Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 186/2012

Fimmtudaginn 23. október 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 4. október 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 21. september 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 10. október 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 8. janúar 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 10. janúar 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1979 og býr hjá foreldrum sínum. Hann greiðir 60.000 krónur í húsaleigu á mánuði. Hann á tvö börn sem hann greiðir meðlag með.

Kærandi sat í fangelsi frá X 2010 til fram í Y 2011. Hann var síðast í launaðri vinnu í júní 2008 en frá þeim tíma hefur hann þegið greiðslur frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar með hléum. Frá 2007 hefur hann haft til ráðstöfunar að meðaltali 124.841 krónu á mánuði.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til atvinnuleysis, offjárfestinga og vankunnáttu í fjármálum. Kærandi kveðst hafa átt við áfengisvandamál að stríða og því hafi tekjur hans verið nokkuð óreglulegar. Til helstu skulda hafi hann stofnað vegna lágra tekna. Meðal annars hafi hann farið í áfengismeðferð í lok árs 2007, verið tekjulaus á þeim tíma og því tekið lán til framfærslu. Kærandi segir að honum hafi haldist illa á vinnu og því hafi hann ekki unnið sér inn rétt til atvinnuleysisbóta. Hann sé nú í atvinnuleit.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 19.314.572 krónur og falla 2.558.192 krónur þar af utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. desember 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 24. janúar 2012 tilkynnti umsjónarmaður að fram hefðu komið upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 15. gr. lge. Umsjónarmaður hefði ítrekað gert tilraunir til að fá kæranda á sinn fund en kærandi ekki sinnt því. Ómögulegt væri fyrir umsjónarmann að sinna skyldum sínum neitaði skuldari að taka þátt í greiðsluaðlögunarumleitunum. Því óskaði umsjónarmaður eftir því að greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður og skipun hans lokið. Sendi umboðsmaður skuldara kæranda bréf 28. febrúar 2012. Þar var honum kynnt framkomið bréf umsjónarmanns og honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests áður en tekin yrði endanleg ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar.

Kærandi svaraði bréfi umboðsmanns með tölvupósti 13. mars 2012 og bað um að umsjónarmaður yrði skipaður á ný. Var sami umsjónarmaður skipaður á ný 14. mars 2012. Með bréfi til umboðsmanns skuldara 17. ágúst 2012 tilkynnti umsjónarmaður á ný að fram hefðu komið upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 15. gr. lge. Hefði frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun verið sent lánardrottnum samkvæmt 17. gr. lge. Andmæli hefðu borist frá sýslumanninum á Blönduósi – innheimtumiðstöð. Embættið hefði gert athugasemdir við frumvarpið og lagst gegn því þar sem kærandi hefði ekki staðið við gerðan samning um greiðslu sektar að fjárhæð 80.000 krónur sem stæði utan greiðsluaðlögunar. Yrði sektin staðgreidd myndi embættið falla frá andmælum. Segir í bréfi umsjónarmanns að kærandi hefði ekki greitt sektina þrátt fyrir loforð þar um og ítrekuð tilmæli umsjónarmanns. Einnig hefði komið í ljós að kærandi hefði haft umtalsverðar tekjur í maí og júní 2012. Þegar haft hafi verið samband við kæranda hafi hann kveðist hafa fengið starf en látið hjá líða að tilkynna umsjónarmanni um það.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 6. september 2012 þar sem honum var kynnt að umsjónarmaður teldi verulega skorta á samstarfsvilja hans þar sem hann hefði ekki greitt áðurnefnda sekt en greiðsla hennar væri forsenda þess að greiðsluaðlögunarumleitanir héldu áfram. Á sama tíma hefði kærandi fengið atvinnu og ráðstöfunartekjur hans aukist án þess að hann hefði látið umsjónarmann vita en umsjónarmanni væri nauðsynlegt að hafa upplýsingar um tekjur skuldarans til að unnt væri að gera frumvarp að samningi til greiðsluaðlögunar. Var skorað á kæranda að bæta úr þessu og honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests áður en tekin yrði endanleg ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar. Kærandi svaraði ekki bréfinu.

Með bréfi til kæranda 21. september 2012 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að frávísun málsins verði tekin aftur. Verður að skilja kröfuna á þann veg að kærandi krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður verði felld úr gildi.

Kærandi kveður greiðsluaðlögunarsamningi hafa verið vel tekið af kröfuhöfum nema einni ríkisstofnun. Hann hafi ekki fjármuni til að greiða sektina í einu lagi og því hafi hann reynt að semja um greiðslu.

Vísar kærandi einnig til þess að faðir hans sé ábyrgðarmaður á skuldum hans og muni missa allt, gangi samningar ekki eftir.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 1. mgr. 16. gr. lge. segi að umsjónarmaður skuli eins fljótt og auðið sé eftir að kröfulýsingarfrestur sé liðinn gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Skuli frumvarpið samið í samráði við skuldara.

Í máli þessu hafi ekki tekist að fá kæranda til samstarfs svo ljúka mætti greiðsluaðlögunarumleitunum. Verði að leggja þær skyldur á kæranda að hann sýni samstarfsvilja og sinni tilmælum um veigamikil atriði er máli skipti við gerð frumvarps. Hafi umboðsmanni hvorki borist svör við bréfi 6. september 2012 né gögn sem varpað geti ljósi á afstöðu og fyrirætlan kæranda. Ekki verði því annað ráðið en að athafnaleysi kæranda hafi komið í veg fyrir að hægt væri að ljúka gerð frumvarps um greiðsluaðlögun.

Verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. Í ákvæðinu segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið tekur afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Í máli þessu telur umsjónarmaður að mjög hafi skort á samstarfsvilja kæranda. Í fyrsta lagi hafi kærandi ekki upplýst umsjónarmann um að hann hefði fengið starf og ráðstöfunartekjur hans þar með aukist. Í öðru lagi hafi hann látið hjá líða að greiða sekt að fjárhæð 80.000 krónur þrátt fyrir ítrekuð tilmæli þar um. Sektin hafi verið utan samnings um greiðsluaðlögun og greiðsla hennar hafi verið forsenda þess að greiðsluaðlögunarsamningar næðust. Af þessum ástæðum hafi umsjónarmaður beint því til umboðsmanns skuldara að rétt væri að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður og hafi umboðsmaður gert það með ákvörðun 21. september 2012.

Umsjónarmaður sendi lánardrottnum frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 16. gr. lge. 10. maí 2012. Lagðist sýslumaðurinn á Blönduósi gegn samningnum vegna ógreiddrar sektar að fjárhæð 80.000 krónur. Benti umsjónarmaður kæranda á að greiðsla sektarinnar væri forsenda þess að samningur um greiðsluaðlögun kæmist á. Um þremur mánuðum síðar var sektin enn ógreidd.

Við skoðun umsjónarmanns á staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra kom í ljós að kærandi hafði fengið starf og haft eftirfarandi tekjur í maí og júní 2012 í krónum án þess að upplýsa umsjónarmann um það:

 

Mánuður Laun Lífeyrissjóður Staðgreiðsla Nettólaun
Maí 2012 550.425 16.709 21.138 512.578
Júní 2012 482.696 14.000 82.004 386.692



Samtals 899.270

 Samkvæmt þessu hefur kærandi ekki lagt fram þau gögn er nauðsynleg eru til að sýna fram á hverjar tekjur hans eru. Að mati kærunefndarinnar eru þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda byggir greiðsluaðlögun öðrum þræði á því að skuldari greiði af skuldum sem hann hefur stofnað til að því marki sem greiðslugeta hans leyfir. Af þessum sökum er nauðsynlegt að tekjur skuldara liggi ljósar fyrir, ella er ekki mögulegt að leggja mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt til kröfuhafa á grundvelli samnings um greiðsluaðlögun.

Þegar framanritað er virt verður að telja að verulega hafi skort á samstarfsvilja kæranda í málinu. Kærandi hafi látið hjá líða að upplýsa um tekjur sínar, eins og honum er skylt að gera samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. Skorti því fullnægjandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu kæranda vegna frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 16. gr. lge. Þá verður, í ljósi tekna kæranda í maí og júní 2012, að telja að hann hafi haft getu til að greiða fyrrgreinda sekt í ríkissjóð sem var forsenda þess að greiðsluaðlögunarsamningur kæmist á en það lét hann ógert.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. og 1. og 2. mgr. 16. gr. lge. Kærunefndin telur einnig að b-liður 1. mgr. 6. gr. eigi við í málinu þar sem kærandi veitti ekki umbeðin gögn og upplýsingar. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Lára Sverrisdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta