Mál nr. 9/2012
Mánudaginn 24. september 2012 var á fundi kærunefndar barnaverndarmála tekið fyrir mál nr. 9/2012, A og B gegn C. Málið varðar tilkynningu til barnaverndarnefndar undir nafnleynd vegna sonar kærenda, D. Upp var kveðinn svofelldur
Ú R S K U R Ð U R:
Með bréfi, dags. 4. apríl 2012, kærði Oddgeir Einarsson hdl., f.h. A, og B, þá ákvörðun C að synja beiðni kærenda um að aflétta nafnleynd tilkynnanda barnaverndarmáls skv. 19. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Þann 15. nóvember 2011 barst tilkynning til C varðandi aðstæður og aðbúnað sonar kærenda, D.
Kærendur krefjast þess að nafnleyndinni verði aflétt.
Af hálfu C er krafist staðfestingar á synjun um afléttingu nafnleyndar.
I
Málsmeðferð
Kærunefnd barnaverndarmála sendi C kæruna með bréfi, dags. 11. apríl 2012, og óskaði jafnframt eftir greinargerð af þessu tilefni. Í bréfi C, dags. 27. apríl 2012, kemur fram að ákvörðun C um að ekki verði aflétt nafnleynd sé dagsett 17. febrúar 2012 og hafi hún verið send þann sama dag til kærenda. Ætla megi að bréfið hafi skilað sér til þeirra eigi síðar en 21. febrúar 2012. Samkvæmt því hafi kærufrestur runnið út fjórum vikum síðar eða þann 20. mars 2012. Með umboði, dags. 2. mars 2012, hafi kærendur falið lögmanninum Oddgeiri Einarssyni hdl. að gæta hagsmuna þeirra vegna synjunar C á beiðni þeirra um að aflétta nafnleynd. Bréf lögmannsins til kærunefndar sé dagsett 4. apríl 2012 eða tæpum fimm vikum frá undirritun umboðsins og hafi það verið móttekið hjá kærunefnd barnaverndarmála 9. apríl 2012 eða um sjö vikum eftir að gera megi ráð fyrir að bréf C hafi borist kærendum. Fyrir hönd C var þess krafist að kæru kærenda yrði vísað frá kærunefnd barnaverndarmála sem of seint fram kominni.
Kærunefnd barnaverndarmála tók kröfu C til meðferðar á fundi sínum 27. júní 2012. Þar kemur meðal annars fram að með bréfi C, dags. 17. febrúar 2012, til kærenda hafi þeim verið tilkynnt hin kærða ákvörðun. Enn fremur hafi verið vakin athygli á því að heimilt væri að skjóta ákvörðuninni til kærunefndar barnaverndarmála, sbr. 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, en ekki hafi verið bent á kærufrest. Í tilvitnuðu lagaákvæði komi fram að leiðbeina skuli tilkynnanda og foreldri um rétt til að kæra ákvörðun barnaverndarnefndar. Í 1. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga komi fram að aðili barnaverndarmáls geti skotið úrskurði eða ákvörðun skv. 1. mgr. 6. gr. til kærunefndar barnaverndarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi hafi verið tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun. Í 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, komi fram að þegar ákvörðun sé tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur skuli veita leiðbeiningar um kæruheimild, þegar hún er fyrir hendi, kærufresti og kærugjöld, svo og hvert beina skuli kæru. C hafi láðst að leiðbeina kærendum um kærufrest til kærunefndar barnaverndarmála. Kærunefnd barnaverndarmála þótti, með vísan til 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, ekki lagaskilyrði til þess að vísa kæru frá sem of seint framkominni og ákvað að taka kæruna til meðferðar. Jafnframt var óskað greinargerðar C vegna málsins.
Hinn 11. júlí 2012 barst greinargerð C, dags. 5. júlí 2012, ásamt frekari gögnum málsins. Kærendum var gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri fyrir sína hönd með bréfi kærunefndarinnar dags. 21. ágúst 2012, en þær nýttu sér það ekki.
II
Helstu málavextir
Kærendur búa ásamt syni sínum, D. C barst tilkynning undir nafnleynd 15. nóvember 2011 um að grunur væri um þroskaraskanir hjá drengnum og að hann væri á einhverfurófi. Foreldrar hefðu ekki viljað þjónustu fyrir drenginn til að auka lífsgæði hans, þroskamöguleika og möguleika á þjónustu við hæfi.
Mæður drengsins voru boðaðar í viðtal og mættu báðar 11. janúar 2012. Samkvæmt upplýsingum þeirra er drengurinn með málþroskaröskun eða málþroskaseinkun, en hann hafi fengið hitakrampa og ítrekaðar streptokokkasýkingar frá níu mánaða aldri. Hafi hann verið lagður inn á sjúkrahús tvisvar vegna þessa. Mæður hans telji að þar hafi orðið seinkun á þroska hans, sérstaklega málþroska. Eftir að drengurinn hafi farið í hálskirtlatöku hafi orðið miklar framfarir. Drengurinn hafi byrjað á ungbarnaleikskólanum E, en mæður hans hafi ákveðið að færa hann þaðan þar sem þeim hafi fundist miklar mannabreytingar og nýjabrum ekki gott fyrir drenginn. Hann hafi þá farið á F sem sé einkarekinn Hjallastefnuleikskóli og séu þær mjög ánægðar með skólann. Drengurinn sé í talþjálfun hjá G talmeinafræðingi. Samstarf sé á milli leikskóla og talþjálfunar. Mæðurnar hafi sett drenginn í heyrnarmælingu, sjónmælingu og athugað með tunguhaft. Ekkert hafi komið út úr þeim rannsóknum. Endurteknar hálssýkingar og veikindi séu talin ástæða þess að drengurinn sé á eftir í málþroska en málskilningur hans sé góður.
Könnun málsins hjá C leiddi í ljós að ekki væri talin ástæða til afskipta starfsmanna C og var málinu því lokað.
III
Sjónarmið kærenda
Kærendur telja sig eiga rétt á að fá upplýst um nafn þess sem tilkynnti þær. Kærendur telji almenn sjónarmið um réttláta málsmeðferða leiða til þess að nafnleynd skuli aflétta af tilkynnanda. Sú niðurstaða sé einnig í samræmi við almenn viðhorf í stjórnsýslurétti um opna og vandaða málsmeðferð hjá stjórnvöldum.
Í máli kærenda virðast öll gögn benda til þess að tilkynning til barnaverndarnefndar hafi verið án nokkurrar raunverulegrar ástæðu, enda hafi athugun barnaverndaryfirvalda leitt í ljós að engar vísbendingar væru um vanrækslu gagnvart umræddu barni að nokkru leyti. Sérstaklega verði að telja það til marks um hversu tilhæfulaus tilkynningin hafi verið að starfsmenn C hafi ekki einu sinni séð ástæðu til þess að kanna aðstæður á heimili kærenda eða ræða við aðila tengda kærendum, starfsmenn skóla eða aðra.
Kærendur geri sér ekki grein fyrir hver gæti hafa sent slíka tilkynningu og telja eðlilegt að nafnleynd verði aflétt í tilviki þeirra. Nafnleyndin hafi í för með sér veruleg óþægindi í samskiptum kærenda við þá sem nærri þeim standi auk þess sem hún komi í veg fyrir að unnt sé að ræða málin og útskýra fyrir viðkomandi að ekki sé þörf á áhyggjum af barninu.
IV
Sjónarmið C
C bendir á að skv. 1. mgr. 16. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, beri hverjum þeim sem hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu og þroska í alvarlega hættu, skylda til að tilkynna það barnaverndarnefnd. Tilkynnandi hafi óskað nafnleyndar á grundvelli 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga. Í tilvitnuðu lagaákvæði komi fram að ef tilkynnandi óski nafnleyndar gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd skuli það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Í 13. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd, nr. 56/2004, sé kveðið á um nafnleynd og segi þar að ef tilkynnandi skv. 16. gr. barnaverndarlaga óski nafnleyndar gagnvart öðrum en nefndinni skuli það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Ef barnaverndarnefnd fái rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti nefndin tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni.
Þrátt fyrir að ekki sé dregið í efa að það sé mæðrum D mikilvægt að fá að vita hver hafi tilkynnt til C verði ekki talið, eins og áður hafi komi fram, að fyrir hendi séu þær „sérstöku ástæður“ sem áskildar séu til þess að aflétta megi nafnleynd, sbr. 19. gr. barnaverndarlaga. Við það mat hafi meðal annars verið höfð til hliðsjónar þau sjónarmið sem fram komi í athugasemdum með 19. gr. frumvarps til barnaverndarlaga.
V
Niðurstaða
Í 1. mgr. 16. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, er kveðið á um tilkynningarskyldu almennings. Þar segir að hverjum þeim sem hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi, eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu sé skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd. Um tilkynningarskyldu þeirra sem sinna börnum vegna stöðu sinnar eða starfa er hins vegar fjallað í 17. og 18. gr. laganna.
Í 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga kemur fram sú meginregla að óski tilkynnandi skv. 16. gr. eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd skuli það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið gildir sú meginregla að allir þeir sem beina tilkynningu til barnaverndarnefndar njóta nafnleyndar, ef eftir því er óskað, nema þeir sem sinna börnum vegna starfa sinna og taldir eru upp í 17. og 18. gr. laganna. Þetta á því við um allan almenning án þess að undanskildir séu þeir sem eru venslaðir eða tengdir barni. Í athugasemdum við 19. gr. í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til barnaverndarlaga er því nánar lýst að tvö sjónarmið vegist á varðandi nafnleynd tilkynnanda. Annars vegar kemur til skoðunar sjónarmið um réttláta málsmeðferð, þar sem upplýsingar um hver hafi tilkynnt um ófullnægjandi aðbúnað barns geti skipt máli svo andmælaréttur þess sem tilkynning beinist að verði virtur. Hins vegar kemur til skoðunar sjónarmiðið um virkni og árangur í barnaverndarstarfi þar sem síður megi gera ráð fyrir að tilkynningar berist ef nafnleynd er ekki virt. Var síðarnefnda sjónarmiðið lagt til grundvallar í núgildandi barnaverndarlögum, þó þannig að unnt er að aflétta nafnleynd tilkynnanda ef sérstakar ástæður mæla gegn því að hún verði virt.
Þegar tilkynning berst barnaverndaryfirvöldum um grun um óviðunandi aðstæður barns hvílir sú skylda á barnaverndarnefnd að hefja könnun máls og komast til botns í því hvort sá grunur er á rökum reistur. Við könnun þess máls sem hér er til úrlausnar varð það niðurstaða C að ekki væri ástæða til afskipta nefndarinnar af því og var málinu lokað. Jafnvel þótt svo hafi hagað til í máli þessu, að ekki hafi þótt ástæða til afskipta C af því, verður með vísan til þeirra sjónarmiða sem að framan eru rakin, um að virkni og árangri í barnaverndarstarfi geti verið stefnt í voða, verði nafnleynd tilkynnanda ekki virt, að hafna kröfu kærenda um afléttingu nafnleyndar en engar sérstakar ástæður eru uppi í máli þessu sem mæla gegn því að nafnleynd tilkynnanda verði virt.
Hin kærða ákvörðun C er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun C frá 17. febrúar 2012 þess efnis að synja kröfu A og B um að aflétta nafnleynd tilkynnanda vegna sonar þeirra, D, er staðfest.
Ingveldur Einarsdóttir, formaður
Gunnar Sandholt
Jón R. Kristinsson