Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 185/2012

Fimmtudaginn 23. október 2014

 


 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 3. október 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 20. september 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 31. október 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 2. janúar 2013. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 10. janúar 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 12. febrúar 2013. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 14. febrúar 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins til þeirra. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1965. Hann er fráskilinn og á fimm börn. Kærandi á fasteignina að B í sveitarfélaginu D sem er 156,6 fermetra einbýlishús. Hann býr í einu herbergi hússins en leigir það út að öðru leyti.

Kærandi varð atvinnulaus á árinu 2009 og hefur þegið atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun frá því í janúar 2010. Greiðslur til hans nema að jafnaði 150.111 krónum á mánuði. Að auki nema leigutekjur til kæranda 200.000 krónum á mánuði samkvæmt leigusamningi. Áður starfaði hann á eigin vegum og hjá félagi sem hann var sjálfur í forsvari fyrir.

Kærandi kveður illa hafa gengið að innheimta leigutekjur af fasteigninni en leigjandinn hafi lagt til vinnu vegna framkvæmda á eigninni. Muni það ganga upp í leiguskuld. Af þessum ástæðum hafi leigutekjur ekki verið færðar inn á skattframtöl vegna áranna 2010 og 2011.

Ástæður skuldasöfnunar eru að mati kæranda einkum atvinnumissir, skilnaður, hækkanir lána og forsendubrestur við fjármögnun atvinnurekstrar. Kærandi hafi verið með sjálfstæðan atvinnurekstur fram til ársins 2008 en þá hafi hann orðið atvinnulaus í kjölfar samdráttar.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt gögnum málsins eru 33.428.223 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) að undanskildum meðlagsskuldum að fjárhæð 7.947.386 krónur, sektum og ógreiddum virðisaukaskatti. Til helstu skuldbindinga var stofnað við kaup á fasteign árið 2008. Kærandi hefur fengið leiðréttingu veðlána í gegnum svokallaða 110% leið.

Kærandi veðsetti fasteign sína með tryggingarbréfi útgefnu til Landsbankans árið 2008. Bréfið er til tryggingar 25.000.000 króna skuldum kæranda og lögaðila sem tengjast eða tengdust honum.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 28. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. september 2012 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði endurskoðuð. Verður að skilja það svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst hafa sýnt fram á að þau fyrirtæki sem hann hafi gengist í ábyrgðir fyrir hafi fyrir löngu verið seld. Tryggingarbréf að fjárhæð 25.000.000 króna með veði í fasteign hans að B hafi verið gefið út til tryggingar á skuldum kæranda sjálfs, Eignarhaldsfélagsins X ehf., Y ehf. og Z ehf. Kaupendur félaganna hafi átt að standa skil á þessum ábyrgðum en hafi ekki gert það.

Kærandi telur ábyrgðarskuldbindingar sínar fyrir tilgreinda lögaðila falla undir samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 2001 og því séu ábyrgðarskuldbindingarnar ólögmætar. Hann mótmælir áliti umboðsmanns skuldara um hið gagnstæða.

Kærandi segist hafa gert samninga vegna meðlagsskulda og sektar í ríkissjóð. Samningarnir hafi verið gerðir þremur árum áður en hann lagði fram umsóknina hjá umboðsmanni skuldara. Umboðsmaður hafi svo bannað honum að greiða áfram af þessum samningum til að kröfuhöfum yrði ekki mismunað þrátt fyrir að þessar skuldir falli ekki undir greiðsluaðlögun.

Umboðsmaður skuldara haldi því fram að tekjur kæranda samkvæmt skattframtali fyrir árið 2008 hafi ekki verið réttar. Þetta sé rangt hjá umboðsmanni. Hið rétta sé að kaupverð fasteignarinnar að B hafi verið rangt fært inn á skattframtal vegna ársins 2008 en endurskoðandi kæranda vinni að því að leiðrétta skattframtöl kæranda til ársins 2008.

Meðlagsskuldir kæranda hafi byrjað að hlaðast upp árið 2001 eftir skilnað kæranda og fyrri eiginkonu hans en þau hafi átt saman þrjú börn. Kærandi mótmæli því að hann hafi stofnað til nýrra skuldbindinga á sama tíma og hann hafi látið hjá líða að greiða af eldri meðlagsskuldum. Hann hafi verið í sambandi við Innheimtustofnun sveitarfélaga öll þessi ár og með samninga við stofnunina.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þyki óhæfilegt að veita hana. Segi þar jafnframt að við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort fyrir hendi séu þær aðstæður sem tilgreindar séu í stafliðum ákvæðisins.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Í töflunni hér fyrir neðan megi sjá í krónum greiðslustöðu kæranda og þáverandi eiginkonu hans á árinu 2008:

Tekjuár 2008
Nettómeðaltekjur kæranda á mánuði 83.808
Nettómeðaltekjur maka kæranda á mánuði 239.410
Sameiginlegar ráðstöfunartekjur heimilisins* 376.291
Framfærslukostnaður á mánuði** 306.760
Áætluð greiðslugeta á mánuði 69.531
Afborganir yfirtekinna veðlána á mánuði 96.500
Greiðslustaða eftir afborganir veðlána -26.969

*Tekið er tillit til vaxta- og barnabóta og skuldajafnaðar vaxtabóta á móti ógreiddum gjöldum.

**Áætlaður mánaðarlegur framfærslukostnaður miðað við neysluviðmið umboðsmanns skuldara fyrir hjón með fimm börn. Þá er ótalinn kostnaður vegna hita, rafmagns, fasteignagjalda, trygginga og skóla/dagvistunar.

Á árinu 2008 hafi kæranda og eiginkonu hans vantað 26.969 krónur á mánuði til að eiga fyrir afborgunum veðlána, auk þess sem framfærslukostnaður taki ekki tillit til ýmissa mánaðarlegra útgjalda. Þrátt fyrir þetta hafi þáverandi eiginkona kæranda keypt bíl í apríl 2008 og hafi staða áhvílandi bílaláns verið 432.154 krónur í árslok samkvæmt skattframtali.

Samkvæmt skattframtali hafi kærandi keypt núverandi fasteign sína, B, í september 2008 fyrir 31.239.000 krónur. Samkvæmt kaupsamningi um eignina var kaupverðið 65.000.000 króna. Kærandi kveði kaupverð ranglega fært í skattframtalið. Samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði hafi kærandi yfirtekið tvö áhvílandi veðlán við kaupin. Við yfirtökuna hafi áætluð mánaðarleg afborgun lánanna verið um 96.500 krónur. Aldrei hafi verið greitt af öðru láninu en hitt hafi fallið í vanskil í október 2009. Vanskilum lánanna hafi verið skuldbreytt með nýju láni hjá Íbúðalánasjóði í júní 2010 og á sama tíma hafi veðlánin tvö verið fryst í eitt ár. Greiddir hafi verið fimm gjalddagar af skuldbreytingarláninu en þá hafi það fallið í vanskil. Fasteignagjöld af B hafi verið í vanskilum síðan í janúar 2009.

Umboðsmaður skuldara hafi sent kæranda bréf 16. ágúst 2012 þar sem honum hafi verið gefinn kostur á að skýra hvernig hann hygðist standa undir afborgunum veðlána. Í svarbréfi kæranda komi fram að skuldabréf að fjárhæð 8.585.000 krónur sem hafi fengist sem milligjöf vegna sölu á fasteign þáverandi eiginkonu kæranda að E götu nr. 7, sveitarfélaginu D, hafi átt að hjálpa til við kaupin á B. Samkvæmt ódagsettri og óundirritaðri handveðsyfirlýsingu hafi skuldabréfið á hinn bóginn verið afhent NBI hf. til tryggingar skuldum Eignarhaldsfélagsins X ehf. sem kærandi hafi verið í forsvari fyrir. Það hafi því ekki komið til þess að skuldabréfið yrði notað sem greiðsla við kaupin á B. Þá hafi kærandi greint frá því að félag á hans vegum, Z ehf., hafi keypt C en þar hafi verið starfrækt hundaræktun sem kærandi og fyrrum eiginkona hans hafi ætlað að hafa tekjur af. Ekki hafi þó orðið af því. Kærandi segi í svarbréfi að það sé rangt að ekki hafi verið greitt af veðlánum eða fasteignagjöldum vegna B og C og bendi á að það megi fá staðfest hjá viðkomandi stofnunum. Umboðsmaður hafi fengið upplýsingar um vanskil hjá Íbúðalánasjóði, Sveitarfélaginu D og Motus ehf. og byggi upplýsingar sínar á þeim gögnum. Þá geri kærandi athugasemdir við fullyrðingar um að fyrrverandi eiginkona hans hafi fest kaup á bifreið árið 2008 og verið greiðandi bílasamnings í tengslum við kaupin. Hann segi hana hafa yfirtekið félagið Þ ehf. og að bifreiðin og bílasamningurinn hafi tilheyrt félaginu. Samkvæmt ökutækjaskrá og skattframtali hafi þó einstaklingur selt henni bílinn og hafi bíllinn verið skráður eign hennar en ekki félagsins.

Ofangreindar skýringar kæranda annars vegar á því hvernig hann hugðist standa í skilum með veðlán sín og hins vegar á þeim atriðum er snerti greiðslugetu hans á þeim tíma er hann stofnaði til skuldsettra fasteignakaupa breyti ekki þeirri afstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi stofnað til fjárskuldbindinga sem hann hafi verið ófær um að standa við.

Að því er varði c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. vísi umboðsmaður skuldara til tryggingarbréfs að fjárhæð 25.000.000 króna sem gefið hafi verið út til Landsbankans í október 2008. Hafi bréfið verið með allsherjarveði í eign kæranda að B og einnig í eigninni að C. Bréfið hafi verið til tryggingar öllum skuldum kæranda, auk skulda Eignarhaldsfélagsins X ehf., Y ehf. og Z ehf. Kærandi hafi verið stofnandi þessara félaga og stjórnarmaður þeirra til 2010 og 2011. Eignarhaldsfélagið X ehf. og Y ehf. hafi verið tekin til gjaldþrotaskipta.

Nefnt tryggingarbréf hafi verið gefið út á sama tíma og kærandi keypti eignina að B. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar verði ekki séð að kærandi hafi getað tekist á hendur enn frekari skuldbindingar kæmi til þess að skuldbindingar að baki tryggingarbréfinu féllu á hann. Samkvæmt skattframtali hafi fasteignamat B verið 16.460.000 krónur og fjárhæð veðlána verið 21.917.717 krónur í árslok 2008. Kaupverð hafi verið skráð 31.230.000 krónur í skattframtali en 65.000.000 króna samkvæmt fyrirliggjandi kaupsamningi. Þetta misræmi valdi því að fjárhagsstaða kæranda sé óljós og mat á áhættutöku erfiðara en ella. Hér sé þó einnig litið til þess að fyrirliggjandi séu þrjú verðmöt sem Íbúðalánasjóður hafi látið gera á eigninni á árinu 2011 og sé meðaltal þeirra 18.333.333 krónur. Þrátt fyrir að eignin að B hefði ekki verið að fullu veðsett hafi kærandi ekki haft fjárhagslegt svigrúm til að taka á sig frekari skuldbindingar án þess að selja eignina. Ólíklegt sé einnig talið að verðmæti eignarinnar hafi getað staðið undir tryggingarbréfinu. Því meti umboðsmaður skuldara það svo að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er hann gekkst í ábyrgðir fyrir framangreind félög með útgáfu tryggingarbréfs. Um það leyti er tryggingarbréfið hafi verið gefið út og mánuðina þar á eftir hafi fjöldi krafna á hendur félögunum farið í vanskil, sbr. skráningu Creditinfo, og gefi það til kynna að staða félaganna hafi ekki verið sterk á þeim tíma er kærandi gekkst í umrædda ábyrgð. Þar sem kærandi hafi gegnt ábyrgðarstöðum hjá félögunum megi gera ráð fyrir að staða þeirra hafi verið honum vel kunnug.

Einnig sé til þess að líta að 53% af skuldum kæranda stafi frá skuldum vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt lge. girði skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi sem verið hafi í 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 hafi verið felld brott með lge. Umfjöllun í greinargerð með lge. bendi til þess að tilgangur með því að fella þessa takmörkun úr gildi hafi fyrst og fremst verið að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem séu með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segi í greinargerð með lge. að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt sé bent á að líta megi til ákvæðis í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.

Í svari sínu við fyrrnefndu bréfi umboðsmanns frá 16. ágúst 2012 geri kærandi grein fyrir því að umrætt tryggingarbréf hafi átt að standa fyrir skuldbindingum umræddra félaga og að Eignarhaldsfélagið X ehf. hafi á þessum tíma verið mjög eignasterkt félag. Hafi það félag og Y ehf. verið seld árið 2009 og hafi kaupandi átt að sjá til þess að tryggingarbréfinu yrði aflýst sem trygging fyrir skuldum félaganna. Það hafi hann ekki gert. Félögin hafi síðan verið tekin til gjaldþrotaskipta og standi tryggingin enn. Kveðst kærandi hafa reynt að rifta kaupunum þegar ljóst varð að kaupandi myndi ekki standa við samninginn en það hafi ekki tekist.

Umboðsmaður skuldara hafi aflað fjárhagsupplýsinga úr ársreikningum félaganna og vanskilaskrá Creditinfo. Eftirfarandi hafi komið í ljós í krónum:

Eignarhaldsfélagið Ársreikningur
Y ehf. Ársreikningur
Z ehf. Ársreikningur
X ehf. 2007
  2007
  2008
Eignir 123.872.000
Eignir 12.655.000
Eignir 77.757.000
Skuldir 122.372.000
Skuldir 26.312.000
Skuldir 80.957.000
Handbært fé 65.000
Handbært fé 57.000
Handbært fé 0
Vanskilaskrá frá desember 2008
Vanskilaskrá frá sept. 2008
Vanskilaskrá frá mars 2009

 

Ekki verði séð að staða félaganna hafi verið með þeim hætti sem kærandi lýsi.

Í greinargerð með frumvarpi til lge. kemur fram að ákvæði 2. mgr. 6. gr. taki að hluta mið af þágildandi lagaákvæði um greiðsluaðlögun í 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 enda hafi verið komin nokkur reynsla á framkvæmd og dómvenja um beitingu ákvæðisins. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 657/2009 hafi beiðni um greiðsluaðlögun á grundvelli þágildandi laga nr. 21/1991 verið hafnað með vísan til 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. Í málinu hafi skuldarinn stofnað til umtalsverðra skulda vegna fasteigna- og bifreiðakaupa en greiðslubyrði lánanna hafi verið umfram þær tekjur sem af gögnum málsins mátti ráða að hann hafi haft á þeim tíma. Í ljósi fordæmis framangreinds dóms telji umboðsmaður skuldara ljóst að skuldasöfnun kæranda geti talist fjárhagsleg áhætta sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til skuldbindinganna var stofnað.

Í fyrri úrskurðum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála hafi niðurstaðan jafnan verið sú, að þegar kærendur takist á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur séu á að þeir geti staðið við miðað við tekjur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga þeirra á þeim tíma sem lán voru tekin, sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Í þessu sambandi sé sérstaklega vísað til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í málum nr. 23/2011 og framangreinds dóms Hæstaréttar Íslands.

Að því er varði f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. bendi umboðsmaður á að elstu vanskil kæranda séu frá árinu 2001 en það séu meðlagsskuldir. Enn fremur gefi fyrirliggjandi gögn til kynna að kærandi hafi stofnað til nýrra skulda á sama tíma og hann hafi látið ógert að greiða af eldri skuldum. Samkvæmt upplýsingum frá Innheimtustofnun sveitarfélaga hafi innheimta meðlags á hendur kæranda staðið frá árinu 2001. Ekkert hafi verið greitt upp í kröfurnar fyrr en greiðslusamningur hafi verið gerður árið 2009. Eins og komið hafi fram hafi kærandi keypt fasteignina að B og samhliða yfirtekið áhvílandi lán hjá Íbúðalánasjóði. Ákvæði f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. heimili umboðsmanni skuldara að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum hafi framast verið unnt. Hafi kærandi, þrátt fyrir framangreindar upplýsingar, verið fær um að standa við áhvílandi veðlán á B verði að teljast ámælisvert að hann hafi ekki staðið við eldri skuldbindingar sínar.

Kærandi hafi greint frá því að upplýsingar um tekjur séu ekki réttar í hinni kærðu ákvörðun. Umboðsmaður skuldara geti ekki miðað ákvörðun um greiðsluaðlögun við annað en upplýsingar í skattframtölum enda sé þar að finna upplýsingar sem skattaðili gefi sjálfur upp og notaðar séu við álagningu opinberra gjalda. Kærandi hafi ekki lagt fram aðrar upplýsingar eða önnur gögn um tekjur við málsmeðferð hjá umboðsmanni skuldara og því geti upplýsingar sem fram komi eftir töku ákvörðunar ekki haggað niðurstöðu hennar.

Að því er varði ábyrgðarskuldbindingar kæranda verði ekki séð að hann hafi með þeim tekið minni áhættu en efni þeirra gefi til kynna. Ábyrgðarskuldbindingar þær sem kærandi hafi tekist á hendur varði lögaðila og falli því ekki undir gildissvið samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001.

Með hliðsjón af þessu, eðli og fjárhæðum skulda kæranda og með vísan til b-, c- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge. sé það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-, c- og f-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt f-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Af skattframtal og öðrum gögnum málsins má sjá að fjárhagsstaða kæranda var eftirfarandi árin 2005 til 2011 í krónum:

  2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011
Meðaltekjur á mánuði (nettó) 201.276 179.604 222.304 306.367 394.904 199.294 184.341
Eignir alls 14.516.962 15.543.770 17.191.522 19.114.158 17.020.957 16.865.939 15.799.492
· B       16.460.000 16.260.000 14.490.000 15.600.000
· E gata nr. 7 12.324.000 13.473.000 15.030.000        
· Bifreiðar       650.000      
· Hrein eign samkvæmt efnahagsreikningi 192.962 70.770 161.522   200.000 200.000 199.001
· Hlutir í félögum 2.000.000 2.000.000 2.000.000 2.000.000   2.000.000  
· Bankainnstæður       4.158 560.957 175.939 491
Skuldir 14.051.032 15.894.417 14.274.393 22.349.871 25.206.510 35.671.336 33.664.024
Nettóeignastaða 465.930 -350.647 2.917.129 -3.235.713 -8.185.553 -18.805.397 -17.864.532

 

Ljóst er þó að skattframtöl vegna tekjuáranna 2005 til 2009 gefa ekki rétta mynd af fjárhagsstöðu kæranda þar sem þar er ekki gerð grein fyrir öllum skuldum kæranda, svo sem meðlagsskuldum.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð   frá
Innheimtustofnun sveitarfélaga 2001 Meðlag 4.206.137 7.947.386 2001
Íbúðalánasjóður 2005 Veðskuldabréf 10.450.000 17.921.194 2011
Íbúðalánasjóður 2007 Veðskuldabréf 6.578.957 3.261.076 2012
Ýmsir 2008 Reikningar 464.164 858.746 2008
Íbúðalánasjóður 2010 Veðskuldabréf 2.391.725 2.352.589 2011
Tollstjóri 2009-2012 Opinber gjöld 943.801 1.087.232 2009
    Alls 25.034.784 33.428.223  

 

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í því lagaákvæði eru taldar upp mögulegar ástæður synjunar sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Í framhaldinu eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Meðal þeirra atriða eru b-, c- og f-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.

Í lok september 2008 keypti kærandi fasteignina að B í sveitarfélaginu D og yfirtók við kaupin veðskuldir frá Íbúðalánasjóði að fjárhæð ríflega 17.000.000 króna. Mánaðarleg greiðslubyrði yfirtekinna skulda var samkvæmt gögnum málsins um 97.000 krónur. Komu þær skuldbindingar til viðbótar við þáverandi skuldir kæranda, þar á meðal meðlagsskuldir. Á þessu sama ári höfðu kærandi og eiginkona hans að meðaltali 376.291 krónu til ráðstöfunar á mánuði. Framfærslukostnaður fjölskyldunnar á mánuði miðað við neysluviðmið umboðsmanns skuldara var að minnsta kosti 306.760 krónur. Þannig var greiðslugeta þeirra 69.531 króna eftir greiðslu framfærslukostnaðar. Má af þessu ráða að kærandi og eiginkona hans voru greinilega ófær um að standa við þessar skuldbindingar með tekjum sínum þegar þær voru teknar yfir við fasteignakaupin.

Ekki liggur fyrir með óyggjandi hætti á hvaða verði kærandi keypti fasteignina að B. Í málinu liggur fyrir þinglýstur kaupsamningur sem tilgreinir kaupverðið 65.000.000 króna. Samkvæmt honum var kaupverðið greitt með 12.000.000 króna í peningum, yfirtöku nefndra lána Íbúðalánasjóðs og tilteknum fasteignum, en engin þeirra var samkvæmt gögnum málsins í eigu kæranda. Samkvæmt skattframtali 2009 vegna ársins 2008 var kaupverð á hinn bóginn 31.239.000 krónur. Fasteignamat eignarinnar var 16.460.000 krónur. Að mati kærunefndarinnar verður að miða eignastöðu kæranda við tilgreint verð samkvæmt skattframtali. Engin gögn liggja fyrir um 12.000.000 króna peningaeign kæranda og engin þeirra fasteigna sem sögð er hafa verið notuð sem greiðsla var í eigu kæranda. Benda gögn málsins því ekki til þess að kæranda hafi verið fært að fjármagna fasteignakaup að fjárhæð 65.000.000 króna. Gaf eignastaða kæranda honum því ekki tilefni til þess að taka yfir jafn háar skuldir og hann gerði við kaupin.

Samkvæmt framansögðu telur kærunefndin að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Þrátt fyrir framangreinda fjárhagsstöðu setti kærandi fasteign sína að veði fyrir 25.000.000 króna um tveimur vikum eftir kaupin. Veðsetningin var gerð með tryggingarbréfi til Landsbankans og var henni ætlað að tryggja skuldir kæranda og þriggja einkahlutafélaga honum tengdum; Z ehf., Y ehf. og Eignarhaldsfélagsins X ehf. Kærandi hefur greint frá því að síðastnefnda félagið hafi haft sterka eignastöðu á þessum tíma. Sú fullyrðing er þó ekki studd af gögnum málsins en félagið hefur verið á vanskilaskrá frá árinu 2008. Í lok árs 2007 var eigið fé félagsins aðeins 1.500.000 krónur en hin tvö félögin voru með neikvætt eigið fé.

Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lge. kemur fram að séu þær aðstæður sem taldar eru upp í 2. mgr. 6. gr. lge. fyrir hendi geti verið óviðeigandi að skuldari eigi möguleika á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika er hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er það mat kærunefndarinnar að eignastaða kæranda hafi ekki verið með þeim hætti að hann hefði tilefni til að veðsetja fasteign sína fyrir svo hárri fjárhæð fyrir nefnd einkahlutafélög. Í ljósi fyrirliggjandi gagna verður fjárhagsstaða félaganna talin hafa verið slík að kæranda hafi hlotið að vera ljóst að nokkrar líkur væru til þess að á veðsetninguna myndi reyna. Breytir það engu að mati kærunefndarinnar þótt kærandi hafi síðar selt félögin og kaupandi þeirra hafi tekið að sér að greiða þær skuldir sem að baki veðsetningunni voru enda er það háttsemi kæranda á þeim tíma er hann stofnaði til veðsetningarinnar sem skiptir máli við mat samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge.

Kærunefndin telur því að með nefndri veðsetningu hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara telur að með því að yfirtaka skuldir við Íbúðalánasjóð í september 2008 á þeim tíma er kærandi var í umtalsverðri skuld við Innheimtustofnun sveitarfélaga allt frá árinu 2001, hafi kærandi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum framast var unnt. Kærandi mótmælir þessu. Gögn málsins sýna hins vegar að kærandi greiddi ekkert inn á meðlagsskuldir sem á honum hvíldu frá árinu 2001 til 2009 en skuldin nam tæpum 8.000.000 króna þegar umboðsmaður skuldara tók hina kærðu ákvörðun. Yfirlit frá Innheimtustofnun sveitarfélaga sýnir að kærandi hóf að greiða inn á skuldina 16. janúar árið 2009 og greiddi hann þá 10.000 krónur. Næst greiddi hann inn á skuldina rúmum fimm mánuðum síðar, eða 30. júní 2009, alls 30.000 krónur. Samtals greiddi kærandi 585.365 krónur inn á meðlagsskuld sína fram til 19. október 2011 eða á rúmum tveimur árum og níu mánuðum.

Í ljósi fjárhæðar meðlagsskuldarinnar, fjárhagsstöðu kæranda þegar hann yfirtók framangreind veðlán við Íbúðalánasjóð og atvika málsins að öðru leyti telur kærunefndin að kærandi hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Á því f-liður 2. mgr. 6. gr. lge. einnig við í máli kæranda.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta