Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 116/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 116/2021

Föstudaginn 4. júní 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. mars 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. nóvember 2020, um að greiða henni ekki atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 12. september til 18. nóvember 2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 15. ágúst 2020 og var umsóknin samþykkt. Þann 27. ágúst 2020 sótti kærandi um útgáfu U2-vottorðs til að fá greiddar atvinnuleysisbætur í Danmörku á meðan hún stundaði atvinnuleit þar. Umsókn kæranda var samþykkt og U2-vottorð gefið út þann 2. september 2020 með þriggja mánaða gildistíma frá 12. september til 11. desember 2020. Þann 23. nóvember 2020 var kæranda tilkynnt að hún fengi ekki greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun fyrir tímabilið 12. september til 18. nóvember 2020 þar sem hún hafi ekki skráð sig í atvinnuleit í Danmörku fyrr en 18. nóvember 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. mars 2021. Með bréfi, dags. 16. mars 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags 9. apríl 2021, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. apríl 2021, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að mál hennar verði skoðað ofan í kjölinn. Hún hafi flutt til Danmerkur til að reyna að finna sér vinnu og hafi reynt eftir bestu getu að uppfylla allar kröfur Vinnumálastofnunar. Samskipti kæranda við Vinnumálastofnun hafi verið með eindæmum, eins og samskiptasagan sýni, og krefjist hún að mál hennar verði skoðað.

Kærandi hafi talið sig vera búna að skila öllum þeim gögnum sem hafi átt að fylgja þegar hún hafi farið til útlanda. Vinnumálastofnun hafi aldrei látið hana vita að það hafi vantað gögn. Ekki hafi verið hægt að ná neinu sambandi við stofnunina vegna Covid-19 og mikils álags. Þegar það hafi svo loksins tekist hafi aldrei fengist sömu svör hjá neinum starfsmanni. Bent hafi verið á að það hafi vantað gögn og um leið og þau myndu berast þá fengi kærandi greitt. Gögnunum hafi verið skilað og staðfesting hafi borist frá Vinnumálastofnun. Kærandi hafi þá talið að allt væri komið og hafi beðið róleg til mánaðamóta. Þá hafi komið í ljós að hún hafi ekki fengið greitt af því að það hafi enn vantað einhver gögn en stofnunin hafi ekkert látið vita af því. Eftir símtal við starfsmann hafi kæranda verið lofað að þetta yrði greitt ef umrædd gögn myndu berast. Kærandi hafi aftur beðið til mánaðamóta til þess að fá greitt. Þá hafi komið í ljós að gögnin hefðu ekki borist á réttum tíma og kærandi hafi ekki fengið greitt. Kærandi krefst þess að fá greiddar þær atvinnuleysisbætur sem hún eigi inni fyrir tímabilið 12. september til 18. nóvember 2020.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um útgáfu á U2-vottorði þann 27. ágúst 2020 til að fá greiðslu atvinnuleysistrygginga í Danmörku á meðan hún stundi þar atvinnuleit. Kærandi hafi greint frá því að áætluð brottför til Danmerkur væri þann 12. september 2020. Með umsókn sinni um U2-vottorð hafi kærandi staðfest að hafa fengið upplýsingar um þær reglur sem gildi um flutning atvinnuleysisbóta á milli aðildaríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Umsókn kæranda um útgáfu U2-vottorðs hafi verið samþykkt og hafi vottorð verið gefið út þann 2. september 2020. Gildistími vottorðsins hafi verið frá 12. september 2020 til 11. desember 2020. Kærandi hafi fengið sent útgefið U2-vottorð þann 2. september 2020 með tölvupósti.

Þann 4. október hafi kærandi sent Vinnumálastofnun skjáskot þar sem hafi mátt sjá að hún hefði stofnað aðgang hjá starfagáttinni ,,Jobindex“ í Danmörku þann 18. september 2020. Sama dag, þann 4. október, hafi ráðgjafi stofnunarinnar móttekið þá staðfestingu, en hafi þó áréttað að það þyrfti að berast formleg staðfesting frá opinberri vinnumiðlun í Danmörku.

Þann 30. október 2020 hafi kærandi óskað eftir skýringum á því af hverju hún hefði ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur á meðan hún dveldi í Danmörku. Hafi kærandi talið sig hafa sent öll viðeigandi gögn til stofnunarinnar. Erindi kæranda hafi verið svarað þann 2. nóvember 2020 og kæranda hafi verið greint frá því að Vinnumálastofnun hefði ekki borist formleg staðfesting frá opinberri vinnumiðlun í Danmörku á því hvaða dag kærandi hefði skráð sig í atvinnuleit í Danmörku.

Þann 14. nóvember hafi kærandi óskað eftir skýringum á því af hverju atvinnuleysisbætur hennar hefðu verið skertar í septembermánuði 2020. Ráðgjafi Vinnumálastofnunar hafi greint kæranda frá því þann 16. nóvember að ástæða skerðingarinnar væri sú að formleg staðfesting á skráningu á atvinnuleit kæranda í Danmörku hefði ekki borist frá viðeigandi vinnumiðlun þar í landi. Ráðgjafi stofnunarinnar hafi jafnframt skýrt kæranda frá því að þegar atvinnuleitandi fái greiðslu atvinnuleysistrygginga á meðan hann stundi atvinnuleit erlendis á U2-vottorði fái hann greiðslu atvinnuleysistrygginga til brottfarardags, í tilfelli kæranda til 12. september 2020, og síðan ekki aftur fyrr en formleg staðfesting á atvinnuleit erlendis hafi borist Vinnumálastofnun frá viðeigandi vinnumiðlun.

Þann 23. nóvember 2020 hafi Vinnumálastofnun borist formleg staðfesting á atvinnuleit kæranda í Danmörku frá opinberri vinnumiðlun. Samkvæmt upplýsingum frá umræddri vinnumiðlun hafi kærandi skráð sig í atvinnuleit þar í landi þann 18. nóvember 2020. Af þeirri ástæðu hafi kærandi ekki fengið atvinnuleysisbætur greiddar fyrir tímabilið 12. september 2020, þ.e. frá brottfarardegi, til 18. nóvember 2020, þar sem hún hafi ekki skráð atvinnuleit sína í Danmörku innan sjö virkra daga frá brottfarardegi. Kæranda hafi verið tilkynnt sú ákvörðun með tölvupósti, dags. 23. nóvember 2020. Kæranda hafi jafnframt verið ráðlagt að kanna hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis varðandi skráningu á atvinnuleit hennar í Danmörku ef hún teldi umrædda skráningu ekki rétta.

Kærandi hafi sent fyrirspurn til Vinnumálastofnunar þann 23. nóvember er varðaði ofangreinda ákvörðun Vinnumálastofnunar. Ráðgjafi stofnunarinnar hafi í kjölfarið sent tölvupóst á kæranda og greint henni frá því af hverju hún hafi ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 12. september 2020 til 18. nóvember 2020. Ráðgjafi stofnunarinnar hafi áréttað að ef kærandi teldi framkomnar upplýsingar ekki réttar þá væri nauðsynlegt að fá staðfestingu frá opinberri vinnumiðlun um að hún hefði staðfest atvinnuleit sína þar í landi innan tilskilins frests. Kærandi hafi aftur á móti ekki skilað frekari gögnum þess efnis.

Vinnumálastofnun tekur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Ágreiningur í máli þessu snúi einkum að því hvort kærandi hafi skráð sig í atvinnuleit í Danmörku hjá viðeigandi vinnumiðlun þar í landi. Í VIII. kafla laganna sé fjallað um atvinnu í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Í 42. gr. laganna sé kveðið á um atvinnuleit í öðru aðildarríki. Segi í 1. mgr. 42. gr. að Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða atvinnuleysisbætur samkvæmt VII. kafla laganna til þess sem telst tryggður samkvæmt lögunum og sé í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, uppfylli hann þau skilyrði sem talin séu upp í fjórum stafliðum við ákvæðið. Í þessu samhengi komi einkum til álita d-liður ákvæðisins, en þar sé það gert að skilyrði að atvinnuleitandi skrái sig í atvinnuleit hjá vinnumiðlun í því ríki þar sem atvinnuleitin fari fram samkvæmt lögum þess ríkis innan sjö virkra daga frá brottfarardegi.

Kæranda hafi borið, samkvæmt ákvæði 1. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, að skrá sig í atvinnuleit hjá vinnumiðlun ekki seinna en þann 22. september 2020, þ.e. sjö virkum dögum frá brottfarardegi hennar 12. september 2020. Líkt og rakið hafi verið hafi kærandi stofnað aðgang hjá starfagáttinni ,,Jobindex“ í Danmörku þann 18. september 2020. Að mati Vinnumálastofnunar hafi kæranda mátt vera ljóst að ekki væri um að ræða vinnumiðlun í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og það að stofna aðgang hjá umræddri starfagátt fæli ekki í sér skráningu í atvinnuleit í Danmörku í skilningi 1. mgr. 42. gr. laganna. Umrædd skráning kæranda hafi ekki falið í sér skráningu hjá vinnumiðlun sem sé bær um að gefa út eða taka við U-vottorðum. Beri að taka fram í þessu sambandi að lög þess ríkis þar sem atvinnuleit fari fram gildi um eftirfylgni með atvinnuleitinni og þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. 5. mgr. 42. gr. laganna.

Í ljósi framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að skilyrði 1. mgr. 42. gr. laganna um skráningu í atvinnuleit í aðildarríki hafi ekki verið uppfyllt fyrr en þann 18. nóvember 2020 þegar Vinnumálastofnun hafi borist staðfesting frá viðeigandi vinnumiðlun í Danmörku um skráningu kæranda í atvinnuleit þar í landi.

Þá sé það jafnframt mat Vinnumálastofnunar að það sé ekki óeðlilegt að gera þær kröfur til kæranda að hún kynni sér þær reglur sem gildi um atvinnuleit í Danmörku, þar með talið til hvaða vinnumiðlunar henni beri að staðfesta atvinnuleit sína þar í landi. Þá geti Vinnumálastofnun ekki tekið fyrir kvartanir vegna ákvarðana sem teknar séu í Danmörku, en ljóst sé að skráning á upphafsdegi atvinnuleitar í Danmörku sé á hendi þar til bærra aðila í Danmörku. Kæranda hafi aftur á móti verið leiðbeint um það að setja sig í samband við viðeigandi vinnumiðlun í Danmörku til að fá skráningu á upphafsdegi atvinnuleitar hennar breytt og til að afla frekari gagna sem kynni að hafa áhrif á rétt hennar til greiðslu atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnun á meðan hún hafi stundað atvinnuleit í Danmörku.

Í 3. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé Vinnumálastofnun veitt heimild til að veita hinum tryggða lengri tíma til að skrá sig hjá hinni erlendu vinnumiðlun en kveðið sé á um í d-lið 1. mgr. og falli þá greiðslur atvinnuleysisbóta niður frá og með brottfarardegi og hefjist að nýju við skráningu erlendis. Því sé ljóst að greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda hafi fallið niður frá og með 12. september 2020 til 18. nóvember 2020.

Vinnumálastofnun vísar jafnframt máli sínu til stuðnings til upplýsinga á heimasíðu stofnunarinnar er varða útgáfu U2-vottorða og atvinnuleit í öðru EES-ríki. Atvinnuleitanda sé þar kynnt helstu skilyrði fyrir útgáfu U2-vottorða og þær reglur er varði greiðslu atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnun á meðan á atvinnuleit erlendis standi. Þar sé jafnframt að finna upplýsingar sem leiðbeini atvinnuleitanda um það hvar hann staðfesti atvinnuleit sína í viðeigandi ríki. Þá hafi kærandi staðfest með umsókn sinni um útgáfu U2-vottorðs að hún hafi kynnt sér þær reglur sem gildi um greiðslu atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnun á meðan á atvinnuleit erlendis standi.

Með vísan til framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga fyrir tímabilið 12. september til 18. nóvember 2020 með vísan til 1. og 3. mgr. 42. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að greiða kæranda ekki atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 12. september til 18. nóvember 2020 á grundvelli 42. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera búsettur, með skráð lögheimili og staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. ákvæðisins. Í VIII. kafla laganna er að finna undanþágu frá framangreindu ákvæði en þar er fjallað um atvinnuleit eða atvinnu í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.

Í 1. mgr. 42. gr. laga nr. 54/2006 segir að Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til atvinnuleitanda sem sé í atvinnuleit í öðru EES-ríki, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Eitt af þeim er að hinn tryggði skrái sig í atvinnuleit hjá vinnumiðlun í því ríki þar sem atvinnuleitin fer fram samkvæmt lögum þess ríkis innan sjö virkra daga frá brottfarardegi, sbr. d-lið ákvæðisins. Í 4. mgr. 42. gr. kemur fram að Vinnumálastofnun gefi út viðeigandi vottorð til staðfestingar á rétti hins tryggða samkvæmt ákvæðinu. Þá segir í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 54/2006 að Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða atvinnuleysisbætur samkvæmt 42. gr. samfellt í allt að þrjá mánuði frá brottfarardegi hins tryggða en þó aldrei í lengri tíma en sem eftir er af tímabili samkvæmt 29. gr. laganna.

Kærandi fékk útgefið U2-vottorð með þriggja mánaða gildistíma frá 12. september til 11. desember 2020 til að fá greiddar atvinnuleysisbætur í Danmörku á meðan hún stundaði atvinnuleit þar. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi hafi skráð sig í atvinnuleit hjá vinnumiðlun í Danmörku samkvæmt lögum þess ríkis innan sjö virkra daga frá brottfarardegi eins og framangreint ákvæði d-liðar 1. mgr. 42. gr. laga nr. 54/2006 áskilur.

Í umsókn um U-2 vottorð, dags. 27. ágúst 2020, staðfesti kærandi að hafa fengið afhent upplýsingablað um þær reglur sem gilda um flutning atvinnuleysisbóta á milli EES-landa. Á upplýsingablaðinu kemur fram að atvinnuleitanda beri að skrá sig innan sjö daga hjá vinnumiðlun í því ríki sem hann hyggist leita að vinnu. Á heimasíðu Vinnumálastofnunar er einnig að finna ítarlegar upplýsingar um atvinnuleit í Evrópu með U2-vottorð þar sem meðal annars kemur fram að það þurfi að skrá sig sem atvinnuleitanda hjá á vinnumiðlunarskrifstofu. Þá er þar að finna yfirlit yfir öll lönd innan EES og upplýsingar um hvaða stofnun sé Vinnumálastofnun í hverju ríki fyrir sig.

Samkvæmt gögnum málsins sendi kærandi Vinnumálastofnun tölvupóst þann 18. september 2020 með þeim upplýsingum að hún hefði skráð sig hjá vinnumiðluninni Jobindex þann dag. Sú tilkynning var móttekin af Vinnumálastofnun 4. október 2020 og kæranda tilkynnt að skrifstofan í Danmörku myndi senda formlega staðfestingu á skráningu kæranda í atvinnuleit þar í landi. Í lok október óskaði kærandi eftir upplýsingum um greiðslu atvinnuleysisbóta og í kjölfarið átti kærandi í nokkrum samskiptum við starfsmenn Vinnumálastofnunar vegna málsins. Þann 9. nóvember 2020 var kæranda tilkynnt að hún þyrfti að biðja vinnumiðlunarskrifstofur (til dæmis Akasse) um að senda U-009 form. Aftur var kærandi í töluverðum samskiptum við starfsmenn Vinnumálastofnunar í nóvembermánuði. Þann 23. nóvember 2020 barst U-009 formið frá Danmörku þar sem fram kom að kærandi hafi skráð sig þar í landi 18. nóvember 2020. Kæranda var þá tilkynnt að hún fengi ekki greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 12. september til 18. nóvember 2020 og bent á að láta skoða sitt mál hjá dönsku Vinnumálastofnuninni.

Kærandi hefur gert athugasemd við samskipti sín við Vinnumálastofnun og skort á leiðbeiningum. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber stjórnvaldi að veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Að mati úrskurðarnefndarinnar bar Vinnumálastofnun strax þegar kærandi sendi upplýsingar þann 18. september 2020 að upplýsa hana með skýrum hætti að skráning hjá vinnumiðluninni Jobindex væri ekki fullnægjandi og veita leiðbeiningar þess efnis að nauðsynlegt væri að skrá sig hjá opinberri stofnun, þ.e. Vinnumálastofnun Danmerkur. Það var ekki gert fyrr en 9. nóvember 2020. Framangreindur annmarki verður þó ekki til þess að breyta niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar í ljósi skýrs ákvæðis d-liðar 1. mgr. 42. gr. laga nr. 54/2006.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að greiða kæranda ekki atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 12. september til 18. nóvember 2020 staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. nóvember 2020, um að greiða ekki A, atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 12. september til 18. nóvember 2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta