögun en niðurstaða af greiðsluaðlögunarferli hafi verið sú að kæranda hafi verið gert að selja íbúð sína og/eða bíl. Þar sem kærandi geti hvorki verið án heimilis né bíls hafi þetta ekki verið lausn á vanda hennar.
Umboðsmaður skuldara hafi vísað til þess að kærandi hefði ítrekað hafnað tillögum umsjónarmanns. Hafa verði í huga með hvaða rökum það hafi verið gert en kærandi vísi í því sambandi til 13. gr. lge. Í 1. mgr. komi fram að umsjónarmaður geti ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. sama ákvæðis sé fyrirvari um að skuldari geti ekki verið án nauðsynlegra eigna. Að mati kæranda stangist þessar málsgreinar fullkomlega á.
Að mati kæranda verði að skilgreina hugtökin „sanngirni“ og „nauðsynlegar“ þannig að þau kom að gagni og séu skuldara til hagsbóta. Í þeim tilvikum er lögin stangist á sé eðlilegt að túlka þau skuldara í vil. Ef ekki sé unnt að finna lagastoð fyrir leiðréttingu á stökkbreyttum lánum hljóti að vera hægt að gera undantekningu til að umboðsmaður skuldara geti veitt skuldara vernd.
Í huga kæranda séu það grundvallarmannréttindi að fá að halda heimili sem keypt hafi verið á eðlilegum og viðráðanlegum lánskjörum í upphafi árs 2008. Kærandi hafi ætlað að hagræða í fjármálum sínum með því að kaupa ódýrara húsnæði en hrunið hafi gert það að engu. Kærandi fari ekki fram á annað en að fá að halda heimili sínu á því viðráðanlega verði sem hún hafi stefnt að árið 2008. Bifreið kæranda sé henni nauðsynleg til að hún einangrist ekki þrátt fyrir örorku. Sala bílsins myndi ekki skipta máli fjárhagslega enda sé hann verðlaus, árgerð 1997.
Kærandi geri athugasemdir við útreikning umboðsmanns skuldara á greiðslugetu hennar en horfa verði til þess að dóttir kæranda varð 18 ára 2012 og þá hafi fallið niður allar greiðslur með henni, svo sem meðlag, barnalífeyrir og barnabætur, þrátt fyrir að hún búi hjá kæranda og sé enn í námi. Einnig gerir kærandi athugasemd við þá ályktun umboðsmanns að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hún gæti aukið við tekjur sínar til að standa straum af fasteignaveðlánum. Kærandi kveður aldrei hafa staðið til að hún færi aftur út á vinnumarkað; örorka hennar hafi hindrað hana í að afla launatekna.
Kærandi tekur fram að hún hafi ekki fengið bréf 9. maí 2012 frá umboðsmanni skuldara þrátt fyrir að fullyrt sé að hún hafi fengi það með almennum pósti, tölvupósti og ítrekuðum símtölum. Þetta sé auðvelt að sanna með útskrift af innsendum tölvupósti og yfirliti yfir símtöl.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. laganna að ef kærandi framfylgi ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skuli skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Þessar greiðslur megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem umsjónarmaður ætli að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varði nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður sé umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri meðalgreiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri leigu. Að sögn umsjónarmanns hafi verið leitast við að lækka framfærsluþörf kæranda til að hún geti greitt hæfilega fjárhæð mánaðarlega inn á veðkröfur. Það hafi ekki borið árangur.
Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara sé greiðslugeta kæranda 53.789 krónur á mánuði. Þar sé gert ráð fyrir framfærslu eins fullorðins og eins barns enda sé 18 ára dóttir kæranda á framfæri hennar. Sé litið til leiguverðskönnunar Neytendasamtakanna frá mars 2011 sé leiguverð fyrir 60 fermetra, tveggja herbergja íbúð að meðaltali 1.530 krónur á hvern fermetra. Algengasta verð og miðgildisverð fyrir slíka eign sé því 90.000 krónur á mánuði. Umsjónarmaður hafi metið hæfilegt leiguverð fyrir íbúð kæranda um 66.500 krónur á mánuði að teknu tilliti til útgjalda sem alla jafna teljist ekki til leiguverðs, svo sem trygginga, hússjóðs, rafmagns, hita og fasteignagjalda, alls að fjárhæð 23.500 krónur.
Kærandi hafi lýst sig mótfallna tillögum umsjónarmanns um lækkun framfærslu í því skyni að hún gæti haldið íbúð sinni. Þá hafi kærandi ekki brugðist við andmælabréfi umboðsmanns skuldara sem henni hafi verið sent 14. mars 2012. Af gögnum málsins verði ekki séð að greiðslugeta kæranda geti staðið undir afborgunum af íbúðarlánum eða leiguverði samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Kærandi hafi ekki sýnt fram á með haldbærum gögnum að hún geti aukið við tekjur sínar svo að hún hafi greiðslugetu til að standa undir greiðslubyrði fyrirliggjandi fasteignaveðkrafna um fyrirsjáanlega framtíð. Þannig verði að telja að umsjónarmanni hafi borið að leita eftir því að eign kæranda yrði seld til að greiða fyrir því að heimilt yrði að koma á greiðsluaðlögunarsamningi miðað við þær forsendur um framfærslukostnað sem hafi legið fyrir. Umsjónarmaður hafi einnig leitað leiða til að lækka framfærslukostnað kæranda svo ekki þyrfti að selja eignina. Kærandi hafi hafnað báðum þessum leiðum. Að svo komnu hafi umsjónarmanni borið að beina því til umboðsmanns skuldara að fella niður heimild til að leita samnings um greiðsluaðlögun.
Í tilefni af athugasemdum kæranda taki umboðsmaður fram að við greiðsluaðlögunarumleitanir beri umsjónarmönnum og umboðsmanni skuldara að fylgja þeim lögum sem um efnið gildi. Í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. séu fyrirmæli um hvernig greiðsluaðlögunarumleitunum skuli háttað þegar um sé að ræða kröfur með veði í fasteign. Ekki verði vikið frá þeim lagaákvæðum.
Þá verði ekki komist hjá því að skýra ákvæði 13. gr. lge. til samræmis við 21. gr. laganna enda verði að telja að með setningu síðarnefnda ákvæðisins hafi löggjafinn mælt fyrir um hvernig fara skuli með kröfuréttindi kröfuhafa við greiðsluaðlögun en slík réttindi séu varin eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Í framkvæmd hafi kröfuhafar ekki fallist á greiðsluaðlögunarsamninga sem feli í sér meiri ívilnanir vegna fasteignaveðkrafna en mælt sé fyrir um í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Umboðsmaður skuldara, eða umsjónarmaður í umboði hans, geti ekki gengið lengra í þessum efnum en löggjafinn hafi mælt fyrir um. Því verði ekki talinn grundvöllur fyrir greiðsluaðlögunarsamningi þegar skuldari geti ekki staðið undir þeim greiðslum sem ákvæði a-liðar 1. mgr. 21. gr. mæli fyrir um. Miðað við gildandi lög verði að telja að í tilvikum sem þessum komi einungis til greina að selja þá eign sem veðsett sé til að létta á greiðslubyrði skuldara vegna fasteignaveðkrafna svo koma megi á samningi um greiðsluaðlögun. Hafni kærandi slíkum umleitunum verði að telja að umsjónarmanni beri að leggja það til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður með vísan til 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 13. gr. lge.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Kærandi óskar eftir því að kærunefndin veiti henni frest þar til niðurstaða liggi fyrir í dómsmáli er höfðað hafi verið til að skera úr um lögmæti verðtryggingar á neytendalánum.
Aðili getur borið tiltekið álitaefni undir stjórnvald í því skyni að fá úrlausn málsins í samræmi við gildandi lög. Stjórnvöldum eru settar ákveðnar skorður við meðferð slíkra mála, til dæmis með stjórnsýslulögum, sérlögum og því sem nefnt hefur verið góðir stjórnsýsluhættir. Samkvæmt málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Af því leiðir að þegar stjórnvaldi berst erindi er mikilvægt að leggja strax mat á erindið, leita umsagna við fyrstu hentugleika og vinna stjórnsýslumál að öðru leyti eftir málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaganna. Þegar mál er orðið tækt til ákvörðunar ber stjórnvaldi að taka ákvörðun í því.
Stjórnvald verður að taka mál til meðferðar eins og það er lagt fyrir með tilliti til þeirra málsatvika sem liggja fyrir og varða úrlausnarefnið. Það samræmist ekki ofangreindum málsmeðferðarreglum að kærunefndin veiti kæranda frest þar til skorið hefur verið úr um lögmæti verðtryggingar á neytendalánum eins og kærandi fer fram á.
Í tilviki kæranda liggur ekki fyrir hvort niðurstaða dómsmáls um lögmæti verðtryggingar á neytendalánum hafi áhrif á skuldir hennar en þar sem kærandi hefur þegar lagt erindi sitt fyrir kærunefndina á nefndin ekki annars kost en að taka málið til meðferðar eins og það er úr garði gert. Með vísan til þess sem segir hér að ofan hafnar kærunefnd greiðsluaðlögunarmála beiðni kæranda um að bíða með afgreiðslu málsins þar til niðurstaða liggur fyrir í dómsmáli er höfðað hefur verið til að skera úr um lögmæti verðtryggingar á neytendalánum.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. 13. gr. lge. segir að ef skuldari framfylgi ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.
Í 15. gr. lge. segir að ef fram koma upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.
Eins og fyrr greinir tilkynnti umsjónarmaður umboðsmanni skuldara með bréfi 14. mars 2012 að kærandi hafi ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns um sölu fasteignar sinnar, sbr. 1. og 5. mgr. 13. gr. lge.
Í máli þessu telur umsjónarmaður forsendu þess að kærandi geti haldið fasteign sinni að hún fallist á lækkun framfærslu sinnar en miðað við óbreytta framfærslu og ráðstöfunartekjur sé greiðslugeta kæranda engin. Umsjónarmaður kveðst hafa reynt að fá kæranda til að lækka framfærsluþörf sína til að hún geti greitt hæfilega fjárhæð mánaðarlega inn á veðkröfur en það hafi kærandi ekki viljað. Því hafi umsjónarmaður lagt til að kærandi seldi íbúð sína. Kærandi kveðst hvorki geta misst bíl sinn né heimili og þess vegna sé tillaga umsjónarmanns um að hún selji íbúð sína og bíl ekki lausn á vanda hennar. Af þessum ástæðum beindi umsjónarmaður því til umboðsmanns skuldara hvort rétt væri að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður og gerði umboðsmaður það með ákvörðun 10. júlí 2012.
Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks hafi verið að forða því frá að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt, svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður getur þó samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum.
Þrátt fyrir þetta verður þó að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði. Það leiðir af því að markmið greiðsluaðlögunarumleitana er að koma á samningi milli skuldara og kröfuhafa um greiðsluaðlögun. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. skal umsjónarmaður, eins fljótt og auðið er eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn, gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar skal frumvarp umsjónarmanns vera á þann veg að framfærsla skuldara og fjölskyldu hans sé tryggð og að raunhæft megi telja að öðru leyti að hann geti staðið við skuldbindingar sínar, endurskipulagt fjármál sín og komið á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu.
Þegar skuldari heldur eftir eignum sem veðkröfur á hendur honum hvíla á skal hann greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum eins og mælt er fyrir um í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Fastar mánaðargreiðslur mega samkvæmt lagaákvæðinu ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður er umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri leigu. Þessar kröfur falla ekki niður þegar greiðsluaðlögun lýkur.
Eini veðhafi á fasteign kæranda er Íbúðalánasjóður með kröfu vegna láns frá 2008 upphaflega að fjárhæð 12.510.000 krónur. Samkvæmt gögnum málsins var greiðslubyrði lánsins um 90.000 krónur á mánuði á þeim tíma er kærandi sótti um greiðsluaðlögun. Umsjónarmaður mat hæfilegt leiguverð fyrir íbúð kæranda um 66.500 krónur á mánuði.
Í máli þessu stangast á tvö markmið greiðsluaðlögunar sem skuldaskilaúrræðis. Annars vegnar það sjónarmið að skuldari skuli eiga þess kost ef mögulegt er að halda hóflegu húsnæði. Hins vegar að skuldari geti staðið undir greiðslubyrði þeirra lána sem á honum hvíla eftir greiðsluaðlögun. Fyrir liggur að kærandi býr við örorku sem veldur því að hún hefur ekki tök á að afla sér launatekna. Þegar metnir eru möguleikar kæranda á því að greiða af veðláninu eftir greiðsluaðlögun verður því að miða við að einu tekjur hennar verði lífeyrisgreiðslur.
Í málinu liggur fyrir greiðsluáætlun sem byggð er á framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara. Samkvæmt áætluninni er kærandi aflögufær um 53.789 krónur á mánuði þegar framfærsla hefur verið greidd. Kærandi ver á hinn bóginn öllum ráðstöfunartekjum sínum til framfærslu þannig að greiðslugeta hennar er engin. Kærandi kveðst ekki vilja minnka framfærslukostnað sinn. Eins og fram kemur í 4. mgr. 16. gr. lge. skal nota framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara við frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Getur kærandi því ekki krafist þess að annað framfærsluviðmið sé notað þegar greiðslugeta hennar er reiknuð út.
Samkvæmt framangreindu er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum sem þessum að selja þá eign sem veðsett er til að létta á greiðslubyrði skuldara vegna fasteignaveðkrafna. Engu að síður hefur kærandi hafnað þeim tillögum umsjónarmanns sem miðað hafa að því að ná samningi um greiðsluaðlögun. Með því að hafna því að miða við framfærsluviðmið umboðsmanns hefur kærandi staðið í vegi fyrir því að unnt verði að koma á greiðsluaðlögunarsamningi við kröfuhafa. Kærandi hefur einnig hafnað því að framfylgja ákvörðun umsjónarmanns um að fasteign hennar verði seld samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge.
Við þessar aðstæður verður að telja að umsjónarmanni hafi borið að leggja til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður með vísan til 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge.
Hin kærða kvörðun umboðsmanns skuldara er byggð á því að skilyrði lagaákvæðanna séu fyrir hendi og ber með vísan til atvika málsins og þess sem hér að framan er rakið að staðfesta mat hans á því. Samkvæmt því er hin kærða ákvörðun um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir