Hoppa yfir valmynd

Nr. 201/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 4. júní 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 201/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19100079

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. október 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Níkaragva (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. október 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 19. október 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 31. júlí 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 14. október 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 29. október 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 15. nóvember 2019 ásamt fylgigögnum. Viðbótargögn bárust 21. apríl 2020. Viðbótarathugasemdir bárust frá kæranda þann 27. apríl 2020. Kærandi kom í viðtal til kærunefndar útlendingamála þann 30. apríl 2020.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana sinna, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi og vegna almenns ástands í heimaríki sínu.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 106. gr. laganna. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé fæddur og uppalinn í [...] í Níkaragva og hafi búið þar alla tíð. Kærandi sé andsnúinn yfirvöldum í heimaríki sínu og aðhyllist lýðræðisumbætur og mannréttindi. Auk þess skeri kærandi sig úr á meðal fólks í heimaríki sínu hvað varðar vestrænt útlit og lífstíl auk þess sem hann sé [...]. Kærandi hafi flúið heimaríki sitt vegna þess að líf hans hafi verið í hættu vegna átaka og viðvarandi mannréttindabrota sem hafi átt sér stað í landinu. Mótmæli hafi hafist í apríl 2018 og slæmt ástand hafi verið í landinu síðan þá. Kærandi hafi tekið þátt í mótmælum gegn yfirvöldum og hafi hundruð manna verið drepin af öryggissveitum yfirvalda við slík mótmæli og í öðrum aðgerðum yfirvalda. Átökin hafi hafist í [...] og oft verið nálægt heimili hans. Kærandi hafi lýst því að hættulegt hafi verið að vera á ferli í nágrenni við heimili hans og skotið hafi verið í gegnum þakið á heimili hans. Hann hafi tekið þátt og aðstoðað aðra mótmælendur og veitt þeim húsaskjól. Þá hafi meðlimir vopnaðra öryggissveita reynt að neyða hann til að ganga til liðs við sig með því að hóta honum ella lífláti og að þeir myndu kveikja í heimili hans. Þá hafi sömu aðilar ráðist á hann úti á götu, lamið hann í andlitið og tekið símann hans. Kærandi hafi leitað til lögreglunnar en að hún geti ekki verndað hann, sökum spillingar og eigin ábyrgðar á framangreindum mannréttindabrotum.

Í greinargerð kæranda er fjallað um aðstæður í heimaríki kæranda og vísað til alþjóðlegra skýrslna. Þar komi fram að í apríl 2018 hafi forsetahjón landsins gefið lögreglu og öryggissveitum skipanir um að ráðast gegn þátttakendum í friðsamlegum mótmælum sem hafi hafist vegna andstöðu við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um skerðingar á almannatryggingum. Í aðgerðunum hafi skotvopnum og leyniskyttum m.a. verið beitt. Í lok nóvember á sama ári hafi 325 manns látist af völdum yfirvalda í átökunum og yfir 2000 slasast. Hundruð einstaklinga hafi verið haldið ólöglega. Mótmælendum hafi verið neitað um heilbrigðisþjónustu, lögregla hafi orðið uppvís að gerræðislegum handtökum og öryggissveitir tengdar yfirvöldum framið mannrán. Prófessorum og heilbrigðisstarfsmönnum hafi verið vikið úr starfi á þeim grundvelli að þeir teldust hliðhollir mótmælunum. Í apríl 2019 hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna greint frá því að um 62.000 manns hafi lagt á flótta vegna ástandsins í landinu. Þá hafi mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna lýst yfir áhyggjum af ástandinu í landinu í skýrslu frá 26. febrúar 2019 og fordæmt ýmsar aðgerðir yfirvalda. Sem dæmi hafi ráðið gagnrýnt lög sem hafi tekið gildi árið 2018 sem feli í sér mjög víðtæka túlkun á hryðjuverkastarfsemi sem hafi verið notuð gegn fólki sem hafi tekið þátt í mótmælum. Lýst hafi verið yfir áhyggjum af hinu mikla mannfalli sem hafi átt sér stað í mótmælum og meðlimir ráðsins lýst því að þeim hafi blöskrað ofbeldisfull viðbrögð öryggissveita við mótmælum gegn félaglegum umbótum.

Þá vísar kærandi til þess að í leiðbeiningum Flóttamannastofnunar, sem gefnar hafi verið út 24. ágúst 2018 í tengslum við flótta fólks frá Níkaragva, komi fram að meirihluti umsókna um alþjóðlega vernd byggi á einstaklingsbundnum, raunverulegum eða ætluðum stjórnmálaskoðunum og því telji stofnunin að þessir einstaklingar séu líklegir til að þarfnast alþjóðlegrar verndar.

Í greinargerð kæranda eru gerðar athugasemdir við ýmis atriði í hinni kærðu ákvörðun. Meðal annars mótmælir kærandi því að Útlendingastofnun hafi talið þátttöku hans í mótmælunum vera lítilvæga. Kærandi telur að það komi skýrt fram í viðtalinu að hann hafi þvert á móti verið virkur mótmælandi. Þá sé ljóst að jafnvel minniháttar þátttaka í mótmælum geti gert einstaklinga að skotmörkum stjórnvalda. Þá geri kærandi athugasemd við umfjöllun Útlendingastofnunar um umbætur sem hafi átt sér stað í Níkaragva. Kærandi bendir á að samkvæmt nýjustu færslum International Crisis Group (ICG) komi fram að viðræður á milli stríðandi fylkinga hafi siglt í strand og að ríkisstjórnin hafi aðeins staðið við hluta loforða sinna.

Kærandi gerir athugasemd við þá fullyrðingu í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi geti leitað til yfirvalda. Að hans mati sé ljóst að vegna þess ástands sem ríki í landinu sé í besta falli óljóst hvort kærandi geti leitað til yfirvalda. Ljóst sé að yfirvöld séu á varðbergi gagnvart ætluðum andstæðingum sínum og séu líkleg til að áreita þá og beita ofsóknum. Auk stjórnmálaskoðana kæranda og þátttöku hans í mótmælum kunni stjórnvöld að líta á flótta hans frá landinu með tortryggni. Þá geri [...] kæranda honum erfiðara um vik að lifa við hið ótrygga ástand sem nú ríki í heimaríki hans.

Til stuðnings aðalkröfu sinni um að honum verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vísar kærandi til þess að hann hafi stjórnmálaskoðanir sem séu yfirvöldum í Níkaragva ekki þóknanlegar. Ljóst megi vera að yfirvöld í Níkaragva ráðist af hörku gegn einstaklingum sem lýsi yfir slíkum skoðunum. Þá hafi kærandi greint frá því að hann sé andsnúinn yfirvöldum í Níkaragva og sé mótfallinn stefnu þeirra og aðgerðum. Kærandi hafi verið hlynntur mótmælum sem hafi átt sér stað í landinu undanfarið eitt og hálft ár og hafi verið þátttakandi í þeim. Skoðanir hans séu því yfirvöldum kunnar. Þá beri að líta til þess að verði kæranda gert að snúa aftur til Níkaragva eigi hann á hættu að vera krafinn svara af yfirvöldum um ástæður flóttans frá landinu en þær ástæður feli í sér andstöðu hans við yfirvöld. Allt að einu sé ekki hægt að gera þá kröfu að kærandi leyni skoðunum sínum í heimaríki sínu. Því sé ljóst að kærandi hafi stjórnmálaskoðanir í skilningi e-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá sé ljóst, samkvæmt framangreindum heimildum, að þær aðgerðir sem yfirvöld í landinu hafi gripið til gegn þeim sem þau telji sér andsnúin feli í sér ofsóknir samkvæmt skilgreiningu 1. og 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til alls framangreinds, frásagnar kæranda, framlagðra sönnunargagna og tilvísaðra heimilda sé ljóst að ótti kæranda við ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana af hálfu yfirvalda í Níkaragva sé ástæðuríkur. Þá eigi hann ekki möguleika á vernd yfirvalda í heimaríki sínu. Kærandi sé því flóttamaður skv. skilgreiningu 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því beri að veita honum alþjóðlega vernd á Íslandi skv. 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi endursending kæranda til heimaríkis brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Sérstök athygli er vakin á því í greinargerð að með því að senda kæranda til Níkaragva yrði enn fremur brotið gegn meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins er sú krafa gerð til vara að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga enda sé raunhæf ástæða til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimaríkis. Þá eigi síðari hluti málsgreinarinnar einnig við í málinu en ljóst sé af heimildum að grafalvarlegt ástand hafi ríkt í Níkaragva undanfarið eitt og hálft ár. Að undirlagi yfirvalda hafi lögregla og öryggissveitir ráðist gegn mótmælendum og almennum borgurum með þeim afleiðingum að hundruð hafi verið drepin, þúsundir særst og fólk brottnumið ólöglega og það pyntað. Einnig séu ýmis alvarleg mannréttindabrot af hálfu yfirvalda framin, þ.m.t. brot á tjáningarfrelsi auk þess að fólk sem talið er hafa mótmælt yfirvöldum hafi verið neitað um heilbrigðisþjónustu.

Til þrautavara gerir kærandi þá kröfu að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi sé [...] og gera verði ráð fyrir því að það geri honum erfiðara að lifa við það ástand sem nú ríki í Níkaragva. Því sé ljóst að verði honum gert að snúa aftur myndi hann búa við afar erfiðar félagslegar aðstæður.

Til þrautaþrautavara gerir kærandi þá kröfu að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi lagt fram umsókn sína um alþjóðlega vernd þann 19. október 2018, þ.e. fyrir meira en 18 mánuðum síðan. Þá standi töluliðir 3. mgr. 74. gr. laganna ekki í vegi fyrir því að honum verði veitt dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað níkarögsku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé níkaragskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Níkaragva m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2018 Country Reports on Human Rights Practices – Nicaragua (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices – Nicaragua (United States Department of State, 11. mars 2020);
  • Compilation on Nicaragua – Report of the Office of the United Nations High Commissioner for Human Rights (UN Human Rights Council, 26. febrúar 2019);
  • Corruption Perceptions Index 2017 (Transparency International, 21. febrúar 2018);
  • Crisis Watch – Tracking Conflict Worldwide – Nicaragua (International Crisis Group, október 2019);
  • En Nicaragua ya no lamentamos muertos, pero continúan las violencias a los derechos humanos”: Antonia Urrejola, comisionada de la CIDH (frétt BBC News Mundo, 19. apríl 2020);
  • En pro de la salud: Desarrollo sostenible y equidad: Estrategia de Cooperación de País Nicaragua, 2016 2020 (World Health Organization);
  • Equity, Access to Health Care Services and Expenditures in Nicaragua (Health, Nutrition and Population of the World Bank, 1. maí 2008);
  • EU: Sanctions Nicaraguans for Grave Abuses (Human Rights Watch, 22. október 2019);
  • Fears of a Civil War Have Faded, but Nicaragua´s Crisis Is Far from Over (World Politics Review, 1. febrúar 2019);
  • Guidance Note on the Outflow of Nicaraguans (UNHCR, 24. ágúst 2018);
  • Freedom in the World 2019 – Nicaragua (Freedom House, 2019);
  • How Ortega has stayed in power in Nicaragua (Reuters, 24. júní 2018);
  • Monitoring the Human Rights Situation in Nicaragua Bulletin N. 15- February - March 2020 (UNHCHR);
  • Nicaragua (Human Rights Watch, 17. janúar 2019);
  • Nicaragua (The World Food Program (WFP), ágúst 2019);
  • Nicaragua: Annual Report 2019 (Inter- American Commission on Human Rights, 2019);
  • Nicaragua frees political prisoners with suspect amnesty law (Deutsche Welle, 11. júní 2019);
  • Nicaragua: One year after protests erupt, Ortega clings to power (The Guardian, 2. október 2019);
  • Nicaragua: Shoot to kill: Nicaragua´s strategy to repress protest (Amnesty International, 29. maí 2018);
  • Nicaragua 2019 Crime and Safety Report (Overseas Security Advisory Council (OSAC), 27. mars 2019);
  • Nicaragua 2020 Crime and Safety Report (Overseas Security Advisory Council (OSAC), 30. mars 2020);
  • Nicaraguan Congress approves Ortega-backed amnesty law (Reuters, 9. júní 2019);
  • Nicaragua’s crisis still cause for concern amid murder, torture allegations (United Nations, 10. september 2019);
  • One year into the crisis, more than 60 000 forced to flee their country (UNHCR, 16. apríl 2019);
  • Racism and Ethnic Discrimination in Nicaragua (Center for Indigenous Peoples´ Autonomy and Development, 2006);
  • The Keys to Restarting Nicaragua´s Stalled Talks (International Crisis Group, 13. júní 2019);
  • The World Factbook: Military service Age and Obligation (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 20. maí 2020);
  • The World Factbook: Nicaragua (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 20. maí 2020);
  • The World Justice Project Rule of Law Index 2020 (The World Justice Project, 2020);
  • Tracking Conflict Worldwide - Nicaragua (International Crisis Watch, október 2019);
  • Travel Advisory – Nicaragua (United States Department of State, síðast skoðað 21. apríl 2020);
  • UNHCR Nicaragua Situation Update (UNHCR, 15. desember 2019) og
  • Watch List 2019 - Third Update – Nicaragua (ICG, 13. nóvember 2019).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Níkaragva stjórnarskrárbundið og fjölflokka lýðræðisríki með rúmlega sex milljónir íbúa. Níkaragva gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum árið 1945. Ríkið gerðist aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1980. Forseti landsins, Daniel Ortega var kjörinn í þriðja skiptið og tók við embætti forseta þann 10. janúar 2017 í kjölfar kosninga sem sætt hafa gagnrýni. Eiginkona hans Rosario Murillo Zambrana, er auk þess varaforseti landsins og fara þau saman með völd í landinu. Flokkur Sandínista, National Liberation Front, undir forystu Ortega, fer með framkvæmdavald og löggjafarvald og stýrir dómsstörfum og kosningastarfi.

Í skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna fyrir árið 2019 kemur fram að meðal helstu vandamála á sviði mannréttinda í landinu séu handahófskenndar aftökur stjórnvalda og öryggisveita á þeirra vegum á óbreyttum borgurum án dóms og laga, tilviljanakennd mannshvörf af hálfu málaliða á vegum stjórnvalda og pyndingar og líkamsmeiðingar af hálfu öryggissveita. Þá hafi friðsamleg mótmæli og starfsemi frjálsra félagasamtaka verið stöðvuð með valdbeitingu og fjölmiðlar í landinu verið ritskoðaðir. Mikil spilling sé innan stjórnkerfis Níkaragva m.a. hjá lögreglu og dómstólum Árásir á einstaklinga í minnihlutahópum á grundvelli kynhneigðar eigi sér stað auk árása á frumbyggja og einstaklinga af öðrum þjóðarbrotum. Níkaragva sé eitt fátækasta ríki Mið-Ameríku og mikið sé um atvinnuleysi í landinu. Pólitískt umrót, borgarastyrjöld og náttúruhamfarir hafi dunið á landinu og skortur sé á nauðsynjum, s.s. matvælum. Þrátt fyrir að aðgangur að heilbrigðiskerfinu standi öllum til boða að kostnaðarlausu hafi aðgengi verið takmarkað í raun.

Lögreglan í Níkaragva (e. The Nicaraguan National Police (NNP)) fari með löggæslu í landinu og sé ábyrg fyrir vernd almennra borgara, rannsóknum á sakamálum og hafi yfirumsjón með umferðaröryggi. Lögreglan glími við manneklu þar sem takmörkuðu fjármagni sé varið í löggæsluna. Þá beri heimildir með sér að spilling sé töluverð innan lögreglunnar og mútugreiðslur tíðkist í ríkum mæli. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að lögregla hafi ekki verndað mótmælendur gegn árásum og hafi beitt valdi óhóflega. Fjöldi einstaklinga hafi sætt gerræðislegum handtökum og tilbúnum ásökunum um hryðjuverkastarfsemi.

Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar frá árinu 2016 kemur fram að heilbrigðiskerfið í Níkaragva samanstandi af opinberu kerfi, kerfi fyrir lögreglu og vopnaðar sveitir og einkareknu kerfi. Heilbrigðiskerfið hafi tekið ýmsum breytingum til batnaðar á undanförnum árum. Breytingarnar hafi miðað að því að bæta grunnheilbrigðisþjónustu og í aðgerðaráætlun fyrir árin 2016 til 2020 kemur m.a. fram áhersla á að bæta þjónustu og innviði til að þróa og koma landsáætlun í geðheilbrigðismálum á fót. Á hinn bóginn hafi framangreind mótmæli árið 2018 og ófriðarástand sem staðið hefur síðan, sett strik í reikninginn og m.a. leitt til þess að í sumum tilfellum, undir þrýstingi frá stjórnvöldum, neiti heilbrigðisstarfsfólk einstaklingum um þjónustu séu þeir grunaðir um að hafa tekið þátt í mótmælum. Í ársskýrslu Human Rights Watch kemur fram að dæmi séu um að ríkisreknir spítalar hafi neitað einstaklingum um heilbrigðisþjónustu sem taldir eru hafa tekið þátt í mótmælum.

Í apríl 2018 brutust út mótmæli vegna fyrirhugaðra breytinga á almannatryggingakerfinu og gaf forsetinn lögreglu og öryggissveitum fyrirmæli um að ráðast gegn mótmælendum með ofbeldi. Í ágúst sama ár hafi ríkisstjórn innleitt stefnu sem fólst í að ,,gera útlæga, fangelsa eða deyða” alla þá sem voru í andstöðu við ríkisstjórnina. Í lok nóvember sama ár hafi 325 látist af völdum yfirvalda í átökunum og yfir 2000 slasast. Hundruð einstaklinga hafi verið fangelsaðir og tæplega 100 000 manns lagt á flótta. Samkvæmt framangreindum gögnum hafi verið samþykkt lög um sakaruppgjöf þeirra sem hafi tekið þátt í óeirðunum og samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnar Níkaragva hafi öllum pólitískum föngum verið sleppt úr haldi. Sakaruppgjafarlöggjöfin hefur sætt gagnrýni og í fréttabréfi mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna frá september 2019 komi fram að ástandið í landinu sé alvarlegt og lýst yfir áhyggjum af áframhaldandi mannréttindabrotum í landinu. Í frétt BBC frá 19. apríl 2020 kemur fram að mannréttindafulltrúi Ameríkuríkja, Antonia Urrejola hafi lýst áhyggjum af áframhaldandi mannréttindabrotum, s.s. skerðingu á funda- og tjáningarfrelsi. Stjórnvöld áreiti og hafi eftirlit með borgurum sínum með það að markmiði að fæla fólk frá mótmælum og gagnrýni á stjórnvöld. Samkvæmt mannréttindafulltrúa Ameríkuríkja sé talið að enn séu 70 pólitískir fangar í haldi vegna þátttöku í pólitískum mótmælum eða gagnrýni á stjórnvöld.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi kveður að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana sinna, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi og vegna almenns ástands í heimaríki sínu. Kærandi telji sig vera í hættu vegna þátttöku í mótmælum sem hafi hafist í heimaríki hans í apríl 2018. Þá verði kærandi fyrir mismunun og áreiti vegna þess að hann sé ljósari á hörund en samborgarar hans og klæði sig og hagi sér öðruvísi.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun dags. 31. júlí 2019 kvaðst kærandi ekki tilheyra ákveðnum stjórnmálaflokki en að hann væri lýðræðissinni og styddi baráttu minnihlutahópa. Aðspurður um þátttöku í mótmælunum sjálfum kvaðst kærandi hafa tekið þátt en að amma hans hafi beðið hann um að láta af beinni þátttöku og þá hafi hann hjálpað öðrum mótmælendum, með því að færa þeim vatn o.þ.h. Kærandi hafi einnig greint frá atviki þar sem hópur ótilgreindra aðila hafi reynt að fá unga menn til að taka þátt í hernum. Hann hafi neitað og þeir hótað honum í kjölfarið. Hann hafi þá síðar verið beittur ofbeldi af sömu aðilum.

Til stuðnings frásögn sinni lagði kærandi fram ljósmyndir af áverkum á andliti sínu sem hann kveðst hafa hlotið í umræddum mótmælum. Auk þess lagði kærandi fram ljósmynd af byssukúlu og aðra af gati eftir byssukúlu sem kærandi kvað hafa komið eftir að leyniskyttur hafi skotið á hús hans. Kærandi kom í viðtal til kærunefndar þann 30. apríl 2020. Aðspurður í viðtalinu hverjir væru að elta hann kvaðst kærandi ekki vita það nákvæmlega en að fólk viti að hann sé á móti stjórnvöldum og að þessir menn væru að ráðast gegn mönnum á hans aldri og fylgjast með þeim í gegnum miðla. Aðspurður um atvik þar sem meðlimir öryggissveita hafi reynt að fá hann til liðs við sig, kvaðst hann ekki hafa verið viss hverjir það væru en að þeir væru líklega tengdir lögreglunni. Aðspurður í viðtalinu um atvik þar sem skotið hafi verið í átt að húsinu hans, kvað kærandi að það hafi ekki beinst sérstaklega að sér heldur væri almennt ástand í landinu slíkt að skotum væri hleypt af handahófskennt án tillits til þess hverjir eða hvað væri í skotlínu.

Líkt og að ofan greinir hafa yfirvöld í Níkaragva brugðist við mótmælum þar í landi af miklu afli og hafa gengið á rétt almennra borgara í þeim aðgerðum. Hefur fjöldi manns látið lífið og slasast í þeim átökum og fjölmargir verið handteknir og látnir sæta varðhaldi vegna þátttöku þeirra í mótmælunum. Í gögnunum kemur fram að stjórnvöld hafi í einhverjum tilfellum áreitt og haft aukið eftirlit með einstaklingum sem hafi tekið þátt í mótmælum og andmælt yfirvöldum á einhvern hátt og yfirvöld hafi haft afskipti af af þeim sökum, þrátt fyrir að þeir einstaklingar hafi ekki verið í forsvari fyrir ákveðna hópa. Í ljósi framangreindra upplýsinga um aðstæður í heimaríki kæranda telur kærunefnd ekki ástæðu til að draga í efa að kærandi hafi tekið þátt í mótmælum í heimaríki sínu að því marki sem hann hefur greint frá, hann hafi orðið fyrir ofbeldi í þeim mótmælum og mögulega orðið fyrir áreiti af þeim sökum. Framburður kæranda sem var á köflum óljós um þá atburði sem hann hafi lenti í vegna þátttöku sinnar í mótmælum, einkum hvað varðar aðkomu aðila sem kærandi kvað tengjast stjórnvöldum. Þá verða þau gögn sem hann hefur lagt fram að mati nefndarinnar ekki talin benda til þess að kærandi hafi verið sérstaklega áberandi í andstöðu sinni gegn stjórnvöldum eða sé af öðrum sökum í annarri og verri stöðu en aðrir borgarar í heimaríki hans, sem hafi tekið þátt í ofangreindum mótmælum eða lýst yfir andstöðu við stefnu stjórnvalda í Níkaragva. Kærunefnd telur því með hliðsjón af framburði kæranda og þeim gögnum sem hann hefur lagt fram að kærandi hafi ekki sýnt fram á með nægilega skýrum hætti að hans bíði ofsóknir í heimaríki á grundvelli stjórnmálaskoðana. Að mati kærunefndar verður heldur ekki séð að kærandi hafi orðið fyrir eða eigi á hættu áreiti af hálfu stjórnvalda vegna stjórnmálaskoðana hans sem nái þeim alvarleika að falla undir 1. mgr. 37. gr. sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Kærandi hefur borið fyrir sig að hafa verið áreittur og sætt mismunun vegna þess að hann sé ljósari á hörund en samborgarar hans. Þá hafi hann stundum leitað til lögreglunnar vegna þessarar framkomu en að lögreglan hafi hunsað hann. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 31. júlí 2019, kemur fram að kærandi hafi lýst því að hann hafi ítrekað leitað aðstoðar lögreglunnar vegna ýmissa vandamála og framkomu annars fólks gagnvart sér, m.a. þegar hann hafi verið rændur. Í viðtali hjá kærunefnd þann 30. apríl 2020, var kærandi beðinn um að lýsa því betur hvað hafi falist í þeirri mismunun sem hann hafi upplifað vegna hörundslitar. Lýsti kærandi því að hann hafi iðulega verið látinn borga hærri fjárhæðir en aðrir, t.d. af lögreglu og að mikið væri horft á hann. Að mati kærunefndar verður af framburði kæranda og upplýsingum um heimaríki hans ekki fallist á að hann, hafi orðið fyrir eða eigi á hættu að verða fyrir mismunun eða áreiti sem nái því alvarleikastigi að teljast ofsóknir eða ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð í skilningi 1. mgr. 37. gr., sbr. 1. og 3 . mgr. 38. gr. laga um útlendinga sökum húðlitar hans eða þess að hann sé mögulega á [...]. Þá verður ekki séð að kærandi sé í hættu á að verða kvaddur til þess að sæta herþjónustu.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að þrátt fyrir þá mótmælahrinu sem hafi staðið yfir frá því í apríl 2018 og aðgerðir stjórnvalda vegna þeirra séu aðstæður hans þar ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði 37. og 39. gr. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-liðum 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 19. október 2018. Kærandi hefur ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að kærandi sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 4. júní 2020, eru liðnir rúmir 19 mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Að mati kærunefndar uppfyllir kærandi skilyrði a- til d-liðar 2. mgr. 74. gr. útlendingalaga. Þá er það mat kærunefndar að ákvæði a- til d-liðar 3. mgr. 74. gr. útlendingalaga standi ekki í vegi fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndarinnar að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda varðandi umsókn hans um alþjóðlega vernd er staðfest.

The Directorate is instructed to issue the appellant a residence permit based on Article 74(2) of the Act on Foreigners. The decision of the Directorate of Immigration related to his application for international protection is affirmed.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                      Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta