Mannanafnanefnd, úrskurður 6. desember 2006
FUNDARGERÐ
Ár 2006, miðvikudaginn 6. desember, var haldinn fundur í mannanafnanefnd. Fundurinn fór fram að Neshaga 16, Reykjavík. Mætt voru Kolbrún Linda Ísleifsdóttir, Baldur Sigurðsson og Ágústa Þorbergsdóttir. Eftirfarandi mál var tekið fyrir:
1. Mál nr. 77/2006. Eiginnafn: Gull (kvk.)
Millinafn: Gull
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Mál þetta, sem móttekið var 30. október 2006, var fyrst tekið fyrir á fundi mannanafna-nefndar þann 14. nóvember sl. en afgreiðslu þess þá frestað til frekari skoðunar og gagnaöflunar. Undir meðferð málsins kröfðust úrskurðarbeiðendur þess skriflega, að verði beiðni þeirra um eiginnafnið Gull hafnað, sæki þau um til vara að nafnið Gull verði samþykkt sem millinafn.
Öll skilyrði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi:
(1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu. (4) Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karl-mannsnafn. (5) Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Í íslensku máli er gull samnafn í hvorugkyni og það brýtur í bág við íslenskt málkerfi að beygja það sem kvenkynsorð. Orðið gull getur hins vegar verið forliður í kvenkyns-nöfnum, t.d. Gullveig eða Gullbrá.
Kvenmannsnafnið Líf er ekki sambærilegt. Það er orðið til fyrir áhrif frá norræna nafninu Liv og eldri mynd þess orðs er Hlíf, af kvenkynsnafnorðinu hlíf „vörn, vernd, skjól“. Merking nafnsins hefur blandast hvorugkynsorðinu líf. Kvenmannsnafnið Víf er ekki heldur sambærilegt. Nafnorðið víf er kvenheiti og er sama orð og í ensku wife og í þýsku Weib. Í sænsku þekkist kvenmannsnafnið Viv frá lokum 19. aldar.
Orðið gull uppfyllir þannig ekki þau skilyrði sem gerð eru til eiginnafna skv. 5. gr. laga nr. 45/1996 og því er beiðni um eiginnafnið Gull (kvk.) hafnað.
Orðið gull uppfyllir hins vegar þau skilyrði sem gerð eru til millinafna skv. 6. gr. laga nr. 45/1966. Það er dregið af íslenskum orðstofni, hefur ekki nefnifallsendingu og hefur ekki áunnið sér hefð sem eiginnafn karla eða kvenna.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Gull (kvk.) er hafnað. Beiðni um millinafnið Gull er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -
Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið.