Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 22/2009

Fimmtudaginn 13. ágúst 2009

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 29. maí 2009 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra Sigríðar Vilhjálmsdóttur lögfræðings f.h. A, dagsett 28. maí 2009.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 15. apríl 2009 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Fyrir hönd umbjóðanda míns, A er hér með kærð ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um það að veita ekki undanþágu frá viðmiði til útreiknings á meðaltekjum. Umbjóðandi minn og barnsmóðir hans fengu þær upplýsingar hjá starfsmanni Fæðingarorlofssjóðs símleiðis að þau ættu rétt á að miða tekjur sínar við fjóra mánuði í stað tólf þar sem þau voru erlendis níu af þessum tólf mánuðum og höfðu því engar tekjur á því tímabili.

Umbjóðandi minn byggir kæru sína aðallega á því að hann eigi fullan rétt til þess að beita undanþágureglu varðandi viðmið tekna. Ekki er um það deilt að umbjóðandi minn á rétt til greiðslna úr fæðingarorlofssjóði í samræmi við 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, enda hefur hann verið á innlendum vinnumarkaði síðustu 6 mánuði, en honum fæddist sonur þann Y. maí sl. Fer umbjóðandi minn fram á það að fá að miða við heildartekjur sínar síðustu 4 mánuði fyrir fæðingu barns, sbr. lokaorð 2. mgr. 13. gr. laganna og 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, en ekki við tólf mánaða tímabil sem lýkur 6 mánuðum fyrir fæðingu barns hans, sbr. 2. mgr. 13. gr. laganna. Ljóst er að umbjóðandi minn var ekki á innlendum vinnumarkaði í skilningi 13. gr. a, fyrr en til og með ágúst 2008 og fram til dagsins í dag. Frá því í september 2007 og fram í ágústmánuð 2008 var umbjóðandi minn án atvinnu hér á landi, og ferðaðist allan þann tíma á eigin vegum og hafði ekki í hyggju að starfa á Íslandi á meðan, átti hann því m.a. ekki rétt á atvinnuleysisbótum hér á landi á meðan. Með hliðsjón af því er ljóst að umbjóðandi minn getur ekki talist hafa verið á innlendum vinnumarkaði þann tíma, enda hafði hann hvorki vinnu né átti rétt á atvinnuleysisbótum á þessu tímabili eins og staðfesting frá Vinnumálastofnun ber með sér, þá var hann ekki í ólaunuðu leyfi þann tíma. Eins og skýrt orðalag 2. mgr. 13. gr. laganna ber með sér skal einungs miða við meðaltal heildarlauna foreldris fyrir þá mánuði á viðmiðunartíma sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, þó þannig að aldrei skuli miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali launa. Gerir umbjóðandi minn kröfu um að þessari undantekningarreglu verði beitt um útreikning á greiðslum til hans. Samkvæmt upplýsingum sem umbjóðandi minn fékk frá starfsmönnum Fæðingarorlofssjóðs eftir að hann fékk greiðsluyfirlit sent þann 15. apríl s.l. var undantekningarreglunni ekki beitt við útreikning á greiðslum til hans, þar sem hún þyrfti að hafa verið með lögheimili erlendis eða í námi til þess að henni yrði beitt. Telur umbjóðandi minn þetta ekki samræmast skýru orðalagi lagagreinarinnar sem kveður einungis á um að reglunni verði beitt þegar einstaklingur hefur ekki verið á innlendum vinnumarkaði þann tíma sem almennt er miðað við, þ.e. tólf mánaða tímabil sem lýkur 6 mánuðum áður en barn fæðist.

Þá vísar umbjóðandi minn enn fremur til þess að við upplýsingaleit hans hjá starfsmanni Fæðingarorlofssjóðs fékk hann þær upplýsingar að hann ætti rétt á að beita undanþágureglu um viðmið tekna, og höfðu þær upplýsingar veruleg áhrif á fjárhagslegar áætlanir umbjóðanda míns, m.a. lagði hann í fjárfrekar framkvæmdir í ljósi þess hverjar greiðslur til hann yrðu í fæðingarorlofi miðað við þær upplýsingar sem hann fékk hjá starfsmönnum Fæðingarorlofssjóðs. Telur umbjóðandi minn þessi vinnubrögð á skjön við eðlilega stjórnsýslu í skilningi stjórnsýslulaga. Vísar umbjóðandi minn enn fremur til þess að skv. ábendingum Fæðingarorlofssjóðs sótti hann um staðfestingu á því að hann hefði ekki verið á innlendum vinnumarkaði umrætt tímabil, og skýrði við það tilefni stöðu sína. Engu að síður fékk hann umrædda staðfestingu frá vinnumálastofnun án nokkurra athugasemda eða skýringa um að mögulega fengi hann ekki að beita undanþágureglu laganna vegna þess að hann hafi ekki verið við i vinnu erlendis eða í námi. Telur umbjóðandi minn að með þessu hafi m.a. verið brotið gegn leiðbeiningarreglu stjórnsýslulaga, enda hefði verið eðlilegt að upplýsa umbjóðanda minn um stöðu hans, hafi hann verið í villu um rétt sinn.

Loks vísar umbjóðandi minn til þess að hann hefur fengið þær upplýsingar frá öðrum í sambærilegri stöðu að viðkomandi hafi fengið greiðslur útreiknaðar skv. undantekningarreglunni, þ.s. að viðkomandi hafi verið á eigin vegum á ferðalagi erlendis á venjubundnum viðmiðunartíma. “

 

Með bréfi, dagsettu 3. júní 2009, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 18. júní 2009. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 15. mars 2009, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 5. maí 2009.

Auk umsóknar kæranda barst vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 10. febrúar 2009, tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 10. mars 2009, launaseðlar frá B fyrir janúar og febrúar 2009 og staðfesting frá Vinnumálastofnun – Greiðslustofu, dags. 6. febrúar 2009. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 15. apríl 2009, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla yrði kr. X kr. á mánuði miðað við 100% orlof.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, sbr. a – e liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna á viðmiðunartímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en nemur þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli þessara greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum. Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof segir enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 74/2008 kemur fram að átt sé við almanaksmánuði.

Í 6. mgr. 13. gr. ffl. kemur fram að greiðsla í fæðingarorlofi til foreldris í 25 – 49% starfi í hverjum mánuði skuli þó aldrei vera lægri en sem nemur X kr. á mánuði og greiðsla til foreldris í 50 – 100% starfi í hverjum mánuði skuli aldrei vera lægri en sem nemur X kr. á mánuði (á árinu 2009 X kr.).

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl. segir að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Í 2. mgr. er síðan talið upp í fimm stafliðum hvað teljist enn fremur til þátttöku á vinnumarkaði:

Til þátttöku á vinnumarkaði telst enn fremur:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar.

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingardagur barns kæranda er Y. maí 2009 og skal því, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans mánuðina nóvember 2007 – október 2008 enda taldist kærandi samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafa verið á innlendum vinnumarkaði þann tíma, sbr. 2. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hans á framangreindu viðmiðunartímabili og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Kærandi var starfandi hjá B ágúst – október 2008. Aðra mánuði viðmiðunartímabilsins er kærandi launalaus. Samkvæmt þjóðskrá Hagstofu Íslands eru engar aðsetursbreytingar skráðar á kæranda á tímabilinu til eða frá Íslandi. Samkvæmt staðfestingu frá Vinnumálastofnun – Greiðslustofu, dags. 6. febrúar 2009, kemur fram að samkvæmt kæranda hafi hann verið erlendis á ferðalagi tímabilið 20. september 2007 – 5. ágúst 2008. Engin gögn styðja þá frásögn og því var litið svo á að kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði í skilningi 2. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Í kjölfar kæru kæranda var óskað eftir nánari skýringu frá Vinnumálastofnun – Greiðslustofu á staðfestingu stofnunarinnar, dags. 6. febrúar 2009. Í ódagsettri umsögn frá Vinnumálastofnun – Greiðslustofu sem barst Fæðingarorlofssjóði þann 18. júní 2009 kemur fram að maki kæranda hafi óskað eftir, með tölvupósti þann 5. febrúar 2009, staðfestingu til Fæðingarorlofssjóðs að hún og kærandi, sem er unnusti hennar, hafi ekki átt rétt til atvinnuleysistrygginga frá september 2007 til ágúst 2008. Í umsögninni kemur jafnframt fram að umræddir einstaklingar hafi ekki verið umsækjendur um atvinnuleysistryggingar á þessum tíma og því liggi ekki fyrir í gagnagrunni Vinnumálastofnunar hver raunveruleg staða þeirra hafi verið þá. Síðan segir orðrétt: „Maki kæranda segir hins vegar í tölvupóstinum dagsettum 05.02.2009 að þau hafi verið erlendis þennan tíma og hefur Vinnumálastofnun að öðru leiti ekki vitneskju um stöðu þeirra og getur því ekki staðfest með fullri vissu hvort þau hafi átt rétt til atvinnuleysistrygginga frá september 2007 til ágúst 2008.“

Af öllu framangreindu virtu verður ekki séð að kærandi hafi sýnt fram á að hann hafi ekki verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi 2. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl. frá nóvember 2007 – ágúst 2008.“

 

Greinargerðin var send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 22. júní 2009, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi dagsettu 13. júlí 2009. Þar segir meðal annars:

„Byggir umrædd greinargerð virðist aðallega á því að gögn sem kærandi og kærði hafa aflað séu ekki nægileg til sönnunar um aðsetur kæranda á viðmiðunartímanum.

Með hliðsjón af þeim röksemdum kærða vísar kærandi sérstaklega til þess að unnusta og barnsmóðir kæranda hafði ítrekað samband við stofnunina í þeim tilgangi að afla sér upplýsinga um rétt þeirra foreldranna. Í þeim símtölum sem hún átti við starfsmenn stofnunarinnar var því aldrei beint til kæranda að nauðsynlegt gæti verið að hann aflaði frekari gagna en þeirra sem vísað hefur verið til áður í málinu, eða var honum bent á það að framkomin gögn væru ekki nægileg sönnun um aðsetur þeirra umræddan tíma. Þá fékk hann þær upplýsingar þegar hann hafi samband við starfsmenn stofnunarinnar eftir að ákvörðun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði barst foreldrunum, að þau ættu ekki rétt á greiðslum miðað við undantekningarviðmiðunartíma af þeim sökum að þau hafi hvorki verið í skóla né í launuðu starfi erlendis. Fékk hann við það tilefni engar leiðbeiningar um að þeim væri mögulegt að leitast við að fá nýjan útreikning ef hún legði fram gögn máli sínu til stuðnings.

Byggir umbjóðandi minn því m.a. á því að leiðbeiningarskylda stjórnvalds hafi verið margbrotin við meðferð máls hans, með þeim afleiðingum að hann hefur þurft að hafa af því kostnað á kærustigi. Þá bendir kærandi sérstaklega á það að hvað varðar sönnun um atriði sem áhrif hafa á ákvarðanir stofnunarinnar, þá gildir engin takmörkun um sönnunarfærslu, svo að umbjóðandi minn hefði átt að fá frekari tækifæri á að sanna málsatvikalýsingu sína, væri hún dregin í efa. Umbjóðandi minn fékk aldrei tækifæri til þess.

Meðfylgjandi gögn ertu til staðfestingar á veru kæranda erlendis á umræddum tíma, þ.e. vegabréfsáritanir frá D-landi og E-landi, en umbjóðandi minn dvaldist fyrst í D-landi frá 30. september 2007 til 23. desember 2007, þaðan sem hann hélt til Evrópu, þar ferðaðist hann talsvert uns hann kom til E-lands 28. janúar 2008, en þar dvaldi hann til 4. ágúst 2008, aðallega við X. Stimplar í vegabréfi hans bera með sér að hann kom reglulega inn í landið, þ.e. E-land, á þeim tíma sem um ræðir, en vegna heimsókna vina og ættingja til kæranda ferðaðist hann í nokkur skipti tímabundið frá E-landi. Af ferðaskjölum hans verður ráðið að hann hefur ómögulega getað verið í virkri atvinnuleit á Íslandi á þeim tíma sem um ræðir, og þar með getur hann ekki hafa talist vera á íslenskum vinnumarkaði. Eins og sjá má af bókunarupplýsingum í tengslum við flug kæranda heim frá E-landi var kærandi skv. þeim upplýsingum skráður til heimilis hjá F, en var þar um að ræða X-fyrirtæki í þeirri höfn sem kærandi hélt til við. Þá er meðfylgjandi grein, birt í X-blaði Y. júní 2008, um ferðalag kæranda og barnsmóður hans.

Þá bera yfirlit yfir kreditkortanotkun kæranda með sér að kreditkort hans hefur aðeins verið notað erlendis á þeim tíma sem um ræðir, en þar sem kortið var notað mjög reglulega erlendis á þeim tíma er nær ómögulegt að ætla að kærandi hafi ekki dvalist erlendis þann tíma. “

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 15. apríl 2009.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.), sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Óumdeilt er að kærandi uppfyllir skilyrði um að hafa verið samfellt á vinnumarkaði sex mánuðum fyrir fæðingardag barnsins.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og skuli miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Þá segir einnig í 2. mgr. 13. gr. að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Barn kæranda er fætt Y. maí 2009. Viðmiðunartímabil við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt ákvæði 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, er því tímabilið frá nóvember 2007 til október 2008. Ekki er heimilt samkvæmt ffl. eða reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, að miða við annað tekjutímabil en mælt er fyrir um í 2. mgr. 13. gr. Samkvæmt því ber að hafna kröfu kæranda um að við útreikning sé miðað við tekjur hans síðustu fjóra mánuði fyrir fæðingu barns.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a ffl.

Í hinni kærðu ákvörðun er við það miðað að kærandi hafi verið á vinnumarkaði alla mánuði viðmiðunartímabilsins. Í kæru er m.a. á því byggt að þar sem kærandi hafi verið á ferðalagi erlendis geti hann ekki talist hafa verið á innlendum vinnumarkaði í skilningi 13. gr. a ffl. fyrr en í ágúst 2008 þegar hann kom aftur heim.

Í 13. gr. a ffl. er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaga. Þar segir í 1. mgr. að þátttaka á innlendum vinnumarkaði feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 2. mgr. 13. gr. a ffl. segir að til þátttöku á vinnumarkaði teljist enn fremur:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fékk kærandi á viðmiðunartímabilinu greidd laun frá B í ágúst, september og október 2008. Aðra mánuði tímabilsins voru ekki launagreiðslur samkvæmt staðgreiðsluskrá. Heildarlaun kæranda á viðmiðunartímabilinu samkvæmt staðgreiðsluskrá voru X kr. sem er sama tala og kemur fram á greiðsluáætlun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

Kærandi hefur lagt fram ítarleg gögn, þ.m.t. vegabréfsáritanir, farseðla og kreditkortayfirlit, sem staðfesta að hann var erlendis frá 25. september 2007 til 4. ágúst 2008. Í yfirlýsingum Greiðslustofu Vinnumálastofnunar kemur fram að hafi kærandi verið erlendis sé ljóst af lögum nr. 54/2006 að hann hafi ekki átt rétt til atvinnuleysistrygginga.

Með hliðsjón af framanrituðu var kærandi á viðmiðunartímabili 2. mgr. 13. gr. ffl. einungis á innlendum vinnumarkaði í skilningi ffl. mánuðina ágúst, september og október 2008. Hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er því hrundið. Við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda á viðmiðunartímabilinu og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skal miða við fjóra mánuði sbr. 2. mgr. 13. gr. i.f. og heildarlaun hans á tímabilinu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til A úr Fæðingarorlofssjóði er hrundið. Við útreikning meðaltals heildarlauna og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skal miðað við fjóra mánuði og laun hans mánuðina ágúst, september og október 2008.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta