Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 482/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 482/2021

Fimmtudaginn 16. desember 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. september 2021, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. maí 2021, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði greiðslur atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun árið 2021. Samhliða atvinnuleysisbótum starfaði kærandi í hlutastarfi hjá C. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. maí 2021, var kæranda tilkynnt að henni bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið febrúar til apríl 2021, að fjárhæð 132.813 kr., á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun þann 26. maí 2021 sem barst með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 14. júní 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. september 2021. Með bréfi, dags. 20. september 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 27. október 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. október 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hafa fengið bréf frá Vinnumálastofnun um að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og vegna þess ætti að draga af atvinnuleysisbótum hennar þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Kærandi hafi sent Vinnumálastofnun bréf með rökstuðningi en hafi ekki fengið svar. Kærandi vísi til bréfs sem hún hafi sent Vinnumálastofnun þann 17. júní 2021 þar sem hún hafi greint frá aðdraganda málsins og rökum. Áramótin 2020/2021 hafi hún klárað B.Sc. gráðu í Háskólanum í Reykjavík. Hún hafi á þessum erfiðu tímum farið að leita sér að vinnu og hafi talað við fyrirtækið C en þar hafi hún verið að vinna aðeins með námi síðastliðið ár. C hafi strax haft samband við Vinnumálastofnun og athugað hvort hægt væri að taka hana inn á viðspyrnustyrk. Það hafi ekki verið hægt þar sem hún hafi ekki verið skráð atvinnulaus. Eftir langt spjall C við starfsmann Vinnumálastofnunar hafi fyrirtækinu verið tjáð að það kæmi best út fyrir kæranda að fara á atvinnuleysisbætur og fá greitt frá C upp að leyfilegu tekjumarki. Það skuli tekið fram að C hafi sagt við kæranda strax í janúar að vegna aðstæðna í þjóðfélaginu væri fyrirtækið ekki í stakk búið til að ráða hana inn í 100% starf en myndi skoða að auka við hana vinnuna ef aðstæður myndu breytast og það myndi lifna aftur við í miðbænum. Kærandi hafi því byrjað að vinna hjá C, svipað og hún hafi gert með náminu og hafi þegið lágmarkslaun fyrir sem og atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Þannig hafi það verið frá byrjun. Kærandi hafi ekki áttað sig á að hún þyrfti að skila inn launaseðlum þar sem hún hafi fengið laun á móti atvinnuleysisbótum þó að launin væru undir viðmiðunarlaunum, enda ný á vinnumarkaðinum. Kærandi hafi fengið bréf frá Vinnumálastofnun um að hún hefði sex daga til að skila launaseðlum sem hún hafi gert. Hún hafi farið inn á „Mínar síður“ þar sem hún hafi verið beðin um að fylla út nokkur atriði, þar á meðal vinnuhlutfall hennar. Kærandi hafi ekki vitað vinnuhlutfallið og hafi spurt framkvæmdastjóra C að því sem sagðist ekki vera með það á hreinu en hafi haldið að það væri um 15%. Kærandi hafi skráð það inn í kerfi Vinnumálastofnunar og hafi sjálf ekki talið að það væri aðalatriðið heldur launaseðlarnir, þ.e. að skila þeim inn eins og beðið hafi verið um, enda sjáist nákvæmlega á þeim hvað hún hafi verið með í laun frá C. Eftir að hún hafi klárað það hafi hún fengið að vita frá Vinnumálastofnun að hún hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 132.813 kr., það sé búið að draga af henni 29.513 kr. og að hún skuldi nú 103.300 kr. Í svari Vinnumálastofnunar komi fram að það sé dregið af kæranda vegna þess hlutfalls sem hún hafi gefið upp, eða 15%, sem sé þá dregið af því hlutfalli sem hún eigi rétt á eða af 55%.

Kærandi hafni framangreindu alfarið og telji að Vinnumálastofnun sé ekki samkvæm sjálfri sér þar sem C hafi verið tjáð að kærandi megi vera með lágmarkslaun á móti atvinnuleysisbótum. Vinnumálastofnun eigi því að fara eftir launaseðlum frá henni sem stofnunin hafi kallað eftir. Að mati kæranda hafi átt að samkeyra laun hennar, lífeyrissjóðs- og skattgreiðslur samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra og bera saman hvort laun hennar hafi verið of há miðað við þær upplýsingar sem C hafi fengið frá Vinnumálastofnun. Það sé því algjörlega rangt að nota allt í einu 15% sem viðmið. Kærandi viti ekki hvaðan það viðmið sé fengið.

Þegar kærandi hafi talað við starfsmann Vinnumálastofnunar hafi komið í ljós að orlof hennar hafi verið lagt ofan á viðmiðunarlaunin og því hafi hún fengið of mikið greitt frá C sem því nemi, miðað við þær lágmarkstekjur sem hún megi hafa. Það sem sé rétt að gera sé að taka þá fjárhæð sem hún hafi fengið greidda í orlof, um 7.000 kr., og deila henni með tveimur og krefjast endurgreiðslu á þeirri fjárhæð. Með því að reikna það lauslega, sé það um 7.000 kr. margfaldað með fjórum mánuðum sem geri um 28.000 kr. Sé þeirri fjárhæð deilt með tveimur sé niðurstaðan sú að hún þurfi að greiða 14.000 kr., sem sé lægri fjárhæð en sú greiðsla sem þegar hafi verið tekin af henni.

Kærandi hafi verið í sambandi við starfsmann Vinnumálastofnunar vegna þessa og greint starfsmanninum frá því. Einnig hafi kærandi sagt starfsmanni stofnunarinnar að C muni auka við hana starfshlutfallið eftir sumarið ef aðstæður í þjóðfélaginu fari í eðlilegt horf. Kærandi hafi spurt hvernig því væri þá háttað og henni hafi þá verið tjáð það sem myndi gerast þegar C myndi bæta við hana vinnu. Þá myndi Vinnumálastofnun fá launaseðlana og sjá að hún væri að fá greidda hærri fjárhæð en þau viðmiðunarlaun sem leyfilegt væri að hafa fyrir skerðingu sem hún hafi fengið hingað til. Það sé því reiknað þannig að ef kærandi sé til dæmis með 100.000 kr. yfir viðmiðunarlaunum sé þeirri fjárhæð deilt með tveimur og hún þurfi að greiða 50.000 kr. Miðað við þessar upplýsingar sé launaseðill notaður til viðmiðunar og útreikninga og því skuli það einnig vera gert í tilfelli kæranda núna en ekki það hlutfall sem hún hafi verið beðin um að skrá. Kærandi taki einnig fram að C ætli að bæta við starfshlutfallið.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 12. janúar 2021 og reiknast með 55% bótarétt. Með erindi, dags. 6. maí 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að við samkeyrslu tölvugagna Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra hafi komið í ljós að kærandi hafi haft tekjur í febrúar 2021, án þess að gera grein fyrir þeim, á sama tíma og hún hafi þegið atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun hafi óskað eftir gögnum frá kæranda vegna umræddra tekna svo að hægt væri að meta rétt hennar til greiðslu atvinnuleysistrygginga. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að umbeðnar upplýsingar þyrftu að berast stofnuninni innan sjö virkra daga, að öðrum kosti myndi ákvörðun stofnunarinnar byggjast á fyrirliggjandi gögnum.

Með erindi, dags. 26. maí 2021, hafi kæranda verið tilkynnt um ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna febrúar til apríl 2021. Þar hafi komið fram að skuld kæranda við Vinnumálastofnun næmi 132.813 kr. Ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi verið upplýst um að ofgreiddar atvinnuleysisbætur yrðu innheimtar samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna, þ.e. með skuldajöfnuði við 25% af síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum kæranda.

Skuld kæranda sé tilkomin vegna þess að samhliða greiðslum atvinnuleysistrygginga hafi kærandi starfað hjá C. Þann 10. maí 2021 hafi stofnuninni borist tilkynning frá kæranda um tekjur af hlutastarfi og hafi starfshlutfall verið tilgreint sem 15% frá og með 1. febrúar 2021. Við móttöku á tilkynningu um hlutastarf skrái Vinnumálastofnun hlutastarf inn í greiðslukerfi stofnunarinnar. Slík skráning leiði til þess að tryggingahlutfall viðkomandi lækki. Fram til 10. maí 2021 hafi greiðslur til kæranda miðast við 55% tryggingahlutfall án hlutastarfs. Kærandi hefði aftur á móti réttilega átt að vera skráð í 15% hlutastarf frá 1. febrúar 2021 og þiggja 40% atvinnuleysisbætur á móti. Upphæð skuldarinnar miðist þannig við mismun atvinnuleysisbóta fyrir 55% tryggingahlutfall og 40% tryggingahlutfall.

 

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.

Fyrir liggi í máli þessu að kærandi hafi fengið greidd laun frá C þar sem hún hafi starfað í 15% starfshlutfalli frá 1. febrúar 2021 samhliða greiðslum frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Skráning kæranda á 15% hlutastarfi hafi leitt til þess að tryggingahlutfall hennar hafi lækkað í samræmi við 17. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sem hljóði svo:

„Launamaður, sbr. a-lið 3. gr., sem missir starf sitt að hluta telst hlutfallslega tryggður samkvæmt lögum þessum og nemur tryggingarhlutfallið mismun réttar hans hefði hann misst starf sitt að öllu leyti, sbr. 15. gr., og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram, frá þeim tíma er hann missti starf sitt að hluta nema annað leiði af lögum þessum. Hið sama gildir þegar launamaður missir starf sitt en ræður sig til starfa í minna starfshlutfall hjá öðrum vinnuveitanda.“

Samkvæmt 17. gr. laganna séu atvinnuleysistryggingar atvinnuleitanda sem starfi í hlutastörfum samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta skertar með þeim hætti að fyrst sé starfshlutfall viðkomandi dregið frá bótarétti hans. Útreiknaður bótaréttur kæranda sé 55%. Kærandi hafi starfað hjá C í 15% starfshlutfalli frá 1. febrúar 2021. Bótaréttur kæranda á því tímabili hefði því réttilega átt að vera 40%. Þar sem Vinnumálastofnun hafi ekki borist upplýsingar um umrætt hlutastarf fyrr en í maí 2021 hafi kærandi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hún hafi átt rétt á á tímabilinu febrúar 2021 til apríl 2021.

Upphæð skuldar kæranda miðist þannig við mismun atvinnuleysisbóta fyrir 55% tryggingahlutfall og hlutfall eftir skráningu á hlutastarfi hennar. Þar sem skráning kæranda í hlutastarf hafi verið gerð afturvirkt þann 10. maí 2021 hafi myndast skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar vegna greiðslna fyrir tímabilið febrúar 2021 til apríl 2021. Kærandi fái nú greiddar atvinnuleysisbætur miðað við 40% tryggingahlutfall.

Samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri þeim sem hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Ákvæði 1. mgr. 39. gr. sé svohljóðandi:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 skuli atvinnuleitandi, sem fengið hafi hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. en hann hafi átt rétt á, endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið ef atvinnuleitandi færi rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka sem leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt framangreindu ákvæði sé mælt fyrir um heimild Vinnumálastofnunar til að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð. 

Ofgreiddum atvinnuleysisbótum sé skuldajafnað á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum, en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemi 25% af síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði, í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 3. mgr. 39. gr. segi orðrétt:

„Heimilt er að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótunum í hverjum mánuði. Enn fremur er heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti inneign hins tryggða vegna ofgreiddra skatta, barnabóta og vaxtabóta samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Sá ráðherra er fer með tekjuöflun ríkisins setur í reglugerð nánari reglur um skuldajöfnun og forgangsröð.“

Frá því að Vinnumálastofnun hafi látið kæranda fyrst vita að skuld hafi myndast við stofnunina hafi kærandi greitt alla skuldina. Upphæð skuldarinnar hafi verið skuldajafnað á móti þeim atvinnuleysisbótum sem kærandi hafi fengið greiddar í maí 2021 til september 2021.

Það sé niðurstaða Vinnumálastofnunar að kæranda hafi borið að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. maí 2021, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið febrúar til apríl 2021, að fjárhæð 132.813 kr., vegna tekna sem kærandi aflaði á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur.

Í 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Þar segir í 1. mgr.:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Kærandi fékk tekjur frá C samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun. Ljóst er að tekjurnar höfðu áhrif á fjárhæð atvinnuleysisbóta til handa kæranda, sbr. framangreint ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um frádrátt vegna tekna.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna er heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Þar sem hvorki lágu fyrir upplýsingar um hlutastarf kæranda hjá C né tekjuáætlun vegna tímabilsins febrúar til apríl 2021 fékk kærandi greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hún átti rétt á þá mánuði. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og því er ekki ágreiningur um það atriði. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. maí 2021, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta