Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 271/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 271/2020

Fimmtudaginn 27. ágúst 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 4. júní 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. júní 2020, um að hafna umsókn hennar um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 17. mars 2020. Samhliða úrvinnslu umsóknar kæranda barst Vinnumálastofnun umsókn kæranda um útgáfu U2-vottorðs til atvinnuleitar í B. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. júní 2020, var umsókn kæranda hafnað á þeirri forsendu að hún væri stödd erlendis og teldist því ekki í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 4. júní 2020. Með bréfi, dags. 23. júní 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 6. júlí 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. júlí 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að henni hafi verið hafnað um greiðslur atvinnuleysisbóta. Kærandi og maki hennar hafi misst vinnu sína á hóteli vegna kórónuveirunnar. Þá greinir kærandi frá aðdraganda uppsagnarinnar í kæru. Vegna þess að kærandi hafi leigt íbúð af hótelinu hafi kærandi og maki hennar misst störf sín og íbúðina á sama tíma. Þá hafi ekki verið hægt að vera á Íslandi á þessum tíma vegna þess að flestum hótelum og veitingastöðum hafi verið lokað og því ekki hægt að finna nýtt starf. Fimm dögum fyrir brottför hafi kærandi þurft að flytja úr íbúðinni, sækja um atvinnuleysisbætur og U2-vottorð á meðan þau hafi flogið aftur til B. Kærandi hafi strax farið að leita að vinnu í B en vegna veirunnar hafi hún ekki fengið vinnu. Kærandi hafi skráð alla atvinnuleit og verið með öll nauðsynleg skjöl fyrir Vinnumálastofnun. Eftir að hafa beðið í tvo mánuði án vinnu hafi kærandi síðan fengið synjun. Kæranda finnist þetta ósanngjarnt í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem hún hafi verið í. Þá finnist henni að hún hljóti ekki sömu meðferð og aðrir.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir.

Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Atvinnuleysistryggingar veiti hinum tryggðu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Í 13. gr. laganna séu talin upp almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í c-lið ákvæðisins segi meðal annars að það sé skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Á vef Vinnumálastofnunar komi þessar upplýsingar fram undir liðnum „réttindi og skyldur- upplýsingarskylda“. Þar segi: „Ekki er heimilt að dvelja erlendis á sama tíma og umsækjandi þiggur atvinnuleysisbætur nema hafa sótt um U2-vottorð.“ Einnig sé vakin athygli á þessu í umsóknarferli á „Mínum síðum“ Vinnumálastofnunar. Á vef stofnunarinnar megi finna ítarlegar upplýsingar um skilyrði fyrir útgáfu U2-vottorða og umsóknarferli vegna þeirra. Þær upplýsingar séu aðgengilegar á þremur tungumálum; íslensku, ensku og pólsku.

Í kæru til nefndarinnar sé vísað til þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi séu í samfélaginu og hafi skjólstæðingar stofnunarinnar ekki farið varhluta af þeim áhrifum sem kórónuveirufaraldurinn hafi haft áhrif á íslenskt samfélag og vinnumarkað. Vegna þeirra áhrifa hafi meðal annars verið gerðar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar til að mæta þeim áskorunum. Enn fremur hafi verið tekin ákvörðun um að stöðva ekki greiðslur til einstaklinga sem hafi verið staddir erlendis í atvinnuleit á grundvelli U2-vottorða en ekki komist til síns heima vegna ástandsins. Það sama hafi gilt um einstaklinga sem hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta vegna minnkaðs starfshlutfalls, sbr. V. gr. bráðabirgðaákvæðis laganna. Ekki hafi verið gerðar breytingar á almennum skilyrðum 13. gr. laganna og engar undanþágur gerðar hvað varði c-lið 13. gr. um að umsækjandi skuli vera búsettur og staddur hér á landi. Enn fremur hafi ekki verið gerðar breytingar á skilyrðum VIII. kafla laganna um atvinnuleit í öðru aðildarríki.

Í 42. gr. laganna komi eftirfarandi skilyrði fram fyrir útgáfu U2-vottorðs. Kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 17. mars 2020 og farið úr landi 21. mars 2020 eða fjórum dögum eftir að hún hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta. Ljóst sé að umsókn kæranda hafi ekki uppfyllt skilyrði 42. gr. laganna, enda hafi hún hvorki verið atvinnulaus í að minnsta kosti fjórar vikur fyrir brottfarardag né sótt um útgáfu vottorðs þremur vikum fyrir brottför líkt og áskilið sé í leiðbeiningum stofnunarinnar. Þá hafi hún farið úr landi áður en stofnunin hefði tekið afstöðu til umsóknarinnar og áður en umbeðið vottorð hafi verið gefið út.

Eins og áður hafi komið fram sé eitt af almennum skilyrðum 13. gr. laganna fyrir greiðslum atvinnuleysisbóta að umsækjandi sé „búsettur og staddur hér á landi“. Stofnuninni sé einungis heimilt að greiða atvinnuleysisbætur samhliða dvöl erlendis þegar einstaklingur hafi þá þegar uppfyllt skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysisbóta og fengið útgefið U2-vottorð til atvinnuleitar. Þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði b-liðar 1. mgr 42. gr. laganna hafi stofnuninni ekki verið fært að samþykkja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur á meðan hún hafi verið stödd erlendis. Stofnunin bendi á að kærandi geti sent inn nýja umsókn um atvinnuleysisbætur frá og með þeim degi sem hún snúi aftur hingað til lands.

Með vísan til ofangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun um synjun umsóknar kæranda um atvinnuleysisbætur og að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. 

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 13. gr. laganna er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera búsettur og staddur hér á landi, sbr. c-lið ákvæðisins.

Samkvæmt gögnum málsins fór kærandi af landi brott áður en umsókn hennar um atvinnuleysisbætur og umsókn um U2-vottorð til atvinnuleitar í B var samþykkt. Kærandi uppfyllir því ekki almenn skilyrði 1. mgr. 13. gr. um að vera tryggð samkvæmt lögunum. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. júní 2020, um að hafna umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta