Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 63/2001

Þriðjudaginn, 7. maí 2002

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

 

Þann 7. desember 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 6. desember 2001.

 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 15. október 2001, var kæranda tilkynnt um synjun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru kæranda segir m.a.:

"Þegar ég aflaði mér upplýsinga um rétt minn til fæðingar/foreldraorlofs hafði ég samband við umboð TR á Akureyri. Þar gekk ég frá umsókn og skilaði inn þeim gögnum sem mér var sagt að þyrftu að fylgja, þ.e. launaseðlum síðastliðinna 6 mánaða. Þá var aldrei minnst á að greiðslur miðuðust við síðustu 6 mánuði fyrir fæðingu barns. Auðvelt er að sannreyna að þetta eru þær upplýsingar sem ég fékk með því að skoða þau gögn sem ég var látinn skila inn.

Sonur minn er fæddur 30.01.01 og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fæ nú eru það júlí-desember 2000 sem miðað er við. Á þeim tíma var ég að hluta til í námi og að hluta í vinnu. Mestan hluta þessa tíma var ég að vinna að rannsókn sem ég gerði ásamt skólasystur minni og tengdist námi okkar án þess þó að vera hluti af því. Við fengum styrk úr sjóði B, frá Félagsmálaráðuneytinu og frá D. Þar sem ekki er litið á þessar greiðslur sem laun, þá uppfylli ég ekki skilyrði sem sett eru um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði ef miðað er við þennan tíma.

 

Ég var í foreldraorlofi frá 10. september til 10. október og hafði enga ástæðu til annars en gera ráð fyrir greiðslum fyrir þennan tíma. Ef ég hefði fengið réttar upplýsingar í upphafi hefði ég ekki tekið þetta orlof, enda hef ég ekki fjárhagslegt bolmagn til þess. Það hlýtur að teljast alvarlegt mál að umboð TR þekki ekki sínar eigin reglur og gefi þar af leiðandi rangar upplýsingar. Mér finnst það einnig mjög ámælisvert að ekki sé gengið frá afgreiðslu málsins fyrr en eftir að orlofinu lýkur, eða 15. október. Þá er ég búin að vera launalaus allan þennan mánuð. Á þessum tíma sem umsókn mín lá fyrir hjá TR var barnsmóðir mín búin að fara í TR í Reykjavík til að skrifa undir samþykki sitt og ég einnig búin að hafa samband símleiðis. Aldrei var að heyra annað en þetta myndi ganga eftir eins og mér hafði verið sagt.

 

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið hjá TR var afgreiðslu þessara mála breytt í vor. Þannig virðist í fyrstu hafa verið gert ráð fyrir að faðir gæti unnið sér inn rétt eftir fæðingu barns eins og ég fékk upplýsingar um. Ég geri því kröfu um að umsókn mín verði afgreidd og mið tekið af síðustu 6 mánuðum áður en ég fór í orlof."

 

Með bréfi, dags. 9. janúar 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 28. janúar 2002. Í greinargerðinni segir:

"Kærandi er ósáttur við að honum hafi verið synjað um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli þess að hann hafi ekki verið á vinnumarkaði samfleytt í 6 mánuði fyrir fæðingardag barns hans. Barnið er fætt þann 30. janúar 2001.

 

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Við afgreiðslu umsóknar kæranda var tekið mið af þátttöku hans á vinnumarkaði á tímabilinu frá 30. júlí 2000 til 30. janúar 2001, þ.e. miðað var við að upphafsdagur fæðingarorlofs væri fæðingardagur barns hans.

 

Kæran er m.a. byggð á því að kærandi hafi fengið rangar upplýsingar hjá umboði Tryggingastofnunar ríkisins á Akureyri. Honum hafi ekki verið sagt að réttindi til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði væru metin eftir starfi hans síðustu sex mánuði fyrir fæðingu barns og því hafi hann gengið út frá því að hann gæti áunnið sér rétt eftir fæðingu með því að fresta töku fæðingarorlofs....

 

Ekki kemur fram hvenær kærandi leitaði upplýsinga hjá umboði Tryggingastofnunar, hvort það var fyrir eða eftir að framkvæmdin breyttist. Ómögulegt er að staðreyna nákvæmlega hvaða upplýsingar voru veittar, við hvaða forsendur þær miðuðust eða hvaða skilningur var lagður í þær af hálfu kæranda. Ekki verður heldur séð að gefnar upplýsingar, réttar eða rangar, hafi áhrif á réttindi hans til greiðslna. Réttindin og skilyrði þeirra eru bundin í lögum og lagatúlkun.

Við ákvörðun í máli þessu ber að líta til þess að samkvæmt 15. gr. ffl. skal foreldri sækja um greiðslu í fæðingarorlofi til Tryggingastofnunar ríkisins sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Er þannig gert ráð fyrir að tilhögun orlofs beggja foreldra liggi fyrir áður en barn þeirra fæðist, en lögin veita ekki svigrúm til að sækja um greiðslur síðar, þrátt fyrir að foreldri hyggist nýta orlofsrétt sinn á síðara tímabili en í beinu framhaldi af fæðingu barns.

 

Umsókn kæranda er dagsett 15. september 2001, tæpum 9 mánuðum eftir fæðingu barns hans og 4-5 mánuðum eftir að túlkun og framkvæmd var breytt á lífeyristryggingasviði, sbr. ofangreint. Í umsókninni kemur fram að kærandi hyggist hefja orlof sitt þann 18. september, eða þrem dögum frá dagsetningu umsóknar. Í athugasemdum með frumvarpi til ffl. segir í 15. gr. að 6 vikur verði að teljast hæfilegur frestur fyrir Tryggingastofnun til að reikna út greiðslur til foreldra. Umsóknin var afgreidd innan þessa frests, eða 15. október 2001.

 

Lífeyristryggingasvið telur að afgreiðsla máls verði að miðast við gildandi reglur og lagatúlkun þegar umsókn berst, sér í lagi þegar sú túlkun hefur verið staðfest að æðra stjórnvaldi. Kærandi verði því að bera hallann af því að hafa ekki sótt um greiðslur á réttum tíma. Ekki er við stofnunina að sakast þótt kærandi hafi hafið orlof sitt án þess að fyrir lægi ákvörðun um greiðslur til hans, enda eru ákvæði um umsóknarfrest skýr og kæranda ekkert til fyrirstöðu að sækja tímanlega um greiðslur."

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 30. janúar 2002, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 11. febrúar 2002, þar segir m.a.:

"...Í greinargerð TR kemur fram að foreldri skuli sækja um greiðslu úr fæðingarorlofssjóði sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag og ekki sé svigrúm í lögunum til að sækja um þær síðar. Við skoðun á lögunum sé ég að þar er talað um þessar sex vikur. Það var mér aftur á móti ekki sagt þegar ég var að spyrjast fyrir um þessi mál í byrjun september og aldrei minnst á að of seint væri að sækja um. Auk þess er umsókn minni heldur ekki synjað á þeirri forsendu að ég hafi sótt of seint um. Það má vel vera að æskilegt sé að foreldrar séu báðir búnir að skipuleggja hvernig þeir nýti orlof sitt, 6 vikum fyrir fæðingu barnsins en það er þó varla alltaf gerlegt. Í mínu tilviki er það þannig að ég er ekki í sambúð með barnsmóður minni. Síðastliðið sumar voru við bæði úti á landi og þó við stefndum bæði á að koma til Reykjavíkur í haust, þá réðist það ekki endanlega fyrr en um mánaðarmótin ágúst/september að hún færi suður. Það var háð því að hún fengi húsnæði og dagmömmu. Þegar ljóst var að við færum bæði suður þá gafst þessi möguleiki, að ég væri með syni mínum þessar fyrstu vikur fyrir sunnan. Þetta hefðum við ekki getað séð fyrir 6 vikum fyrir fæðingu hans. Þó að í lögunum sé gert ráð fyrir að sótt sé um 6 vikum fyrir fæðingu barns, þá er líka gert ráð fyrir þeim sveigjanleika að taka megi fæðingarorlof á fyrstu 18 mánuðum barnsins, sá sveigjanleiki minnkar til muna ef sækja þarf um fyrir fæðingu barns. Aðalatriði í sambandi við þetta er þó eins og sagði áðan að umsókn minni var ekki synjað á þessari forsendu.

 

Í greinargerð TR er ekkert minnst á það sem ég benti á í kæru minni að TR virðist ekki tilbúið að meta þá rannsóknarvinnu sem ég stundaði á þeim tíma sem þeir vilja miða greiðslur við. Mér finnst það skrýtið að ef ég er í vinnu, þá eigi ég rétt, ef ég er í skóla, þá eigi ég rétt, en ekki þegar ég er að vinna rannsóknarvinnu sem tengist námi mínu og fengnir eru styrkir til, m.a. frá sjóði B. Slík rannsóknarvinna er töluvert mikið unnin af námsmönnum, t.d. á sumrin og kemur þá í stað vinnu. Styrkir frá sjóðnum eru skattskyldir og því litið á þá sem tekjur hjá skattayfirvöldum, en ekki hjá TR.

 

Í greinargerð TR kemur fram að afgreiðslutími umsóknar minnar hafi verið innan eðlilegra marka og ekki sé við þá að sakast að ég hafi hafið orlof áður en úrskurður lá fyrir. Ég get samþykkt það að gott hefði verið að ég hefði sótt um fyrr, en hef útskýrt hvernig aðstæður voru, því sótti ég svona seint um. Það breytir því þó ekki að það var á grundvelli þeirra upplýsinga sem ég fékk hjá umboði TR í byrjun september sem ég ákvað að fara í foreldraorlof á þessum tíma, sem ég hefði annars ekki gert. Mér er ljóst að réttur minn er bundinn í lögum og lagatúlkun eins og fram kemur í greinargerð TR. En túlkun laganna hefur verið breytt eftir að lögin tóku gildi og Tryggingastofnun ríkisins hlýtur að bera ábyrgð á því að gefa réttar upplýsingar."

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

 

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu úr Fæðingar­orlofs­sjóði í fæðingarorlofi.

 

Krafa um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði verður eigi byggð á því að foreldri hafi fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rétt sinn. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), er það hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Það fellur hins vegar utan valdsviðs nefndarinnar að úrskurða um hugsanlegan bótarétt þeirra sem telja sig hafa fengið ófullnægjandi upplýsingar frá Tryggingastofnun ríkisins.

 

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. ffl. stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns, ákvæðið veitir konu þó heimild til þess að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Í athugasemdum með frumvarpi til laga, nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram að ekki verði litið á undantekninguna frá meginreglunni sem mismunun. Það teljist ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar, sbr. 3. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (nú 22. gr. laga nr. 96/2000). Þá segir í 3. mgr. 8. gr. ffl. að kona skuli vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.

 

Upphafsdagur fæðingarorlofs foreldra er skilgreindur í 2. og 3. mgr. 8. gr. ffl. Það færi í bága við 1. mgr. 22. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem hvers kyns mismunun eftir kynjum er lýst óheimil, ef karlar gætu sjálfir ákvarðað upphafsdag fæðingarorlofs.

 

Foreldri öðlast rétt samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Samkvæmt meginreglunni í 2. mgr. 8. gr. ffl. var upphafsdagur fæðingarorlofs kæranda fæðingardagur barnsins, þann 30. janúar 2001.

 

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er með samfelldu starfi átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir að til samfellds starfs teljist enn fremur:

"a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa."

 

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest, þar sem kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um samfellt starf í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, þann 30. janúar 2001.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

 Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

 Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta