Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 468/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 468/2019

Föstudaginn 6. mars 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 8. nóvember 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 9. ágúst 2019, um að synja umsókn hennar um fæðingarstyrk námsmanna.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 3. júlí 2019, sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna í sex mánuði vegna fæðingar barns hennar X 2019. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 9. ágúst 2019, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að skilyrði um fullt nám á haustönn 2018 væri ekki uppfyllt.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 8. nóvember 2019. Með bréfi, dags. 11. nóvember 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 19. nóvember 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfum úrskurðarnefndar, dags. 22. nóvember og 10. desember 2019. Athugasemdir bárust frá kæranda 20. desember 2019 og voru þær sendar Fæðingarorlofssjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. janúar 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir svo frá í kæru að hún hafi byrjað í námi við Háskólann í Reykjavík haustið 2018 og á sama tíma hafi dóttir hennar farið til dagmömmu. Dóttir hennar hafi verið mikið veik um haustið og því hafi hún ekki getað sótt námið nægilega vel. Kærandi hafi þannig aðeins lokið 6 einingum af 24 eða 25% af náminu á þeirri önn. Á vorönn 2019 hafi gengið betur og hún lokið 24 einingum eða 100% af náminu. Kærandi hafi svo eignast sitt annað barn X 2019. Líkt og fram komi á vottorði frá skólanum þá hafi haustönnin byrjað 1. ágúst 2018 og lokið 31. desember 2018. Haustönnin hafi því staðið yfir í fimm mánuði. Vorönnin hafi byrjað 8. janúar 2019 og lokið 31. maí 2019. Vorönnin hafi því staðið yfir í fjóra mánuði og 23 daga. Kærandi sjái ekki hvernig hún eigi að geta uppfyllt kröfu 7. gr. laga nr. 95/2000 um sex mánaða samfellt nám þar sem annirnar í Háskólanum í Reykjavík séu styttri en sex mánuðir. Þá segi í skýringum með 19. gr. laganna að ekki sé hægt að leggja saman einingafjölda á milli skólaanna til að ná tilskildum fjölda eininga. Kærandi hafi lokið meira en 75%  (raunar 100%) af einingum á vorönn 2019 og 25% af einingafjöldanum á haustönn 2018. Hún hafi því verið í fullu námi alla 12 mánuðina fyrir fæðingu barnsins, auk þess sem hún hafi stundað vinnu eins og heilsan leyfði. Hluti tilvitnaðra reglna sé því rökleysa og örugglega ekki í samræmi við raunverulegan vilja löggjafans. Lögin kveði á um 12 mánaða nám og vinnu síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu barns. Þrátt fyrir það sé ekki heimilt að leggja saman nám tveggja anna þótt báðar séu innan þessara 12 mánaða. Auk þessa sé annar stærsti háskóli landsins aldrei með sex mánaða annir heldur fimm. Þarna rekist hlutirnir svolítið hver á annars horn í þessum reglum. Með vísan til framangreinds óski kærandi eftir því að umsókn hennar um fæðingarstyrk námsmanna verði tekin til greina.

Í athugasemdum kæranda er ítrekað að ómögulegt sé að uppfylla skilyrðið um sex mánaða samfellt nám (eins og Vinnumálastofnun kjósi að túlka það) í Háskólanum í Reykjavík vegna þess að annirnar þar nái aldrei sex mánuðum. Á heimasíðu skólans sé að finna upplýsingar um námsleiðina BSc í B. Um sé að ræða 180 ECTS eininga nám sem miðist við þrjú ár (36 mánuði) eða sex misseri (hvert misseri er þá sex mánuðir). Þrátt fyrir að kennslan á hverju misseri sé aldrei í sex mánuði samfellt hafi kærandi að sjálfsögðu verið skráð í námið allan tímann. Þeir sem hafi lagt stund á háskólanám viti að þeir séu alltaf í náminu þrátt fyrir að formleg kennsla standi ekki yfir. Um leið og kennslu á haustmisseri hafi lokið hafi kærandi farið að huga að vormisseri 2019. Sama hafi verið uppi á teningnum að lokinni kennslu um vorið 2019 en þá hafi hún lokið tilskildum einingafjölda. Námsmenn hætti aldrei að vera í skólanum. Ef túlkun Fæðingarorlofssjóðs um það hvernig uppfylla eigi kröfuna um sex mánaða samfellt nám sé rétt geti enginn nemandi háskólans uppfyllt það skilyrði vegna þess að eiginleg kennsla standi aldrei yfir í sex mánuði samfleytt. Réttara sé að miða við það að námið sé þrjú ár eða sex misseri og hvert misseri þá sex mánuðir án tillits til þess hversu lengi kennsla á hverju misseri standi. Kærandi telji því að hún hafi uppfyllt skilyrðið um sex mánaða samfellt nám fyrir fæðingu barns hennar.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið sé á um að foreldrar, sem hafi verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, eigi rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laganna teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Barn kæranda hafi fæðst X 2019. Við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barnsins sé því horft til tímabilsins frá X 2018 fram að fæðingardegi þess. Samkvæmt vottorði um skólavist frá Háskólanum í Reykjavík hafi kærandi lokið 6 ECTS einingum á haustönn 2018 sem teljist ekki vera fullt nám tímabilið 1. ágúst til 31. desember 2018. Á vorönn 2019 hafi kærandi lokið 24 ECTS einingum sem teljist fullt nám tímabilið 8. janúar til 31. maí 2019.

Á háskólastigi jafngildi 30 ECTS einingar á önn almennt 100% námi og því teljist 22–30 ECTS einingar á önn vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Háskólans í Reykjavík um námsleiðina BSc í B þá sé um að ræða 180 ECTS eininga nám sem miðist við þrjú ár eða 6 misseri. Þannig sé 100% nám skipulagt sem 30 ECTS einingar á önn í 6 misseri eða alls 180 ECTS einingar. Með hliðsjón af þeim gögnum, sem fyrir liggi um námsframvindu og uppsetningu náms kæranda, uppfylli hún ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í að minnsta kosti sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns þar sem kærandi hafi ekki staðist kröfur um námsframvindu á haustönn 2018. Fullt nám kæranda á vorönn 2019 nái einungis tæpum 5 mánuðum af því 6 mánaða tímabili sem hún hefði þurft að standast.

Í kæru kæranda gæti ákveðins misskilnings hvað varði samlagningu eininga milli anna. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 136/2011 um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 segi orðrétt: „Í ákvæði þessu er lagt til að skýrar verði kveðið á um hvað átt er við með viðunandi námsárangri í skilningi 19. gr. laganna. Er því lagt til að í stað viðunandi námsárangurs komi fram að miðað sé við að foreldri hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma er námið stendur yfir. Er þá átt við að foreldri hafi staðist kröfur um námsframvindu sem nemur fullu námi, þ.e. að um sé að ræða 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði, sbr. 4. mgr. 7. gr. laganna. Er einnig átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Er því ekki gert ráð fyrir að unnt sé að leggja saman einingafjölda milli skólaanna þannig að samtals hafi foreldri náð einingafjölda á tveimur önnum sem nemur fullu námi á einni önn við hlutaðeigandi skóla“.

Með framangreindum athugasemdum sé átt við að ekki sé heimilt að leggja einingar á einni önn saman við einingar á annarri önn sem uppfylli ekki kröfur um námsframvindu og með þeim hætti nái önnin að uppfylla kröfuna um námsframvindu. Báðar annir þurfi sem sagt að uppfylla kröfuna um námsframvindu, í tilviki kæranda hefði hvor önn um sig þurft að uppfylla skilyrði um að minnsta kosti 22 ECTS einingar á önn til þess að teljast fullt nám í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns.

Fæðingarorlofssjóður tekur fram að þá komi til skoðunar hvort heimildarákvæði 12. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 geti átt við í tilviki kæranda. Þar komi fram að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hafi lokið að minnsta kosti einnar annar námi samkvæmt 1. mgr. og hafi síðan verið samfellt á innlendum vinnumarkaði. Skilyrði sé að nám og starf hafi verið samfellt í að minnsta kosti sex mánuði. Fyrir liggi að kærandi hafi lokið að minnsta kosti einnar annar námi samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laganna, sem sé vormisseri 2019. Við mat á því hvort kærandi hafi síðan verið samfellt á innlendum vinnumarkaði verði að líta til þess hvort hún uppfylli þau skilyrði sem kveðið sé á um í 1. mgr. 13. gr. a laganna eða stafliðum a-e í 2. mgr. 13. gr. a, allt eftir því hvað við eigi.

Í 1. mgr. 13. gr. a. laga nr. 95/2000 komi fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf. Í 2. mgr. 7. gr. laganna komi fram að starfsmaður sé hver sá sem vinni launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Þá sé í 2. mgr. 13. gr. a. laganna talið upp í fimm stafliðum hvað teljist til þátttöku á vinnumarkaði. Óumdeilt sé að kærandi hafi hvorki starfað sem starfsmaður né sjálfstætt starfandi einstaklingur í framhaldi af því að hún hafi lokið námi á vormisseri 2019. Samkvæmt starfslokavottorði vegna veikinda hafi hún einungis starfað hjá vinnuveitanda í 14% starfi sem hún hafi látið af þann 3. apríl 2019. Veikindaréttur kæranda hafi verið fullnýttur 15. maí 2019. Þar með uppfylli hún ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. a. laga nr. 95/2000, enda ekki í að minnsta kosti 25% starfi. Kærandi hafi lagt fram gögn um að hún hafi fengið greidda sjúkradagpeninga frá stéttarfélagi sínu samkvæmt c-lið 2. mgr. 13. gr. a laganna að loknu vormisseri 2019 og fram að fæðingu barns. Sá áskilnaður sé hins vegar gerður í 12. mgr. 19. gr. að nám og starf hafi verið samfellt í að minnsta kosti sex mánuði og í c-lið 2. mgr. 13. gr. a. um að foreldri hafi látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum, sbr. einnig til hliðsjónar úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 321/2017.

Líkt og áður hafi verið rakið komi fram í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 að starfsmaður sé hver sá sem vinni launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði, sbr. einnig 1. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 13. gr. a. laganna. Þá kemur fram í d-lið 2. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 að með samfelldu starfi sé átt við að minnsta kosti 25% starf í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði yfir tiltekið tímabil. Enn fremur teljist til samfellds starfs þau tilvik sem talin séu upp í a-d liðum 2. mgr. 13. gr. a. laga nr. 95/2000. Loks segi í 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar að starfshlutfall foreldris sem fái greiddar atvinnuleysisbætur á þeim tíma sem um ræði miðist við það starfshlutfall sem tekið sé mið af við útreikning atvinnuleysisbóta. Hið sama gildi t.d. um greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags.

Óumdeilt sé að kærandi hafi einungis verið í 14% starfi hjá vinnuveitanda fram til þess tíma er hún hafi lagt niður störf af heilsufarsástæðum og þá hafið að þiggja greiðslur frá sínu stéttarfélagi. Í tölvupósti stéttarfélagsins komi fram að greiðslur miðist við meðallaun síðustu 6 mánaða en kærandi hafi verið í 14% starfi frá 26. maí 2015, sbr. staðfestingu vinnuveitanda á starfslokavottorði vegna veikinda á meðgöngu. Þar sem greiðslur til kæranda úr sjúkrasjóði stéttarfélagsins hafi einungis tekið mið af meðallaunum hennar fyrir 14% starfshlutfall uppfylli kærandi ekki skilyrði 12. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um samfellu náms og starfs, sbr. einnig c-lið 2. mgr. 13. gr. a. laganna um launað starf. Þá verði ekki séð að aðrir stafliðir 2. mgr. 13. gr. a. laganna geti átt við í tilviki kæranda.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað en kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk, sbr. greiðsluáætlun, dags. 25. september 2019.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof eiga foreldrar, sem verið hafa í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og staðist kröfur um námsframvindu. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Almennt teljast 30 ECTS einingar á önn því vera 100% nám við háskóla og fullt nám í skilningi laganna því 22–30 einingar.

Barn kæranda fæddist X 2019. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 er því frá X 2018 og fram að fæðingu barnsins. Kærandi stundaði nám í B við Háskólann í Reykjavík en um er að ræða 180 ECTS eininga fullt nám í þrjú námsár eða 30 ECTS eininga nám á misseri miðað við fullt nám. Samkvæmt yfirliti frá Háskólanum í Reykjavík, dags. 12. júní 2019, lauk kærandi 6 ECTS einingum á haustönn 2018 sem telst ekki vera fullt nám, svo sem rakið er að framan. Á vorönn 2019 lauk kærandi 24 ECTS einingum, sem telst vera fullt nám tímabilið 8. janúar til 31. maí 2019. Kærandi var því einungis í fullu námi í tæpa fimm mánuði á 12 mánaða viðmiðunartímabili í skilningi 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki fullnægt skilyrði 1. mgr. 19. gr. laganna um að hafa verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Þá þykja framlögð málsgögn að öðru leyti ekki sýna fram á að kærandi eigi rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi 13. gr. a. laga nr. 95/2000 þannig að til greina komi að beita heimildarákvæði 12. mgr. 19. gr. laganna í tilviki kæranda. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 9. ágúst 2019, um synjun á umsókn A, um fæðingarstyrk námsmanna er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta