Hoppa yfir valmynd

Nr. 363/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. október 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 363/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20050038

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 26. maí 2020 kærði […], fd. […], ríkisborgari Kólumbíu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. maí 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og kæranda verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 15. desember 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. dagana 9. og 23. janúar 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 6. maí 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 26. maí 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 14. júní 2020 ásamt fylgigögnum. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 10. september 2020 ásamt talsmanni sínum. Kærunefnd bárust viðbótarathugasemdir þann 8. og 10. september 2020.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu þar sem hann hafi verið ofsóttur af glæpahópum og geti ekki leitað verndar yfirvalda þar í landi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til framburðar hans í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Þar hafi kærandi greint frá því að vera fæddur og uppalinn í höfuðborg Kólumbíu, Bógóta, og hafi hann búið þar þar til hann hafi lagt á flótta. Kærandi hafi greint frá því að ástæða flótta hans hafi tengst skæruliðum og glæpahópum í heimaríki en ráðist hafi verið á hann af skæruliðum sem gangi undir nafninu paramilitares árin 2010 og 2019. Þá hafi hann búið við ógn frá skæruliðahreyfingunni FARC og öðrum glæpahópum frá barnsaldri. Fjölskylda kæranda hafi búið á svæði sem stjórnað hafi verið af FARC og þau hafi þurft að greiða til þeirra ákveðinn skatt. Stjúpfaðir kæranda hafi verið myrtur af skæruliðum FARC þegar hann hafi ekki borgað skæruliðunum skattinn eða hlýtt skipunum þeirra. Stuttu síðar hafi bróður kæranda verið rænt af skæruliðunum og haldið í um þrjár vikur og pyndaður. Kærandi telji ástæðu árása skæruliðanna vera að þeir hafi ætlað sér að taka yfir búgarð fjölskyldunnar. Kærandi hafi því flúið ásamt bróður sínum til móður þeirra í Caqueta í Kólumbíu, en þangað hafi hún flúið eftir morðið á stjúpföður kæranda. Kærandi og bróðir hans hafi síðar rekist á einn þeirra skæruliða sem hafi borið ábyrgð á dauða stjúpföður þeirra og mannráni bróður hans. Hann hafi í kjölfarið byrjað að hóta fjölskyldunni sem hafi neyðst til þess að flýja frá Caqueta til Bógóta. Sama ár hafi bróðir kæranda hafið nám í herskóla á vegum kólumbíska ríkisins og hafi skæruliðarnir talið að hann hafi gefið hernum upplýsingar um þá og því byrjað að hóta fjölskyldu kæranda að nýju.

Árið 2008 hafi kærandi búið í Bógóta ásamt unnustu sinni og barni. Þar hafi kærandi og unnusta hans unnið sem stjórnendur í heildsölu. Sama ár hafi þau byrjað að vinna fyrir aðila að nafni Giovanni Moreno Gonzales. Sá aðili hafi lent í skuldavandræðum við skæruliða paramilitares sem hafi komið nokkrum sinnum í verslunina til þess að innheimta peningana. Árið 2010 hafi þeir rænt kæranda, beitt hann ofbeldi með þeim afleiðingum að tennur hans hafi brotnað og hótað honum lífláti ef hann myndi ekki greiða skuldina. Kærandi hafi ekki treyst sér til þess að leggja fram kæru af ótta við skæruliðana en þeir fari með ákveðin völd innan lögreglunnar. Kærandi og þáverandi unnusta hans hafi fundið sér nýja vinnu og þau eignast annað barn. Í nóvember 2018 hafi kærandi byrjað að vinna með félaga sínum sem verslunarmaður og þeir ákveðið að fara á sama verslunarsvæði og kærandi hafi áður unnið á þar sem hann hafi vitað að þar væru tækifæri og miklir fjármunir. Í lok febrúar 2019 hafi kæranda farið að berast hótanir í formi textaskilaboða þar sem honum hafi verið ráðið frá því að koma á svæðið, annars myndi eitthvað slæmt henda hann. Kærandi hafi ekki tekið þessu alvarlega í fyrstu en hafi svo orðið óttasleginn þegar hann hafi farið að tengja hótunina við fyrri atburði af hálfu paramilitares sem hafi átt sér stað árið 2010. Í kjölfarið hafi hann hætt að fara inn á verslunarsvæðið og orðið stórskuldugur þar sem hann hafi ekki getað innheimt þær kröfur sem hann hafi átt útistandandi á hendur viðskiptavinum sínum. Hann hafi á þessum tíma gert sér grein fyrir því að hann hafi ekki átt annarra kosta völ en að flýja land. Ásamt því að óttast skæruliða óttist kærandi einnig þá einstaklinga sem skuldi honum fé þar sem þeir hagnist á því að hann komi ekki til baka. Þá vísar kærandi til þess að fyrrverandi unnusta hans og börn hafi flúið til Bandaríkjanna og að fjölskylda hans í Kólumbíu búi við stöðugan ótta. Þá hafi hann leitað eftir aðstoð lögreglu í heimaríki án árangurs. Þá telji kærandi að skæruliðar paramilitares viti allt um sig og fjölskyldu sína og myndu hafa uppi á honum í heimaríki hans.Í greinargerð sinni gerir kærandi ýmsar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Hvað varði friðarsamkomulag skæruliðahópa við kólumbísk stjórnvöld þá geysi enn vopnuð átök í landinu á milli skæruliðahópsins ELN, annarra vopnaðra hópa og öryggisveita ríkisins. Friðarsamkomulagið hafi ekki verið fært í lög, auk þess sem sumir meðlimir FARC hafi ekki samþykkt að gangast undir samkomulagið og haldið glæpastarfsemi áfram. Þá mótmælir kærandi því að honum stafi ekki lengur ógn af FARC og fyrrum meðlimum þeirra. Þá sé í hinni kærðu ákvörðun ekki fjallað sérstaklega um paramilitares sem séu þeir sem kærandi óttist og sé það merki um að ekki hafi verið lagt nægilega ríkt og einstaklingsbundið mat á aðstæður hans og rannsóknarskyldu Útlendingastofnunar því ekki fullnægt, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá mótmælir kærandi að hann geti leitað til lögreglunnar í Bógóta eftir aðstoð og vernd og í ákvörðuninni vanti upp á rökstuðning fyrir því að borgin sé öruggari en önnur svæði í Kólumbíu. Þá hafi kærandi þegar leitað til lögreglu án árangurs og honum standi ógn af umræddum glæpa- og skæruliðahópum. Kærandi mótmælir því að hann sé ekki beint skotmark þessara hópa. Þá vísar kærandi til þess að gögn í máli hans hafi ekki verið þýdd sérstaklega en stofnunin hefði þurft að þýða a.m.k. hluta gagnanna til að uppfylla rannsóknarskyldu sína.

Í greinargerð kæranda er ekki fjallað efnislega um kröfur hans heldur vísað til greinargerðar hans til Útlendingastofnunar um þá umfjöllun. Þá fjallar kærandi þar almennt um aðstæður í Kólumbíu og friðarsamninga ríkisins við glæpahópa og vísar til alþjóðlegra skýrslna máli sínu til stuðnings.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd, skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi sem þolandi ofeldisglæpa af hálfu vopnaðs glæpahóps í heimaríki sínu sem og vegna ætlaðra stjórnmálaskoðana sinna, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi sætt hótunum, fjárkúgunum og ofbeldi af hálfu skæruliðahópanna paramilitares og standi almennt frammi fyrir ógn vegna annarra glæpa- og skæruliðahópa. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli 2017-3087 frá 2. mars 2018. Þá hafi stjórnvöld í Kólumbíu hvorki vilja né getu til að veita kæranda vernd þar í landi. Vísar kærandi jafnframt til tilgreindra ákvarðana Útlendingastofnunar þar sem umsækjendur hafi flúið Kólumbíu af ótta við glæpa- og skæruliðahópa og hafi verið taldir hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi af þessum sökum.

Kærandi telur að með endursendingu hans til Kólumbíu yrði brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi eigi á hættu að sæta ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Öryggisástand í heimaríki kæranda sé afar ótryggt þar sem vopnaðir glæpahópar séu hluti af daglegu lífi borgara. Þá hafi hann og fjölskylda hans sætt ofsóknum og líklegt sé að þær muni halda áfram verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Í greinargerð kæranda kemur fram að ástand mannréttindamála í heimaríki hans sé slæmt og félagslegar aðstæður bágbornar. Vopnaðir hópar ógni öryggi almennra borgara í skjóli refsileysis og kærandi hafi flúið heimaríki sitt vegna hótana, fjárkúgana og ofbeldi slíkra hópa. Ofbeldið og áföllin sem hann hafi upplifað, sem og óttinn sem hann búi við hafi haft áhrif á andlega heilsu hans.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað kólumbísku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé kólumbískur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Kólumbíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices – Colombia (US Department of State, 11. mars 2020);
  • A fractured peace, A Reuters Special Report (Reuters International, 26. apríl 2018);
  • Achieving Health Outcomes in Colombia. Civil Registration and Vital Statistics System, Unique Personal Identification Number, and Unified Beneficiary Registry System for Births and Death (World Bank Group, 2019);
  • Amnesty International Report 2017/18 - Colombia (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Annual Report 2019 – Colombia (Amnesty International, 27. febrúar 2020);
  • Battles Between Former FARC Groups Displace Hundreds in Colombia (Insight Crime, 11. mars 2019);
  • Colombia 2018 Crime and Safety Report: Bogotá (US Department of State, Bureau of Diplomatic Security, 30. janúar 2018);
  • Colombia 2020 Crime and Safety Report (US Department of State, Bureau of Diplomatic Security, 13. mars 2020);
  • Colombia’s Armed Groups Battle for the Spoils of Peace. Latin America Report No 63 (International Crisis Group (ICG), 19. október 2017);
  • Colombia at a Stabilization Crossroads (Center for Strategic and International Studies (CSIS), 5. mars 2020);
  • Colombia: Fact-Finding Mission Report. Conflict Dynamics in the Post-FARC-EP Period and State Protection (Immigration and Refugee Board of Canada, mars 2020);
  • Colombia: Paramilitary successor groups and criminal bands (bandas criminales, BACRIM), areas of operation and criminal activities, including the Clan del Golfo (also known as Urabenos or Autodefensas Gaitanistas de ColombiaI; states response, including reintegration of, and assistant to combatants (May 2016-March 2017) (Canada: Immigration and Refugeees Board of Canada, 24. apríl 2017);
  • Colombia – Peace and Stability in the Post-Conflict Era (Center for Strategic and International Studies (CSIS), mars 2014);
  • Colombia: Requirements and procedures to submit a complaint to the police, the Fiscalía General de la Nación, and the Defensoría del Pueblo, including types of complaints; standardization and appearance of documents; requirements and procedures to obtain af copy of the complaint and investigative report for each organization, both from within the country and from abroad (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 3. maí 2017);
  • Colombia: State protection programs for victims and witnesses of crimes; requirements to access to the programs; statistics on the number of applications for relocation that are granted and refused; duration and effectiveness of these programs I2012-March 2016) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 6. apríl 2016);
  • Colombia: The National Liberation Army (Ejército de Liberación National -ELN), including number of combatants and areas of operations; activities, including ability to track victims; state response and protection available to victims (2016-April 2018) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 17. apríl 2018);
  • Colombia: The Revolutionary Armed Forces of Colombia (Furezas Armadas Revolucionarias de Colombia, FARC), including demobilization of former combatants; information on dissident groups, including number of combatants, areas of operation, activities and state response (2016- April 2018) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 18. apríl 2018);
  • Colombia Travel Advisory (US Department of State, Bureau of Consular Affairs, skoðað 21. ágúst 2020);
  • Foreign travel advice: Colombia (UK Foreign and Commonwealth Office, skoðað 29. september 2020);
  • Freedom in the World 2020 – Colombia (Freedom House, 4. mars 2020);
  • In the Shadow of “No“: Peace after Colombia’s Plebiscite. Latin America Report No. 60 (International Crisis Group (ICG), 31. janúar 2017);
  • Localized Armed Conflicts – Report on Illegal Armed Groups in Colombia 2017-2018 (Indepaz, desember 2018);
  • Mental Health ATLAS 2017. Member State Profile. Colombia (World Health Organization, 2018);
  • Primary Health Care Systems (Prymasis). Case study from Colombia (World Health Organization, 2017);
  • Recycled Violence, Abuses by FARC dissident groups in Tumaco on Colombia’s Pacific Coast (Human Rights Watch, 13. desember 2018);
  • Situation of human rights in Colombia. Report of the United Nations High Commissioner for Human Rights (UN Human Rights Council, 26. febrúar 2020);
  • Social Security Throughout the World, The Americas, 2019 - Colombia (Social Security Administration. Office of Retirement and Disability Policy. Office of Research, Evaluation, and Statistics, mars 2020);
  • The Missing Peace: Colombia’s New Government and Last Guerrillas. Latin America Report No 68 (International Crisis Group (ICG), 12. júlí 2018);
  • The World Factbook: Colombia (CIA, skoðað 17. september 2020);
  • UNHCR Eligibility Guidelines for Assessing the International Protection Needs of Asylum- Seekers from Colombia (UNHCR, september 2015);
  • Upplýsingar af vefsíðu Colombia Reports (colombiareports.com);
  • Upplýsingar af vefsíðu kólumbíska heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytisins (https://www.minsalud.gov.co);
  • Upplýsingar af vefsíðu InSight Crime (insightcrime.org);
  • Upplýsingar af vefsíðu Refugees International (https://www.refugeesinternational.org);
  • World Report 2018 – Events of 2017 (Human Rights Watch, 16. janúar 2018);
  • World Report 2019 – Events of 2018 (Human Rights Watch, 4. febrúar 2019) og
  • World Report 2020 – Events of 2019 (Human Rights Watch, 14. janúar 2020).

Kólumbía er stjórnarskrárbundið lýðveldi með um 50 milljónir íbúa. Í landinu aðhyllast 79% íbúa kaþólska trú. Þann 5. nóvember 1945 gerðist Kólumbía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1969. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám allrar mismununar gegn konum árið 1982 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 kemur fram að helstu vandamál á sviði mannréttinda í landinu séu m.a. handahófskennd morð, pyndingar, víðtæk spilling, nauðganir og misnotkun kvenna og barna af hálfu ólöglegra vopnaðra hópa í landinu og ofbeldi gegn LGBTI einstaklingum.

Af framangreindum heimildum má ráða að glæpa- og morðtíðni í Kólumbíu sé há og að glæpahópar séu starfandi víðs vegar um landið og séu ráðandi á ákveðnum svæðum, einkum í héruðunum Cauca, Nariño, Catatumbo og Norte de Santander. Þeir stærstu og þekktustu hafi verið skæruliðahóparnir FARC-EP (e. Revolutionary Armed Forces of Colombia – People’s Army) og ELN (e. National Liberation Army). Þá séu þar einnig starfandi svokallaðir NAG (e. New Armed Groups) sem hafi sprottið út frá hersveitum sem áður hafi starfað í landinu. Fram kemur í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 að í kjölfar undirritunar friðarsamkomulags stjórnvalda við skæruliðahópinn FARC, hafi formlegri afvopnun hópsins lokið árið 2017 og það sama ár hafi fyrrum meðlimir myndað stjórnmálaflokk og tekið þátt í þingkosningum í mars árið 2018. Í ársskýrslu Human Rights Watch frá 2019 kemur fram að ofbeldi tengt vopnuðum hópum og afsprengihópum FARC hafi aukist á ný árið 2018 eftir að hafa í fyrstu dregist saman í kjölfar vopnahlés við FARC árið 2015. Í ársskýrslu samtakanna frá 2020 kemur fram að her landsins hafi áætlað að meðlimir í afsprengihópum FARC væru nú fleiri en 2.300 talsins. Þá kemur fram í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 að meðlimir ELN séu um 3.000 talsins og að hópurinn hafi á árunum 2018-2020 framið ýmsa ofbeldisglæpi víða um landið. Þá hafi friðarviðræður stjórnvalda við ELN siglt í strand eftir að hópurinn lýsti yfir ábyrgð á sprengju sem sprakk í lögregluskóla í höfuðborg landsins Bógóta í janúar 2019 og ekki hafist að nýju. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 kemur fram að vopna- og fíkniefnahópar, s.s. hópurinn Clan del Golfo starfi enn með einhverjum tengslum við ofangreinda skæruliðahópa en slíka hópa skorti sameinaða stefnu og yfirstjórn á landsvísu og hugmyndafræði sem hafi einkennt fyrrnefnda skæruliðahópa. Í skýrslu Flóttamannastofnunar frá 2015 kemur fram að sumir glæpahópar stundi fjárkúganir og krefji ákveðna hópa fólks um greiðslur fyrir vernd (s. Vacuna).

Skýrsla hugmyndabankans Indepaz um ólöglega vopnaða hópa í Kólumbíu, fyrir árið 2017-2018, ber með sér að þrátt fyrir að viðvera og ítök ýmissa glæpahópa, þ. á m. ELN, Gulf Clan og Farc, séu sterk víðsvegar í héruðum landsins þá sé viðvera þeirra hvorki sterk né mikil í Bógóta. Á stafrænu korti á vefsíðu Columbia Reports frá 3. september 2020 má sjá hvar viðvera glæpahópanna hefur verið skráð og staðfest af Indepaz. Afsprengihópar FARC hafi t.a.m. haldið að mestu til í suður-, suðvestur- og suðausturhluta Kólumbíu árið 2018 og 2019, sem og við landamæri Venesúela. Þá hafi ELN verið með virka starfsemi í Bógóta árið 2018 en haldið sig til að mestu leyti í norðurhluta Kólumbíu árið 2019. Þó kemur fram að ástandið í landinu sé óstöðugt og að margir af hinum ólöglegu vopnuðu hópum séu virkir utan tilgreindra svæða, þá ýmist með leynilegum aðgerðum eða í gegnum bandalög með öðrum glæpahópum.

Á meðal þess sem fram kemur í framangreindum heimildum er að spilling sé umtalsverð á meðal stjórnmálamanna og innan lögreglu landsins. Þó kemur m.a. fram í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 að forseta- og þingkosningar í júní árið 2018 hafi verið taldar hafa farið fram með frjálsum og sanngjörnum hætti og þær hafi verið hinar friðsömustu í áratugi. Í skýrslu samtakanna Freedom House frá því í mars sl. kemur t.a.m. fram að spillingar gæti víða í kólumbísku stjórnkerfi. Á síðustu árum hafi komið upp á yfirborðið hneykslismál tengd ýmsum alríkisstofnunum sem hafi verið rannsökuð og sakfellt hafi verið fyrir brot, þ. á m. brot háttsettra embættismanna. Þá hafi refsileysi innan öryggissveita landsins verið vandamál en stjórnvöld hafi á síðustu árum aukið þjálfun liðsmanna öryggissveita landsins hvað varðar mannréttindi ásamt því að rannsaka og sakfella í auknum mæli brot liðsmanna þeirra. Þá hafi dregið úr samstarfi á milli öryggissveita og ólöglegra vopnahópa. Mannréttindasamtök hafi þó gagnrýnt að á sumum svæðum virðist afsprengihópar fá að starfa því sem næst óáreittir. Lögregla (s. Policía Nacional de Colombia) heyri undir varnarmálaráðuneyti landsins og sé fagmannlegri en í nágrannaríkjum Kólumbíu en skortur sé á fullnægjandi fjármagni og mannafla. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um glæpi og öryggi í Bógóta frá 2018 kemur fram að lögreglan í Kólumbíu sé viðurkennd á heimsvísu fyrir áhrifaríkt starf. Þó geti skortur á mannafla og úrræðum leitt til þess að erfitt sé að koma í veg fyrir og rannsaka glæpi. Enn fremur hafi lögreglan verið sökuð um að vinna með glæpamönnum og að vera ekki til staðar á strjálbýlli svæðum þar sem hættulegir hópar séu virkir. Lögreglan sé með sérstakt símanúmer, Transparencia Institucional, sem unnt sé að hringja í telji fólk sig hafa orðið fyrir áreitni eða spillingu af hálfu lögreglu. Kveðið sé á um skipan embættis ríkissaksóknara (s. La Fiscalía General de la Nación) í stjórnarskrá Kólumbíu og er unnt að leita til embættisins vegna spillingar lögreglu. Þá sé jafnframt starfandi umboðsmaður (s. Defensoría del Pueblo Colombia) þar í landi. Í skýrslu frá bandaríska utanríkisráðuneytinu um glæpi og öryggi í Kólumbíu frá 13. mars sl. kemur m.a. fram að lögregluyfirvöld í Kólumbíu séu alla jafna öflug og fagleg. Þrátt fyrir ofangreind vandamál hafi dregið verulega úr ofbeldi í landinu öllu á síðustu 20 árum m.a. hafi morðtíðni árið 2017 verið sú lægsta í fjóra áratugi en hafi risið lítillega árið 2018. Megi rekja þessa fækkun ofbeldisglæpa einkum til friðarsamkomulagsins við FARC og vopnahlés og friðarviðræðna við ELN. Í framangreindri skýrslu sendifulltrúa Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttinda í Kólumbíu frá 8. maí sl. kemur fram að í samanburði við árin á undan hafi tíðni glæpa og ofbeldis í landinu árið 2019 verið há. Má ætla að það stafi m.a. af því að friðarviðræðum við ELN hefur verið hætt sem og að afsprengihópar FARC hafi verið að auka starfsemi sína og er áætlað að liðsmenn slíkra hópa séu um 2.500 manns.

Fram kemur í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 að um 7,8 miljónir íbúa í Kólumbíu séu vegalausir innanlands (e. internally displaced people), flestir vegna vopnaðra átaka í landinu. Þá hafi hætta af ólöglegum vopnuðum hópum í landinu valdið fólksflutningum bæði í þéttbýli sem og í dreifbýli. Samkvæmt lögum hafi 52 opinberar stofnanir í Kólumbíu það hlutverk að veita einstaklingum sem hafi þurft að flýja heimkynni sín aðstoð. Jafnframt séu fjöldi félaga og samtaka í samstarfi með stjórnvöldum og hafi tekið að sér að veita mannúðaraðstoð til þeirra sem hafi þurft að flytjast á brott frá heimasvæði sínu. Stjórnvöld hafi þó sætt gagnrýni fyrir seinar og ófullnægjandi aðgerðir.

Samkvæmt stjórnarskrá Kólumbíu eiga ríkisborgarar rétt á grunnheilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð í landinu. Samkvæmt fréttum á vef Colombia Reports var atvinnuleysi í landinu árið 2019 10,5% og hafi aukist verulega á árinu 2020. Ráðuneyti heilbrigðis- og félagslegrar verndar (s. Ministerio de Salud y de Protección Social) ber ábyrgð á að hafa eftirlit með og samræma þjónustu á starfssviði sínu á landsvísu. Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu frá 2015 (s. La Ley Estatutaria de Salud 1751 de 2015) telst heilbrigði til grundvallarmannréttinda og bann er lagt við því að synja sjúklingum um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu á grundvelli efnahagslegrar stöðu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna. Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hlið sjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir á því að hann sé í hættu vegna ofsókna af hálfu skæruliða og glæpahópa í heimaríki sínu og geti ekki leitað til yfirvalda þar í landi. Árið 2018 hafi kærandi hafið störf sem verslunarmaður í sama verslunarkjarna og áður. Kæranda hafi byrjað að berast hótanir símleiðis í formi skilaboða í febrúar 2019 og hafi fljótlega áttað sig á því að skæruliðar paramilitares stæðu að baki þeim. Kærandi hafi ekki getað mætt til vinnu og í kjölfarið orðið stórskuldugur. Kærandi telji að skæruliðar paramilitares myndu hafa uppi á honum og fjölskyldu hans ef hann færi aftur til heimaríkis. Kærandi hafi leitað til lögreglu í heimaríki en það hafi ekki skilað árangri eða vernd.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, viðtali hjá kærunefnd þann 10. september 2020, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram ýmis skjöl til stuðnings frásögn sinni, m.a. lögregluskýrslur og eiðsvarnar yfirlýsingar móður hans um morð á stjúpföður kæranda. Kærunefnd leitaði liðsinnis löggilts skjalaþýðanda við skoðun framangreindra gagna og varð ljóst að þær upplýsingar sem fram koma í framlögðum skjölum kæranda samræmast því sem fram hefur komið í frásögn hans í viðtölum hjá Útlendingastofnun, þ. á m. um það hvað hafi falist í þeim hótunum sem honum hafi borist. Að mati kærunefndar eru skjölin trúverðug og telur nefndin ekki ástæðu til að draga lögmæti þeirra í efa. Þann 10. september 2020 kom kærandi í viðtal hjá kærunefnd og samrýmdist framburður hans þar í meginatriðum fyrri framburði hans hjá Útlendingastofnun. Þá var framburður kæranda í viðtölum hjá bæði Útlendingastofnun og kærunefnd almennt stöðugur og skýr. Með vísan til fyrirliggjandi gagna í málinu og trúverðugleika kæranda telur kærunefnd ekki ástæðu til annars en að leggja til grundvallar frásögn kæranda um að hann sé frá Bógóta í Kólumbíu og hafi þar orðið fyrir hótunum og ofbeldi vegna starfs síns. Ekki er hægt að útiloka að mati kærunefndar að skæruliðahópar hafi staðið að baki þeim hótunum sem kæranda hafi borist árið 2019. Þá leggur kærunefnd til grundvallar frásögn kæranda um að stjúpfaðir hans hafi verið myrtur af skæruliðum FARC þegar kærandi hafi verið barn að aldri og að bróður hans hafi verið rænt og hann pyndaður.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu kólumbískra yfirvalda sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Skýrslur og gögn um ástand mannréttinda- og öryggismála í Kólumbíu sem kærunefnd hefur yfirfarið benda til þess að ofbeldi og áreiti viðgangist víða í landinu og að ítök glæpahópa séu á mörgum svæðum sterk og löggæsla veik. Þrátt fyrir að gögn um aðstæður í Kólumbíu bendi til þess að glæpahópar séu áhrifamiklir á sumum svæðum í Kólumbíu er það mat kærunefndar að gögnin sýni fram á að á öruggari svæðum, þ. á m. í Bógóta þar sem kærandi hafi búið áður en hann hafi komið til Íslands, geti kólumbísk yfirvöld almennt verndað grundvallarmannréttindi ríkisborgara sinna. Heimildir benda ekki til þess að ítök og áhrif glæpa- eða skæruliðahópa séu slík í Bógóta að ómögulegt sé fyrir kæranda að leita aðstoðar yfirvalda. Þau gögn sem kærunefnd hefur skoðað benda til þess að Bógóta sé talsvert öruggara svæði en önnur svæði í landinu. Þá verður að mati kærunefndar ekki annað leitt af gögnum málsins en að þær ofsóknir sem kærandi kveðst eiga í hættu á að verða fyrir séu að mestu staðbundnar við tiltekið verslunarsvæði þar sem hann hafi unnið. Samkvæmt framburði kæranda hafi honum byrjað að berast hótanir þegar hann hafi hafið þar störf í annað skipti, en hann hafi talið þær vera í tengslum við fyrra starf hans þar. Í viðtali hjá kærunefnd kvað kærandi hótanirnar af hálfu paramilitares árið 2010 hafa hætt eftir að hann hafi byrjað að halda sig utan verslunarsvæðisins. Jafnframt kvaðst kærandi ekki hafa borist aðrar hótanir en þær sem hann hafi fengið í textaskilaboðum árið 2019 þess efnis að hann ætti að halda sig utan verslunarsvæðisins. Að mati kærunefndar bendir framburður kæranda til þess að á meðan hann hafi ekki starfað í umræddu hverfi hafi hann lifað eðlilegu lífi í heimaríki sínu. Þrátt fyrir að ekki sé hægt að útiloka að kærandi hafi upplifað hótanir og áreiti af hálfu paramilitares og kunni að verða fyrir slíku aftur í heimaríki sínu, er það mat kærunefndar, með vísan til framangreinds, að kærandi hafi ekki sýnt fram á að stjórnvöld í Kólumbíu hafi ekki vilja og getu til að veita honum vernd telji hann þörf á því. Gögn sem kærandi lagði sjálfur fram benda til þess að lögregla hafi tekið á móti kæru hans vegna þeirra hótana sem honum hafi borist og hann telji stafa frá paramilitares. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem leggja grunn að staðhæfingum hans um að þar til bær yfirvöld í heimaríki hafi ekki eða muni ekki aðhafast frekar í málinu. Kærandi hefur enn fremur ekki lagt fram gögn, önnur en framburð sinn, sem styðja við staðhæfingar hans um að aðilarnir sem standi að baki þeim hótunum sem honum hafi borist hafi tengsl við stjórnvöld í heimaríki kæranda sem leiði til þess að aðgengi hans að viðeigandi vernd stjórnvalda sé takmarkað. Er það því mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd gegn þeim athöfnum sem kærandi telur að sér stafi hætta af, m.a. með því að ákæra og refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hefur því raunhæfan möguleika á að leita ásjár stjórnvalda í heimaríki sínu telji hann þörf á því.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort að aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort að einstaklingur sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda hverju sinni að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Kærandi byggir á því að öryggisástand í heimaríki hans sé afar ótryggt þar sem vopnaðir glæpahópar séu hluti af daglegu lífi borgara. Þá hafi hann og fjölskylda hans sætt ofsóknum og líklegt sé að þær muni halda áfram verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að ástandið í Kólumbíu sé víða ótryggt, sumum svæðum sé að mestu leyti stjórnað af glæpa- eða skæruliðahópum og að íbúar landsins kunni að eiga á hættu að vera beittir ofbeldi af hálfu slíkra hópa. Það er mat kærunefndar að frásögn kæranda af almennu ástandi í Kólumbíu sé í meginatriðum í samræmi við fyrirliggjandi gögn og upplýsingar um heimaríki hans. Þau gögn og heimildir sem kærunefnd hefur yfirfarið við meðferð málsins benda þó ekki til þess að aðstæður í borginni Bógóta, þar sem kærandi hafi búið, séu slíkar að hann eigi á hættu meðferð sem brjóti í bága við 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Að virtum framburði kæranda hjá Útlendingastofnun og kærunefnd, gögnum málsins og landaupplýsingum sem fjallað var um að framan er það mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingum, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði honum gert að snúa aftur til Kólumbíu. Þá telur kærunefnd, með vísan til aðgerða yfirvalda og möguleika á vernd þar í landi, ekki raunhæfa ástæðu til að ætla að kærandi verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, verði honum gert að fara þangað.

Þrátt fyrir tilvist glæpasamtaka í borginni Bógóta, þar sem kærandi hafi búið undanfarin ár, er það mat kærunefndar að þau gögn og heimildir sem kærunefnd hefur yfirfarið við meðferð málsins bendi ekki til þess að aðstæður þar séu slíkar að kærandi eigi á hættu meðferð sem brjóti í bága við 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Það er því mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í Kólumbíu.Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í greinargerð kæranda er fjallað um slæmar félagslegar aðstæður og slæmt ástand mannréttindamála í Kólumbíu. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum.

Fjallað hefur verið um aðstæður kæranda í heimaríki en í viðtölum hjá Útlendingastofnun kvaðst hann vera við góða líkamlega heilsu en sé hræddur og eigi stundum erfitt með svefn. Í viðtali hjá kærunefnd kvaðst kærandi nú vera við góða andlega og líkamlega heilsu. Kærandi kvað fyrrverandi unnustu sína og börn þeirra vera búsett í Bandaríkjunum en að honum hafi verið brottvísað þaðan. Kærandi kvað móðurfjölskyldu sína búa í Bógóta og að hann sé í sambandi við þau. Hann kvað fjölskyldu sína ekki berast hótanir lengur þar sem þau haldi sig utan þeirra svæða þar sem skæruliðahópar haldi til.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild sinni er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Athugasemdir kæranda við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Kærandi gerði í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans. Kærunefnd hefur að framan tekið afstöðu til þeirra að því leyti sem þær kunna að hafa áhrif á niðurstöðu þessa máls. Kærunefnd hefur yfirfarið öll gögn málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Þrátt fyrir að framlögð skjöl kæranda hafi ekki verið sérstaklega þýdd verður ekki annað séð af ákvörðun Útlendingastofnunar en að stofnunin hafi lagt skjölin til grundvallar við úrlausn málsins. Þá virðist ekki hafa skort á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir um ástandið í heimaríki kæranda við ákvörðunartöku hjá stofnuninni. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 14. desember 2019 og sótti um alþjóðlega vernd 15. desember 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Í ljósi Covid-19 faraldursins er athygli kæranda einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                      Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta