Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 148/2011

Úrskurður

 

 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 23. október 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 148/2011.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 28. júlí 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 27. júlí 2011 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur. Umsókn kæranda var hafnað á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kæra til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða var móttekin 27. október 2011. Kærandi krefst þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá dagsetningu umsóknar en Vinnumálastofnunar telur að hin kærða ákvörðun skuli standa.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 7. júní 2011. Hún starfaði, samkvæmt vinnuveitendavottorði B, dags. 8. júní 2011, sem bifreiðastjóri frá 1. október 2007 til 30. september 2010 í 70% starfi. Fram kemur að hún hafi verið með tímabundna ráðningu.

 

Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafði hvorki verið greitt tryggingagjald né laun vegna starfa kæranda. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 1. júlí 2011, til kæranda var óskað eftir því að hún færði fram launaseðla á því tímabili sem hún var við vinnu hjá B. Umbeðin gögn bárust ekki og í kæru hennar kemur fram að hún telji að á sér sé brotið. Hún hafi skilað umbeðnum gögnum, þ.e. vottorði vinnuveitanda, skattskýrslum, læknisvottorði og skattkorti. Hún telji skattskýrslu vera fullgilda fyrir launagreiðslur frá atvinnurekanda og hún skilji ekki af hverju Vinnumálastofnun krefjist launaseðla, þá eigi hún ekki og hafi aldrei fengið. Hvað tryggingagjaldið varði þá telji hún sig ekki þurfa að fylgjast með því hvort launagreiðandi standi skil á því.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 26. janúar 2012, kemur fram að skv. 1. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. a-lið 3. gr. sömu laga, teljist launamaður að fullu tryggður hafi hann starfað á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sæki um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Samkvæmt vinnuveitandavottorði frá B hafi kærandi starfað sem bifreiðarstjóri frá 1. október 2007 til 30. september 2010. Samkvæmt afriti úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjórs megi sjá að engin laun hafi verið greidd til kæranda. Til þess að Vinnumálastofnun geti metið rétt atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta verði stofnuninni að vera unnt að staðreyna það starfshlutfall og þann starfstíma sem tilgreint sé í vottorði vinnuveitanda. Í þeim tilvikum sem atvinnuleitandi geti ekki fært fram vottorð vinnuveitanda eða launagreiðandi hefur ekki staðið í skilum á tryggingagjaldi viðkomandi leiti Vinnumálastofnun eftir öðrum gögnum sem fært geti sönnur á störf atvinnuleitanda hjá vinnuveitanda, svo sem launaseðla.

 

Kærandi hafi lagt fram vottorð vinnuveitanda. Hvorki verði séð að kæranda hafi verið greidd laun né að staðið hafi verið skil á tryggingagjaldi vegna starfa hennar hjá B. Vinnumálastofnun hafi því engin gögn um störf kæranda að undanskildu vottorði frá B. Ekki verði séð að þau gögn er kærandi hafi fært fram í málinu geti á nokkurn hátt sannreynt starfshlutfall eða starfstíma sem fram komi í vottorði vinnuveitanda. Stofnuninni sé því ekki mögulegt að kann hvort kærandi uppfylli skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Beri því að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur.

 

Kærandi hefur lagt fram skattskýrslur sínar vegna tekjuáranna 2007–2010. Af þeim má ráða að B hafi greitt henni laun á þessu árabili þannig að árið 2007 hafi hún fengið 245.000 kr., árið 2008 428.500 kr., árið 2009 444.500 kr. og árið 2010 50.000 kr. Fleiri gögn hefur kærandi ekki lagt fram í máli þessu en henni var veittur kostur á því í kjölfarið á því að Vinnumálastofnun skilaði sinni greinargerð í málinu í lok janúar 2012.

 

 

 

2.

Niðurstaða

 

Samkvæmt a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar gilda lögin um hvern þann sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í 1. mgr. 15. gr. laganna kemur fram að launamaður, sbr. a-lið 3. gr., teljist að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

 

Kærandi hefur fært fram gögn þess efnis að hún hafi þegið fremur lágar launagreiðslur hjá B á árabilinu 2007–2010. Gögn málsins bera hins vegar ekki með sér að greitt hafi verið tryggingagjald af þessum launagreiðslum. Þegar af þeirri ástæðu telst kærandi ekki hafi verið launamaður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. lagaákvæði þau sem vitnað var til hér að ofan. Af þessu leiðir að óhjákvæmilegt var að hafna umsókn kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta eins og gert var með hinni kærðu ákvörðun.

 

Með vísan til framangreinda forsendna verður hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Úr­skurðar­orð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. júlí 2011 um synjun á bótarétti A er staðfest.

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta