Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 151/2021 - Úrskurður

 

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 151/2021

Miðvikudaginn 15. september 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. maí 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. febrúar 2021 um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Þann 26. janúar 2021 barst Tryggingstofnun ríkisins frá B umsókn kæranda um örorkulífeyri á eyðublaði P 2200. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. febrúar 2021, var kæranda synjað um lífeyrisgreiðslur á þeim grundvelli að kærandi uppfyllti ekki það skilyrði örorkulífeyrisgreiðslna samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa að hafa verið búsettur á Íslandi í að minnsta kosti eitt ár.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. mars 2021. Með bréfi, dags. 23. mars 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 6. apríl 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. apríl 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru segir að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. febrúar 2021. Um mistök sé að ræða, en kærandi hafi unnið á Íslandi á eftirtöldum stöðum:

2006 – C, fimm mánuðir

2007 – D, fimm mánuðir

2007 – E, um einn mánuð

2008 - E, um einn mánuð

2008 F, átta mánuðir.

Kærandi hafi verið búsettur á Íslandi og hafi gögn sem sýni að ákvörðunin sé röng. Í því sambandi vísar kærandi í fylgigögn sem sýni vinnusamninga á tímabilinu 2007 til 2008.

Kærandi hafi misst vinnuna á D á árinu 2007 en G hafi hjálpað honum með að fá laun hans frá vinnuveitandanum. Kærandi hafi spurt G hvort hægt væri að fá gögn frá þeim. Einnig geti nefndin spurt um gögn frá G.

Kærandi hafi misst vinnu sína á árinu 2006 á C en hafi sent ósk um gögn frá þeim sem sýni fram á vinnu hans þar. Nefndin geti einnig óskað eftir því.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um synjun á greiðslu örorkulífeyris til kæranda.

Samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé búseta skilgreind sem lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur nema sérstakar ástæður leiði til annars.

Samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar ávinnast full réttindi með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann.

Samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar eiga einstaklingar búsettir á Íslandi rétt til örorkulífeyris. Í 4. mgr. 18. gr. laganna sé kveðið á um að við ákvörðun búsetutíma skuli reikna með tímann fram til ellilífeyrisaldurs umsækjanda, sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna.

Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar skal þess gætt að umsækjandi, sem áunnið hafi sér rétt hjá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, hafi lagt fram umsókn um áunnin réttindi hjá viðkomandi lífeyrissjóðum og sé Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til upplýsingar um það liggja fyrir, sbr. 41. gr.

Í lögum nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur komi fram í 2. gr. laganna að lögheimili sé sá staður þar sem einstaklingur hafi fasta búsetu og ekki sé heimilt að eiga lögheimili á Íslandi á fleiri en einum stað í senn. Óheimilt sé einnig að eiga lögheimili á Íslandi eigi viðkomandi lögheimili erlendis.

Í EB reglugerð nr. 883/2004 um framkvæmd almannatrygginga komi eftirfarandi fram í 57. gr. reglugerðarinnar er varði trygginga- eða búsetutímabil sem séu skemmri en eitt ár. Þar segi að þrátt fyrir ákvæði b-liðar 1. mgr. 52. gr. sé stofnun í aðildarríki ekki skylt að veita bætur vegna tímabila sem lokið sé samkvæmt þeirri löggjöf sem hún starfi eftir og tekið sé tillit til þegar áhættan komi fram, ef umrædd tímabil séu ekki lengri en eitt ár og þessi tímabil ein og sér nægi ekki til að viðkomandi eigi rétt til bóta samkvæmt þeirri löggjöf.

Málavextir séu þeir að með bréfi, dags. 18. febrúar 2021, hafi Tryggingastofnun synjað kæranda um örorkulífeyri en umsókn um örorkulífeyri á eyðublaði P 2200 (invalidity pension claim) hafi borist stofnuninni 26. janúar 2021 frá H í B þar sem kærandi sé nú búsettur. Í synjunarbréfinu hafi verið greint frá því að samkvæmt lögum um almannatryggingar og Evrópureglugerð um framkvæmd almannatrygginga nr. 883/2004 þurfi tryggingatímabil að ná einu ári svo að viðkomandi geti átt rétt til örorkugreiðslna. Jafnframt sem greint hafi verið frá því að kærandi hafi einungis haft lögheimili hér á landi frá apríl 2008 til nóvember 2008. Í bréfinu hafi einnig verið getið um að umsókn um örorkulífeyri hefði verið framsend á lífeyrissjóði þar sem umsókn um örorkulífeyri til Tryggingastofnunar væri einnig umsókn til viðkomandi lífeyrissjóða. 

Í 17. gr. laga um almannatryggingar komi fram að full réttindi ávinnist með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Með búsetu sé átt við lögheimili eins og það sé skilgreint í lögum um lögheimili, sbr. 2. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili. Kærandi uppfylli hvorki skilyrði um lögheimili hér á landi né nái heldur skilyrði um eins árs búsetu hér á landi, sbr. ákvæði er komi fram í 57. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004 um að stofnun í aðildarríki sé ekki skylt að veita bætur vegna tímabila sem ekki séu lengri en eitt ár og þessi tímabil ein og sér nægi ekki til að viðkomandi eigi rétt til bóta samkvæmt þeirri löggjöf. 

Samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar eigi einstaklingar búsettir á Íslandi rétt til örorkulífeyris. Í 4. mgr. 18. gr. laganna sé kveðið á um að við ákvörðun búsetutíma eigi að reikna með tímanum fram til ellilífeyrisaldurs umsækjanda, sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laganna eigi þeir rétt til örorkulífeyris sem hafi verið búsettir á Íslandi, séu 18 ára eða eldri en hafi ekki náð ellilífeyrisaldri, sbr. 17. gr. laganna, og hafi verið búsettir á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka hafi verið óskert er þeir tóku hér búsetu.

Kærandi uppfylli ekki skilyrði um lágmarksbúsetu hér á landi sem veiti honum rétt til örorkulífeyris samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar. Upplýsingar frá Þjóðskrá um skráningu á lögheimili kæranda séu frá 7. apríl 2008 til 25. nóvember 2008, eða sem nemi 7 mánuðum og 18 dögum. Tryggingastofnun fari eftir opinberri skráningu á lögheimili kæranda eins og það sé skráð hjá Þjóðskrá. Það sé hins vegar á ábyrgð kæranda að sjá til þess að lögheimili sé rétt skráð en bent skuli á að ekki sé heimilt að eiga lögheimili á Íslandi á fleiri en einum stað í senn. Óheimilt sé einnig að eiga lögheimili á Íslandi, eigi viðkomandi lögheimili erlendis.

Fyrirliggjandi gögn séu umsókn um örorkulífeyri P 2200 frá H í B, dags. 26. janúar 2021, greiðsluyfirlit lífeyrissjóða, upplýsingar frá Þjóðskrá um skráningu á lögheimili og synjunarbréf frá Tryggingastofnun frá 18. febrúar 2021.

Þegar Tryggingastofnun úrskurði um það hvort einstaklingur eigi rétt til örorkulífeyris/ellilífeyris hér á landi verði stofnunin að afla gagna um skráningu á lögheimili hér á landi hjá Þjóðskrá. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi kærandi einungis haft lögheimili hér á landi frá apríl 2008 til nóvember 2008 og þar af leiðandi hafi engin ávinnsla á réttindum orðið er veiti rétt til greiðslu á örorku- eða ellilífeyri samkvæmt lögum um almannatryggingar þar sem tímabilið nái ekki einu ári. Lífeyrisréttindi kæranda séu þar af leiðandi ekki á Íslandi heldur í öðrum EES ríkjum, meðal annars í B og I.

Tryggingastofnun hafi framsent umsókn kæranda til viðeigandi lífeyrissjóða sem kærandi hafi greitt í en þeir séu J, K og L.

Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar skuli þess sérstaklega gætt að umsækjandi, sem áunnið hafi sér rétt hjá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, hafi lagt fram umsókn um áunnin réttindi hjá viðkomandi lífeyrissjóðum.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða telji Tryggingastofnun að kærandi hafi fengið rétta afgreiðslu á sínum málum með tilliti til þeirra laga og reglna sem í gildi séu. 

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. febrúar 2021 á umsókn kæranda um örorkulífeyri.

Í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir svo:

„Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, sbr. I. kafla, eru 18 ára eða eldri en hafa ekki náð ellilífeyrisaldri, sbr. 17. gr. og:

    a. hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu,

    b. eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.“

Samkvæmt framangreindu er það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að umsækjandi hafi verið búsettur á Íslandi í að minnsta kosti þrjú ár áður en umsókn er lögð fram, eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert þegar hann tók búsetu hér á landi. Búseta í öðrum aðildarríkjum EES-samningsins getur einnig komið til skoðunar þegar metið er hvort búsetuskilyrði 18. gr. laga um almannatryggingar sé uppfyllt, sbr. 68. gr. laga um almannatryggingar og 6. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 442/2012. Tryggingastofnun er þó heimilt að gera kröfu um að viðkomandi hafi að minnsta kosti verið búsettur á Íslandi í eitt ár, sbr. 1. mgr. 57. gr. reglugerðar nr. 883/2004, sem hljóðar svo:

„Þrátt fyrir ákvæði b-liðar 1. mgr. 52. gr. er stofnun í aðildarríki ekki skylt að veita bætur vegna tímabila sem lokið er samkvæmt þeirri löggjöf sem hún starfar eftir og tekið er tillit til þegar áhættan kemur fram, ef:

— umrædd tímabil eru ekki lengri en eitt ár,

og

— þessi tímabil ein og sér nægja ekki til að viðkomandi eigi rétt til bóta samkvæmt þeirri löggjöf.

Í þessari grein merkir hugtakið „tímabil“ öll tryggingatímabil, starfstímabil launþega, starfstímabil sjálfstætt starfandi einstaklings eða búsetutímabil sem annaðhvort eru tekin gild vegna viðkomandi bóta eða hækka þær beint.“

Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur nema sérstakar aðstæður leiði til annars, sbr. 5. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur er lögheimili sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu.

Samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá var kærandi skráður með lögheimili á Íslandi á tímabilinu 7. apríl 2008 til 25. nóvember 2008. Af gögnunum verður því ráðið að kærandi hafi einungis verið búsettur á Íslandi í um átta mánuði á árinu 2008.

Kærandi byggir á því að hann unnið á Íslandi með hléum á árunum 2006 til 2008 og liggja fyrir gögn frá M, L og G stéttarfélagi þar sem fram koma upplýsingar um greiðslu iðgjalda með hléum á árunum 2006 til 2009. Samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar ávinnst réttur til örorkulífeyris með búsetu á Íslandi. Tryggingastofnun hefur ekki heimild til að taka tillit til starfstímabils kæranda á Íslandi við mat á því hvort hann hafi áunnið sér rétt til örorkulífeyris. Þá telur úrskurðarnefndin framangreind gögn ekki staðfesta að kærandi hafi verið með fasta búsetu á Íslandi á framangreindu tímabili, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af gögnum málsins að kærandi hafi átt lögheimili á Íslandi í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur í rúmlega átta mánuði. Þar af leiðandi uppfyllir kærandi ekki það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. 57. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004, um að hafa verið búsettur á Íslandi í að minnsta kosti eitt ár. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um örorkulífeyri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta