Hoppa yfir valmynd

Nr. 309/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 19. ágúst 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 309/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22060043

 

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 23. júní 2022 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Filippseyja ( hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. júní 2022, um að synja umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli 58. gr. laga um útlendinga.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi vegna náms 30. ágúst 2017 með gildistíma til 15. febrúar 2018, sem var endurnýjað nokkrum sinnum, síðast með gildistíma til 15. júlí 2022. Hinn 23. apríl 2018 sótti kærandi um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Var þeirri umsókn synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar dags. 12. júní 2018 og undi kærandi þeirri ákvörðun. Kærandi sótti um ótímabundið dvalarleyfi 14. janúar 2022. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. júní 2022, var umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi synjað með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga.

Með tölvubréfi kærunefndar 24. júní 2022 var kæranda leiðbeint og gefið færi á að leggja fram frekari athugasemdir eða gögn máli sínu til stuðnings. Hinn 27. júní 2022 bárust kærunefnd frá kæranda afrit af bréfi þriðja aðila rituðu honum til stuðnings.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi lagði ekki fram greinargerð við meðferð málsins en af kæru má lesa að hann vilji fá ótímabundið leyfi hér á landi svo börn hans geti dvalið hér á landi með honum. Í bréfi rituðu af þriðja aðila til stuðnings kærunni er að finna lýsingu á aðstæðum fjölskyldu kæranda sem hann býr hjá hér á landi og þeim stuðningi sem hann hefur veitt fjölskyldumeðlimum sem þó teljast ekki til nánustu aðstandenda.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a-e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna.

Í b-lið 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er m.a. mælt fyrir um heimild til að víkja frá því skilyrði að útlendingur hafi dvalist hér á landi síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, þegar útlendingur hefur haft slíkt dvalarleyfi í a.m.k. tvö ár og hefur áður dvalið hér á landi í samfelldri dvöl samkvæmt dvalarleyfi vegna náms samkvæmt 65. gr. þannig að heildardvöl sé a.m.k. fjögur ár. Í 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga segir m.a. að heimilt sé í vissum tilvikum að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hér á landi án þess að skilyrði um fyrri dvöl samkvæmt 1. mgr. og b-lið 2. mgr. séu uppfyllt. Kunna þessar heimildir að eiga við ef útlendingur á íslenskan ríkisborgara sem foreldri, er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara, hefur misst íslenskan ríkisborgararétt eða afsalað sér honum eða hefur dvalið hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Kærandi hefur líkt og að framan greinir aðeins dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis vegna náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 9. mgr. 65. gr. laganna getur dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu ekki verið grundvöllur dvalarleyfis nema b-liður 2. mgr. 58. gr. laganna eigi við. Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi á öðrum grundvelli en vegna náms. Að þessu virtu er ljóst að kærandi uppfyllir hvorki skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga um að hafa dvalið hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis né á undantekningarákvæði b-liðar 2. mgr. 58. gr. Þá er ekkert fram komið í málinu sem bendir til þess að undantekningarheimildir 3. mgr. 58. gr. eigi við um kæranda.

Að því er varðar aðstæður fjölskyldumeðlima kæranda sem greint er frá í stuðningsbréfi með kærunni er tekið fram að þær aðstæður hafa ekki vægi við ákvörðun um veitingu ótímabundins dvalarleyfis en kunna að hafa vægi við mat á því hvort skilyrðum tímabundins dvalarleyfis sé fullnægt.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Samkvæmt 6. mgr. 58. gr. laga um útlendinga hafði kærandi heimild til dvalar hér á landi á meðan á málsmeðferð umsóknar hans um ótímabundið leyfi stóð en tímabundið dvalarleyfi hans á grundvelli náms rann út hinn 15. júlí 2022. Eins og að framan greinir hefur málsmeðferðinni nú verið lokið með synjun umsóknarinnar og hefur kærandi því ekki lengur heimild til dvalar hér á landi. Kæranda er leiðbeint um, hafi hann ekki nú þegar gert það, að sækja um dvalarleyfi á öðrum grundvelli innan 30 daga frá móttöku úrskurðarins eða að öðrum kosti yfirgefa landið. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann sækir ekki um dvalarleyfi á öðrum grundvelli eða yfirgefur ekki landið kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                Sandra Hlíf Ocares


 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta