Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 226/2003 - hjálpartæki, vinnustóll

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

Ú r s k u r ð u r.

 

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir   og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

 

Með bréfi dags. 3. september 2003 kærir B f.h. A til Úrskurðar­nefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um styrk til kaupa vinnustóls.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn dags. 13. maí 2003 sótti kærandi um styrk til kaupa á vinnustól.  Í umsögn iðjuþjálfa segir:

 

„ A er 17 ára  með hryggrauf, gengur ekkert og fer um allt í handdrifnum hjólastól.  A hefur haft ERO vinnustól heima sem ég sótti um 1998, sá stóll er orðinn of lítill og nokkuð slitinn.  A hefur notað vinnustólinn mikið og finnur fyrir þörf á stærri stól.”

 

Umsókninni var synjað með bréfi dags. 4. júlí 2003.

 

Í rökstuðningi með kæru segir:

 

A hefur haft ERO vinnustól heima sem hann fékk hjá TR 1998, sá stóll er orðinn of lítill og því sótt um endurnýjun á vinnustól. A hefur mikla þörf á að nota vinnustól heima bæði við skriftarvinnu og við tölvuna, hann situr allan daginn í hjólastólnum og hefur eftir langan skóladag þörf á að breyta um setstöðu. Vinnustóll á hjólum er nauðsynlegur til að hann geti hreyft sig á milli staða í herbergi

A þarf ekki vinnustól með bremsu. Á sínum tíma 1998 og núna í vor hef ég farið með honum í Pennann og valið með honum vinnustól, sem hentar hans setstöðu. A hefur þá sýnt að hann flytur sig auðveldlega á milli hjólastóls og vinnustóls, hann er handsterkur og öruggur með sig við það.

A þarf stól sem styður vel við mjóbakið og um leið þarf að vera gott pláss fyrir rassinn, því lumbal lordosan er mikil. Bíró stóllinn er eini vinnustóllinn í versluninni sem uppfyllir þessi skilyrði, það er hægt að aðlaga bakið vel að stráknum og var hann því fyrir valinu. Nú er mér ljóst að þessi vinnustóll flokkast undir stóla sem teljast hafa almennt notkunargildi, en aftur á móti erum við hér með stól sem uppfyllir kröfur A.

A hefur rétt á Vela vinnustól, (sem kostar ca. 100.000 kr.), en þar sem hann hefur ekki þörf fyrir stól með bremsu, er Bíró vinnustóll jafngóður kostur, en hann kostar tæpar 44.000 kr.

Með ofangreinda þætti í huga er óskað eftir undanþágu á reglunni við val á almennum vinnustól.”

 

Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi dags. 1. október 2003.  Barst greinargerð dags. 7. október 2003.  Þar segir:

 

„ Hvergi í bréfi þjálfara A kemur það fram að hann þurfi sérstakan stuðning vegna skekkju í hrygg. Þar kemur líka fram að hann þurfi góðan stuðning við mjóbakið og gott pláss fyrir rassinn v/ mikillar lumbal lordosu. Stólar á almennum markaði koma hins vegar á móts við þessa þörf. Samkvæmt þessum upplýsingum hefur A ekki þörf fyrir aukabúnað á vinnustól heldur vinnustól með almennt notagildi.

Í fylgiskjali 18.1 með reglum tryggingaráðs um styrki til kaupa á hjálpartækjum segir: "Þar sem allir þurfi stól í daglegu lífi taki TR ekki þátt í greiðslu á öllum stólum. Því eru ekki veittir stykir vegna stóla sem hafa almennt notkunargildi, en mögulegt er að fá styrki vegna ákveðins aukabúnaðar eða séraðlögunar ef þess er þörf t d. vegna alvarlegar skekkju/aflögunar í hrygg og eða mjöðmum." Brio-vinnustóllinn flokkast sem vinnustóll með almennt notkunargildi. Umsókninni var því synjað.”

 

Greinargerðin var send iðjuþjálfa f.h. kæranda með bréfi dags. 13. október 2003 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða frekari gögnum.  Slíkt hefur ekki borist.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar um styrk vegna kaupa vinnustóls fyrir kæranda sem er 18 ára skólanemandi og hefur þörf fyrir vinnustól til að nota heima. Samkvæmt upplýsingum iðjuþjálfa í umsókn er kærandi með hryggrauf, hann gengur ekkert og fer um í handdrifnum hjólastól.

 

 

Í rökstuðningi með kæru segir iðjuþjálfi að hún og kærandi hafi fundið Bíró vinnustól sem henti kæranda vel. Honum sé ekki þörf á sérútbúnum stól með bremsu sem sé mun dýrari.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar dags. 7. október 2003 segir að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum þurfi kærandi ekki aukabúnað á vinnustól heldur vinnustól með almennt notagildi. Ekki sé heimilt að veita styrki vegna kaupa á stólum sem hafa almennt notagildi.

 

Samkvæmt 33. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 er það hlutverk sjúkratrygginga­deildar Tryggingastofnunar að veita styrk til að afla hjálpartækja sem nauðsynleg eru vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð.

 

Samkvæmt 3. mgr. 33. gr. sbr. breytingu með lögum nr. 74/2002 skal ráðherra setja reglugerð um greiðslur samkvæmt 33. gr. Gildandi reglugerð er nr. 460/2003 og hafði hún tekið gildi er umsókn kæranda var afgreidd 4. júlí 2003.

 

Í lið 1809 í fylgiskjali með reglugerðinni er fjallað um stóla. Þar segir að stólar séu almennt greiddir af Tryggingastofnun fyrir þá sem eru með sjúkdóma sem valda alvarlegri lömun eða hrörnun. Þar segir ennfremur:

 

,,TR greiðir ekki fyrir stóla sem hafa almennt notkunargildi, en heimilt er að taka þátt í kostnaði vegna tiltekins aukabúnaðar eða séraðlögunar ef þess er þörf, t.d. vegna alvarlegrar skekkju/aflögunar í hrygg og/eða mjöðmum.”

 

Að mati úrskurðarnefndarinnar er það á málefnalegum sjónarmiðum reist, að binda styrk við stól sem er að einhverju leyti sérútbúinn og sérsniðinn að þörfum þeirra sem eru fatlaðir. Fær það ennfremur stoð í orðalagi 33. gr. a. liðar þar sem mælt er fyrir um styrkveitingu til kaupa á hjálpartæki. Sérhönnun hefur almennt í för með sér að slík tæki eru dýrari en almennt gerist og því aukin þörf við aðstoð til kaupa á þeim.

 

Í fyrirliggjandi gögnum hafa verið færð fyrir því rök að sá stóll sem sótt var um henti kæranda vel og hann þurfi engan sérstakan aukabúnað. Hins vegar er stóllinn til sölu á almennum markaði og hefur almennt notagildi. Tryggingastofnun hefur ekki heimild til að veita styrk til slíkra kaupa samkvæmt gildandi reglugerð og fylgiskjali birtu með henni. Því er synjun Tryggingastofnunar staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Afgreiðsla umsóknar um styrk til kaupa vinnustóls fyrir A er staðfest.

 

 

 

___________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

 

 

 

 

                                                                                      ________________________                                      _______________________ 

     Guðmundur Sigurðsson                                                        Þuríður Árnadóttir      

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta