Nr. 56/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 2. febrúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 56/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU22120015
Beiðni [...] um endurupptöku
-
Málsatvik
Með úrskurði nr. 455/2022 í stjórnsýslumáli nr. KNU22090041, uppkveðnum 24. nóvember 2022, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. september 2022, um að synja einstaklingi er kveðst heita [...], vera fædd [...], ríkisborgara Pakistan, um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Úrskurður kærunefndar var sendur talsmanni kæranda 25. nóvember 2022. Hinn 1. desember 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd með úrskurði nr. 37/2023, uppkveðnum 13. janúar 2023.
Hinn 5. desember 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 24. nóvember 2022. Dagana 2., 5., 8., 12., 13., 14., 19. og 21. desember 2022 lagði kærandi fram gögn til kærunefndar. Þá bárust kærunefnd frekari gögn í máli kæranda 6. desember 2022.
Beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
-
Málsástæður og rök kærenda
Í beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar kemur fram að hún hafi ný gögn til að leggja fram í máli sínu. Í fyrsta lagi sé um að ræða fæðingarvottorð frá spítala á hennar heimasvæði á [...] svæðinu í Pakistan þar sem hún kveðst vera fædd og hafi búið á. Hafi fæðingarvottorðið verið gefið út 24. september 2011 og hafi hún notað það til að fá gefin út auðkennisgögn frá NADRA stjórnvaldinu og einnig til að fá útgefið vegabréf. Kærandi kveðst ekki hafi lagt það fæðingarvottorð fram áður fyrir íslensk stjórnvöld. Í öðru lagi leggi kærandi fram fæðingarvottorð sem útgefið sé af [...], dags. 2. desember 2022, og á sama tíma hafi hún fengið staðfest áðurnefnt fæðingarvottorð með útgáfudeginum 24. september 2011. Í þriðja lagi leggi hún fram til sönnunar á auðkenni þriðja vegabréfið sem hún hafi fengið útgefið af pakistanska sendiráðinu í Róm 29. janúar 2020 þar sem fyrsta vegabréfið hennar hafi fallið úr gildi. Vegabréf númer tvö hafi verið tekið til vörslu af Útlendingastofnun og lögreglunni hér á landi og kærandi hafi ekki fengið það afhent þegar hún hafi verið flutt af stjórnvöldum til Svíþjóðar á árinu 2019. Kærandi leggi einnig fram gögn varðandi útgáfu þriðja vegabréfsins á Ítalíu. Í fjórða lagi byggir kærandi endurupptöku sína á því að hún sé nemandi við [...] og leggi fram gögn því til stuðnings. Í fimmta lagi vísar kærandi til máls hjá kærunefnd þar sem aðili hafi verið pakistönsk kona. Hafi kærunefnd fyrst um sinn ekki fallist á að hún hafi sýnt fram á auðkenni sitt en svo tekið til greina kennivottorð konunnar sem útgefið hefði verið af NADRA stjórnvaldinu. Kærandi vilji vekja athygli á því að hún hafi lagt fram fleiri gögn en aðili fyrrgreinds máls, svo sem fæðingarvottorð, fjölskylduvottorð, upprunalegt pakistanskt vegabréf ásamt ítölsku dvalarleyfisskírteini og kenniskírteini sem hafi verið útgefin af ítölskum stjórnvöldum. Þá hafi kærandi einnig lagt fram skólavottorð frá Svíþjóð varðandi nám hennar þar á meðan hún hafi verið í málsmeðferð þar árið 2016. Að framangreindu virtu sé það mat kæranda að hún hafi lagt fram fjölmörg sönnunargögn til staðfestingar á auðkenni sínu. Þá vilji kærandi vekja athygli á því að á skólavottorðum frá Svíþjóð og opinberum gögnum frá Ítalíu komi fram fæðingardagur hennar. Kærandi telur að þau gögn sem hún hafi nú lagt fram eigi að leiða til þess að mál hennar verði endurupptekið.
Kærandi vísar til fjölmargra úrskurða til stuðnings beiðni sinni um endurupptöku. Þar á meðal vísar kærandi til úrskurða nefndarinnar nr. 30/2020, 110/2020, 160/2020, 274/2020 og 282/2020 þar sem aðilar þeirra mála hafi lagt fram pakistönsk auðkennisskírteini og vegabréf til sönnunar á auðkenni sínu sem nefndin hafi tekið gild og lagt til grundvallar við úrlausn málanna.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð nr. 455/2022 þann 24. nóvember 2022. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hún ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Jafnframt var það mat kærunefndar að skilyrði b. og d.-liðar 2. mgr. 74. gr. laganna væru ekki uppfyllt þar sem auðkenni kæranda væri ekki upplýst og vegna skorts á vilja kæranda til að veita aðstoð við úrlausn málsins.
Af málatilbúnaði kæranda verður ekki annað ráðið en að hún sé ósammála niðurstöðu kærunefndar í kærumáli hennar hvað varðar mat á auðkenni hennar og aldri.
Líkt og fram kemur í úrskurði kærunefndar nr. 455/2022 var það mat Útlendingastofnunar að þær upplýsingar sem kærandi hefði gefið sænskum stjórnvöldum varðandi fæðingarár sitt og nafn föður drægju úr trúverðugleika vegabréfa og þeirra gagna sem kærandi hefði lagt fram til íslenskra stjórnvalda. Þá hefðu skýringar kæranda og síðar útgefin gögn sem áttu að styðja við útgáfu vegabréfanna einnig dregið úr trúverðugleika þeirra. Þá hafi niðurstaða aldursgreiningar sem kærandi hefði gengist undir verið sú að kærandi væri eldri en 18 ára stangast á við skráðan fæðingardag hennar í framlögðum gögnum. Var það því mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sannað hver hún væri með fullnægjandi hætti. Með hliðsjón af framangreindu taldi kærunefnd tilefni til að framkvæma ítarlegt mat á auðkenni kæranda líkt og sjá má í úrskurði nefndarinnar. Við það mat tók kærunefnd til skoðunar skýrslur alþjóðastofnana, erlendra stjórnvalda og frjálsra félagasamtaka, sbr. heimildaskrá í úrskurði, þar sem umfjöllunarefni var opinber skráning í Pakistan og útgáfa opinberra skjala. Gáfu upplýsingar í þeim skýrslum meðal annars til kynna að algengt væri að grunnskjöl væru fölsuð í Pakistan og þá væru vandkvæði við skráningar barna þar í landi. Við meðferð kærumáls kæranda sendi kærunefnd fyrirspurn á talsmann kæranda 16. nóvember 2022 þar sem nefndin óskaði meðal annars eftir því að kærandi gæfi upplýsingar um það hvaða gögn hefðu verið lögð fram til ættbálksins eða sveitastjórnarinnar þegar fæðingarvottorð hennar var útbúið. Hinn 18. nóvember 2022 bárust svör frá kæranda við ýmsum spurningum kærunefndar en kærandi gaf engin svör við spurningu kærunefndar um hvaða gögn lágu til grundvallar útgáfu fæðingarvottorðs hennar. Með hliðsjón af framangreindu var það mat kærunefndar að verulegur vafi væri á lögmæti þeirra gagna sem lægju að baki útgáfu á framlögðu pakistönsku nafnskírteini og vegabréfum sem kærandi hefði fengið útgefin af pakistönskum stjórnvöldum.
Með beiðni um endurupptöku málsins hjá kærunefnd lagði kærandi fram umfangsmikið magn af gögnum. Kærandi vísar til þess í beiðni sinni að nú hafi hún lagt fram fæðingarvottorð frá heimaríki sem hafa ekki áður verið lögð fram. Að mati kærunefndar innihalda afrit af umræddum fæðingarvottorðum sams konar upplýsingar og eru sams konar að gerð og fæðingarvottorð sem áður hafa verið lögð fram og kærunefnd hefur tekið afstöðu til. Þá lagði kærandi fram gögn er varða umsókn kæranda um sitt þriðja vegabréf útgefið af pakistanska sendiráðinu í Róm í janúar 2020. Að mati kærunefndar breyta framangreind gögn ekki mati kærunefndar í úrskurði nr. 455/2022 hvað varðar vafa á lögmæti þeirra gagna sem liggja að baki útgáfu vegabréfa kæranda af pakistönskum yfirvöldum.
Þá vísar kærandi til úrskurða kærunefndar sem hún telur vera fordæmisgefandi fyrir sitt mál þar sem nefndin hafi í nokkrum þeirra lagt til grundvallar að pakistönsk skilríki og vegabréf hafi sannað auðkenni aðila þeirra mála og veitt þeim dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga í kjölfarið. Kærunefnd hefur farið yfir tilvísaða úrskurði. Verður af niðurstöðu í þeim ráðið að gögn þessara mála hafi ekki gefið tilefni til að framkvæma ítarlegra mat á auðkenni aðila þeirra mála þar sem ekkert benti til þess að útgáfa framlagðra gagna um auðkenni væri grundvölluð á röngum eða ótraustum gögnum líkt og í máli kæranda. Kærunefnd ítrekar, líkt og fram kom í úrskurði nefndarinnar í máli kæranda, að vegna gagna í máli kæranda og annarra meintra fjölskyldumeðlima hennar hér á landi, upplýsinga frá sænskum stjórnvöldum og aldursgreiningar kæranda taldi nefndin að ástæða væri til að fara í ítarlegt mat á auðkenni kæranda. Eins og áður segir var það heildstætt mat kærunefndar að verulegur vafi væri á lögmæti þeirra gagna er lægju til grundvallar útgáfu pakistanskra skilríkja og vegabréfa kæranda. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að framlögð gögn til stuðnings endurupptökubeiðni kæranda eru ekki til þess fallin að hagga niðurstöðu kærunefndar í úrskurði nr. 455/2022 þess efnis að auðkenni kæranda hafi ekki verið sannað og því leiki enn vafi á því hver kærandi er, sbr. b-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Hinn 13. desember 2022 barst kærunefnd tölvubréf frá kæranda ásamt fylgigögnum. Í tölvubréfinu bað kærandi nefndina um að bæta tilgreindum gögnum við málið sitt þar sem í þeim væri að finna ný sönnunargögn um mat á aldri hennar. Meðal gagna voru ályktanir kæranda af dómi Landsréttar í máli nr. 599/2020 uppkveðnum 8. apríl 2022. Að mati kæranda hafi dómurinn með ógildingu á úrskurði kærunefndar nr. 468/2019 einnig ógilt aldursgreiningu á henni sem hafi verið lögð til grundvallar í úrskurði kærunefndar. Hvað framangreinda ályktun kæranda varðar vekur kærunefnd athygli á því að með úrskurði kærunefndar nr. 468/2019 var kæranda synjað um endurupptöku máls hennar þar sem það var mat nefndarinnar að kærandi hafi borið ábyrgðum á þeim töfum sem hefðu orðið á málsmeðferð umsóknar hennar í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Landsréttur staðfesti Héraðsdóm Reykjavíkur um að ógilda úrskurð kærunefndar nr. 468/2019, þar sem ekki var fallist á að þær tafir sem hafi orðið á afgreiðslu máls hennar hjá íslenskum stjórnvöldum og leiddu til þess að 12 mánaða frestur, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, rann út hefði verið á ábyrgð kæranda í skilningi ákvæðisins. Hvorki Héraðsdómur Reykjavíkur né Landsréttur tóku afstöðu til lögmætis aldursgreiningar á kæranda eða annarra gagna sem lágu fyrir og lutu að auðkenni hennar.
Þá lagði kærandi fram gögn frá Tannlæknadeild Háskóla Íslands þess efnis að ekki hafi fundist gögn um aldursgreiningu á kæranda og jafnframt gögn þess efnis að samningur Háskóla Íslands við Útlendingastofnun um framkvæmd tanngreininga hafi ekki verið framlengdur. Þá lagði kærandi einnig fram skýrslu EASO (nú European Union Agency for Asylum) varðandi mat á aldri frá júlí 2021. Kærunefnd vekur athygli á því að í gögnum máls vegna málsmeðferðar um hvort taka skyldi umsókn hennar til efnismeðferðar liggur fyrir rannsókn sérfræðinga á tannfræðilegum aldri kæranda. Sú rannsókn var framkvæmd af þrem sérfræðingum í tannlækningum, tanngreiningum og aldursgreiningum er störfuðu við Tannlæknadeild Háskóla Íslands á þeim tíma er rannsóknin var gerð. Verður ekki séð að framangreindar upplýsingar frá kæranda hafi áhrif á gildi niðurstöðu þeirra er lá fyrir haustið 2018.
Þá eru önnur gögn er kærandi lagði fram, svo sem skjáskot af tísti af samskiptamiðlinum Twitter og frétt frá fjölmiðlinum Aljazeera, nafnskírteini frá Pakistan, útgefið 16. júní 2019, kenniskírteini útgefið af ítölskum yfirvöldum 1. júlí 2021 og vegabréf útgefið af pakistönskum yfirvöldum 29. janúar 2020, ekki til þess fallin að breyta mati kærunefndar á því að vafi sé uppi um auðkenni kæranda.
Þá þykir rétt að ítreka að með úrskurði kærunefndar frá 24. nóvember 2022 var kæranda ekki eingöngu synjað um dvalarleyfi á grundvelli b-liðar 2. mgr. 74. gr. vegna þess að hún hefði ekki sannað auðkenni sitt heldur var það einnig niðurstaða kærunefndar að kærandi hefði ekki veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn málsins og því væru skilyrði d-liðar 2. mgr. 74. gr. laganna ekki uppfyllt.
Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 24. nóvember 2022 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.
Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.
The request of the appellant to re-examine his case is denied.
Tómas Hrafn Sveinsson
Þorbjörg I. Jónsdóttir Sindri M. Stephensen