Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 125/2008

Miðvikudaginn 20. ágúst 2008

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með kæru, dagsettri 13. maí 2008, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphaf greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri með umsókn dagsettri 17. október 2007. Í framhaldi af því var samþykkt að greiða kæranda endurhæfingarlífeyri frá 1. febrúar 2008 eftir að hún hóf enduhæfingu sem henni var boðin hjá B endurhæfingu ehf. Samkvæmt meðfylgjandi læknisvottorði C, dagsettu 21. september 2007 kemur fram að kærandi verði ekki vinnufær næstu mánuðina vegna þunglyndiseinkenna. Kærandi fer fram á að fá greiðslu endurhæfingarlífeyris frá þeim tíma er hún veikist eða frá því að gögn um veikindi hennar voru send til Tryggingastofnunar ríkisins, sem mun hafa verið í október 2007.

Í rökstuðningi fyrir kæru segir meðal annars:

„Ég veikist sl. sumar og leitaði til læknis míns sem meðhöndlaði veikindin með lyfjum. Í febrúar sl. hóf ég endurhæfingu í B, enn fæ greiddar bætur frá þeim tíma. Með bréfi þessu óska ég eftir að fá greiddar bætur frá þeim tíma sem ég veikist, eða frá þeim tíma sem gögn frá lækni mínum eru send til TR, sem er í október 2007.“

 

Óskað var eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dagsettu 19. maí 2008. Barst greinargerð Tryggingastofnunar dagsett 10. júní 2008, þar segir meðal annars:

 

Endurhæfingarlífeyri er heimilt að greiða, þegar ekki verður séð hver örorka einstaklings verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Byggist það á 7.gr. laga um fjárhagslega aðstoð nr. 99/2007. Heimilt er að greiða þennan lífeyri í allt að tólf mánuði eftir að greiðslu sjúkra- eða slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar lýkur eða þar til unnt er að meta varanlega örorku, þó aldrei lengur en í átján mánuði. Skilyrði er að viðkomandi gangist undir greiningu eða meðferð á sjúkrastofnun eða utan slíkrar stofnunar eins og skýrt kemur fram í lagagreininni.

Við mat vegna endurhæfingarlífeyris til handa kæranda þann 16. janúar 2008 lá fyrir læknisvottorð C dagsett 21. september 2007, svör kæranda við spurningalista dags. 17. október 2007, niðurstaða matsteymis B endurhæfingar dags. l9. desember 2007 og umsókn kæranda um örorkubætur dagsett 17.október 2007.

Fram kom að kærandi stríddi við geðrænan vanda og félagslega erfiðleika. Matsteymið lagði til að henni yrði boðin atvinnuendurhæfing hjá B. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var endurhæfing ekki hafin 16. janúar 2008 þegar matið fór fram. Ekki þótti tímabært að taka afstöðu til örorku og ekki var hafin endurhæfing er réttlætti veitingu endurhæfingarlífeyris. Málið var því sett í biðstöðu.

Nokkrum dögum síðar eða 6. febrúar 2008 fór fram annað mat vegna endurhæfingarlífeyris til handa kæranda. Þá hafði borist staðfesting þess efnis að atvinnuendurhæfing hjá B væri hafin. Var kæranda því veittur endurhæfingarlífeyrir á þeim forsendum frá 1. febrúar 2008. Er það í samræmi við ofangreinda 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Kærandi óskar eftir að fá greiddan endurhæfingarlífeyri annað hvort frá þeim tíma sem hún veiktist eða frá þeim tíma sem gögn frá lækni hennar voru send Tryggingastofnun í október 2007. Ekki er að sjá að 7.gr. laga um félagslega aðstoð heimili slíkt enda meðferð ekki hafin á þessum tíma.

 

Greinargerð var send kæranda til kynningar með bréfi dagsettu 18. júní 2008. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um það frá hvaða tíma skuli hefja greiðslu enduhæfingarlífeyris.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi telur sig eiga rétt á greiðslu endurhæfingalífeyris frá þeim tíma er hún veikist eða frá þeim tíma sem gögn frá hennar lækni voru send til Tryggingastofnunar ríkisins, sem mun hafa verið í október 2007.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærandi hafi strítt við geðrænan vanda og félagslega erfiðleika. Matsteymi lagði til að henni yrði boðin atvinnuendurhæfing hjá B. Samkvæmt gögnum málsins hafði endurhæfing ekki verið hafin 16. janúar 2008 þegar matið fór fram. Nokkrum dögum síðar eða 6. febrúar 2008 fór fram annað mat vegna endurhæfingarlífeyris til handa kæranda. Þá hafi borist staðfesting þess efnis að atvinnuendurhæfing hjá B væri hafin Var kærand því veittur endurhæfingarlífeyrir á þeim forsendum frá 1. febrúar 2008. Er það í samræmi við 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoða er heimilt þegar ekki verður séð hver örorka verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að tólf mánuði eftir að greiðslu sjúkra- og slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar lýkur eða þar til unnt er að meta varanlega örorku, þó aldrei lengur en í 18 mánuði. Skilyrði er að viðkomandi gangist undir greiningu eða meðferð á sjúkrastofnun eða utan slíkrar stofnunar.

Samkvæmt gögnum málsins lá læknisvottorð C  dags. 21. september 2007 fyrir þegar meta átti endurhæfingalífeyri í janúar 2008, svo og svör kæranda við spurningalista dags. 17. október 2007. Einnig lágu fyrir niðurstöður matsteymis B endurhæfingu ehf. sem lagði til með bréfi dags. 19. desember 2007 að kæranda yrði boðin atvinnuendurhæfing hjá B endurhæfingu ehf. Endurhæfing kæranda hófst síðan í febrúar 2008.

Heimild til greiðslu endurhæfingarlífeyris er samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 bundinn því skilyrði að viðkomandi gangist undir greiningu eða meðferð á sjúkrastofnun eða utan slíkrar stofnunar. Greining á sjúkdómi kæranda og viðeigandi endurhæfingarúrræðum lág fyrir þegar í desember 2007. Þó svo að endurhæfing hafi ekki hafist fyrr en i febrúar 2008 eru skilyrði greiðslu endurhæfingarlífeyris samkvæmt orðana hljóðan 7. gr. laga 99/2007 uppfyllt eigi síðar en þegar endurhæfingaráætlun var tilbúin. Niðurstöður matsteymis voru kynntar með bréfi dags. 19. janúar 2007 og telur úrskurðarnefnd almannnatrygginga að kærandi eigi rétt á greiðslu endurhæfingarlífeyris frá næstu mánaðarmótum þaðan í frá.

 

Ú R S K UR Ð A R O R Ð:

Tryggingastofnunar ríkisins skal greiða endurhæfingalífeyri til A,  frá 1. janúar 2008.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

Friðjón Örn Friðjónsson, formaður




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta