Hoppa yfir valmynd

Nr. 190/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 24. apríl 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 190/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18020055

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 20. febrúar 2018 kærði […], er kveðst vera fæddur […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. janúar 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Ítalíu.Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. og 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga.Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og málið sent til nýrrar meðferðar með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um alþjóðlega vernd hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 14. apríl 2017. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun dagana 27. júní 2017 og 24. ágúst s.á., ásamt talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 4. október 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Ítalíu. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu, þann 2. nóvember 2017, til kærunefndar útlendingamála. Með úrskurði kærunefndar nr. 692/2017, dags. 12. desember 2017, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og stofnuninni gert að taka mál kæranda til meðferðar á ný.Þann 30. janúar 2018 tók Útlendingastofnun ákvörðun í máli kæranda á ný þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og að hann skyldi endursendur til Ítalíu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 6. febrúar 2018 og kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 20. febrúar s.á. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 5. mars 2018, ásamt fylgigögnum. Þann 4. apríl sl. bárust kærunefnd auk þess upplýsingar frá Útlendingastofnun um málsmeðferð í máli kæranda. Þá bárust viðbótarathugasemdir frá talsmanni kæranda þann 23. apríl 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í málinu lægi fyrir að kæranda hefði verið veitt viðbótarvernd á Ítalíu og dvalarleyfi með gildistíma til 21. nóvember 2021.Það var niðurstaða Útlendingastofnunar að því er varðaði aldursgreiningu í máli kæranda að uppgefinn fæðingardagur teldist ekki réttur, enda lægi fyrir að kærandi hefði undirgengist aldursgreiningu hjá Tannlæknadeild Háskóla Íslands, þann 10. maí 2017, og lægi niðurstaða hennar fyrir í málinu. Það væri mat rannsakenda, skv. niðurstöðu aldursgreiningar, að kærandi væri eldri en 18 ára. Með vísan til upplýsinga um kæranda og fyrirliggjandi gagna, þ. á m. framlagðra ítalskra ferðaskilríkja kæranda, var það niðurstaða Útlendingastofnunar að fjalla um mál hans sem fullorðins einstaklings.Í ákvörðun Útlendingastofnunar var byggt á því að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd á Ítalíu og þar með leyfi til að stunda atvinnu og afla sér húsnæðis. Þá nytu einstaklingar með alþjóðlega vernd sama réttar og ítalskir ríkisborgarar til félagslegrar aðstoðar og heilbrigðisþjónustu, eftir að hafa skráð sig í sjúkratryggingakerfið. Þá var vísað til þess í ákvörðun stofnunarinnar að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði slegið því föstu að 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu legði ekki skyldu á aðildarríki að sjá öllum sem dvelji innan lögsögu þeirra fyrir heimili og ekki almenna skyldu að veita viðurkenndum flóttamönnum fjárhagsaðstoð í því skyni að gera þeim kleift að viðhalda tilteknum lífskjörum. Það var mat Útlendingastofnunar að 42. gr. laga um útlendinga kæmi ekki í veg fyrir að kærandi yrði sendur aftur til Ítalíu. Þá var það mat stofnunarinnar að kærandi væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu, í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, sem þolandi pyndinga og vegna persónulegra eiginleika og aðstæðna hans. Það var hins vegar mat Útlendingastofnunar að sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ættu ekki við um mál kæranda.

Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Kæra frestaði réttaráhrifum, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að þrátt fyrir niðurstöður aldursgreiningar sé kærandi barn að aldri og viti að fæðingardagur hans sé […]. Þegar hann hafi komið til Ítalíu þann 14. október 2015 hafi honum verið úthlutað númerinu 19 sem hafi merkt að hann hafi verið nítjándi einstaklingurinn til að stíga frá borði skipsins þegar hann hafi komið að landi á Ítalíu. Sú tala hafi verið rituð í gögnum um hann og upp frá því hafi hann verið talinn 19 ára gamall. Í gögnum frá Ítalíu sé hann því skráður með fæðingardaginn […], sem sé ekki hans rétti fæðingardagur. Þá er af hálfu kæranda tekið fram að hann sé mjög grannur og barnslegur.

Þá rekur kærandi í greinargerð sinni ástæður flótta síns frá heimaríki. Foreldrar kæranda hafi verið myrtir af liðsmönnum hryðjuverkasamtakanna […]. Þá hafi kærandi verið færður af liðsmönnum samtakanna til […] þar sem hann hafi verið frelsissviptur og pyndaður en hann beri þess glögglega merki á líkama sínum. Kærandi hafi loks flúið sjóleiðis frá […] til Ítalíu með aðstoð samlanda sinna. Kærandi hafi dvalið eitt og hálft ár á Ítalíu, þar af eitt ár og þrjá mánuði á spítala vegna […]. Þá hafi hann […] þar í landi vegna veikindanna. Þegar kærandi hafi útskrifast af spítalanum hafi hann dvalið í skýli á kirkjulóð og fengið að borða í kirkjunni tvisvar á dag. Þá hafi Rauði krossinn útvegað honum 20 evrur á mánuði. Hafi kærandi loks yfirgefið Ítalíu þar sem hann hafi verið heimilislaus og ekki verið fært að búa lengur við framangreindar aðstæður enda mjög máttfarinn og veikur.

Hvað varðar frelsissviptingu og pyndingar sem kærandi hafi þurft að sæta vísar hann til viðbótarviðtals við hann hjá Útlendingastofnun, dags. 24. ágúst 2017. Kærandi hafi orðið fyrir miklu áfalli í kjölfar framangreindra atburða, bæði andlega og líkamlega. Hann hafi þó notið sálfræðiaðstoðar á Ítalíu. Hvað varðar líkamlegt heilsufar sitt vísar kærandi m.a. til framlagðra komunótna frá Göngudeild sóttvarna.

Þá gerir kærandi í greinargerð sinni athugasemd við mat Útlendingastofnunar á trúverðugleika frásagnar hans og rannsókn stofnunarinnar í máli hans. Í ákvörðun Útlendingastofnunar komi m.a. fram að gögn málsins bendi ekki til þess að kærandi glími enn við […], sem hann hafi fengið meðferð við á Ítalíu. Til stuðnings athugasemdum sínum vísar kærandi m.a. til 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga, sbr. 6. tölul. 3. gr. sömu laga, og úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 611/2017, dags. 21. nóvember s.á. Af framlögðum gögnum megi sjá að kærandi eigi tíma hjá sálfræðingi þann 23. apríl næstkomandi. Þá gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á aldri hans og leggur fram beiðni um endurmat á aldri. Enn fremur gerir kærandi athugasemd við umfjöllun í hinni kærðu ákvörðun um ákvæði 36. og 42. gr. laga um útlendinga.

Til stuðnings kröfu sinni um efnismeðferð byggir kærandi m.a. á sérstökum ástæðum, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í málinu sé óumdeilt að kærandi sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Hann hafi verið á flótta frá barnsaldri, hafi orðið fyrir pyndingum á flótta og glími við […]. Þá sé alkunna að aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna á Ítalíu séu afar slæmar og hafi íslensk stjórnvöld ekki endursent fólk sem teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu til Ítalíu um árabil. Þá vísar kærandi til umfjöllunar um sérstakar ástæður í lögskýringargögnum að baki lögum um útlendinga, svo og laga nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga nr. 80/2016, og lögskýringargagna þar að lútandi. Fallist kærunefnd ekki á að taka umsókn kæranda til efnislegrar meðferðar eingöngu á grundvelli þess að hann sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu telji kærandi að taka beri mál hans til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna þar sem hann komi til með að eiga erfitt uppdráttar á Ítalíu. Þá fjallar kærandi um ástand hæliskerfisins á Ítalíu og aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks þar í landi, sem séu mjög bágbornar. Með vísan til heilsufars, ungs aldurs, atburða sem hann hafi mátt þola, viðkvæmrar stöðu og aðstæðna sem bíði hans á Ítalíu byggir kærandi á því að í máli hans séu fyrir hendi sérstakar ástæður, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir enn fremur á því að ekki megi senda hann til Ítalíu vegna non-refoulement reglu þjóðaréttar. Vísar kærandi í því sambandi til 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1992, skýrslu flóttamannaráðs Sviss frá því í ágúst sl., tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 2011/95/EB og ákvörðunar Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Naima Mohammed Hassan o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (mál nr. 40524/10) frá 27. ágúst 2013. Í framangreindri ákvörðun Mannréttindadómstólsins sé byggt á því að ítalskt dvalarleyfi veiti viðurkenndum flóttamönnum sömu réttarstöðu og ítalskir ríkisborgarar njóta en kærandi bendi á að flóttafólk sé í allt annarri og mun viðkvæmari stöðu.

Til stuðnings varakröfu sinni vísar kærandi m.a. til 10. gr. stjórnsýslulaga og úrskurðar kærunefndar nr. 611/2017 frá 21. nóvember sl. Kærandi byggi á því að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöld geta þó, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn á grundvelli 40. gr. við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum. Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar. Af 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur kærunefnd útlendingamála túlkað ákvæðið með þeim hætti að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis enda sé flutningurinn á ábyrgð stjórnvalda.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi þann 14. apríl 2017. Því eru liðnir rúmlega 12 mánuðir frá því að umsókn kæranda barst fyrst íslenskum stjórnvöldum. Kærunefnd hefur farið yfir meðferð málsins fyrir stjórnvöldum, m.a. upplýsingar frá Útlendingastofnun, og verður kærandi ekki talinn bera ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsóknarinnar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Skilyrði ákvæðisins eru því uppfyllt í máli kæranda. Það er því niðurstaða kærunefndar að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda og leggja fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu telur kærunefnd ekki tilefni til þess að fjalla sérstaklega um athugasemdir kæranda varðandi ákvörðun Útlendingastofnunar.

Samantekt

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s application for international protection in Iceland.

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal                                                                           Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta