Hoppa yfir valmynd

Nr. 80/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 80/2019

Fimmtudaginn 11. apríl 2019

A

gegn

Íbúðalánasjóði

Ú R S K U R Ð U R  

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. febrúar 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 21. febrúar 2019, um synjun á umsókn hennar um húsnæðisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um húsnæðisbætur með umsókn, dags. 27. desember 2018. Með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 25. janúar 2019, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda um leiguhúsnæðið til að unnt væri að meta rétt hennar til húsnæðisbóta. Upplýsingar bárust frá kæranda með tölvupósti 28. janúar 2019. Með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 21. febrúar 2019, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að leiguhúsnæði uppfyllti ekki lágmarkskröfur um heimilisaðstæður, sbr. c-lið 2. mgr. og c-lið 3. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 21. febrúar 2019. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Íbúðalánasjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 14. mars 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún sé nemi í B og leigi herbergi á gistiheimili. Hún hafi sótt um herbergi á stúdentagörðum en öll herbergi vistarinnar hafi verið full. Framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta B hafi þá bent á gistiheimilið sem hún sé nú búsett á. Kærandi telji að leigan sé í tengslum við námsgarðana þar sem Félagsstofnun stúdenta B hafi útvegað henni húsnæði. Að hennar mati eigi hún rétt á húsnæðisbótum eins og allir aðrir stúdentar sem leigi á stúdentagörðunum.            

III.  Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í greinargerð Íbúðalánasjóðs kemur fram að umsókn kæranda hafi verið synjað þar sem húsnæði hennar uppfyllti ekki lágmarkskröfur um heimilisaðstöðu. Í c-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur sé það gert að skilyrði fyrir greiðslum húsnæðisbóta að hið leigða húsnæði sé íbúðarhúsnæði hér á landi sem feli í sér venjulega og fullnægjandi heimilisaðstöðu þar sem að lágmarki sé eitt svefnherbergi ásamt séreldhúsi eða séreldunaraðstöðu, sérsnyrtingu og baðaðstöðu. Í 3. mgr. 9. gr. laganna séu tilgreindar þær takmarkanir sem gildi um greiðslu húsnæðisbóta en þar segi í b- og c- liðum að húsnæðisbætur verði ekki veittar vegna leigu á hluta íbúðarhúsnæðis, svo sem vegna leigu á einstökum herbergjum eða vegna húsnæðis sem ætlað sé til annarra nota en íbúðar. Kærandi leigi herbergi á gistiheimili með aðgengi að baði og eldhúsi sem hún deili með öðrum leigjendum. Kærandi uppfylli því ekki lágmarksskilyrði um heimilisaðstöðu samkvæmt c-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 og verði húsnæðisbætur því ekki greiddar vegna leigu á slíku herbergi, sbr. c-lið 3. mgr. 9. gr. laganna.

Íbúðalánasjóður vísar til þess að heimilt sé að veita undanþágu frá framangreindum skilyrðum laganna í þeim tilfellum sem leigjandi leigi húsnæði á heimavist eða námsgörðum, sbr. c-lið 1. mgr. 11. gr. laganna. Íbúðalánasjóður telji þó að sú undanþága eigi ekki við í máli kæranda. Í athugasemdum við 11. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 75/2016 sé sérstaklega fjallað um framangreinda undanþágu en þar segi meðal annars að heimavist eða námsgarðar þurfi að tengjast viðurkenndum menntastofnunum innan hins íslenska menntakerfis. Ákvæðið verði ekki túlkað með öðrum hætti en að það eigi einungis við um íbúðarhúsnæði sem flokkist sem heimavist eða námsgarður sem tengist viðurkenndri menntastofnun. Þrátt fyrir að Félagsstofnun stúdenta B segist vera í samstarfi við gistiheimilið þar sem kærandi leigi herbergi og bendi á laus herbergi þar þegar fullt sé á vistinni, sé ekki hægt að líta svo á að um sé að ræða íbúðarhúsnæði sem teljist til heimavistar eða námsgarðs sem tengist viðurkenndri menntastofnun. Því sé ekki hægt að fallast á það með kæranda að undanþága samkvæmt c-lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 75/2016 eigi við um nemendur sem leigi herbergi á gistiheimili.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Íbúðalánasjóðs um synjun á umsókn kæranda um húsnæðisbætur. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að leiguhúsnæðið uppfyllti ekki lágmarkskröfur um heimilisaðstæður, sbr. c-lið 2. mgr. og c-lið 3. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur.

Í 9. gr. laga nr. 75/2016 er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslu húsnæðisbóta en samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins koma húsnæðisbætur aðeins til álita vegna leigu á íbúðarhúsnæði. Í c-lið 2. mgr. 9. gr. kemur fram að hið leigða íbúðarhúsnæði verði að vera hér á landi og fela í sér venjulega og fullnægjandi heimilisaðstöðu þar sem að lágmarki er eitt svefnherbergi ásamt séreldhúsi eða séreldunaraðstöðu, sérsnyrtingu og baðaðstöðu. Í 3. mgr. 9. gr. er kveðið á um atriði sem girða fyrir rétt til húsnæðisbóta. Þar segir í c-lið ákvæðisins að húsnæðisbætur verði ekki veittar vegna leigu á hluta íbúðarhúsnæðis, svo sem vegna leigu á einstökum herbergjum.

Óumdeilt er að leiguhúsnæði kæranda uppfyllir ekki framangreind skilyrði en hún leigir herbergi á gistiheimili. Í 11. gr. laga nr. 75/2016 er kveðið á um undanþágu frá skilyrðum um íbúðarhúsnæði. Þar segir að þrátt fyrir skilyrði c-liðar 2. mgr. og c-liðar 3. mgr. 9. gr. um íbúðarhúsnæði sé heimilt að greiða húsnæðisbætur þegar um er að ræða eftirfarandi sambýli einstaklinga vegna félagslegra aðstæðna, enda séu önnur skilyrði laganna uppfyllt:

  1. sambýli fatlaðs fólks í húsnæðisúrræðum skv. 10. gr. laga um málefni fatlaðs fólks,
  2. sambýli einstaklinga á áfangaheimilum, sbr. 1. tölul. 3. gr.,
  3. sambýli námsmanna á heimavistum eða námsgörðum sem tengjast viðurkenndum menntastofnunum innan hins almenna menntakerfis á Íslandi.

Í athugasemdum við 11. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 75/2016 segir um c-lið ákvæðisins:

„Að því er varðar námsmenn er lagt til að undanþágan frá skilyrðum c-liðar 2. mgr. og c-liðar 3. mgr. 9. gr. frumvarpsins um íbúðarhúsnæði nái áfram einungis til námsmanna að þeim skilyrðum uppfylltum að um sé að ræða heimavist eða námsgarða sem tengist viðurkenndum menntastofnunum innan hins íslenska menntakerfis. Gert er ráð fyrir að umsækjandi og eftir atvikum aðrir heimilismenn uppfylli eftir sem áður önnur skilyrði frumvarpsins. Þannig er m.a. gert ráð fyrir að námsmaður verði að vera 18 ára eða eldri til að geta átt rétt á húsnæðisbótum, sbr. b-lið 2. mgr. 9. gr. frumvarps þessa.“

Meðal gagna málsins er leigusamningur kæranda og C um herbergi. Þar sem kærandi leigir ekki íbúðarhúsnæði á heimavist eða námsgörðum, sem tengjast viðurkenndum menntastofnun, uppfyllir hún ekki skilyrði undanþáguákvæðis 11. gr. laga nr. 75/2016. Breytir það ekki niðurstöðu málsins þótt framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta B hafi bent kæranda á þennan leigukost eða að ekki hafi reynst laust húsnæði á námsgörðum. Að því virtu og með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að synjun Íbúðalánasjóðs á umsókn kæranda um húsnæðisbætur sé reist á réttum forsendum. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 21. febrúar 2019, um synjun á umsókn A, um húsnæðisbætur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta