Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 33/2002

Þriðjudaginn, 1. október 2002

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

 Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir, og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

 

Þann 29. maí 2002, barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 23. maí 2002.

 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 6. mars 2002, var kæranda tilkynnt um synjunina.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

"Ég undirrituð, A, sótti nýverið til Tryggingastofnunar um fæðingarstyrk vegna náms, en var synjað með þeim rökum að ég uppfylli ekki skilyrði um 6 mánaða samfellt nám á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns míns.

 

Ég mótmæli hér með þessari niðurstöðu og kæri hana til Úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála, sbr. 6. gr. laga nr. 95/2000.  Óska ég þess að synjunin verði felld úr gildi og Tryggingastofnun verði gert að greiða mér fullan fæðingarstyrk í samræmi við V. kafla laganna.

 

Meðan á meðgöngu minni stóð var ég nauðbeygð til að hverfa frá námi vegna fylgikvilla sem upp komu vegna meðgöngunnar.  Hefði ekki komið til þessara veikinda hefði ég uppfyllt það skilyrði sem synjun Tryggingastofnunar byggist á.  Það var eingöngu vegna heilsufarsástæðna sem ég varð að hverfa frá námi á meðgöngunni.  Ég tel að í slíku tilviki takmarkist ekki réttur minn til fæðingarstyrks.

 

Í áðurnefndum lögum er mælt fyrir um víðtækan rétt þungaðra kvenna, sem verða að leggja niður launuð störf af heilsufarsástæðum.  Því má vera ljóst að lögunum er ætlað að koma til móts við konur, sem lenda í slíkum aðstæðum, en ekki að hafa af þeim rétt vegna veikindanna.  Sú þrönga túlkun sem kemur fram í ákvörðun Tryggingastofnunar er því vart í samræmi við lögin og bersýnilega í andstöðu við markmið laganna.

 

Einnig vil ég benda á að konur á vinnumarkaði uppfylla skilyrði laganna til fæðingarorlofs þrátt fyrir fjarveru vegna veikinda. Ef lögin tryggja ekki konum í námi sambærileg réttindi vegna veikinda þeirra álít ég það bæði í andstöðu við markmið laganna og jafnræðisreglu stjórnskipunarréttar.

 

Loks vil ég nefna að vegna veikinda minna á meðgöngunni fékk ég greidda sjúkradagpeninga og var þá fjarvera mín frá námi metin til jafns við að þurfa að leggja niður starf vegna veikindanna."

 

Með bréfi, dags. 14. júní 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 20. júní. Í greinargerðinni segir:

"Kærð er ákvörðun um greiðslu fæðingarstyrks skv. 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.).  Kærandi kveðst telja sig eiga rétt á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laganna.

 

Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk.  Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000.  Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns.  Þó er heimilt að greiða fæðingarstyrk námsmanna vegna styttri námstíma en sex mánaða hafi foreldri verið á vinnumarkaði fram til þess að nám hófst, sbr. 4. mgr. 14. gr., og einnig í þeim tilvikum að einnar annar námi er lokið og foreldri hafi verið samfellt á vinnumarkaði eftir það og fram að fæðingu, samtals í 6 mánuði, sbr. 5. mgr. 14. gr.  Frekari undantekningar á meginreglunni um að samfellt nám í sex mánuði sé forsenda fyrir greiðslu námsmannastyrks er ekki að finna í reglugerðinni eða í ffl.

 

Kærandi fékk greidda sjúkradagpeninga námsmanna frá 9. október 2001 fram að fæðingu barns hennar.  Fyrir liggur staðfesting á að hún hafi verið skráð til náms á haustönn 2001 og vorönn 2002, en jafnframt að hún hafi hætt námi í október 2001.

 

Í þeim kafla reglugerðar nr. 909/2000 sem fjallar um réttindi foreldra á vinnumarkaði til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði (4. gr. rgl.) er það skýrt tekið fram að sá tími sem foreldri fær greidda sjúkradagpeninga teljist til samfellds starfs.  Sambærilegt ákvæði er ekki að finna í þeim hluta reglugerðarinnar sem lýtur að réttindum námsmanna til greiðslu fæðingarstyrks.  Með vísan til þess að heimild skortir til greiðslna telur lífeyristryggingasvið sér ekki fært að verða við umsókn kæranda."

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 26. júní 2002, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

 

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda sem foreldris í námi.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

 

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks.

 

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Einu undantekningar frá meginreglunni um sex mánaða samfellt nám er að finna í 4. og 5. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 4. mgr. er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni vegna styttri námstíma en sex mánaða hafi foreldri verið á vinnumarkaði í samfelldu starfi a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að nám hófst og samkvæmt 5. mgr. þegar að minnsta kosti einnar annar námi er lokið og foreldri hefur verið samfellt á vinnumarkaði eftir það og fram að fæðingu barns samtals í sex mánuði.

 

Kærandi elur barn 21. mars 2002. Samkvæmt gögnum málsins var hún skráð í fullt nám við Menntaskólann B haustið 2001, en varð að hætta námi í október sama ár samkvæmt læknisráði, vegna sjúkdóms sem upp kom vegna hennar meðgöngu. Í framhaldi af því fær hún greidda sjúkradagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins allt fram að fæðingu barnsins.

 

Samkæmt framansögðu uppfyllir kærandi ekki skilyrði meginreglu 1. mgr. 19. gr. ffl. um rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í námi, sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Þá voru aðstæður eigi með þeim hætti að heimild sé til frávika frá meginreglunni, skv. 4. og 5. mgr. reglugerðarinnar.

 

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi því ekki áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í námi. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er því staðfest.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

 Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A er staðfest.

  

 

Guðný Björnsdóttir hdl.

Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri

Jóhanna Jónasdóttir læknir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta