Mál nr. 23/2014. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 28. nóvember 2014
í máli nr. 23/2014:
Reykjafell ehf.
gegn
Ríkiskaupum og
Isavia ohf.
Með kæru 14. nóvember 2014 kærir Reykjafell ehf. útboð varnaraðila, Ríkiskaupa og Isavia ohf., nr. 15698 auðkennt „Ambulift, transport and lifting vehicle for passengers with reduced mobility“. Kærandi krefst þess aðallega að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila um val á tilboði í útboðinu, en til vara að varnaraðilum verði gert að bjóða út innkaupin í heild sinni að nýju. Þess er jafnframt krafist að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila auk þess sem krafist er málskostnaðar. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila um afléttingu sjálfkrafa banns við samningsgerð samkvæmt 1. mgr. 94. gr. a. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.
Mál þetta lýtur að fyrrgreindu útboði um kaup á farartæki með lyftu sem gæti flutt farþega með takmarkaða hreyfigetu og/eða aðra fötlun til og frá loftförum á Keflavíkurflugvelli í þeim tilfellum þegar loftför standa á fjarstæðum sem ekki eru tengd flugstöð með landgöngubrú. Útboðsgögn voru gerð aðgengileg á vef varnaraðila 24. september 2014, en samkvæmt þeim var um almennt útboð að ræða og skiptust valforsendur í tvennt; annars vegar verð, sem skyldi gilda 70% af heildareinkunn, og hins vegar tæknilega eiginleika boðinnar vöru, sem skyldi gilda 30% af heildareinkunn. Opnunarfundur var haldinn 14. október 2014 en alls bárust fjögur tilboð frá þremur bjóðendum, þ.á m. kæranda sem átti lægsta tilboðið. Með tölvuskeyti 6. nóvember 2014 var kæranda tilkynnt að ákveðið hefði verið að ganga að tilboði annars bjóðanda í útboðinu. Daginn eftir óskaði kærandi eftir rökstuðningi, sem var veittur með bréfi 10. nóvember 2014. Þar kom fram að tilboð kæranda hefði verið metið ógilt þar sem það uppfyllti ekki kröfur útboðsgagna, nánar tiltekið að vara kæranda hefði ekki uppfyllt þá kröfu að hafa verið á markaði í þrjú ár hið minnsta og einungis hefðu verið gefin upp nöfn á fjórum aðilum sem gætu gefið meðmæli en ekki fimm. Þá hefði vara kæranda einungis verið seld til tveggja flugvalla í Evrópu norðan 45. breiddargráðu, en ekki þriggja eins og áskilið væri í útboðsgögnum.
Kærandi byggir að meginstefnu á því að varnaraðilar hafi farið út fyrir valforsendur útboðsgagna og litið framhjá því að kærandi hafi átt hagkvæmasta tilboðið í útboðinu. Val á tilboðum hafi ekki verið málefnalegt þar sem hæfiskröfum og valforsendum hafi verið blandað saman. Þá hafi tilboð kæranda uppfyllt kröfur útboðsgagna í hvívetna en hafi svo ekki verið hafi verið um smávægileg frávik að ræða sem útskýra hafi mátt með einföldum hætti. Loks telur kærandi að skilyrði útboðsskilmála, eða a.m.k. ströng túlkun kærða á þeim, hafi gengið of langt og ekki verið í málefnalegum tengslum við þá vöru sem kaupa á.
Niðurstaða
Kæruefni máls þessa lýtur að meginstefnu að vali tilboðs í framangreindu útboði og þeirri ákvörðun varnaraðila að meta tilboð kæranda ógilt. Verður því að miða við að ákvörðunin hafi verið borin undir kærunefnd útboðsmála innan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup. Verður kærunni því ekki vísað frá kærunefnd, eins og varnaraðilar krefjast.
Í lið 2.1.3 í útboðsgögnum kemur fram að tæknileg geta bjóðanda skuli vera það trygg að hann geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Þá verður að líta svo á að í lið 2.1.4 í útboðsgögnum sé kveðið á um hvaða gögnum bjóðendur skuli skila með tilboðum sínum til að sýna fram á að þeir uppfylli kröfur um tæknilegt hæfi. Þar kemur efnislega fram að bjóðendur skuli láta fylgja tilboðum sínum lista sem sýni samninga sem gerðir hafa verið síðastliðinn þrjú ár á evrópska efnahagssvæðinu vegna sölu á vöru sömu tegundar og boðnar eru í útboðinu. Verður að skilja ákvæðið þannig að gerð sé krafa um jákvæð meðmæli vegna a.m.k. fimm samninga og að þrír af þeim séu vegna sölu til flugvalla í Evrópu norðan 45. breiddargráðu. Ekki er fallist á það með kæranda að þetta skilyrði útboðsgagna sé ekki í málefnalegum tengslum við þá vöru sem til stendur að kaupa. Er þá höfð hliðsjón af þeim skýringum varnaraðila að skilyrði þetta hafi verið sett til að tryggja að meirihluti þeirra fimm meðmæla sem útboðsgögn áskildu kæmu frá flugvöllum með svipaðar veðurfarslegar aðstæður og á Íslandi. Af gögnum málsins verður ekki séð að kærandi hafi fullnægt þessu skilyrði útboðsgagna. Samkvæmt þessu hafa á þessu stigi málsins ekki verið leiddar að því líkur að ákvörðun varnaraðila um að meta tilboð kæranda ógilt hafi verið ólögmæt. Eru því ekki fyrir hendi skilyrði til að viðhalda stöðvun samningsgerðar, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013, og verður því fallist á kröfu varnaraðila þar að lútandi eins og nánar greinir í ákvörðunarorði.
Ákvörðunarorð:
Aflétt er stöðvun samningargerðar vegna útboðs varnaraðila, Ríkiskaupa og Isavia ohf., nr. 15698 auðkennt „Ambulift, transport and lifting vehicle for passengers with reduced mobility“.
Reykjavík, 28. nóvember 2014.
Skúli Magnússon
Stanley Pálson
Ásgerður Ragnarsdóttir