Mál nr. 1/2010B. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 22. júní 2010
í máli nr. 1/2010B:
Ríkiskaup
gegn
Celsus ehf.
Með bréfi, dags. 14. apríl 2010, óskuðu Ríkiskaup eftir því að ákvörðun kærunefndar útboðsmála, dags. 29. mars 2010, yrði endurupptekin. Celsus ehf. var gefinn kostur á að tjá sig um endurupptökubeiðnina og með bréfi, dags. 23. apríl 2010, krafðist Celsus ehf. þess að beiðninni yrði hafnað. Öðrum bjóðendum í útboði Ríkiskaupa nr. 14651: Plástrar, bindi, grisjur og fleira, var einnig boðið að tjá sig um endurupptökubeiðnina og með bréfi, dags. 6. maí 2010, óskuðu Rekstrarvörur ehf. eftir að Celsus ehf. yrði ekki afhent matsskýrslan. Ríkiskaup gerðu athugasemdir við sjónarmið Celsus ehf. og Rekstrarvara ehf. með bréfi, dags. 1. júní 2010.
I.
Í apríl 2009 auglýstu Ríkiskaup útboð nr. 14651: Plástrar, bindi, grisjur og fleira. Kafli útboðsins nr. 1.2.3 kallaðist „Val á samningsaðila“ en þar sagði m.a.:
„Sérstakur faghópur skipaður sérfræðingum, sem hafa viðeigandi tæknilega og/eða lagalega sérþekkingu varðandi þetta útboð, mun yfirfara, bera saman og meta tilboð bjóðenda út frá gæðum, tæknilegum eiginleikum, notkunareiginleikum og vöruúrvali”.
Með kæru, dags. 31. desember 2009 sem barst 4. janúar 2010, kærði Celsus ehf. ákvörðun Ríkiskaupa um val á tilboðum í útboðinu 14651. Ríkiskaupum var gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir vali á tilboði. Með bréfi, dags. 15. febrúar 2010, bárust athugasemdir Ríkiskaupa ásamt fylgigögnum en hluti þeirra var merktur sem trúnaðarmál. Með bréfi, dags. 2. mars 2010, gerði Celsus ehf. eftirfarandi kröfu:
„Að svo stöddu er hér með farið fram á það við Kærunefnd útboðsmála að nefndin ákveði að umbjóðandi minn fái myndrit matsskýrslu þeirrar sem fylgdi athugasemdum Ríkiskaupa í máli þessu merkt skjal nr. 3. Auk þess er óskað eftir því, ef ekki kemur fram í skýrslunni hverjir stóðu að gerð hennar efnislega, leggi nefndin fyrir Ríkiskaup að afla þeirra upplýsinga og láta umbj.m. þær í té.“
Ríkiskaupum var gefinn kostur á að gera athugasemdir við kröfu Celsus ehf. og með bréfi, dags. 10. mars 2010, kröfðust Ríkiskaup þess að kröfu Celsus ehf. yrði hafnað.
Hinn 30. mars 2010 tók kærunefnd útboðsmála eftirfarandi ákvörðun:
„Kærandi, Celsus ehf., fær afhenda matsskýrslu faghóps í útboði kærða, Ríkiskaupa, nr. 14651 „Plástrar, bindi, grisjur og fleira“.
II.
Ríkiskaup telja að í matsskýrslunni sé að finna einkunnir þeirra tilboða sem töldust fullnægjandi. Í skýrslunni komi m.a. fram nokkuð nákvæmar upplýsingar um annmarka sem faghópurinn telji vera á sumum vörum og einnig umfjöllun um það af hverju hópurinn telji eina vöru betri en aðra. Ríkiskaup telja að atriði í skýrslunni feli þannig í sér viðkvæmar upplýsingar sem geti skaðað samkeppnisstöðu bjóðenda í útboðinu. Ríkiskaup segja ákvörðun nefndarinnar byggða á röngum lagalegum forsendum og stofnunin segist hafa ríka hagsmuni af því að ákvörðuninni verði breytt, m.a. vegna þess að ákvörðunin sé bindandi stjórnsýslufordæmi. Ríkiskaup vísa til 17. gr. stjórnsýslulaga þar sem fram komi að þegar sérstaklega standi á sé stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir aðilans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum.
III.
Celsus ehf. telur að skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki til staðar og því sé nefndinni ekki heimilt að endurmeta niðurstöðu um 17. gr. stjórnsýslulaganna. Af því leiði að ekki sé hægt að endurupptaka ákvörðun nefndarinnar.
Rekstrarvörur ehf. segja að við þátttöku í útboðum leggji bjóðendur almennt fram mjög ítarlegar upplýsingar, bæði um vörur og þjónustu, og eins um starfsemi bjóðandans. Hluti þeirra upplýsingar sé afar viðkvæmur og gert sé ráð fyrir að Ríkiskaup fari með allar slíkar upplýsingar sem trúnaðarmál og samkeppnisaðilum sé ekki veittur aðgangur að þeim. Rekstrarvörur ehf. telja að afhending gagnanna geti grafið undan trúnaði milli Ríkiskaupa og bjóðenda.
IV.
Ákvæði 95. gr. laga nr. 84/2007 fjallar um meðferð mála hjá kærunefnd útboðsmála. Samkvæmt 8. mgr. 95. gr. laganna gilda stjórnsýslulög nr. 37/1993 um meðferð kærumála að öðru leyti en kveðið er á um í 95. gr. laga nr. 84/2007. Um endurupptöku mála fyrir kærunefnd útboðsmála fer því eftir 24. gr. stjórnsýslulaga.
Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. ákvæðisins á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný, eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun, ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. á aðili máls einnig rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Ríkiskaup telja að 17. gr. stjórnsýslulaga eigi við um rétt kæranda til umbeðinna upplýsinga þar sem í skýrslu faghópsins sé að finna viðkvæmar upplýsingar sem geti skaðað samkeppnisstöðu bjóðenda í útboðinu.
Ákvörðunin, sem nú er óskað eftir að verði endurupptekin, var tekin að undangenginni málsmeðferð þar sem Ríkiskaupum var gefin kostur á að koma að sínum sjónarmiðum. Ríkiskaup lögðust þá gegn afhendingu gagnanna, m.a. á þeim grundvelli að í matsskýrslu faghópsins væri að finna upplýsingar sem væru undanþegnar upplýsingarétti aðila máls samkvæmt 17. gr. stjórnsýslulaga. Í rökstuðningi kærunefndar útboðsmála fyrir ákvörðuninni um afhendingu gagnanna var m.a. fjallað um túlkun 17. gr. stjórnsýslulaga. Þá kom einnig fram að kærunefnd útboðsmála hefði kynnt sér matsskýrsluna og komist að þeirri niðurstöðu að í skýrslunni væru engar upplýsingar af þeim toga sem gætu skaðað rekstrar- eða samkeppnisstöðu bjóðenda eða aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Niðurstaða nefndarinnar var sú að skýrslan yrði ekki undanþegin upplýsingarétti á grundvelli 17. gr. stjórnsýslulaga. Þá taldi nefndin að efni matsskýrslunnar væri með þeim hætti að óþarft væri að gefa öðrum bjóðendum kost á að tjá sig um beiðni Celsus ehf., sbr. niðurlag 13. gr. stjórnsýslulaga.
Í endurupptökubeiðni Ríkiskaupa hefur ekki verið vísað til nýrra málsástæðna eða lagaraka enda einungis byggt á því að 17. gr. stjórnsýslulaga komi í veg fyrir afhendingu upplýsinganna. Tekið var tillit til framangreindra sjónarmiða Ríkiskaupa við málsmeðferð hinnar upphaflegu ákvörðunar og kærunefnd útboðsmála hefur þegar lagt mat á það hvort upplýsingarnar beri að undanskilja á grundvelli 17. gr. stjórnsýslulaga. Þannig er ekkert fram komið um það að upphafleg ákvörðun nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Eru þannig engin lagaskilyrði til þess að endurupptaka ákvörðun nefndarinnar.
Ákvörðunarorð:
Kröfu Ríkiskaupa um endurupptöku á ákvörðun kærunefndar útboðsmála í máli nr. 1/2010, dags. 29. mars 2010, þar sem Celsus ehf. var veittur aðgangur að matsskýrslu faghóps í útboði Ríkiskaupa nr. 14651, er hafnað.
Reykjavík, 22. júní 2010.
Páll Sigurðsson
Auður Finnbogadóttir
Stanley Pálsson
Rétt endurrit staðfestir,
Reykjavík, 2010.