Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 147/2012

Fimmtudaginn 2. október 2014

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Með bréfi 24. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 2. júlí 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 27. júlí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 31. ágúst 2012. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 5. september 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kærendum með bréfi 18. september 2012. Voru þær sendar embætti umboðsmanns skuldara með bréfi 20. september 2012 og óskað eftir afstöðu embættisins. Með tölvupósti 21. september 2012 tilkynnti embættið að það myndi ekki gera frekari athugasemdir vegna málsins.

 I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1954 og 1957. Þau eru gift og búa í eigin húsnæði á jörðinni C, í sveitarfélaginu D. Kærandi A á félagið X ehf. en hún stofnaði það utan um jörðina E og þann búrekstur sem er á jörðinni.

Kærendur fá bæði greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins sem nemur alls 312.228 krónum á mánuði eftir frádrátt skatts. Kærendur eru ábúendur á C en kærandi B var með eigin rekstur hjá Y ehf. þar til haustið 2009 er hann lenti í vinnuslysi.

Að sögn kærenda má einkum rekja fjárhagserfiðleika þeirra til veikinda og slysa. Kærandi A veiktist árið 2008 og hefur verið óvinnufær síðan. Kærandi B er rafvirkjameistari en hann vann að þróun hitastýrikerfis fyrir heita potta. Hann stofnaði Z ehf. árið 1996 en það félag hætti að mestu rekstri þegar Y ehf. var stofnuð árið 2002. Eftir efnahagshrunið árið 2008 hafi verulegur samdráttur orðið í rekstri félaganna og fyrirtæki sem kærandi B hafi byggt upp og hafi verið metið á tugi milljóna króna séu lítils eða einskis virði í dag. Kærandi B hafi lent í tveimur slysum árið 2009 og verið óvinnufær síðan.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt gögnum málsins eru 203.322.241 króna. Þær falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2010.

Ábyrgðarskuldbindingar kærenda nema 50.758.667 krónum samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara en fyrir kærunefndina hafa aðeins verið lögð fram gögn er sýna ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 45.530.000 krónur.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 29. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. júlí 2012 var umsókn þeirra hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að umboðsmanni skuldara verði gert skylt að aðstoða þau við að ná viðunandi lausn í fjármálum sínum. Skilja verður málatilbúnað þeirra þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Fyrir efnahagshrunið 2008 hafi kærendur átt skuldlausa eignarhluta í tveimur jörðum og kærandi B hafi verið með góðan rekstur. Kærendur mótmæla tilvísun umboðsmanns skuldara til b- og c-liða 2. mgr. 6. mgr. lge. Þau hafi ekki tekið fjárhagslega áhættu með nýjum lántökum. Þau hafi ætlað að selja jörðina að E og tekið 60.000.000 króna yfirdráttarlán hjá Arion banka til að brúa bilið fram að sölunni. Jörðin hafi verið talin verðmeiri en 60.000.000 króna. Bankinn hafi síðan farið fram á að yfirdráttarláninu yrði breytt í skuldabréf. Við hrunið hafi jarðir svo orðið óseljanlegar.

Kærendur hafi tekið 30.000.000 króna lífeyrissjóðslán árið 2008 og veðsett C til tryggingar láninu. Peningarnir hafi farið til Arion banka til greiðslu inn á 60.000.000 króna lánið.

Bankinn hafi einnig sótt það fast að kærendur gengjust í persónulegar ábyrgðir fyrir félög sín. Þetta hafi orðið kærendum að falli. Telja kærendur að umboðsmaður eigi að finna að þessu verklagi fjármálastofnana.

Kærendur telja umboðsmann skuldara eiga að skoða fjárhæðir lána við upphaflegar lántökur en ekki miða við tölur eftir hrun sem gefi ranga mynd af viðskiptunum. Þegar lánin hafi verið tekin hafi veð vel dugað enda hafi það verið mat bankastofnana á þeim tíma. Kærendur hafi getað staðið í skilum þegar til skuldanna var stofnað. Þau hefðu ekki stofnað til skuldanna ef þau hefðu verið vöruð við bankahruni, efnahagshruni eða heilsuleysi. Umboðsmaður taki ekki tillit til alvarlegra veikinda kærenda á þeim tíma er skipti máli en það hafi gert þau bæði óvinnufær.

Kærendur kveða framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara ekki eiga við í tilviki þeirra þar sem þau séu ábúendur á jörð, en reiknað endurgjald í atvinnurekstri segi ekki alla söguna.

Kærendur álíta engin ákvæði 6. gr. lge. mæla gegn því að þau fái heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Þau telja að fjárhagsvanda þeirra eigi að leysa með því að kröfuhafar eignist fasteignir þeirra en endurgreiði þeim jafnframt hluta af því sem þau hafi greitt. Að öðru leyti verði skuldir þeirra felldar niður. Kærendur séu nú bæði heilsulaus vegna veikinda og algerlega óvinnufær.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Af skattframtölum kærenda megi ráða eftirfarandi um greiðslugetu þeirra í krónum:

Tekjuár 2008 2009
Ráðstöfunartekjur að meðaltali á mán. 274.224 330.434
Áætlaður framfærslukostnaður á mán.* 140.944 158.109
Annar kostnaður 48.805 54.749
Áætluð greiðslubyrði lána** 330.000 770.000
Greiðslugeta -245.525 -652.424
Framtaldar eignir 45.836.823 41.513.284
Skuldir 66.569.005 154.541.958

*Miðað við neysluviðmið umboðsmanns skuldara.

**Miðað við 5.000 króna greiðslu af hverri milljón á mánuði.

Við mat á því hvort beita skuli ákvæðum b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. verði að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar sé, einkum áranna 2008 og 2009.

Á árinu 2008 hafi kærandi A gert lánasamning við Lífeyrissjóðinn Stafi upphaflega að fjárhæð 33.500.000 krónur. Lánið hafi verið tryggt með veði í jörð kærenda en fjármunirnir hafi farið til niðurgreiðslu á yfirdráttarláni hjá Arion banka. Á árinu 2009 hafi kærendur gengist í ábyrgðir fyrir Y ehf. og Z ehf. fyrir samtals 12.263.881 krónu. Á árinu 2010 hafi kærandi A gengist í ábyrgðir fyrir Z ehf. fyrir 5.500.000 króna.

Sé tekið mið af ráðstöfunartekjum kærenda á árinu 2008 að teknu tilliti til áætlaðs framfærslukostnaðar, annars rekstrarkostnaðar heimilis og áætlaðrar greiðslubyrði lána muni kærendur hafa vantað 245.525 krónur á mánuði til að geta staðið við skuldbindingar sínar. Á árinu hafi kærendur þó aukið við skuldbindingar sínar þegar kærandi A hafi gert lánasamning við Lífeyrissjóðinn Stafi að fjárhæð 33.500.000 krónur.

Sé tekið mið af ráðstöfunartekjum kærenda á árinu 2009 að teknu tilliti til áætlaðs framfærslukostnaðar, annars rekstrarkostnaðar heimilis og áætlaðrar greiðslubyrði lána muni kærendur hafa vantað 652.424 krónur á mánuði til að geta staðið við skuldbindingar sínar. Gögn málsins bendi til þess að á árinu 2009 hafi kærendur tekist á hendur auknar ábyrgðarskuldbindingar vegna lánasamnings Z ehf. við Íslandsbanka að fjárhæð 3.350.000 krónur og vegna Y ehf. að fjárhæð 8.913.881 króna.

Það er mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi verið ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar þegar þau hafi tekist á hendur nefndar skuldbindingar á árunum 2008 og 2009. Með því að auka þá við skuldbindingar sínar hafi þau tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma er til skuldbindinganna var stofnað.

Umboðsmaður skuldara hafi bréflega óskað eftir skýringum kærenda á hækkun skulda á milli áranna 2007 og 2009. Kærendur hafi þá mótmælt þeirri mynd sem umboðsmaður hafi dregið upp af fjárhag þeirra. Í svari þeirra komi fram að þau eigi tvær bújarðir; C og E, en síðarnefnda jörðin sé í eigu félagsins X ehf. sem sé að fullu í eigu kærenda. Kærendur hafi lagt fram verðmat fasteignasala á jörðunum frá febrúar 2009, en þau telji fasteignamat jarðanna óraunhæft. Fyrir efnahagshrunið 2008 hafi staðið til að selja aðra jörðina en við hrunið hafi jarðir orðið illseljanlegar. Það sé fyrst og fremst efnahagshrunið sem hafi leitt til þess hvernig staða þeirra sé nú. Þrátt fyrir verðmat á fasteignum frá febrúar 2009 telji umboðsmaður ekki hægt að líta fram hjá því að kærendur hafi ekki staðið undir greiðslubyrði áhvílandi lána frá árinu 2008.

Í fyrri úrskurðum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála hafi niðurstaðan jafnan verið sú, að þegar kærendur takast á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur séu á að þeir geti staðið við miðað við tekjur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem lán eru tekin, sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Í þessu sambandi sé sérstaklega vísað til úrskurðar kærunefndarinnar í máli nr. 23/2011, sbr. úrskurði í málum nr. 11/2011 og 17/2011.

Kærendur hafi greint frá því að þau telji þann framfærslukostnað sem umboðsmaður skuldara miði við ekki eiga við í þeirra tilviki. Af athugasemdum kærenda sé ekki hægt að ráða hvers vegna þau telji svo vera. Óljóst sé hvort kærendur telji framfærslukostnað sinn hærri eða lægri en framfærsluviðmið umboðsmanns. Hafi framfærslukostnaður þeirra verið hærri sé ljóst að þau hafi verið enn fjær því að geta staðið við skuldbindingar sínar. Breyti það ekki niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar þótt kærendur telji framfærslukostnað sinn hafa verið lægri þar sem ekki verði með neinu móti séð að kærendur hafi getað staðið undir skuldbindingum sínum miðað við tekjur.

Kærendur hafi andmælt því mati umboðsmanns skuldara að þau hafi tekið fjárhagslega áhættu með töku nýrra lánasamninga. Kveði kærendur bankann hafa farið fram á það að kærendur skuldbreyttu yfirdráttarláni með þessum hætti og hafi jafnframt sótt það fast að kærendur gengjust í persónulegar ábyrgðir fyrir félög sín. Er það mat umboðsmanns að með því að takast á hendur skuldbindingar á þeim tíma sem um ræði hafi kærendur bætt við sig skuldum að einhverju leyti þrátt fyrir að þau gætu ekki staðið við þáverandi skuldir með tekjum sínum og eignum. Þegar menn greiði upp yfirdráttarskuld með láni geti það minnkað greiðslubyrði og veitt svigrúm til að gera upp skuldir að hluta. Það eigi þó ekki við í tilviki kærenda, að minnsta kosti ekki að því marki að í því hafi falist lausn á greiðsluerfiðleikum þeirra. Almennt verði að hafa í huga varðandi fjárhagslega áhættutöku kærenda að skuldsetning þeirra hafi ekki verið í tengslum við kaup á þeirri fasteign sem veðsett var. Fjárhagslegar ráðstafanir kærenda virðast þannig ekki hafa skilað sér í eignamyndun.

Einnig verði að telja að það feli að jafnaði í sér áhættu að taka á sig persónulegar ábyrgðir vegna atvinnurekstrar og þeir sem takist á hendur slíkar ábyrgðir verði að gera ráð fyrir að á þær geti reynt.

Við heildarmat á aðstæðum kærenda og með vísan til alls þess sem að framan greini telji umboðsmaður skuldara óhæfilegt að veita kærendum heimild til að leita greiðsluaðlögunarmeð vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt skattframtölum og öðrum gögnum málsins var fjárhagsstaða kærenda eftirfarandi árin 2006 til 2010 í krónum:

  2006 2007 2008 2009 2010
Meðaltekjur á mánuði (nettó) 348.747 276.757 274.224 330.434 341.191
Eignir alls 37.009.626 46.916.942 45.936.823 41.513.284 31.271.761
· Fasteignir 12.865.000 12.155.000 35.169.000 35.224.000 24.484.000
· Ökutæki 1.556.535 267.318 240.586    
· Hrein eign skv. efnahagsreikn. 20.928.091 32.834.624 7.035.550    
· Hlutir í félögum 1.660.000 1.660.000 1.660.000 6.160.000 6.160.000
· Bankainnstæður     1.831.687 129.284 627.761
Skuldir 22.845.590 20.240.999 66.569.005 154.541.958 150.270.574
Nettóeignastaða 14.164.036 26.675.943 -20.632.182 -113.028.674 -118.998.813

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kærenda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2012 frá
Arion banki 2005 Tékkareikningur 80.995.539 121.596.664 2009
Stafir lífeyrissjóður 2005 Veðskuldabréf 13.000.000 23.890.646 2010
Stafir lífeyrissjóður 2008 Veðskuldabréf 33.500.000 55.169.313 2010
Landsbankinn 2010 Skuldabréf 1.690.000 2.004.335  
Landsbankinn 2010 Víxill 575.000 661.283 2011
    Alls 129.760.539 203.322.241  

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt sé að veita hana. Í því lagaákvæði eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Í framhaldinu eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.

Kærendur hafa bent á að þau séu eigendur tveggja jarða. Hafi eignastaða þeirra verið mun betri en skattframtöl gefi til kynna þar sem fasteignamat jarðanna hafi verið of lágt miðað við verðmæti. Fyrir liggur að aðeins önnur jörðin er eign kærenda en hin er í eigu félagsins X ehf. Gera kærendur grein fyrir því á skattframtölum að þau eigi 5.000.000 króna að nafnverði í félaginu en samkvæmt fyrirliggjandi óendurskoðuðum ársreikningi er það allt hlutafé félagsins. Kærunefndin getur þó ekki fallist á að jörð sem er í eigu lögaðila teljist jafnframt eign þeirra. Verður hún því ekki talin til eigna þeirra við mat á eignastöðu heldur framangreind hlutafjáreign þeirra í félaginu.

Kærendur hafa lagt fram verðmat löggilts fasteignasala á jörð sinni C en matið er dagsett í febrúar 2009. Samkvæmt matinu var verðmæti eignarinnar um 78.000.000 króna í lok árs 2008. Frávik var talið 5 til 10% til hækkunar eða lækkunar. Að mati kærunefndarinnar hafa kærendur með því leitt líkur að því að fasteignamat jarðarinnar hafi verið töluvert lægra en söluverðmæti og um leið sýnt fram á líklegt verðmæti jarðarinnar á umræddum tíma. Fasteignamat í lok árs 2008 var 25.199.000 krónur og fasteignamat í lok árs 2009 var 24.574.000 krónur.

Á árinu 2008 tók kærandi A lán að fjárhæð 33.500.000 krónur hjá lífeyrissjóði en hún kvað lánið hafa farið til greiðslu á yfirdráttarláni kærenda hjá Arion banka. Við skoðun hreyfingaryfirlits á hinum yfirdregna tékkareikningi má sjá að í maí og júní árið 2008 greiddu kærendur alls 28.000.000 króna inn á yfirdráttarskuld sína hjá Arion banka sem eftir það nam rúmum 67.000.000 króna. Er það því mat kærunefndarinnar að líta verði svo á að 5.500.000 krónur af lífeyrissjóðsláninu, eða 16,4%, hafi verið nýtt lán til kærenda.

Í skattskýrslu kærenda fyrir árið 2008 er ekki gerð grein fyrir yfirdráttarláninu en lífeyrissjóðslán kærenda eru þar tiltekin. Sé tekið tillit til yfirdráttarlánsins og miðað við að fyrrnefnt verðmat fasteignasala endurspegli rétt verðmæti fasteignar kærenda var eignastaða þeirra eftirfarandi í lok áranna 2008 og 2009 í krónum:

  2008 2009
Eignir 109.422.823 94.939.284
Skuldir 144.437.417 154.541.958
Nettóeignastaða -35.014.594 -59.602.674

Með vísan til 4. mgr. 16. gr. lge. ber að notast við það framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Til þess að unnt sé að leggja mat á hvort undantekningar frá meginreglu eigi við um framfærsluviðmið verða að liggja fyrir viðeigandi gögn sem sýna fram á að fjármunum hafi í raun verið ráðstafað með þeim hætti sem haldið er fram. Kærendur hafa ekki lagt fram viðhlítandi gögn til stuðnings fullyrðingu sinni um að framfærsluviðmið umboðsmanns eigi ekki við um þau.

Laun kærenda voru 274.224 krónur á mánuði að meðaltali árið 2008. Framfærslukostnaður kærenda var tæpar 190.000 krónur á mánuði. Eftir greiðslu framfærslukostnaðar höfðu þau því til ráðstöfunar tæpar 85.000 krónur á mánuði. Í málinu nýtur ekki við gagna um heildargreiðslubyrði af skuldum kærenda á árunum 2008 og 2009. Af fyrirliggjandi gögnum verður þó ráðið að greiðslubyrði af höfuðstól þáverandi skulda kærenda í lok árs 2008 hafi verið um 93.000 krónur á mánuði og greiðslubyrði þess hluta lífeyrissjóðsláns sem telja verður nýtt lán um 16.000 krónur á mánuði. Vaxtagreiðslur af yfirdráttarláni voru um 1.400.000 krónur á mánuði á sama tíma. Má af þessu ráða að kærendur voru greinilega ófær um að standa við skuldbindingar sínar, þar á meðal skuldbindinguna, sem kærandi A stofnaði til með fyrrgreindu lífeyrissjóðsláni. Telur kærunefndin því að kærendur hafi stofnað til skuldarinnar á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við hana í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Á árinu 2009 gengust kærendur í sjálfskuldarábyrgðir fyrir alls rúmar 12.200.000 krónur. Laun kærenda voru 330.434 krónur á mánuði að meðaltali árið 2009 og framfærslukostnaður tæpar 212.000 krónur á mánuði. Eftir greiðslu framfærslukostnaðar höfðu þau því til ráðstöfunar tæpar 117.000 krónur á mánuði.

Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá einstaklingur sem gengst undir ábyrgðar­skuldbindingar þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild. Þótt ekki verði gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á verður engu að síður að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig. Í ljósi þess hvernig fjárhagsstöðu kærenda var háttað þegar þau tókust á hendur þessar sjálfskuldarábyrgðir verður að telja að þau hafi tekið fjárhagslega áhættu með því að gangast í þær en það er mat kærunefndarinnar að þau hafi ekki haft svigrúm til að takast á hendur frekari skuldbindingar á þeim tíma.

Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er samanber það sem greinir hér að ofan. Þegar litið er til þess sem gerð er grein fyrir hér að framan telur kærunefndin að kærendur hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A og B hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta