Hoppa yfir valmynd

Nr. 150/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 4. apríl 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 150/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19030004 og KNU19030005

 

Beiðni [...], [...] og barns um endurupptöku

 

I.                    Málsatvik

Þann 21. febrúar 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar frá 22. nóvember 2018 um að synja einstaklingum er kveðast heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir M), [...], er kveðst vera fædd [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir K), og barni þeirra, [...] (hér eftir A), sem þau kveða vera fæddan [...] og vera ríkisborgara Íraks, um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum þann 25. febrúar 2019. Þann 1. mars 2019 barst kærunefnd beiðni kærenda, ásamt fylgigögnum, um að mál þeirra yrði endurupptekið með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 11. mars 2019 barst beiðni um endurupptöku máls A ásamt fylgigögnum. Viðbótargagn barst kærunefnd þann 26. mars sl.

II.                  Málsástæður og rök kærenda

Beiðni kærenda um endurupptöku máls þeirra er m.a. byggð á því að í úrskurði kæruefndar komi fram rangar upplýsingar um málsatvik í tengslum við skuld M við tiltekinn aðila í heimaríki, [...], en M hafi ekki verið gefinn kostur á að andmæla þeim. Fram kemur að í viðtali hjá kærunefnd útlendingamála hafi M verið beðinn um að gera nánari grein fyrir umræddri skuld. Í úrskurði kæruefndar segi að í framburði M hafi komið fram að skjal hafi verið útbúið vegna lánsins en að hann geti ekki lagt skjalið fram þar sem það hafi verið á heimili viðskiptafélaga hans, sem hafi látið lífið í október 2017. Mótmælir M framangreindu sem röngum upplýsingum. Hann hafi greint talsmanni sínum frá því að hið rétta sé að skjalið sé í höndum áðurnefnds [...]. Samkvæmt lögum sé skjal sem þetta ávallt í höndum lánveitanda en ekki lántaka. Telur M að framangreint skýri af hverju hann geti ekki lagt skjalið fram, en af úrskurði kærunefndar að dæma hafi umrætt atriði haft áhrif á trúverðugleikamat. Hins vegar sé annað rétt sem fram komi í úrskurði nefndarinannar varðandi umrædda skuld. Byggir M á því að hafi eitthvað annað komið fram í viðtölum við hann hjá Útlendingastofnun sé það ekki rétt og mótmælir hann því að misræmi hafi verið á milli framburðar hans hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi ekki verið haft rétt eftir M varðandi framburð hans um eignir í hans eigu og verðmæti þeirra í heimaríki. Telur M að mistök hafi átt sér stað, hvort sem er í túlkun eða við endurrit viðtalsins. Fer M fram á að hlustað verði á hljóðupptökur úr framangreindum viðtölum.

Í greinargerð vísa kærendur til 13. gr. stjórnsýslulaga um andmælarétt. Byggja kærendur á því að málsaðilar eigi að geta komið athugasemdum sínum á framfæri og bent á misskilning eða ónákvæmni í gögnum máls. Þá kveði leiðbeiningarreglur Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna á um að gefa skuli aðila færi á að útskýra mál sitt frekar og bregðast við, sérstaklega þegar ákvörðunaraðilar telja tiltekin atriði rýra trúverðugleika viðkomandi. M hafi hins vegar ekki fengið tækifæri til að bregðast við athugasemdum kærunefndar og hafi því ekki getað bent á að um rangar upplýsingar væri að ræða áður en úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp. Einnig byggja kærendur á því að í málinu liggi fyrir upplýsingar um ný málsatvik. Kærendur eigi tvo syni sem búi ásamt fjölskyldum sínum í heimaríki en M kveður að þann 24. febrúar sl. hafi vopnaðir hermenn komið á heimili annars þeirra og spurt eftir M og syni hans.

Kærendur krefjast þess einnig að málið verði endurupptekið vegna annmarka á málsmeðferð að því er varðar A. Með vísan til atvika málsins og aðstæðna í heimaríki þeirra sé ljóst að framfærsla A verði ekki tryggð í heimaríki eða að grundvallarþarfir hans og réttindi verði tryggð verði honum gert að snúa þangað aftur. Byggja kærendur einnig á því að þar sem Útlendingastofnun og kærunefnd hafi ekki tekið viðtal við A hafi úrskurður kærunefndar verið byggður á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik. Telja kærendur jafnframt að ekki hafi verið lagt einstaklingsbundið mat á aðstæður A áður en Útlendingastofnun hafi tekið ákvörðun í máli hans og fjölskyldu hans. Þá hafi ekki verið brugðist við þessum athugasemdum við meðferð málsins hjá kærunefnd útlendingamála. Í beiðni um endurupptöku eru rakin ákvæði laga og alþjóðasamninga um réttindi barna í málum sem varða hagsmuni þeirra og rétt barna til að tjá sig.

Vegna beiðni um endurupptöku máls A hafa kærendur lagt fram álit frá Barnaheill og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (UNICEF), þar sem vísað er til réttar barna til að tjá sig um eigin málefni í ákvörðun sem varðar hagsmuni þess. Liggur jafnframt fyrir bréf frá A kærenda þar sem hann lýsir yfir ánægju með að vera hér á landi. Þá hafa kærendur lagt fram óundirritað bréf frá [...]skóla í [...] um að við fyrstu kynni hafi A verið feiminn og lokaður en í dag sé staðan allt önnur. A geti nú átt í samskiptum á íslensku og hafi styrkst félagslega.

III.                Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr., eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr.

Í úrskurði kærunefndar, dags. 21. febrúar 2019, kemur fram að kærunefnd hafi metið það misræmi sem komið hafi fram í frásögn M í viðtölum hjá íslenskum stjórnvöldum draga nokkuð úr trúverðugleika hennar hvað varðar samband hans við þann mann er hann kvað skuldunaut sinn, […]. Einnig hafði M ekki lagt fram gögn sem stutt hefðu við frásögn hans af skuld hans og viðskiptafélaga hans við […].

Krafa kærenda um að mál þeirra verði endurupptekið er aðallega reist á því að úrskurður kærunefndar frá 21. febrúar 2019 hafi verið byggður á röngum upplýsingum um málsatvik. Byggja kærendur m.a. á því að í úrskurði kærunefndar hafi verið byggt á röngum upplýsingum um hvar skjal, sem hafi verið útbúið vegna láns frá fyrrnefndum [...], væri niður komið. Hafi þetta atriði haft áhrif á mat kæruefndar á trúverðugleika framburðar M.

Í viðtali hjá kærunefnd var M beðinn um að gera grein fyrir umræddu láni frá [...]. Í svörum M kom fram að skjal hafi verið útbúið vegna lánsins og hafi M ritað undir skjalið sem eins konar vottur. Aðspurður hvort M gæti lagt fram skjalið kvaðst hann ekki vera með það, en það hafi verið heima hjá viðskiptafélaga hans [...]. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun hafði M greint frá því að [...] hefði látið lífið í október 2017. Í greinargerð kærenda segir að M hafi greint talsmanni sínum frá því að hið rétta sé að skjalið sé í vörslu [...], sem sé ástæðan fyrir því að hann geti ekki lagt skjalið fram. Í úrskurði kærunefndar í máli kærenda byggði nefndin á þeim upplýsingum sem komu fram af hálfu M í viðtali við hann hjá nefndinni. Verður því ekki fallist á með kærendum að úrskurðurinn hafi verið byggður á röngum upplýsingum um málsatvik í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Breytir í þessu sambandi engu þótt M byggi nú á því að fyrrnefnt skjal sé í höndum annars aðila en hann greindi frá í viðtali hjá kærunefnd, enda gat hann ekki lagt fram umrætt skjal við meðferð málsins og þar með sýnt fram á tengsl við [...].

Af hálfu kærenda er einnig byggt á því að ekki hafi verið rétt haft eftir M í viðtali við hann hjá Útlendingastofnun. Hvað þessa málsástæðu varðar bendir kærunefnd á að í lok endurrita af viðtölum við M hjá Útlendingastofnun kemur fram að farið hafi verið yfir skráningu viðtalanna með liðsinni túlks. Þá liggur fyrir staðfesting M og talsmanns hans á því á að túlkun túlks hafi verið í samræmi við það sem fram hafi komið í viðtölunum og að þeir hafi fengið tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum og breytingum. Verður ekki séð að athugasemdir hafi verið gerðar við það sem fram kemur í endurritum viðtala hjá Útlendingastofnun. Hafa kærendur ekki gert líklegt að öðru leyti að mistök hafi átt sér stað við túlkun eða endurrits á viðtölum við M hjá Útlendingastofnun. Þá verður jafnframt ekki séð að vísan kærunefndar til framburðar aðila sjálfs geti verið ósamrýmanleg andmælarétti hans samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga. Í viðtali hjá kærunefnd var M sérstaklega bent á það misræmi sem var á milli framburðar hans hjá Útlendingastofnun og þess sem hann sagði í viðtali hjá nefndinni varðandi það veð sem lagt hafi verið fram til tryggingar ætlaðri skuld sinni og viðskiptafélaga síns við […]. Í viðtalinu gat M ekki útskýrt þetta misræmi. Að framangreindu virtu verður ekki fallist á beiðni kærenda um endurupptöku málsins á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Krafa kærenda um endurupptöku málsins er einnig byggð á því að upplýsingar um ný málsatvik liggi fyrir, en M hafi borist fregnir af því að vopnaðir hermenn hafi farið að heimili sonar hans í heimaríki og spurt um hann og annan son hans. Leggur kærunefnd þann skilning í beiðni kærenda um endurupptöku sé að þessu leyti reist á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Er það mat kærunefndar að þótt fyrir liggi frásögn M um framangreint atvik verði ekki fallist á að atvik máls kærenda hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp þannig að tilefni sé til að taka mál kærenda upp að nýju.

Vegna beiðni kærenda um endurupptöku að því er varðar meðferð máls A bendir kærunefnd á að lagt var einstaklingsbundið mat á aðstæður A í heimaríki í úrskurði nefndarinnar frá 21. febrúar 2019 á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Fyrir liggur að A var boðið að fara í viðtal hjá Útlendingastofnun án þess að gengist hafi verið við því boði. Samkvæmt 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga skal málsmeðferð fyrir kærunefnd útlendingamála að jafnaði vera skrifleg, en í málum skv. IV. kafla og 74. gr. getur nefndin, telji hún ástæðu til, gefið kæranda kost á að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni máls eða einstök atriði þess eftir atvikum. Þá getur nefndin, telji hún ástæðu til, kallað til aðra en kæranda. Að mati kærunefndar var ekkert í gögnum málsins eða framburði M og K, foreldra A, sem talið var gefa ástæðu til þess að boða A í viðtal. Að mati kærunefndar hafa kærendur ekki sýnt fram á að úrskurður nefndarinnar í málinu hafi að þessu leyti verið byggður á ófullnægjandi upplýsingum sem leitt gæti til endurupptöku málsins á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt öllu framansögðu er það mat kærunefndar að skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt eða að öðru leyti sé ástæða til endurupptöku málsins. Kröfu kærenda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd er því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð

Kröfu kærenda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellants to re-examine the case is denied.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Anna Tryggvadóttir                                                                          Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta