Hoppa yfir valmynd

Nr. 400/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. september 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 400/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19050048

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 24. maí 2019 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. maí 2019, um að synja umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi.Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á þann hátt að sér verði veitt ótímabundið dvalarleyfi hérlendis á grundvelli 58. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og lagt verði fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi á Íslandi fyrir námsmenn þann 15. september 2016. Leyfið var endurnýjað nokkrum sinnum, síðast með gildistíma til 15. febrúar 2019. Með umsókn þann 1. nóvember 2018 sótti kærandi um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. maí 2019, var umsókn kæranda synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 20. maí 2019 og kærði kærandi ákvörðunina þann 24. maí sl. til kærunefndar útlendingamála. Þann 7. júní 2019 barst kærunefnd greinargerð kæranda. Viðbótargögn frá kæranda bárust kærunefnd dagana 11. júní, 1. og 11. júlí 2019.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar reifaði stofnunin þau skilyrði sem væru fyrir veitingu á ótímabundnu dvalarleyfi, sbr. 58. gr. laga um útlendinga. Meðal þeirra skilyrða væri að umsækjandi sýndi að framfærsla hans hefði verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað og geti framfleytt sér hérlendis með löglegum hætti, sbr. b-lið 1. mgr. 58. gr. laganna. Þegar trygg framfærsla sé metin þá styðjist stofnunin við lágmarksframfærslustuðul velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Samkvæmt framlögðum gögnum væri ljóst að tekjur kæranda samkvæmt skattframtölum næðu ekki lágmarksframfærslu og því uppfyllti kærandi ekki skilyrði ákvæðis b-liðar 1. mgr. 58. gr. laganna um trygga framfærslu á dvalartíma sínum. Var umsókn kæranda því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir á því að hann uppfylli skilyrði b-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga til að fá veitt ótímabundið dvalarleyfi á Íslandi. Niðurstaða Útlendingastofnunar um hið gagnstæða sé röng og hafi stofnunin við meðferð málsins brotið gegn 9., 10., 11. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hvað varði b-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga tekur kærandi fram að í ákvæðinu sé ekki útskýrt hvað átt sé við með „tryggri framfærslu“. Í 56. gr. laganna komi þó fram hverjir skuli sýna fram á framfærslu, í hvaða gjaldmiðli og hvers konar greiðslur geti ekki komið til skoðunar. Reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 veiti ekki frekari vísbendingar í þessum efnum, en í 10. gr. hennar sé þó m.a. kveðið á um að Útlendingastofnun geti krafist nauðsynlegra gagna við vinnslu umsóknar, svo sem varðandi framfærslu. Þá vísar kærandi til upplýsinga á vefsíðu Útlendingastofnunar um leiðbeiningar um ótímabundin leyfi, en þar komi m.a. fram að hægt sé að uppfylla skilyrðið um trygga framfærslu með innistæðu á bankareikningi.Kærandi vísar til þess að hann hafi ávallt stutt fyrri umsóknir sínar um dvalarleyfi og endurnýjun á þeim með vísan til gagna sem staðfest hafi nægilegt eigið fé til framfærslu hjá íslenskum bönkum. Þannig hafi hann uppfyllt grunnskilyrði a-liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga sem fjallar um framfærslu. Kæranda sé með öllu óljóst hvers vegna Útlendingastofnun hafi eingöngu litið til skattframtala sinna til síðustu þriggja ára við mat á því hvort framfærsla hans væri trygg. Kærandi telji ljóst að með vísan til fyrirliggjandi gagna um fjárhagsstöðu hans og tekjur uppfylli hann skilyrði b-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Framangreindu til rökstuðnings vísar kærandi m.a. til yfirlýsingar um viðskipti frá hérlendum viðskiptabanka, þess að hann stundi hlutastarf, þ.m.t. fullt starf yfir sumarið 2019, að móðir hans styðji sig fjárhagslega, að vinnuveitandi kæranda hafi lýst yfir vilja til að ráða sig í fullt starf og að framlagðir launaseðlar fyrir tímabilið janúar til maí 2019 sýni fram á áframhaldandi framfærslugetu. Kærandi vísar einnig til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 567/2018 frá 20. desember 2018 sem hann telur að hafi fordæmisgildi í málinu.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a-e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna.

Kærandi hefur dvalið hér á landi frá 15. september 2016 á grundvelli dvalarleyfis vegna náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 9. mgr. 65. gr. laganna getur dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu ekki verið grundvöllur dvalarleyfis nema b-liður 2. mgr. 58. gr. eigi við.

Í b-lið 2. mgr. 58. gr. er m.a. mælt fyrir um að heimild til að víkja frá því skilyrði að útlendingur hafi dvalist hér á landi síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, þegar útlendingur hefur haft slíkt dvalarleyfi í a.m.k. tvö ár og hefur áður dvalið hér á landi í samfelldri dvöl samkvæmt dvalarleyfi vegna náms skv. 65. gr. þannig að heildardvöl sé a.m.k. fjögur ár. Í 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga segir m.a. að heimilt sé í vissum tilvikum að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hér á landi án þess að skilyrði um fyrri dvöl skv. 1. mgr. og b-lið 2. mgr. séu uppfyllt þegar útlendingur á íslenskan ríkisborgara að foreldri ef hann hefur haft dvalarleyfi hér á landi samfellt síðastliðin tvö ár fyrir framlagningu umsóknar og foreldri hefur haft íslenskan ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár, sbr. a-lið ákvæðisins.Samkvæmt gögnum málsins öðlaðist móðir kæranda íslenskt ríkisfang þann 16. október 2009 og líkt og fyrr greinir hefur kærandi dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis fyrir námsmenn frá 15. september 2016. Þannig er ljóst að aðstæður kæranda falla innan undantekningarheimildar 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, og því mögulegt, að öðrum skilyrðum uppfylltum, að veita honum ótímabundið dvalarleyfi þótt hann uppfylli hvorki skilyrði 1. mgr. um fjögurra ára samfellda búsetu né skilyrði um að dvöl sé skv. dvalarleyfi sem veitir rétt til ótímabundins dvalarleyfis.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi nema hann sýni fram á að framfærsla hans hafi verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað og geti áfram framfleytt sér hér á landi á löglegan hátt. Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélaga teljast ekki til tryggrar framfærslu samkvæmt ákvæðinu. Í a-lið 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að í undantekningartilvikum sé heimilt að víkja frá kröfu um skilyrði vegna framfærslu, sbr. b-lið 1. mgr., ef hún hefur verið ótrygg um skamma hríð og ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Í athugasemdum við 58. gr. laga um útlendinga í frumvarpi því er síðar varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að í 2. mgr. 58. gr. sé í a-lið gert ráð fyrir sams konar undanþágu og í 56. gr. laganna um framfærslu á umsóknartíma ef sýnt er að slíkt ástand sé tímabundið. Í 4. mgr. 56. gr. laganna segir m.a. að ráðherra sé heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um kröfu um trygga framfærslu, hvernig framfærslu skuli háttað og í hvaða tilvikum heimilt er að víkja frá þeim kröfum. Í lögskýringargögnum er m.a. fjallað um að heimild ráðherra til að setja reglugerð nái til þess hvaða upphæðir skuli miða, en þær skuli þó aldrei vera lægri en lágmarksframfærsla sveitarfélaga kveði á um. Fyrir liggur að dómsmálaráðherra hefur ekki úfært nánar í reglugerð hvað teljist trygg framfærsla.

Að mati kærunefndar ber að túlka framfærsluskilyrðið í a-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga og undantekninguna í b-lið 2. mgr. sömu greinar til samræmis við ákvæði 56. gr. laganna. Þar sem ráðherra hefur ekki útfært nánar í reglugerð hvað teljist trygg framfærsla, líkt og hann hefur heimild til skv. 4. mgr. 56. gr. laganna, telur kærunefnd að ekki sé unnt við mat á tryggri framfærslu að miða við ákveðna fasta lágmarksupphæð, s.s. lágmarksviðmið sveitarfélaga, heldur þurfi að fara fram heildstætt mat á því hvort framfærsla útlendings hafi verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað og geti áfram framfleytt sér hér á landi á löglegan hátt, sbr. fyrrgreint ákvæði. Við slíkt mat beri m.a. að skoða hvort útlendingur hafi notið félagslegrar aðstoðar frá ríki eða sveitarfélagi og hversu stór hluti af framfærslu útlendings sú aðstoð hafi verið.

Samkvæmt skattframtali kæranda árið 2017, vegna tekna árið 2016, var heildarstofn til útreiknings tekjuskatts og útvars kr. [...]. Samkvæmt skattframtali árið 2018, vegna tekna árið 2017, var slíkur heildarstofn kr. [...]. Samkvæmt skattframtali árið 2019, vegna tekna árið 2018, var heildarstofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars kr. [...]. Með fyrir umsóknum sínum um dvalarleyfi lagði kærandi fram gögn um innistæðu á bankareikningum sínum. Samkvæmt yfirlýsingu [...], dags. 16. júní 2016, var innistæða á reikningi kæranda [...] bandarískir dollarar. Samkvæmt yfirlýsingu frá Arion banka, dags. 3. júlí 2017, var innistæða á reikningi kæranda kr. [...]. Samkvæmt yfirlýsingu Arion banka, dags. 28. september 2018, var innistæða á reikningi kæranda kr. [...]. Kærandi hefur veitt þær skýringar á framfærslu sinni að hann hafi verið í hlutastarfi með námi en notið fjárhagslegs stuðnings frá móður sinni og búið í fasteign í hennar eigu. Fyrir liggur að kærandi hefur ekki notið félagslegrar aðstoðar frá ríki eða sveitarfélögum á meðan hann hefur dvalið hér á landi.

Gögn málsins bera jafnframt með sér að Útlendingastofnun hafi metið framfærslu kæranda örugga skv. a-lið 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga við útgáfu fyrri dvalarleyfa. Meðal gagna sem kærandi lagði fram vegna fyrri dvalarleyfisumsókna voru upplýsingar um innistæður á bankareikningum. Með hliðsjón af framangreindu er það mat kærunefndar, eftir heildstæða skoðun á gögnum málsins, að framfærsla kæranda hafi verið trygg á dvalartíma hans og að hann geti áfram framfleytt sér hér á landi á löglegan hátt, sbr. b-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi.

Þar sem ekki hefur verið tekin afstaða til annarra skilyrða 58. gr. laga um útlendinga verður lagt fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 20. desember 2018, nr. 567/2018, vísaði kærunefnd m.a. til þess að þar sem ráðherra hefði ekki útfært nánar í reglugerð hvað teldist trygg framfærsla í skilningi b-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, líkt og hann hafi heimild til skv. 4. mgr. 56. gr. laganna, teldi nefndin að ekki væri unnt við mat á tryggri framfærslu að miða við ákveðna fasta lágmarksupphæð, s.s. lágmarksviðmið sveitarfélaga, heldur þyrfti að fara fram heildstætt mat á því hvort framfærsla útlendings hafi verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað og geti áfram framfleytt sér hér á landi á löglegan hátt, sbr. fyrrgreint ákvæði. Við slíkt mat bæri m.a. að skoða hvort útlendingur hafi notið félagslegrar aðstoðar frá ríki eða sveitarfélagi og hversu stór hluti af framfærslu útlendings sú aðstoð hafi verið.

Þrátt fyrir framangreindan úrskurð kærunefndar útlendingamála réðist niðurstaða Útlendingastofnunar í máli kæranda eingöngu af því hvort tekjur hans árin 2016-2018 næðu lágmarksframfærslustuðli velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Er ljóst að það mat stofnunarinnar var ekki í samræmi við túlkun kærunefndar á b-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, sbr. 4. mgr. 56. gr. laganna, sbr. fyrrgreindan úrskurð nefndarinnar nr. 567/2018, sem hafði bersýnilega fordæmisgildi í málinu. Með vísan til framangreinds beinir kærunefnd því til Útlendingastofnunar að taka framvegis mið af framangreindum sjónarmiðum við úrlausn sambærilegra mála.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                Anna Tryggvadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta