Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 384/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 384/2021

Fimmtudaginn 7. október 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. júlí 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. júlí 2021, um að fella niður bótarétt hennar í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 17. október 2019 og var umsókn hennar samþykkt 13. nóvember 2019. Þann 28. júní 2021 bárust Greiðslustofu Vinnumálastofnunar þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað fullu starfi hjá B. en ferilskrá kæranda hafði verið send til umrædds fyrirtækis þann 24. júní 2021. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 9. júlí 2021, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á atvinnutilboðinu. Skýringar bárust frá kæranda samdægurs. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. júlí 2021, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hennar yrði felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. júlí 2021. Með bréfi, dags. 29. júlí 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 27. ágúst 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. ágúst 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 14. september 2021 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar þann 16. september 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið svipt bótarétti í tvo mánuði vegna þess að hún hafi hafnað atvinnutilboði hjá ræstingafyrirtæki. Hún hafi tekið 25% hlutastarfi hjá fyrirtæki sem leigir út húsbíla. Hún hafi ekki viljað starfa hjá ræstingafyrirtæki vegna nokkurra ástæðna. Í fyrsta lagi telji hún starfið ekki henta reynslu sinni og hæfni. Í öðru lagi sé fyrirtækið þekkt fyrir að borga ekki fullnægjandi laun fyrir yfirvinnu. Í þriðja lagi nefni kærandi að hún hafi starfað í ár fyrir ræstingafyrirtæki sem hafi blekkt hana og hugsi hún enn um vangreidd laun. Hún hafi haft gríðarlega slæma reynslu af því og hún sé sem stendur að leita sér sálfræðiaðstoðar vegna þess. Í fjórða lagi hafi hún verið ráðin hjá bílaleigufyrirtæki þar sem hún beri ábyrgð á samskiptum við viðskiptavini. Fyrirtækið vaxi hratt og kærandi telji að starfshlutfall hennar verði aukið í náinni framtíð. Kærandi telji að það sé miklu betra að leita sér að vinnu þar sem hún geti starfað til lengri tíma frekar en að ráða sig í starf sem hún sé óánægð í og verða svo aftur atvinnulaus eftir tvo til þrjá mánuði.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að hún skilji fullyrðingu Vinnumálastofnunar að ef hún sé skráð á atvinnuleysisbætur skuli hún samþykkja hvaða starf sem stofnunin bjóði og að getið skuli um heilsufarsvandamál fyrir fram. Hún vilji hins vegar koma að frekari athugasemdum og ítreki að það hafi verið nokkrar ástæður fyrir því að hún hafi hafnað starfinu hjá B. Í fyrsta lagi hafi atvinnutilboðið verið fyrir ræstitækni eða þernu en í fyrra starfi hafi hún verið í hærri stöðu sem stjórnandi og með hærri laun. Það sé hins vegar ekki mikilvægasta ástæðan, ef ekki hefði verið fyrir hinar ástæðurnar hefði hún tekið starfinu. Í öðru lagi hafi kærandi fengið starfstilboð frá bílaleigufyrirtæki á sama tíma. Starfið bjóði upp á mikla þróunarmöguleika í starfi. Um sé að ræða mjög lítið fyrirtæki sem sé rétt að byrja. Hún starfi á skrifstofunni, sé í samskiptum við viðskiptavini og geti bætt tungumálakunnáttu sína. Fyrirtækið bjóði henni á námskeið, þar á meðal grunnnámskeið í bókhaldi sem hún þurfi ekki að greiða fyrir. Hún sé nú einungis í 25% starfshlutfalli en það séu margar ástæður fyrir því. Fyrirtækið sé mjög lítið og það hafi ekki getað nýtt sér úrræði Vinnumálastofnunar til að ráða hana í fulla vinnu þar sem hún sé fyrsti starfsmaður þess. Kærandi viti að hún muni vinna þar í fullu starfi næstu önn og líklega þarnæstu önn í að minnsta kosti 75% starfi og hún sé mjög ánægð með það. Kærandi telji mjög mikilvægt að veita því athygli að það sé miklu betra fyrir vinnumarkaðinn þegar einstaklingar finni starf þar sem þeir geti þróast og geti unnið til lengri tíma. Þegar einstaklingar ráði sig í starf sem þeir séu ekki ánægðir með geti þeir fljótlega breytt um vinnustað. Þessi tími á nýja vinnustaðnum hafi gefið henni tækifæri til að læra mikið. Kærandi viti að á næstu önn verði hún fullkominn starfsmaður og að hún hafi fundið vinnustað þar sem hún geti unnið lengi. Síðasta og mikilvægasta ástæða þess að hún hafi ekki tekið starfinu hjá B séu margar kvartanir frá núverandi og fyrrverandi starfsmönnum fyrirtækisins til Eflingar stéttarfélags. Að mati kæranda sé auðvelt að kanna það. Kvartanir lúti að vinnuaðstöðu, ógreiddri yfirvinnu (að hækkunin sé ekki nóg), að vinnuveitandi útvegi ekki máltíð á vakt, að vinnuveitandi beri ekki virðingu fyrir pásum á vinnutíma, laun séu greidd seint og um andrúmsloft og þrýsting yfirmanna. Hún hafi unnið í meira en ár fyrir ræstingafyrirtæki þar sem hún hafi staðið frammi fyrir svipuðum vandamálum. Fyrir utan örmögnun og heilsufarsvandamál, bæði líkamleg og andleg, sé hún enn að berjast með mál sitt fyrir dómstólum vegna vangreiddra launa. Engu að síður muni hún ekki fá lífeyrisiðgjöld fyrir meira en hálft ár greidd til baka eða laun vegna yfirvinnu. Kæranda finnist ótrúlegt að svo stórt fyrirtæki geti samt brotið vinnureglur og að ríkið hafi enn ekki gert neitt vegna þess og refsi fólki fyrir að vilja ekki vinna á slíkum stað.

Jafnvel þó að ekki sé hægt að gera neitt í máli kæranda þá gæti Vinnumálastofnun athugað fyrirtækin sem stofnunin hjálpi í framtíðinni. Vinnumálastofnun geti til dæmis ekki veitt fyrirtækinu sem hún starfi fyrir styrk til þess að ráða hana í fullt starf. Hins vegar gefi þetta ræstingafyrirtækjum, sem oft misnoti starfsfólk sitt, tækifæri. Þá vilji kærandi nefna að einstaklingar sem komi til Íslands til að vinna geti orðið fyrir áfalli að vinna fyrir slík fyrirtæki.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að þann 28. júní 2021 hafi Greiðslustofu Vinnumálastofnunar borist þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað fullu starfi hjá B. Ferilskrá kæranda hafi verið send til umrædds fyrirtækis þann 24. júní 2021.

Ágreiningur í máli þessu snúi að því hvort ástæður kæranda vegna umræddrar höfnunar séu gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í tímabundnu atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði að þeir hafi til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að vera í virki atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. 

Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög vegna höfnunar á starfi eða atvinnuviðtali. Ákvæðið sé svohljóðandi: 

,,Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segi orðrétt í 4. mgr. sömu greinar:

,,Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Vinnumálastofnun sé gert að meta skýringar atvinnuleitenda vegna höfnunar á atvinnutilboði með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu.

Kærandi hafi gefið skýringar á höfnun, bæði fyrir úrskurðarnefndinni og til Vinnumálstofnunar. Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi hafnað starfstilboði hjá B. Kærandi segi að hún hafi hafnað starfi við ræstingar hjá B vegna þess að hún telji starfið ekki henta reynslu sinni og hæfni. Auk þess segi hún fyrirtækið þekkt fyrir að borga ekki fullnægjandi laun fyrir yfirvinnu. Þá segist kærandi einnig ekki hafa góða reynslu af hreingerningafyrirtæki sem hún hafi unnið hjá áður og sé í sálfræðimeðferð vegna þess. Að endingu segi kærandi að hún hafi verið ráðin í hlutastarf hjá bílaleigufyrirtæki sem hún telji henta sér betur.

Skýringar kæranda réttlæti ekki höfnun á starfi samkvæmt 57. grein laganna. Stofnunin telji ekki unnt að fallast á skýringar kæranda þegar komi að höfnun hennar á starfstilboði hjá B. Sögusagnir af vinnuveitendum geti ekki réttlætt höfnun á starfi. Auk þess sé reynsla af öðrum vinnuveitendum ekki gild ástæða fyrir höfnun á atvinnutilboði annarra.

Líkt og áður hafi verið rakið hvíli skylda á atvinnuleitendum að taka því starfi sem þeim bjóðist, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Að mati Vinnumálastofnunar séu skýringar kæranda ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á atvinnutilboði. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að þær skýringar sem kærandi hafi fært fram í máli þessu geti ekki talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun telji því að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma í tvo mánuði frá ákvörðunardegi, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Óumdeilt er að kærandi hafnaði atvinnutilboði hjá B en ágreiningur málsins lýtur að því hvort ástæður kæranda fyrir þeirri höfnun hafi verið réttlætanlegar í skilningi 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi hefur gefið þær skýringar að hún telji starfið ekki henta reynslu sinni og hæfni, auk þess sem fyrirtækið sé þekkt fyrir að borga ekki fullnægjandi laun fyrir yfirvinnu. Þá tók kærandi fram að hún hefði slæma reynslu af ræstingafyrirtækjum og að hún hafi ráðið sig í hlutastarf hjá öðru fyrirtæki.

Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þær ástæður og skýringar sem kærandi hefur gefið ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á starfinu, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006. Úrskurðarnefndin bendir á að í 1. mgr. 13. gr. laganna er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. en í því felst meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir, sbr. c-lið 1. mgr. ákvæðisins.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. júlí 2021, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta