Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 56/2008

Miðvikudaginn 28. maí 2008

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r.

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga, dags. 20. febrúar 2008, kærir B, f.h. A synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um uppbót/styrk til bifreiðakaupa og uppbót til reksturs bifreiðar.

Óskað er endurskoðunar. 

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með ódagsettri umsókn sem móttekin var hjá Tryggingastofnun ríkisins þann 26. september 2007, sótti kærandi um 50-60% styrk vegna bifreiðakaupa og uppbót vegna bifreiðakaupa og til reksturs bifreiðar. Samkvæmt gögnum málsins er A hreyfihamlaður og bundinn hjólastól.

 

Með bréfi, dags. 9. október 2007, hafnaði Tryggingastofnun umsókn kæranda með þeim rökstuðningi að skilyrði fyrir veitingu slíkrar uppbótar væri að umsækjandi sjálfur eða annar heimilismaður hefði ökuréttindi.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a. svo:

„A er með hreyfihömlun og er algjörlega háður rafmagnshjólastól og Ferðaþjónustu fatlaðra til að komast leiðar sinnar. A stundar nám við Dog fer mikið af hans tíma vikulega í að skipuleggja og panta ferðir hjá Ferðaþjónustu fatlaðra. Hann getur aldrei tekið þátt í neinu með bekkjarfélögum sínum eða öðrum sem ákveðið er með stuttum fyrirvara, sem gerist mjög oft. Vegna þess að hann er háður Ferðaþjónustu fatlaðra með ferðir og ekki er hægt að breyta áætlun samdægurs.

Búið er að leggja mikla vinnu í undirbúning að A fái notendastýrða þjónustu. Búið er að gera drög að samningi við Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra og þess vænst að notendastýrð þjónusta komist í gagnið sem allra fyrst. Þá mun A vera með aðstoðarmenn sem munu skipta á milli sín vöktum og keyra hann í skólann og á aðra staði sem A þarf að fara á. Aðstoðarmenn A munu ekki eiga lögheimili á hans heimili. Við lítum svo á að T.r. mismuni öryrkjum varðandi bílastyrk eins og reglurnar eru i dag. Fólk í sömu stöðu og A eiga þess ekki kost að fá bílastyrk frá T.r.“

 

Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi, dags. 4. mars 2008.

 

Greinargerð Tryggingastofnunar barst úrskurðarnefndinni 23. apríl 2008. Í greinargerðinni eru rakin ákvæði laga og reglugerða um skilyrði til að fá styrki og uppbætur vegna bifreiðakaupa og uppbætur vegna reksturs bifreiða og vísað til a. liðar 1. mgr. 38. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, 10. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 og reglugerðar um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða nr. 752/2002 með síðari breytingum. Þá er í greinargerðinni rakin ákvæði reglugerðarinnar um mat á umsóknum um styrki og uppbætur. Loks segir í greinargerðinni að kærandi hafi samkvæmt umsókn ekki ökuréttindi sjálfur og að aðstoðarfólk hans, sem ekki séu skráðir heimilismenn, muni sinna akstri fyrir hann. Ljóst sé að kröfu reglugerðarinnar um að kærandi eða heimilismaður hans þurfi að hafa ökuréttindi séu skýrar. Einnig sé ljóst að kærandi sjálfur uppfylli ekki ákvæði reglugerðarinnar. Tryggingastofnun sé því ekki heimilt að veita kæranda þá styrki eða uppbætur sem hann geri kröfu um.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 25. apríl 2008, og honum gefinn kostur á að koma að frekari athugsemdum og/eða viðbótargögnum.  Af hálfu kæranda hafa athugasemdir ekki borist.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um 50-60% styrk vegna kaupa á bifreið og uppbót vegna bifreiðakaupa og reksturs bifreiðar.

Í rökstuðningi með kæru er vísað til félagslegra aðstæðna.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað til gildandi laga og reglna um skilyrði til að  hljóta styrki og uppbætur vegna bifreiðakaupa og uppbætur vegna reksturs bifreiða. Stofnunin hafnaði kæranda á þeirri forsendu að hann hefði ekki ökuréttindi og aðstoðarmenn hans sem ættu að aka bifreiðinni væru ekki skráðir heimilismenn á heimili hans.   

Lagaheimild fyrir veitingu styrks vegna kaupa á bifreið er að finna í a. lið 1. mgr. 38. gr. laga um almannatryggingar  nr. 100/2007. Samkvæmt ákvæðinu er skilyrði að bifreið sé nauðsynleg vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða líkamshluta vantar. Samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laganna skal ráðherra setja reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæðinu.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar til kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsynlegt að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi kemst ekki af án uppbótarinnar er í 1. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 og  heimild til að fá uppbót vegna reksturs bifreiðar er í 2. mgr. 10. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna getur heilbrigðisráðherra með reglugerð sett frekari ákvæði um greiðslur samkvæmt lögunum.

Gildandi reglugerð um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfi­hamlaðra einstaklinga vegna bifreiða er nr. 752/2002. Reglugerðinni hefur þrívegis verið breytt með reglugerðum nr. 109/2003, 462/2004 og 233/2007.

Fram kemur í 1. gr. reglugerðar nr. 752/2002  að markmið hennar sé m.a. að gera hreyfihömluðum kleift að stunda atvinnu eða skóla, njóta endurhæfingar eða læknismeðferðar.

Í 2. gr. reglugerðarinnar eru tilgreind skilyrði uppbótar vegna reksturs bifreiðar og í 4. gr. reglugerðarinnar eru tilgreind skilyrði uppbótar vegna kaupa á bifreið. Samkvæmt báðum greinunum er sett það skilyrði fyrir uppbót að hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.

Í tilviki kæranda sem skráður er til heimilis að E háttar svo til að hann mun ekki sjálfur aka bifreiðinni en í umsókn tilgreinir hann ónafngreinda aðstoðarmenn sína sem ökumenn.

Framangreind skilyrði 2. og 4. gr. reglugerðarinnar, sem felur það í sér að eigandi bifreiðar og ökumaður skuli búa á sama heimili, eru skýr og án undantekningarheimilda. Rök og málefnaleg sjónarmið búa að baki þessu skilyrði. Umrædd aðstoð er veitt af opinberu fé til hagsbóta fyrir hinn hreyfihamlaða. Af þeim sökum er eðlilegt að tengsl séu á milli þess staðar þar sem hinn hreyfihamlaði dvelur að jafnaði þ.e. heimilis hans og staðsetningar bifreiðarinnar. Með því að eigandi og ökumaður bifreiðar búi á sama stað má reikna með því að bifreið nýtist hinum hreyfihamlaða best. Þetta skilyrði er ekki uppfyllt í tilviki kæranda og því er ekki unnt að verða við beiðni hans um uppbót til kaupa á  bifreið. Nefndin horfir ennfremur til þess að kærandi, sem er mikið hreyfihamlaður og í þörf fyrir akstursþjónustu, getur a.m.k. að e-u marki nýtt sér ferðaþjónustu fatlaðra. Þá verður heldur ekki litið fram hjá því, að umrætt skilyrði er nauðsynlegt til tryggja að umrætt bótaúrræði sé í raun fyrst og fremst nýtt í þágu hins hreyfihamlaða.

Kærandi sótti einnig um styrk til kaupa á bifreið. Um skilyrði styrks til bifreiðakaupa er fjallað í 5. gr. reglugerðar nr. 752/2002. Samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 5. gr. þarf hinn hreyfihamlaði sjálfur að hafa ökuréttindi. Þetta skilyrði er ekki uppfyllt í tilviki kæranda og því er ekki heimilt að verða við beiðni hans um styrk til bifreiðakaupa. Strangari reglur gilda um veitingu styrks en uppbótar, enda er styrktarfjárhæðin umtalsvert hærri en uppbótin. Auk þess eiga almennt við um styrki sömu sjónarmið og rök og þegar hafa verið færð fram í umfjöllun um skilyrði uppbótar.

Umsókn kæranda um styrk til kaupa á bifreið og uppbót til kaupa á bifreið og reksturs bifreiðar er hafnað.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um styrk til að kaupa á bifreið og uppbót til kaupa á bifreið og reksturs bifreiðar er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson

formaður




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta