Hoppa yfir valmynd

Nr. 723/2017 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 30. desember 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 723/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17090005

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestur og kæruheimild

Með kæru, dags 20. ágúst 2017, kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Kína, (hér eftir nefnd kærandi), þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. ágúst 2017, að synja henni um vegabréfsáritun til Íslands.

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og henni verði veitt vegabréfsáritun til Íslands.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga nr. 80/2017 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins eru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Með beiðni, dags. 14. júlí 2017, óskaði kærandi eftir vegabréfsáritun til Íslands í tíu daga hjá sendiráði Íslands í Peking, Kína. Í umsókn kemur fram að tilgangur ferðar kæranda hingað til lands sé að ferðast um landið. Umsókn kæranda var synjað þann 16. ágúst 2017 og var ákvörðun Útlendingastofnunar send með tölvupósti til sendiráðs Íslands í Peking, til birtingar fyrir kæranda. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvenær ákvörðunin var birt kæranda. Þann 21. ágúst 2017 barst Útlendingastofnun kæra í málinu auk fylgigagna.

Þann 4. september 2017 barst kærunefnd útlendingamála kæran og gögn málsins frá Útlendingastofnun. Þann 13. október 2017 óskaðir kærunefnd eftir frekari upplýsingum frá sendiráði Íslands í Peking. Svar barst frá sendiráðinu þann 16. október 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Útlendingastofnun synjaði kæranda um vegabréfsáritun þar sem tilgangur dvalar hennar þótti ótrúverðugur. Kærandi hafi framvísað fölsuðum skjölum með umsókn sinni. Kynningarbréf þess sem gaf sig út fyrir að vera vinnuveitandi hennar hafi verið falsað. Símanúmerið sem gefið hafi verið upp á kynningarbréfinu hafi ekki verið símanúmer fyrirtækisins, [...]. Þegar starfsfólk sendiráðsins hafi haft samband við fyrirtækið hafi starfsfólkið fengið þær upplýsingar að enginn að nafni [...] starfaði á vinnustaðnum. Þau laun sem kærandi kvaðst vera með hjá fyrirtækinu hafi ekki stemmt við þær upphæðir sem hafi verið að finna á bankareikningi hennar. Ekki hafi verið hægt að staðfesta ætlun kæranda til að yfirgefa yfirráðasvæði aðildarríkja Schengen áður en vegabréfsáritunin myndi renna út. Þar sem lögð hafi verið fram fölsuð gögn taldi stofnunin tilgang ferðarinnar ótrúverðugan og var talin hætta á að hún myndi gerast ólöglegur innflytjandi á Schengen svæðinu.

Þar sem kærandi þótti ekki uppfylla skilyrði 20. gr. laga um útlendinga og 32. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir nr. 1160/2010 um skilyrði til útgáfu vegabréfsáritunar þótti ástæða til að synja umsókn hennar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í kæru sinni kveður kærandi það ekki rétt að hún hafi framvísað fölsuðum skjölum. Hún telji að ekki hafi komið fram í ákvörðun Útlendingastofnunar hvernig sendiráð Íslands hafði samband við fyrirtækið sem hún kveðst vinna hjá. Kærandi óskaði eftir því að upplýst yrði hvernig sendiráðið hafði samband við fyrirtækið. Hún kvað framkvæmdastjóra fyrirtækisins, [...], ekki hafa fengið símtal frá sendiráðinu og heldur ekki samstarfsmenn hennar. Kærandi haldi því að nýi starfsnemi fyrirtækisins, [...], hafi hugsanlega svarað í símann. Starfsneminn hafi ekki þekkt allt starfsfólkið og hún hafi greint fulltrúa sendiráðsins frá því hvenær kærandi væri við vinnu og beðið hann um að hringja aftur daginn eftir. Samstarfsmenn kæranda hafi á hinn bóginn ekki fengið neitt símtal daginn eftir. Kærandi hafi farið í sendiráðið 17. ágúst og spurst fyrir um umsókn sína. Hún hafi talið að hún væri ennþá til vinnslu en enginn hafi sagt henni frá samskiptunum við fyrirtækið. Kærandi hafi skilað inn bankayfirliti síðustu fjögurra mánaða sem uppfylltu skilyrði umsóknarinnar. Hún kveðst fá tekjur úr bónus kerfi fyrirtækisins og að sumir bónusarnir séu greiddir út í reiðufé, t.d. árslokabónus. Bónusinn sé breytilegur eftir frammistöðu starfsmanns en hann sé ávallt hluti af árslaunum hennar. Varðandi fasteignina þá sé áreiðanlegra að kanna það hjá nefnd um fasteignir. Kærandi telji fulltrúa sendiráðsins hafa tekið ákvörðun á grundvelli rangra ályktana. Af hálfu kæranda er því haldið fram að hún vilji ekki yfirgefa land sitt en hana langi þó að sjá heiminn og deila honum með fjölskyldu og vinum og létta á vinnuálagi. Hún elski landið sitt og fjölskyldu sína mjög mikið og hún muni aldrei yfirgefa þau. Aldraðir foreldrar hennar séu í Kína á meðan hún ferðist. Þar að auki hafi kærandi skipulagt ferðina í þaula, hún hafi bókað hótel, flugmiða báðar leiðir og skipulagt akstursleið. Hún hafi borgað meirihluta kostnaðarins nú þegar og hafi eytt miklum tíma í að skipuleggja ferðina. Misskilningur og ákvarðanir sem teknar hafi verið í flýti muni ekki aðeins valda henni fjárhagstjóni, heldur einnig tjóni fyrir ferðamannaiðnaðinn á Íslandi.

V. Niðurstaða

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Það leiðir af fyrirmælum 13. gr. stjórnsýslulaga að hafi nýjar upplýsingar bæst við í máli án þess að aðila sé kunnugt um það ber stjórnvaldi að hafa frumkvæði að því að kynna aðila slíkar upplýsingar og gefa honum kost á að tjá sig um þær, ef um er að ræða upplýsingar sem eru aðila í óhag og ætla má að muni hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins. Samkvæmt niðurlagi 13. gr. stjórnsýslulaga er ekki skylt að gefa aðila kost á að tjá sig ef afstaða hans og rök fyrir henni liggja fyrir í gögnum málsins eða slíkt sé augljóslega óþarft. Framangreindar undantekningar frá andmælarétti ber almennt að skýra þröngt.

Í máli þessu aflaði sendiráð Íslands í Kína upplýsinga um aðstæður kæranda varðandi atvinnu hennar og fjárhag. Þessar upplýsingar voru kæranda í óhag og höfðu verulega þýðingu við úrlausn máls. Gögn málsins, þ.m.t. útskýringar sendiráðs Íslands í Kína, benda ekki til þess að kæranda hafi verið gefinn kostur á að taka afstöðu til þessara nýju gagna eins og þörf var á í ljósi eðlis þeirra og innihalds.

Kærunefnd telur því að meðferð málsins hafi ekki verið í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Þá telur kærunefnd að ekki sé ljóst að niðurstaða málsins hefði orðið hin sama ef kæranda hefði verið gefinn kostur á að tjá sig um gögnin.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Við meðferð máls kæranda fyrir kærunefnd kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum við þær upplýsingar sem Útlendingastofnun byggði á við ákvörðun sína. Kærunefnd telur að niðurstaða þessa máls velti að nokkru leyti á trúverðugleika þeirra gagna sem kærandi lagði fram til stuðnings útskýringum sínum og að í ljósi uppruna og eðlis gagnanna sé réttaröryggi kæranda betur tryggt með því að það mat fari fram hjá Útlendingastofnun. Kærunefnd telur því að framangreindir annmarkar á ákvörðun Útlendingastofnunar séu þess eðlis að ekki verði bætt úr þeim á fullnægjandi hátt á æðra stjórnsýslustigi. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunin að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s application.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta