Úrskurður nr. 74/2008
Fimmtudaginn 13. maí 2008
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú r s k u r ð u r
Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dagsettri 18. mars 2008 kærir B f.h. A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu barnalífeyris.
Óskað er endurskoðunar.
Málavextir eru þeir að Tryggingastofnun ríkisins nýtti sér heimild sína til að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils.
Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:
„A er tveggja barna móðir sem er metin til 75% örorku og uppfyllir þannig skilyrði til að fá greiddan barnalífeyri, skv. 1 mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Tryggingastofnun synjaði hins vegar umsókn A um barnalífeyri með stoð í 4. mgr. 64. gr. laganna.
Ákvæði 4. mgr. 64. gr. laga nr. 100/2007 hljóðar svo:
„Þegar svo háttar til að Tryggingastofnun hefur milligöngu um meðlagsgreiðslur með barni skv. 1. mgr. 63. gr. og hið meðlagsskylda foreldri öðlast rétt til barnalífeyris skv. 20. gr. vegna barnsins er stofnuninni þó heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils.“
Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins er stofnuninni heimilt en ekki skylt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags. Tryggingastofnun getur þannig ekki beitt ákvæðinu sjálfkrafa um öll mál heldur er stofnuninni skylt að vega og meta hvort rétt sé að beita heimildinni í hverju tilviki fyrir sig. Mat og ákvörðun stofnunarinnar skal miða að því að ná þeim markmiðum sem stefnt er að með greiðslu barnalífeyris.
Samkvæmt 4. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, skal barnalífeyrir greiðast til foreldra barna, enda séu þau á framfæri þeirra. Af ákvæðinu er ljóst að barnalífeyri er ætlað að aðstoða foreldra við framfærslu barna sinna og er greiðslunum þannig í raun ætlað að koma börnunum sjálfum til góða.
Börn A eru á framfæri hennar til jafns við föður barnanna. Lögheimili barnanna getur eingöngu verið skráð hjá öðru foreldrinu, skv. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 21/1990, um lögheimili, sbr. 1. mgr. 31. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þrátt fyrir formlega lögheimilisskráningu dvelja börnin í raun og veru jafnmikið hjá móður sinni og föður, n.t.t. viku í senn hjá hvoru foreldri. Það er þannig börnunum fyrir bestu að A fái greiddan barnalífeyri til sín enda eru tekjur hennar lágar. Fái A ekki greiddan barnalífeyri verður framfærsla barnanna henni þungbærari sem bitnar um leið óhjákvæmilega á hagsmunum barnanna.
Greiðsla barnalífeyris og innheimta meðlags eru óskyld verkefni innan stjórnsýslunnar þar sem meginreglan er að Tryggingastofnun greiðir barnalífeyri en Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimtir meðlag. Tryggingastofnun fyrirframgreiðir meðlag skv. 1. mgr. 63. gr. laganna en Innheimtustofnun sveitarfélaga endurgreiðir stofnuninni eftir því sem innheimtist, skv. 2. mgr. 64. gr. Ákvæði 4. mgr. 64. gr. laga nr. 100/2007 er undantekning frá meginreglunni um innheimtu meðlags og ber að skýra þröngt. Ákvæðið er innheimtuhagræði fyrir stofnunina þar sem greiðslum stofnunarinnar til öryrkja er skuldajafnað við kröfu stofnunarinnar á hendur sama fólki...
Tryggingastofnun ríkisins lét barnalífeyrisgreiðslur A ganga sjálfkrafa til föður barnanna án þess að rannsaka málið eða meta aðstæður í heild sinni. Stofnunin braut þannig gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat. Þegar af þeirri ástæðu er ákvörðunin, um synjun á greiðslu barnalífeyris til A, ólögmæt... “
Úrskurðarnefndin óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar með bréfi dagsettu 27. mars 2008, þar segir meðal annars:
„Kærð er sú ákvörðun Tryggingastofnunar að láta barnalífeyri með börnum kæranda renna til greiðslu meðlags sem faðir barnanna er rétthafi að samkvæmt samningi foreldra, staðfestum af sýslumanni.
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 er barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi. Samkvæmt 5. mgr. 20. gr. greiðist barnalífeyrir foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða öðrum sem annast framfærslu þeirra að fullu.
Þegar svo háttar til að Tryggingastofnun hefur milligöngu um meðlagsgreiðslur með barni skv. 1. mg. 63. gr. laga um almannatryggingar og hið meðlagsskylda foreldri öðlast rétt til barnalífeyris skv. 20. gr. vegna barnsins, er stofnuninni heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags fyrir sama tímabil, sbr. 4. mgr. 64. gr. laga um almannatryggingar. Verður þá ekki um kröfu á hendur meðlagsskyldum aðila að ræða fyrir það tímabil.
Lagaákvæði þetta er hugsað til hagræðis fyrir alla sem að geiðslu og innheimtu meðlaga koma. Framkvæmd sú sem það mælir fyrir um felur í sér að krafa vegna meðlags er ekki send Innheimtustofnun sveitarfélaga til innheimtu. Það þýðir að umsýsla bæði Tryggingastofnunar og Innheimtustofnunar vegna meðlagskrafna minnkar, auk þess sem meðlagsskyldur aðili losnar við að fá kröfu frá Innheimtustofnun vegna meðlagsins. Ákvæðið gerir jafnframt ótvírætt ráð fyrir því að það firri einstakling ekki meðlagsskyldu að vera metinn til örorku. Tryggingastofnun lítur því svo á að beita beri þeirri heimild sem lagaákvæðið felur í sér í öllum tilvikum sem þess er kostur.“
Greinargerð var send kæranda til kynningar með bréfi dagsettu 25. arpíl 2008 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.
Niðurstaða úrskurðarnefndar:
Mál þetta varðar heimild Tryggingastofnunar til að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils.
Í rökstuðningi fyrir kæru segir að kærandi hafi átt rétt til greiðslu barnalífeyris enda sé ljóst samkvæmt 4. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar að barnalífeyri sé ætlað að aðstoða foreldra við framfærslu barna sinna og greiðslunum þannig í raun ætlað að koma börnunum sjálfum til góða. Fái kærandi ekki greiddan barnalífeyri verði framfærsla barnanna henni þungbærari sem bitni um leið óhjákvæmilega á hagsmunum barnanna. Tryggingastofnun ríkisins hafi látið barnalífeyri kæranda ganga sjálfkrafa til föður barnanna án þess að rannsaka málið eða meta aðstæður í heild sinni. Stofnunin hafi þannig brotið gegn rannsóknarskyldu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat. Þegar af þeirri ástæðu, sé ákvörðunin um synjun á greiðslu barnalífeyris til hennar, ólögmæt.
Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að greiðsla barnalífeyris með börnum kæranda hafi verið látinn renna til greiðslu meðlags sem faðir barnanna sé rétthafi að samkvæmt samningi foreldra, staðfestum af sýslumanni. Þegar þannig hátti til að Tryggingastofnun hafi haft milligöngu um meðlagsgreiðslur með barni sbr. 1. mgr. 63. gr. laga um almannatrygginar og hið meðlagsskylda foreldri hafi öðlast rétt til barnalífeyris vegna barnsins sbr. 20. gr. laganna, sé stofnuninni heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags fyrir sama tímabil sbr. 4. mgr. 64. gr. laga um almanntryggingar.
Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum sbr. 1. mgr. 63. gr. laga um almannatrygginga. Samkvæmt 4. mgr. 64. gr. laganna er heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils þegar svo háttar til að Tryggingastofnun hefur milligöngu um meðlagsgreiðslu með barni skv. 1. mgr. 63. gr. og hið meðlagsskylda foreldri öðlast rétt til barnalífeyris vegna barnsins.
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar er barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi. Kærandi sem er 75% öryrki átti rétt á greiðslu barnalífeyris sbr. 1. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar.
Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi undirritað samkomulag um sameiginlega forsjá og meðlagsgreiðslur hjá D þann 15. desember 2004. Þar kemur fram að hún skuli greiða föður barnanna einfalt meðlag með þeim frá 1. janúar 2005 til 18 ára aldurs.
Tryggingastofnun ríkisins hafði milligöngu um meðlagsgreiðslur með börnum kæranda skv. 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Með hliðsjón af því var stofnuninni heimilt að láta greiðslur barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils sbr. 4. mgr. 64. gr. laganna. Í samræmi við það verður ekki af kröfu á hendur kæranda sem meðlagsskyldum aðila fyrir sama tímabil.
Að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga er mikð hagræði fólgið í því fyrir innheimtuaðila að geta skuldajafnað greiðslum þegar greiðslur fara um hendur sama aðila. Í því ljósi verður ekki séð að það komi niður á fjárhag kæranda að greiðsla barnalífeyris sem hún átti rétt til sé látin ganga til greiðslu meðlags sem henni ber að greiða samkvæmt samkomulagi sem undirritað var hjá D þann 15. desember 2004. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríksins um að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags fyrir sama tímabil er staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Staðfest er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um láta greiðslu barnalífeyris til A, ganga til fyrirframgreiðslu meðlags sem henni bar að greiða, fyrir sama tímabil.
F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga
Friðjón Örn Friðjónsson
formaður