Hoppa yfir valmynd

Nr. 68/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 27. febrúar 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 68/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20010022

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 591/2019, dags. 19. desember 2019, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. september 2019, um að taka umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 23. desember 2019. Þann 2. janúar 2020 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar. Var þeirri beiðni synjað þann 7. febrúar 2020 með úrskurði kærunefndar nr. 63/2020. Þann 20. janúar 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins, ásamt fylgigögnum.

Af beiðni kæranda um endurupptöku máls hans má ráða að hún byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærunefnd leggur þann skilning í beiðni kæranda og framlagningu gagna að hann byggi beiðni sína um endurupptöku á 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp.

Í beiðni kæranda um endurupptöku greinir kærandi frá læknatímum hans og rannsóknum sem hafi átt sér stað í byrjun janúar sl. Hann þjáist af verkjum í hægri síðu og þau gögn sem hann leggi fram beri með sér að læknir hafi vísað honum í sjúkraþjálfun. Kærandi hefur með beiðni sinni um endurupptöku lagt fram gagn frá heilbrigðisstofnun Suðurnesja, dags. 15. janúar 2020, og niðurstöður blóðrannsóknar. Af beiðni kæranda og framlögðum gögnum má ráða að kærandi telji nýjar upplýsingar komnar fram um heilsufar hans sem eigi að leiða til endurupptöku málsins.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 19. desember 2019. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hann fái hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Til stuðnings beiðni um endurupptöku lagði kærandi fram ný heilsufarsgögn; beiðni um sjúkraþjálfun útgefin af lækni á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, dags. 15. janúar 2020, og niðurstöður blóðrannsóknar, dags. 8. janúar 2020. Í umræddri beiðni um sjúkraþjálfun kemur m.a. fram að kærandi sé með verk í síðu eftir að hafa lent í átökum í [...]. Þá kemur fram að eftir skoðun og frekari rannsókn hafi ekkert marktækt komið í ljós og því sé óskað eftir sjúkraþjálfun til að athuga hvort það geti hjálpað kæranda m.t.t. verkjanna. Það er mat kærunefndar að þær upplýsingar sem koma fram í framangreindum gögnum séu í samræmi við þær upplýsingar sem kærunefnd byggði á þegar nefndin úrskurðaði í máli kæranda hinn 19. desember 2019 en þar kom m.a. fram að í þeim heilsufarsgögnum sem lágu til grundvallar niðurstöðunni kæmi fram að kærandi væri almennt heilbrigður en hefði greint frá verk í síðu og tönn, en hvort tveggja væri afleiðing árásar sem hann hafði orðið fyrir í [...]. Kærunefnd telur því ljóst að þær aðstæður kæranda er varðar heilsufar hans voru lagðar til grundvallar í málinu þá. Kærunefnd telur að þau gögn sem kærandi hefur lagt fram með endurupptökubeiðni sinni séu frekari upplýsingar um það sem þegar hafi legið fyrir við uppkvaðningu úrskurðar í máli hans. Þá séu gögnin ekki til þess fallin að breyta niðurstöðu kærunefndar í málinu. Kærunefnd ítrekar það sem fram kemur í úrskurði nefndarinnar frá 19. desember sl. að umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi rétt á heilbrigðisþjónustu á vegum hins opinbera, til jafns við spænska ríkisborgara og aðra ríkisborgara þriðju ríkja í löglegri dvöl á Spáni.

Í ljósi framangreinds og að teknu tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að fyrrgreind gögn um heilsufar kæranda séu hvorki þess eðlis að úrskurður kærunefndar nr. 591/2019 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, né að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að umræddur úrskurður var birtur, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað. 

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

Áslaug Magnúsdóttir

Ívar Örn Ívarsson                                      Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta