Hoppa yfir valmynd

Mál  nr. 22/2013.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 22. október 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 22/2013.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 29. janúar 2013, sendi Vinnumálastofnun kæranda, A, innheimtubréf, þar sem fram kemur að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum stofnunarinnar hefði kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. júní til 30. júlí 2010 að fjárhæð 179.942 kr. en í þeirri fjárhæð væri 15% álag og yrði skuldin innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Skuldin var tilkomin vegna þess að kærandi var á sama tíma við vinnu hjá B. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 11. febrúar 2013. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að kærufrestur vegna skuldamyndunar fyrir tímabilið 1. júní til 31. júlí 2010 hafi runnið út 13. janúar 2011, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar um innheimtu.

 

Eftir að kæra kæranda barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sendi Vinnumálastofnun kæranda bréf, dags. 15. febrúar 2013, vegna ákvörðunar stofnunarinnar þess efnis að krefja hann einnig um ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. til 19. ágúst 2010 þar sem kærandi hafi þá einnig verið í vinnu hjá B og er það mat Vinnumálastofnunar að staðfesta beri þá ákvörðun.

 

Kærandi sótti síðast um greiðslur atvinnuleysisbóta 20. apríl 2010.

 

Vinnumálastofnun barst tilkynning 13. september 2010 þess efnis að kærandi hefði byrjað að vinna hjá B 1. ágúst 2010. Þá hafði starfsmaður B samband við Vinnumálastofnun 15. september 2010 og greindi frá því að kærandi hefði hafið störf 1. júní 2010 og fengið atvinnuleysisbætur á sama tíma. Í kjölfar þessa var mál kæranda tekið fyrir hjá Vinnumálastofnun og kærandi skráður ekki atvinnulaus í kerfi stofnunarinnar frá 1. júní til 31. júlí 2010.

 

Kæranda var sendur greiðsluseðill frá Vinnumálastofnun, dags. 13. október 2010, þar sem honum var tilkynnt að hjá honum hefði myndast skuld að fjárhæð 179.942 kr. með 15% álagi. Kærandi greiddi ekki umrædda skuld og kærufrestur vegna tímabilsins 1. júní til 31. júlí 2010 rann út 13. janúar 2011, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, og nýtti kærandi sér ekki kæruheimildina.

 

Vinnumálastofnun sendi kæranda hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 29. janúar 2013, þar sem honum var tilkynnt að þar sem skuld hans vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta væri enn ógreidd yrði hún innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ef bréfinu yrði ekki svarað innan 14 daga yrði skuld hans send til frekari innheimtu hjá Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi. Kæranda var jafnframt bent á að skuld hans væri aðfararhæf skv. 6. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Tekið var fram í bréfinu að kæranda væri heimilt að kæra ákvörðunina um innheimtu til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða innan þriggja mánaða. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kæru dags. 11. febrúar 2013.

 

Vinnumálastofnun tók mál kæranda fyrir að nýju eftir að kæra hans barst til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og kom þá í ljós að kærandi hafði einnig fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins frá 1. til 19. ágúst 2010 að fjárhæð 57.234 kr., en þá var hann enn í starfi hjá B. Þar af leiðandi standi skuld 237.196 kr. með 15% álagi.

 


 

 

Af hálfu kæranda kemur fram að á þessum tíma hafi hann verið að vinna hjá B. Í upphafi hafi verið samstarf á milli B og Vinnumálastofnunar, þ.e. sérstakt átaksverkefni, og kæranda hafi verið sagt að fyrstu tvo mánuðina ætti hann að stimpla sig hjá stofnuninni. Þá hafi hann í framhaldinu átt að hætta að stimpla sig sem hann hafi síðan gert. Kærandi kveðst síðar hafa fengið símtal frá tilgreindum starfsmanni Vinnumálstofnunar sem hafi fullyrt með nokkrum þunga að kærandi hefði fengið 300.000 kr. ofgreiddar frá Vinnumálstofnun. Kærandi gagnrýnir vinnubrögð stofnunarinnar, þ.e. hvort tveggja framkomu starfsmannsins og það að liðin séu tvö og hálft ár frá því átaksverkefnið var.

 

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 30. maí 2013, bendir Vinnumálastofnun á að í báðum bréfum stofnunarinnar, þ.e. dags. 29. janúar og 15. febrúar 2013, hafi verið tekið fram að kæranda væri heimilt að kæra ákvörðun stofnunarinnar um innheimtu til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða innan þriggja mánaða. Kærandi hafi nýtt sér kærurétt sinn og kært ákvörðun Vinnumálastofnunar 11. febrúar 2013. Þar sem kæran hafi komið fram áður en kærandi hafi fengið vitneskju um síðari ákvörðun, þ.e. tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 15. febrúar 2013, taki kæra hans í raun ekki til þessa hluta málsins. Vinnumálastofnun telur ljóst að sú ákvörðun grundvallist á sama atviki og fyrri skuld kæranda, þ.e. að hann hafi hafið störf hjá B án þess að tilkynna það til Vinnumálastofnunar fyrr en eftir að hann hafði hafið störf og þegið laun vegna þess. Af þeim sökum telur stofnunin rétt að rökstyðja í greinargerðinni ástæður þess að kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 1. til 19. ágúst 2010.

 

Alls hafi kærandi fengið ofgreiddar 237.196 kr. með 15% álagi. Þegar kærandi lauk töku atvinnuleysisbóta í september 2011 hafi skuldin verið ógreidd. Sökum mikilla anna hjá stofnuninni hafi skuld kæranda ekki verið send í frekari innheimtumeðferð innan stofnunarinnar fyrr en í ársbyrjun 2013 og með bréfi, dags. 29. janúar 2013, hafi kæranda verið tilkynnt að hann skuldaði ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem yrðu innheimtar skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun greinir frá því að samkvæmt því ákvæði sé stofnuninni skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum þegar atvinnuleitandi hefur fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi m.ö.o. ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Vinnumálastofnun bendir á niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 49/2010, 21/2011 og 43/2012 þessu til stuðnings.

 

Þá bendir Vinnumálastofnun á að í málinu liggi fyrir að kærandi hafi starfað hjá B frá 1. júlí 2010 og þar til hann hafi hætt að þiggja greiðslu atvinnuleysisbóta, en síðasta greiðsla til kæranda hafi átt sér stað 1. september 2010 vegna tímabilsins 1. til 19. ágúst 2010. Í ljósi skýrs orðalags og túlkunar úrskurðarnefndarinnar á 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna þess tíma, enda hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hafi stundað vinnu samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur og hafi því ekki getað talist vera í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Vinnumálastofnun bendir einnig á að þar sem skuld kæranda sé enn ógreidd telji hún að ákvörðun hennar um frekari innheimtuaðgerðir skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið rétt. Það sé niðurstaða stofnunarinnar að rétt hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar um að hefja frekari innheimtuaðgerðir vegna skuldar kæranda líkt og honum hafi verið tilkynnt með bréfi, dags. 29. janúar 2013. Það sé einnig niðurstaða stofnunarinnar að staðfesta skuli ákvörðun hennar frá 15. febrúar 2013 um að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. til 19. ágúst 2010 og honum beri að endurgreiða þær í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. júní 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 18. júní 2013. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.

 

Með bréfi, dags. 12. ágúst 2013, tilkynnti úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kæranda um að mál hans myndi tefjast hjá nefndinni vegna mikils málafjölda.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal stjórnsýslukæra berast til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Í 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, kemur fram að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða ef veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Ljóst er af framangreindu ákvæði að kæra kæranda, dags. 11. febrúar 2013, vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar, dags. 13. október 2010, um að endurkrefja hann um ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. júní til 30. júlí 2010 er of seint fram komin og ekkert í gögnum málsins bendir til að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga.

 

Í innheimtubréfi Vinnumálastofnunar, dags. 29. janúar 2013, var tilgreindur þriggja mánaða kærufrestur vegna innheimtu stofnunarinnar á ákvörðun, dags. 13. október 2010.

 

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum segir:

 

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

 

 

Í greinargerð með ákvæðinu er áréttað að Vinnumálastofnun hafi heimildir samkvæmt því til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Sérstaklega er tekið fram að það eigi við í öllum tilvikum sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið hærri greiðslur en honum bar. Ekki skipti máli hver ástæða þess er að hinn tryggði hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Með vísan til þessa eru engin rök til þess að fella niður skyldu kæranda til endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 1. júní til 30. júlí 2010, sbr. ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. október 2010, og innheimt með bréfi, dags. 29. janúar 2013. Með hliðsjón af framangreindu ber að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. bréf dags. 29. janúar 2013, um innheimtu vegna tímabilsins 1. júní til 30. júlí 2010.

 

Vinnumálastofnun tók þá ákvörðun að innheimta af kæranda ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. ágúst til 19. ágúst 2010, sbr. bréf stofnunarinnar til kæranda, dags. 15. febrúar 2013. Þessi ákvörðun hefur ekki verið kærð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og kemur því ekki til endurskoðunar í þessu máli.


 

 

Úrskurðarorð

                                                                                               

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli Gísla Þórs Viðarssonar, sbr. bréf dags. 29. janúar 2013, um innheimtu vegna tímabilsins 1. júní til 30. júlí 2010, er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

            Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta