Nr. 350/2018 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 16. ágúst 2018 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 350/2018
í stjórnsýslumáli nr. KNU18050018
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 8. maí 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fædd [...], og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. apríl 2018, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og eftir atvikum 2. mgr. 45. gr. sömu laga. Til vara krefst kærandi þess að henni verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Til þrautavara krefst kærandi þess að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 31. júlí 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 27. febrúar 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 18. apríl 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 8. maí 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 29. maí 2018 ásamt fylgigögnum. Þann 31. maí 2018 barst kærunefnd viðbót við greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd upplýsingar þann 24. júlí 2018 frá Útlendingastofnun og Reykjavíkurborg varðandi búsetuhagi kæranda.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki sínu vegna mögulegrar andstöðu fjölskyldu kæranda við hjúskap hennar. Þá beri hún fyrir sig efnahagslegum ástæðum en að sögn kæranda hafi aðili á vegum yfirvalda tekið frá henni lífsviðurværi sitt með því að leggja eld að útimarkaði þar sem kærandi hafi verið með sölubás.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og henni skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð, sem lögð var fram fyrir hönd kæranda og eiginmanns hennar, kemur fram að hún hafi komið hingað til lands ásamt eiginmanni sínum en þau hafi kynnst í [...]. Eiginmaður kæranda hafi flúið heimaríki sitt vegna ofsókna af hálfu yfirvalda vegna stjórnmálaskoðana hans og þátttöku í stjórnmálastarfi auk þess sem hann tilheyri minnihlutahópi [...] og [...] í [...]. Þá eigi hann yfir höfði sér fangelsisdóm í heimaríki vegna þátttöku í mótmælum gegn yfirvöldum. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að hún sé fædd og uppalin í [...] í [...]. Þá sé kærandi [...] sem hafi gert stöðu hennar í heimaríki mjög erfiða. Þá hafi [...] beitt hana ofbeldi. Kærandi kveðst eiga von á að verða fyrir ofbeldi af hálfu fjölskyldu sinnar, aðallega móðurbróður síns, ef henni verði gert að snúa aftur til heimaríkis. Í heimaríki kæranda sé heimilisofbeldi þess eðlis að þolendur leiti ekki til lögreglu vegna þeirrar smánar sem slíku ofbeldi fylgi. Þá sé hjónaband kæranda og eiginmanns hennar ekki samþykkt af fjölskyldu hennar. Kærandi greindi frá því að hún hafi upphaflega flúið heimaríki sitt í kjölfar þess að kveikt hafi verið í útimarkaði þar sem hún hafi starfrækt sölubás og hafi hún enga aðstoð fengið í kjölfar tjónsins. Kærandi hafi misst allt og hafi því ekki verið unnt að sjá sér og börnum sínum farborða. Stjórnvöld í heimaríki kæranda séu afar spillt og veiti enga aðstoð nema gegn mútugreiðslum. Kærandi hafi flúið til [...] fyrir u.þ.b. fjórum árum síðan og hafi hún kynnst þar eiginmanni sínum. Þá hafi kærandi tekið þátt í mótmælum hér á landi ásamt eiginmanni sínum og hafi m.a. gagnrýnt [...] stjórnvöld.
Kærandi byggir á því að eiginmaður hennar sé flóttamaður samkvæmt skilgreiningu 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með tilliti til meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar skuli mál kæranda og eiginmanns hennar vera skoðuð heildstætt og vísar kærandi í því sambandi til 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga eftir því sem við eigi í máli hennar. Kærandi byggir jafnframt á því að hún sé flóttamaður samkvæmt skilgreiningu 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vegna aðstæðna í heimaríki sínu, [...], og eigi samkvæmt því rétt á að hljóta alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Til vara krefst kærandi þess að henni verði veitt vernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og til þrautavara að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.
Í greinargerð kæranda er fjallað ítarlega um aðstæður í [...], heimaríki eiginmanns hennar. Þá er jafnframt fjallað um ástand mannréttindamála í [...], heimaríki kæranda, þ.m.t. um stöðu [...] í ríkinu og trúarofsóknir.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram gögn til að sanna á sér deili og hafi því verið leyst úr auðkenni hennar á grundvelli trúverðugleikamats. Var það mat Útlendingastofnunar að teknu tilliti til trúverðugs framburðar kæranda að hún hefði leitt líkur að því að hún sé frá [...]. Þann 29. maí 2018 skilaði kærandi inn afriti af vegabréfi til kærunefndar. Kærunefnd hefur ekki forsendur til annars en að taka undir mat Útlendingastofnunar og leggur því til grundvallar að kærandi sé [...] ríkisborgari.
Ákvæði 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga
Í 2. mgr. 45. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga segir:
Maki eða sambúðarmaki útlendings sem nýtur alþjóðlegrar verndar samkvæmt kafla þessum, börn hans yngri en 18 ára án maka eða sambúðarmaka eiga einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í móti. Um fjölskyldutengsl sem verða til eftir að umsókn um alþjóðlega vernd er lögð fram gilda ákvæði VIII. kafla.
Í máli kæranda liggur fyrir að sá einstaklingur sem hún kveður vera eiginmann sinn, [...], hefur verið veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga með úrskurði kærunefndar dags. 16. ágúst 2018 nr. 349/2018. Kærandi hefur ekki lagt fram hjúskaparvottorð til staðfestingar hjónabandi sínu. Samkvæmt gögnum málsins komu kærandi og [...] saman hingað til lands og hafa verið í sambúð hér á landi síðan. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að tengsl kæranda og [...] séu með þeim hætti að þau falli undir 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga enda bendi gögn málsins til þess að tengslin hafi orðið til áður en umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd voru lagðar fram hér á landi.
Í ákvæðinu kemur fram að makar eða sambúðarmakar eigi rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót. Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram í máli kæranda sem gefur til kynna að sérstakar ástæður mæli gegn því að kæranda verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli ákvæðisins.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu alþjóðlegrar verndar hér á landi.
Samantekt
Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita kæranda alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 2. mgr. 45. gr. útlendingalaga.
Í ljósi þess að kærunefnd útlendingamála hefur fallist á aðalkröfu kæranda verða varakrafa og þrautavarakrafa kæranda ekki teknar til umfjöllunar í máli þessu.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á þeim grundvelli.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Article 45, paragraph 2, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue her residence permit on that ground.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Þorbjörg Inga Jónsdóttir Anna Tryggvadóttir