Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 379/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 379/2021

Fimmtudaginn 4. nóvember 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. júlí 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. júlí 2021, um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 25. júní 2020 og var umsóknin samþykkt 13. ágúst 2020. Í júní 2021 var ferilskrá kæranda send til B vegna starfs hjá fyrirtækinu. Í kjölfarið bárust Vinnumálastofnun þær upplýsingar frá fyrirtækinu að kærandi hefði hafnað vinnu. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 1. júlí 2021, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á atvinnutilboði hjá B. Skýringar bárust frá kæranda þann 9. júlí 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. júlí 2021, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans yrði felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. júlí 2021. Með bréfi, dags. 27. júlí 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð þann 13. ágúst 2021. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 14. september 2021 og gögn málsins daginn eftir. Kæranda var send greinargerðin ásamt gögnum málsins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. september 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að ástæða þess að hann hafi ekki haft samband við B hafi verið sú að hann hafi verið þunglyndur. Raunin sé sú að móðir hans hafi látist. Hann sé í virkri atvinnuleit og sé tilbúinn að hafa samband við vinnuveitandann.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að þann 18. júní 2021 hafi Greiðslustofu Vinnumálastofnunar borist þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað starfi hjá B sem byggingarverkamaður/smiður. Ferilskrá kæranda hafi verið send til umrædds fyrirtækis þann 15. júní 2021. Ágreiningur í máli þessu snúi að því hvort ástæður kæranda vegna umræddrar höfnunar séu gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í tímabundnu atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði að þeir hafi til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að vera í virki atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. 

Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög vegna höfnunar á starfi eða atvinnuviðtali. Ákvæðið sé svohljóðandi: 

,,Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segi orðrétt í 4. mgr. sömu greinar:

,,Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Vinnumálastofnun sé gert að meta skýringar atvinnuleitenda vegna höfnunar á atvinnutilboði með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu.

Kærandi hafi gefið skýringar á höfnun, bæði fyrir úrskurðarnefndinni og til Vinnumálstofnunar. Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi hafnað starfstilboði hjá B. Kærandi segi að hann hafi hafnað starfinu hjá B sökum þunglyndis í kjölfar andláts móður sinnar og hafi þar af leiðandi verið á vondum stað þegar hann hafi fengið símtalið frá atvinnurekanda.

Skýringar kæranda réttlæti ekki höfnun á starfi samkvæmt 57. grein laganna. Stofnunin telji ekki unnt að fallast á skýringar kæranda þegar komi að höfnun hans á starfstilboði hjá B. Líkt og áður hafi verið rakið hvíli skylda á atvinnuleitendum að taka því starfi sem þeim bjóðist, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Að mati Vinnumálastofnunar séu skýringar kæranda ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á atvinnutilboði. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að þær skýringar sem kærandi hafi fært fram í máli þessu geti ekki talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun telji því að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma í tvo mánuði frá ákvörðunardegi, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Í athugasemdum við 57. gr. í frumvarpi því er varð að lögunum kemur fram:

„Gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Sé það niðurstaða stofnunarinnar að svo hafi verið kemur ekki til þess að hinn tryggði sæti viðurlögum vegna þess að hann hafnaði starfinu eða hafnaði því að fara í atvinnuviðtal.“

Samkvæmt gögnum málsins hafnaði kærandi atvinnutilboði en ágreiningur málsins lýtur að því hvort ástæður kæranda fyrir þeirri höfnun hafi verið réttlætanlegar í skilningi 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi hefur gefið þær skýringar að móðir hans hafi látist tveimur dögum áður en hann hafi fengið atvinnutilboðið. Hann hafi því ekki verið í góðu jafnvægi þegar hann hafi fengið símtal frá atvinnurekandanum.

Þrátt fyrir þá skyldu sem hvílir á atvinnuleitendum að taka því starfi sem býðst án sérstaks fyrirvara verður að mati úrskurðarnefndarinnar að játa atvinnuleitendum ákveðið svigrúm til að hefja störf með tilliti til aðstæðna hverju sinni. Í gögnum málsins liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um hvað fór á milli kæranda og umrædds atvinnurekanda, til að mynda um hvort honum hafi verið veitt svigrúm vegna andláts móður sinnar eða hvort gert hafi verið að skilyrði að kærandi skyldi hefja störf án tafar. Úrskurðarnefndin telur að skýringar kæranda hafi gefið Vinnumálastofnun tilefni til að afla frekari upplýsinga frá atvinnurekandanum hvað það varðar. Þar sem ekki lágu fyrir fullnægjandi        upplýsingar við töku hinnar kærðu ákvörðunar er hún felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. júlí 2021, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta