Mál nr. 66/2001
Þriðjudaginn, 7. maí 2002
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.
Þann 21. desember 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 20. desember 2001. Samkvæmt umboði, dags. 20. desember 2001, veitir kærandi B umboð til þess að kæra álit Tryggingastofnunar ríkisins og afla gagna í málinu fyrir sína hönd.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um viðbótargreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu, á ákveðnu tímabili, þ.e. meira en tveimur mánuðum fyrir áætlaðan upphafsdag fæðingarorlofs.
Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 31. október 2001, var kæranda tilkynnt um synjun um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og synjun um framlengingu á fæðingarorlofi.
Í rökstuðningi með kæru kæranda segir m.a.:
"A var gert af heilsufarsástæðum að leggja niður störf ??? samkvæmt læknisvottorði þar um dags. A átti inni rétt til greiðslu launa í veikindum hjá vinnuveitanda sínum til 13. júlí og féllu launagreiðslur til hennar niður frá þeim tíma. A sótti um viðbótargreiðslu í fæðingarorlofi á grundvelli 4. mgr. 17. gr. laganna frá þeim tíma sem launagreiðslur frá atvinnurekanda féllu niður í tvo mánuði. A hugðist síðan nýta sér rétt til greiðslu sjúkradagpeninga frá Tryggingastofnun og stéttarfélagi þar til taka reglubundið fæðingarorlof hæfist. Með bréfi dagsettu 31. október var A hafnað um viðbót á fæðingarorlof frá 13. júlí að telja. Um þetta atriði sagði í bréfi Tryggingastofnunar "Framlenging fæðingarorlofs er að hámarki 60 dagar fyrir áætlaðan fæðingardag barns, 18. nóvember nk. Skilyrði fyrir greiðslum úr fæðingarorlofssjóði er að umsækjandi hafi verið í sex mánaða samfelldu starfi fyrir upphaf greiðslna í fæðingarorlofi". Síðar í bréfi TR kemur fram að ekki eingöngu sé hafnað að greiða lenginguna á fæðingarorlofi ef það eru meira en 60 dagar að áætlaðri orlofstöku, heldur muni allur réttur A til greiðslu í fæðingarorlofi falla niður nema hún sæki um greiðslu sjúkradagpeninga frá Tryggingastofnun eða sjúkrasjóði stéttarfélags.
Ekki verður séð að höfnun Tryggingastofnunar um greiðslu viðbótar fæðingarorlofs þegar þunguð kona þarf að leggja niður vinnu af heilsufarsástæðum byggi á beinum fyrirmælum í lögunum sjálfum eða reglugerð 909/2000. Þar er hvergi sagt að miðað skuli við 60 síðustu daga (ætti væntanlega að vera 2 mánuði) fyrir áætlaða fæðingu, heldur einvörðungu að greiðslurnar komi því aðeins til að leggja þurfi niður launuð störf "meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns". Þá er hugtakið "framlenging fæðingarorlofs" hvergi notað í lagatextanum eða texta reglugerðar 909/2000.
Nú kann einhver að spyrja hvort það skiptir einhverju máli hvort fallist er á það sjónarmið að tveggja mánaða viðbótarorlofið skv. 17. gr. geti komið til fyrr á meðgöngunni eða ekki. Það þurfi hvort sem er að brúa ákveðið bil með greiðslu sjúkradagpeninga frá TR (og sjúkrasjóði stéttarfélags ef slíkur réttur er til staðar). Því er til að svara að hér geta umtalsverðir hagsmunir verið í húfi og gefum við okkur þá að greiðslu úr fæðingarorlofssjóði (sem nema minnst 80% af heildarlaunum á viðmiðunartíma) séu almennt hærri en greiðslur sjúkradagpeninga. Þetta gildir ef þunguð kona þarf að hverfa tímabundið af vinnumarkaði af heilsufarsástæðum fyrir 8. mánuð meðgöngu og mundi því aðeins fá greidda sjúkradagpeninga skv. túlkun TR þegar hún hefði nýtt sinn veikindarétt. Þetta gildir einnig þegar horft er til þeirrar reglu sem gildir um útreikning á greiðslum í fæðingarorlofi, sbr. 3. mgr. 13. gr. laganna um 12 mánaða viðmiðunina. Ef farið er eftir túlkun TR þýddi það að þegar komi að útreikningi á greiðslum í fæðingarorlofi væri miðað við sjúkradagpeningagreiðslur í stað þess að miða við greiðslutímabilið fyrir töku viðbótar fæðingarorlofsins, eða að greiðslurnar í viðbótar fæðingarorlofinu kæmu til útreiknings þegar hefðbundin fæðingarorlofstaka hefst.
Í ljósi þess að ekki er nein stoð í texta laganna (eða reglugerðarinnar) til að túlka 4. mgr. 17. gr., með þeim hætti sem TR gerir er farið fram á að viðurkennt sé að A eigi rétt á greiðslu viðbótar fæðingarorlofs í 2 mánuði á tímabilinu frá 13. júlí til 13. september 2001 og sjúkradagpeninga frá Tryggingastofnun frá þeim degi til þess tíma sem hún hóf töku reglubundins fæðingarorlofs."
Með bréfi, dags. 2. janúar 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 4. febrúar 2002. Í greinargerðinni segir:
"Málavextir eru þeir að A sótti um lengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu með því að senda stofnuninni læknisvottorð þann 5. október 2001. Síðar bárust frá henni gögn sem staðfestu að hún hefði látið af störfum þann 8. júlí á öðrum vinnustað sínum, en 12. júlí á hinum. Áætlaður fæðingardagur barns hennar var 18. nóvember 2001.
Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 31. október 2001 var A bent á að hún uppfyllti ekki skilyrði fyrir lengingu greiðslna þar sem ekki lægju fyrir gögn um þátttöku hennar á vinnumarkaði á tímabilinu frá því hún féll af launagreiðslum og til 17. september 2001, en sá dagur markar upphaf tveggja mánaða tímabils fyrir áætlaðan fæðingardag barns hennar. Var henni bent á að sækja um sjúkradagpeninga hjá Tryggingastofnun til 17. september og leggja fram gögn þar að lútandi til að unnt væri að afgreiða umsókn hennar...
Kærandi er ósáttur við þá túlkun lífeyristryggingasviðs að lenging fæðingarorlofs vegna veikinda á meðgöngu geti aðeins átt sér stað á tveimur síðustu mánuðunum fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Ber hann einkum fyrir sig fjárhagslegum hagsmunum móður af því að ráða upphafsdegi lengingar. Það sé móður hagstæðara að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði fyrr á meðgöngunni en síðar, því þá verði þær greiðslur teknar með til útreiknings á greiðslum sem móðir njóti í hinu eiginlega fæðingarorlofi sem hefjist við fæðingu barns.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna á 12 mánaða samfelldu tímabili sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.
Það kemur skýrt fram í báðum þessum ákvæðum sbr. úrskurð Úrskurðarnefndar foreldra- og fæðingarorlofsmála í máli nr. 42/2001, að eingöngu sé um einn upphafsdag fæðingarorlofs að ræða, þótt greiðslutímabil séu dreifð. Yrði litið svo á að lengingu orlofs mætti nýta hvenær sem veikindi á meðgöngu kæmu upp, myndu greiðslur, bæði í lengingu orlofsins og í hinu eiginlega orlofi, miðast við tekjur foreldris á 12 mánaða tímabili sem lyki tveimur mánuðum fyrir upphafsdag lengingarinnar. Þannig koma greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði ekki til útreiknings greiðslum úr sjóðnum fyrir annað tímabil, séu greiðslurnar vegna sömu barnsfæðingar...
Í 4. mgr. 17. gr. ffl. segir:
"Sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skal hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til lengingar samkvæmt þessu ákvæði niður frá þeim tíma. Ráðherra skal setja í reglugerð nánari skilyrði um framkvæmd þess ákvæðis".
Samkvæmt 7. mgr. 17. gr. fer um greiðslur skv. 13. gr. laganna.
Í 7. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, nr. 909/2000, er nánari útfærsla á 17. gr. ffl., einkum er snýr að heilsufarsástæðum.
Í greinargerð með frumvarpi til ffl. segir m.a. um 17. gr.:
"Samkvæmt 4. mgr. á þunguð kona rétt á að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag teljist það nauðsynlegt af heilsufarsástæðum. Þetta er í samræmi við ákvæði almannatryggingalaga en skilyrðin fyrir réttindunum voru nánar útfærð í reglugerð um greiðslur í fæðingarorlofi, nr. 296/1998, eins og henni var breytt með reglugerð nr. 127/1999." Réttindi til lengingar fæðingarorlofs af heilsufarsástæðum falla niður beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns, enda skal hið hefðbundna fæðingarorlof hefjast eigi síðar en á fæðingardegi, sbr. 3. mgr. 8. gr."
Lífeyristryggingasvið lítur svo á að með lengingu fæðingarorlofs og þ.a.l. greiðslna í fæðingarorlofi skv. 17. gr. ffl. sé átt við tímabil sem er samliggjandi hinu eiginleg fæðingarorlofi og geti því hafist í fyrsta lagi tveimur mánuðum fyrir upphafsdag þess. Almennur málskilningur er í þessa veru, þ.e. að ekki sé unnt að tala um lengingu einhvers nema viðbót sé skeytt við annan enda þess. Lenging geti því ekki staðið sjálfstæð. Það rennir stoðum undir þess túlkun lífeyristryggingasviðs að skýrt er tekið fram í 4. mgr. 17. gr. að lenging fæðingarorlofs falli niður frá þeim tíma sem barn fæðist, beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag.
Í eldri lögum og reglugerð voru sambærileg ákvæði varðandi lengingu fæðingarorlofs og er nú að finna í 17. gr. ffl. Sá háttur var þá hafður á hjá lífeyristryggingasviði að samþykkja aðeins lengingu af heilsufarsástæðum síðustu tvo mánuði meðgöngu, enda var þá lögákveðið að fæðingarorlof skyldi tekið í einu lagi. Hvorki kemur berum orðum fram í núgildandi lögum, reglugerð né greinargerð með lagafrumvarpi til ffl. að ætlunin hafi verið að breyta þessu fyrirkomulagi þrátt fyrir að reglan um að orlof skyldi tekið í einu lagi hafi verið aflögð.
Sú nýbreytni í ffl. að foreldrum sé veitt svigrúm til að ákveða hvernig þau haga fæðingarorlofi sínu og þeim m.a. heimilað að skipta því á fleiri tímabil er skýrð í athugasemdum við lagafrumvarpið. Þar segir m.a. við 10. gr.: "Er með þessu fyrirkomulagi reynt að auðvelda útivinnandi foreldrum, bæði mæðrum og feðrum, að samræma þær skyldur sem þeim eru lagðar á herðar í starfi og fjölskyldulífi. Enn fremur eru vonir til að þetta hvetji karla til að taka fæðingarorlof ... Þá gefur þessi sveigjanleiki aukna möguleika vilji foreldri síður hverfa frá störfum í langan tíma en slíkt getur óneitanlega einnig verið í hag vinnuveitenda".
Ljóst er að þessi sjónarmið eiga engan veginn við þegar horft er til heimildar til að skipta lengingu fæðingarorlofs niður á tímabil eða slíta lenginguna frá hinu eiginlega fæðingarorlofi. Tilgangur lengingarinnar hlýtur einkum að varða heilsufar móður og barns. Það er óeðlilegt að valkvætt sé hver skuli teljast upphafstími fæðingarorlofs, og þar með hvaða tímabil komi til útreiknings greiðslna í fæðingarorlofi sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl.
Þess má að lokum geta að lífeyristryggingasviði hefur borist yfirlit yfir sjúkradagpeninga A og virðast því komnar forsendur til að afgreiða umsókn hennar um lengingu greiðslna í fæðingarorlofi svo og umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði."
Greinargerð var send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 7. febrúar 2002, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.
Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar ríkisins voru A greiddir sjúkradagpeningar þar til greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði hófst tveimur mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Tryggingastofnun hefur lagt til grundvallar við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi viðmiðunartímabilið, júlí 2000 til og með júní 2001.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar afgreiðslu lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um greiðslu í lengingu fæðingarorlofs.
Kærandi fer fram á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið 13. júlí 2001 til 13. september 2001, með vísan til 4. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), þar sem fram kemur að þunguð kona skuli eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi hafi henni verið nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns, þó aldrei lengur en tvo mánuði. Í 7. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er nánar kveðið á um hvað átt sé við með heilsufarsástæðum. Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var 18. nóvember 2001.
Þar sem áætlaður fæðingardagur barnsins var í nóvember 2001 og sannað er að kærandi þurfti að leggja niður launuð störf vegna veikinda á meðgöngu á hún rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði í tvo mánuði til viðbótar þeim greiðslum sem hún á rétt á samkvæmt 8. gr. ffl., sbr. 4. mgr. 17. gr. ffl. og 7. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Við það að láta af launuðum störfum af heilsufarsástæðum naut kærandi greiðslna sjúkradagpeninga.
Útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði fyrir þá tvo mánuði sem kærandi átti rétt á aukalega vegna veikinda á meðgöngu svo og fyrir þá mánuði sem hún átti rétt á samkvæmt 1. mgr. 8. gr. ffl. skal vera í samræmi við 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Þegar finna á út hvaða viðmiðunartímabil skuli leggja til grundvallar við útreikning greiðslna, skal leggja þá mánuðir sem kærandi átti rétt á aukalega vegna veikinda á meðgöngu framan við áætlaðan fæðingardag barnsins, þannig að hið tólf mánaða viðmiðunartímabil lýkur í raun fjórum mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins. Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlofsmála, skal miða við almanaksmánuði við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt framangreindu verður viðmiðunartímabil við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi kæranda frá júlí 2000 til og með júní 2001.
Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, varðandi viðmiðun við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, hvort sem um var að ræða greiðslu vegna þeirra tveggja mánaða sem kærandi átti rétt á vegna veikinda á meðgöngu eða vegna þeirra greiðslna sem hún átti rétt á samkvæmt 1. mgr. 8. gr. ffl., staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Guðný Björnsdóttir, hdl.
Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri
Jóhanna Jónasdóttir, læknir