Mál nr. 579/2022-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 579/2022
Miðvikudaginn 19. apríl 2023
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 8. desember 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. ágúst 2022 á umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn 13. maí 2022. Tryggingastofnun synjaði umsókn kæranda með bréfi, dags. 16. júní 2022, á þeim grundvelli að endurhæfing hefði ekki verið fullreynd. Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri frá 1. maí 2022 með umsókn 3. ágúst 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. ágúst 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að fyrirliggjandi endurhæfing teldist ekki nógu ítarleg og óljóst væri hvernig endurhæfing kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað. Kærandi óskaði eftir endurskoðun á ákvörðuninni með bréfi, dags. 30. ágúst 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 8. september 2022, var beiðni kæranda um endurskoðun vegna synjunar á endurhæfingarlífeyri móttekin og óskaði stofnunin jafnframt eftir frekari gögnum. Í bréfinu kom fram að bærust gögnin ekki innan 30 daga frests yrði umsókninni vísað frá. Ekki yrði tilkynnt sérstaklega um frávísun umsóknarinnar heldur yrði afgreiðslu hennar lokið með bréfinu, bærust gögnin ekki innan frestsins.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. desember 2022. Með bréfi, dags. 14. desember 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. janúar 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. janúar 2023. Athugasemdir bárust ekki.
Með bréfi, dags. 23. febrúar 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um hvaða ákvörðun kærandi óskaði endurskoðunar á. Einnig var kæranda tilkynnt að kærufrestur væri liðinn hvað varðaði þær ákvarðanir sem teknar hefðu verið fyrir 8. september 2022 og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gætu átt við í málinu. Bréfið var ítrekað 16. mars 2023. Engin svör bárust frá kæranda.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru greinir kærandi frá því að hún óski eftir því að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn hennar verði endurskoðuð.
Árið 2019 hafi kærandi verið greind með vefjagigt eftir að hafa átt erfitt með vinnu. Í lok árs 2019 hafi hún farið í veikindaleyfi. Kærandi hafi leitað til lækna og í kjölfarið verið greind með vefjagigt. Kærandi hafi leitað sér hjálpar þar sem vilji hennar sé að fara aftur á vinnumarkað. Samhliða veikindaleyfi frá vinnu hafi kærandi fengið stuðning frá stéttarfélagi sínu árið 2020. Þeim réttindum hafi lokið síðla sama árs. Líðan kæranda hafi sífellt versnað. Í byrjun árs 2021 hafi kærandi komist inn hjá B og á svipuðum tíma hafi hún fyrst fengið greiðslur vegna endurhæfingarlífeyris.
Á meðan hún hafi verið í endurhæfingu hjá B hafi verið sótt um fyrir hana hjá C svo að hún gæti fengið frekari aðstoð vegna vefjagigtarinnar. Biðtími til að komast í úrræði hjá C sé að minnsta kosti þrjú ár og sé hún enn á biðlista. Síðustu upplýsingar varðandi það úrræði séu þær að enn sé um eitt ár í að kærandi komist að. Kærandi hafi verið hjá B þangað til í byrjun árs 2022. Samkvæmt niðurstöðu hjá B hafi meðferðin ekki borið árangur og þar verði starfsendurhæfingu ekki náð.
Kærandi hafi sótt um áframhaldandi endurhæfingarlífeyri þar sem hún hafi enn verið óvinnufær. Tryggingastofnun hafi neitað þeirri umsókn kæranda þar sem endurhæfing hennar hafi ekki verið talin líkleg til árangurs. Kærandi geti ekki verið án tekna og því hafi hún sótt um örorkulífeyri. Tryggingastofnun hafi neitað þeirri umsókn þar sem endurhæfing væri ekki fullreynd. Í kjölfarið hafi kærandi sótt um endurhæfingarlífeyri að nýju en Tryggingastofnun hafi einnig neitað þeirri umsókn.
Hverfandi sem engar líkur séu á að kærandi komist aftur á vinnumarkað. Að minnsta kosti sé eins árs bið í að kærandi komist að í endurhæfingu hjá C. Sú endurhæfing sé miðuð að því að kenna fólki sem glími við vefjagigt að lifa með henni og sinna daglegu lífi sínu og sætta sig við það.
Einu tekjur kæranda séu frá lífeyrissjóði hennar. Þar sé kærandi metin 75% öryrki og fái greiddar tæpar 100.000 kr. mánaðarlega eftir skatt. Þessar aðstæður séu erfiðar fyrir kæranda og valdi miklu álagi. Þetta hafi slæmar afleiðingar á vefjagigt hennar þar sem hún aukist við álag. Kærandi hafi ekki getað sinnt sjúkraþjálfun vegna peningaleysis. Því verði hún að fá viðtal hjá sálfræðingi í D í gegnum netið þar sem hún hafi ekki efni á slíkri þjónustu á E. Tekjur þeirra hjóna séu ekki háar og allar tekjur eiginmanns hennar fari í húsaleigu. Þær lágu greiðslur sem kærandi fái greiddar dugi ekki út hálfan mánuðinn. Þetta sé sorgleg staða og kærandi sé ráðþrota og andlega og líkamlega þreytt.
Kærandi óski eftir endurhæfingarstyrk þar sem hún sé á reglulegum fundum hjá sálfræðingi einu sinni í viku og reyni að fara á reglulega fundi hjá sjúkraþjálfara ef fjárhagur leyfi. Þar að auki sé kærandi byrjuð hjá klínískum næringarfræðingi í gegnum netið frá D. Kærandi sé einnig í meðferð hjá taugalækni hjá F sem hjálpi henni við að meðhöndla sársauka og stífleika vegna vefjagigtar.
Kærandi telji Tryggingastofnun hafa tekið yfirborðslega og kærulausa ákvörðun. Ráðgjafi stofnunarinnar sem kærandi hafi talað við í síma hafi verið hrokafullur og lagt á.
Fyrsta ákvörðun Tryggingastofnunar hafi varðað endurhæfingarlífeyri. Þó að kærandi eigi ekki möguleika á að snúa aftur til vinnu vegna heilsu sinnar og hafi sótt um endurhæfingarlífeyri til að bæta lífsgæði sín hafi Tryggingastofnun þótt það tilefni til neitunar. Kærandi hafi beðið eftir inngöngu í C í tvö ár og þurfi að minnsta kosti að bíða í eitt ár til viðbótar.
Önnur ákvörðun Tryggingastofnunar hafi varðað endurhæfingargreiðslur þar sem kærandi vilji tryggja eðlilega endurhæfingu hjá sjúkraþjálfara, sálfræðingi og taugalækni. Stofnunin hafi einnig synjað beiðni hennar um þetta þar sem engin sérstök skilyrði væru fyrir því að verða að beiðni hennar.
Heimilislæknir kæranda sé undrandi yfir þessum ákvörðunum Tryggingastofnunar og haldi því fram að stofnunin hafi tekið tvær misvísandi ákvarðanir. Sjónarmið læknis kæranda sýni að hvorki umsókn um örorkulífeyri né umsókn um endurhæfingarstyrk hafi verið tekin fyrir af kostgæfni hjá starfsmönnum Tryggingastofnunar og þeir hafi einungis ætlað sér að losa sig við kæranda.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að mál þetta varði ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. júní 2022 þar sem kæranda hafi verið synjað um framlengingu á greiðslum endurhæfingarlífeyris þar sem skilyrði 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið uppfyllt, en þar segi að umsækjandi skuli taka þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði.
Tryggingastofnun hafi einnig synjað beiðni kæranda um örorku, dags. 16. júní 2022, og vísi til þess að fullnægjandi endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.
Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur.
Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.
Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.
Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Þar segi:
„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.“
Um endurhæfingarlífeyri gildi ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Um aðrar tengdar bætur fari eftir sömu reglum og gildi um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hafi ekki áhrif á bótagreiðslur.
Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt, til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. sé skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.
Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun sé fjallað um í reglugerð nr. 661/2020. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Þá tiltaki 6. gr. reglugerðarinnar hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar.
Þá sé í 37. gr. almannatryggingalaga meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum sem stofnunin starfi eftir ásamt reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans og þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í þessu máli.
Kærandi hafi sótt um örorkumat til Tryggingastofnunar með umsókn þann 13. maí 2022. Örorkumati hafi verið synjað samkvæmt 18. og 19. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þar sem í tilviki kæranda hafi nægjanleg endurhæfing ekki verið reynd varðandi örorkumat. Í því samhengi vísi stofnunin á endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.
Af gögnum málsins sé ekki að sjá að reynt hafi verið að taka á heilsufarsvanda kæranda með skipulögðum og markvissum hætti með starfshæfni að markmiði.
Í synjunarbréfi Tryggingastofnunar frá 16. júní 2022 komi fram að heimilt sé að setja það sem skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi. Jafnframt komi fram upplýsingar um að á læknisvottorði komi fram að kærandi glími við geðrænan vanda, stoðkerfiseinkenni og fleira og að í bígerð sé að kærandi fari í meðferð hjá C. C sé miðstöð vefjagigtar og tengdra sjúkdóma sem bjóði upp á faglega og markvissa einstaklingsmiðaða heilbrigðisþjónustu fyrir fólk með vefjagigt og tengda sjúkdóma í þeim tilgangi að auka lífsgæði þess og færni til daglegra athafna.
Við mat á umsókn um örorku hafi legið fyrir læknisvottorð, dags. 3. maí 2022, umsókn, dags. 13. maí 2022, spurningalisti vegna færniskerðingar, dags. 16. maí 2022, læknabréf, dags. 27. maí 2022, og önnur fylgigögn, dags. 9. júní 2022.
Tryggingastofnun telji að hægt sé að taka á þeim heilsufarsvandamálum kæranda sem nefnd séu í læknisvottorði með endurhæfingarúrræðum. Það verði að teljast eðlilegt skilyrði að kærandi gangist undir frekari endurhæfingu áður en hún verði metin til örorku. Þar af leiðandi telji Tryggingastofnun ekki heimilt að meta örorku kæranda áður en sýnt hafi verið fram á að endurhæfing hennar sé fullreynd. Beiðni kæranda um örorkumat hafi þar af leiðandi verið synjað með bréfum Tryggingastofnunar, dags. 16. júní og 21. júlí 2022.
Við mat á umsókn um endurhæfingarlífeyri þann 15. júní 2022 hafi legið fyrir endurhæfingaráætlun með beiðni um framlengingu á greiðslum endurhæfingarlífeyris, auk umsóknar um örorkulífeyri og annarra gagna.
Í synjun Tryggingastofnunar komi fram að ekki þyki rök fyrir því að framlengja endurhæfingartímabil þar sem fram komi í öðrum gögnum að umsækjandi hafi sótt um örorku og sé því ekki á leið á vinnumarkað. Mat Tryggingastofnunar hafi verið að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri þar sem skilyrði hafi ekki verið uppfyllt, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.
Kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri með umsókn, dags. 23. mars 2022, og aftur með umsókn, dags. 3. ágúst 2022. Í læknisvottorði sem hafi fylgt með umsókn, dags. 28. mars. 2022, komi fram ýmsar upplýsingar um stoðkerfiseinkenni, geðrænan vanda og fleira. Á grundvelli fyrirliggjandi læknisvottorðs sé það mat Tryggingastofnunar að meðferð/endurhæfing sé ekki að fullu reynd og þess vegna sé ekki tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda. Í bréfi, dags. 21. júlí 2022, þar sem umsókn kæranda um örorku hafi verið synjað, hafi kæranda verið bent á reglur um endurhæfingarlífeyri.
Með bréfi, dags. 16. ágúst 2022, hafi Tryggingastofnun synjað kæranda um frekari framlengingu á endurhæfingu. Í synjunarbréfi Tryggingastofnunar komi fram að kærandi hafi áður fengið metið endurhæfingartímabil í átján mánuði. Jafnframt hafi verið bent á í bréfinu að heimilt væri að framlengja greiðslutímabil fram yfir átján mánuði ef sérstakar ástæður væru fyrir hendi. Þar að auki komi fram að við skoðun á máli kæranda þyki ekki rök fyrir því að meta endurhæfingartímabil fram yfir fyrstu átján mánuðina vegna sérstakra aðstæðna þar sem fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun teljist ekki vera nógu ítarleg í ljósi heildarvanda kæranda og óljóst sé hvernig endurhæfing komi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað. Umsókn kæranda hafi því verið synjað með vísan til framangreinds, en athygli hafi verið vakin á því að ef breyting verði á endurhæfingu eða aðstæðum kæranda sé hægt að leggja inn nýja umsókn og endurhæfingaráætlun, auk gagna frá fagaðilum sem staðfesti virka þátttöku í endurhæfingu.
Samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris að umsækjandi taki þátt í starfsendurhæfingu með það að markmiði að stuðla að aukinni starfshæfni hans.
Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 661/2020 skuli endurhæfingaráætlun ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða þeim heilsubresti sem valdi skertri starfshæfni hans. Leitast skuli við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni.
Tryggingastofnun líti svo á að ekki sé verið að taka nægilega á þeim heilsufarsþáttum sem hafi valdið óvinnufærni með utanumhaldi fagaðila og ekki sé verið að taka á heildarvanda kæranda.
Endurhæfingarlífeyrir taki mið af því tímabili sem viðkomandi taki þátt í skipulagðri starfsendurhæfingu undir handleiðslu fagaðila þar sem tekið sé markvisst á þeim heilsufarsvanda sem valdi óvinnufærni. Óvinnufærni ein og sér veiti ekki rétt til greiðslna endurhæfingarlífeyris.
Skýrt sé í lögum og reglugerð um endurhæfingarlífeyri að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila. Því hafi Tryggingastofnun álitið að 7. gr. laga um félagslega aðstoð hafi ekki verið uppfyllt.
Til að fá endurhæfingarlífeyri og framhald á greiðslum endurhæfingarlífeyris um átján mánuði til viðbótar þurfi kærandi að stunda endurhæfingu með starfshæfni að markmiði til að uppfylla skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris. Óvinnufærni ein og sér veiti ekki rétt til greiðslna endurhæfingarlífeyris. Endurhæfingarlífeyrir hjá Tryggingastofnun taki þannig mið af því tímabili sem viðkomandi taki þátt í skipulagðri endurhæfingu með utanumhaldi fagaðila þar sem áhersla sé lögð á endurkomu á vinnumarkað. Jafnframt skuli endurhæfingaráætlun miða að því að taka á vanda umsækjanda hverju sinni og innihalda endurhæfingarþætti sem séu til þess fallnir að styðja við þá nálgun. Í máli kæranda hafi umsókn hennar um örorkumat verið synjað þar sem endurhæfingin teldist ekki hafa verið fullreynd miðað við heilsufarsvanda kæranda, önnur gögn og staðreyndir málsins.
Tryggingastofnun telji ljóst að stofnunin hafi synjað umsókn um örorku í samræmi við lög og reglugerðir og synjun á áframhaldandi endurhæfingarlífeyri hjá kæranda sé í samræmi við lög um félagslega aðstoð, lög um almannatryggingar, reglugerða og í samræmi við innsendar endurhæfingaráætlanir.
Tryggingastofnun bendi á að ef breyting verði á endurhæfingu eða aðstæðum kæranda geti hún lagt inn nýja umsókn og endurhæfingaráætlun, auk gagna frá fagaðilum sem staðfesti virka þátttöku í starfsendurhæfingu og verði málið þá tekið fyrir að nýju.
IV. Niðurstaða
Kæru fylgdu ýmsar ákvarðanir frá Tryggingastofnun ríkisins. Úrskurðarnefnd velferðarmála óskaði með bréfi, dags. 23. febrúar 2023, sem ítrekað var 16. mars 2023, eftir upplýsingum frá kæranda um hvaða ákvörðun hún óskaði endurskoðunar á en engin svör bárust. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af kæru að kærandi óski endurskoðunar á ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. ágúst 2022 um að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri, enda kemur fram í kæru að hún óski eftir endurhæfingarstyrk.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.
Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.
Samkvæmt 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 rofnar kærufrestur þegar aðili óskar eftir endurupptöku máls innan kærufrests. Hafni stjórnvald að taka mál til meðferðar á ný heldur kærufrestur áfram að líða að nýju frá þeim tíma þegar sú ákvörðun er tilkynnt aðila.
Samkvæmt gögnum málsins liðu 14 dagar frá hinni kærðu ákvörðun 16. ágúst 2022 þar til kærandi óskaði eftir endurupptöku með bréfi, dags. 30. ágúst 2022, og rauf kærufrestinn. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins frá 8. september 2022 felist synjun um endurupptöku og þá hófst kærufrestur aftur að líða. Þegar kæra barst úrskurðarnefndinni 8. desember 2022 var þriggja mánaða kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar liðinn, þrátt fyrir að tekið sé tillit til rofs á kærufresti, sbr. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.
Í 28. gr. stjórnsýslulaga segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort atvik séu með þeim hætti að afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.
Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 16. ágúst 2022 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. febrúar 2023, sem ítrekað var 16. mars 2023, var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hún að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu. Hvorki bárust athugasemdir né gögn frá kæranda.
Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að afsakanlegt sé að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, enda virðist ekkert vera því til fyrirstöðu að kærandi geti sótt um endurhæfingarlífeyri að nýju.
Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, um endurhæfingarlífeyri, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir