Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 6/2002

Föstudaginn, 7. júní 2002

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 31. janúar 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 31. janúar 2002.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi útreikning á greiðslu í fæðingarorlofi.

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 16. janúar 2002, var kæranda tilkynnt um synjun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Í rökstuðningi með kæru kæranda segir m.a.:

"Ég byrja í fæðingarorlofi 23. janúar og á þá samkvæmt lögum að fá meðallaun mín reiknuð fram að 23. nóvember en fæ þess í stað einungis reikning fram að mánaðarmótum október/nóvember þetta kæri ég og bið um að farið sé að lögum. (réttlætið)

Rökstuðningur minn er afgerandi. Þar sem að ég er sjómaður þá eru tekjur mínar misjafnar og ótryggar. Ég fer ekki út á sjó 1. hvers mánaðar og kem heim síðasta hvers mánaðar. Í þessu tilfelli er ég kominn heim rétt fyrir þann 23. nóvember. Þessi túr var minn besti túr á árinu og myndi hækka meðaltekjur mínar mikið. En sökum þess að barn mitt fæddist nú í janúar (30.jan.) þá er stuðst við almanaksdaga jafnvel þótt 30 dagar séu liðnir og eru þeir þá gerðir ógildir. Um þetta fékk ég engar upplýsingar hjá félagsráðgjöf Tryggingastofnunar sem ég hefði getað nýtt mér með því að fresta orlofstöku um eina viku, sem skipti mig engu þar sem ég er sjómaður.

Það er minnst á það í einni setningu (þó ekki í lögum) að miðað skuli við almanaksdaga og er það hvergi rökstutt og því að mínu mati innantómt. Það segir sig sjálft að það er ekki réttlátt að klippa af með heilan mánuð í útreikningi sökum þess að ég er á sjó. Janúar er launalaus sökum eðli míns starfs (mánaðarútiveru) þannig að ég sé margt að þessu kerfi þegar snýr að sjómönnum...

Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs."

Með bréfi, dags. 6. mars 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 20. mars 2002. Í greinargerðinni segir:

"Kærður er útreikningur á fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi er ósáttur við það tímabil sem litið er til við útreikninga meðaltekna hans, sem ákvarða greiðslur í fæðingarorlofi.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kemur fram við þetta ákvæði að átt sé við almanaksmánuði. Barn kæranda er fætt þann 30. janúar 2002. Viðmiðunartímabil tekjuútreiknings hans er það af leiðandi frá 1. nóvember 2000 til 31. október 2001.

Í kæru kemur fram að vinnutímabil kæranda sem lauk "rétt fyrir 23. nóvember" hafi verið það besta, launalega séð, á árinu. Þar sem fordæmi eru fyrir því í afgreiðslu umsókna um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, svo og í úrskurðum Úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála, að líta til launa sem greidd eru eftir að útreiknitímabili skv. 2. mgr. 13. gr. lýkur en eru fyrir vinnu sem innt er af hendi á tímabilinu, var kærandi gefinn kostur á að leggja fram launaseðla sína fyrir október- og nóvembermánuð 2001. Launaseðill barst 13. mars sl. Á honum kemur fram að greitt er fyrir tímabilið frá 17. október til 22. nóvember. Sá hluti launanna sem unnið var fyrir í októbermánuði (15 dagar) hefur nú verið tekinn með í útreikning meðaltekna og kæranda send ný tilkynning um greiðslur.

Rétt er að taka fram, vegna athugasemda í rökstuðningi með kærunni, að það hefði ekki haft áhrif á greiðslur til kæranda í fæðingarorlofi þótt hann hefði frestað orlofstöku. Upphafsdagur fæðingarorlofs er ávallt í síðasta lagi fæðingardagur barns, samkvæmt skilgreiningu í 2. og 3. mgr. 8. gr. ffl. sem einnig á við um feður, sbr.. úrskurð Úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála nr. 42/2001."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 21. mars 2002, og onumi gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslu í fæðingarorlofi.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Í athugasemdum við 13. gr. í greinargerð er skýrt kveðið á um að átt sé við almanaksmánuði. Það skal tekið fram að viðmiðunartímabilið breytist ekki þótt töku fæðingarorlofs sé frestað þar sem upphafsdagur fæðingarorlofs föður er ávallt fæðingardagur barns.

Fæðingardagur barns var 30. janúar 2002. Með hliðsjón af því skulu mánaðarlegar greiðslur til kæranda nema 80% af meðaltali heildarlauna fyrir viðmiðunartímabilið nóvember 2000 til og með október 2001. Samkvæmt greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins hefur útreikningur heildarlauna tímabilsins verið leiðréttur og við endurákvörðun tekið tillit til launa sem kærandi aflaði í október 2001 en greidd voru í nóvember sama ár.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslu í fæðingarorlofi staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu í fæðingarorlofi til A er staðfest.

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta