Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 484/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 484/2020

Miðvikudaginn 15. september 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 2. október 2020, kærði , A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. september 2020 um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta hans vegna ársins 2019 skyldi standa óbreyttur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2019. Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2019 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 216.321 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu og innborgunar á kröfu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu kröfunnar með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. maí 2020. Kærandi andmælti niðurstöðu endurreikningsins 28. maí 2020 og með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. september 2020, var kærandi upplýstur um þá niðurstöðu að endurreikningurinn skyldi standa óbreyttur. Undir rekstri málsins tók Tryggingastofnun ríkisins nýja ákvörðun í málinu, dags. 11. mars 2021, á grundvelli breytinga á skattframtali. Niðurstaða nýs endurreiknings og uppgjörs bóta ársins 2019 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 110.061 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu og innborgunar á fyrri kröfu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. október 2020. Með bréfi, dags. 5. október 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 5. nóvember 2020, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. nóvember 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda 17. nóvember 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst með bréfi, dags. 11. desember 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. desember 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda 16. desember 2020. Viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst með bréfi, dags. 25. mars 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 6. apríl 2021 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. apríl 2021. Viðbótargögn bárust frá Tryggingastofnun 1. júní og 16. ágúst 2021 og voru þau send kæranda til kynningar 7. september 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 10. september 2021 og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar 13. september 2021. Frekar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta verði leiðrétt.

Í kæru greinir kærandi frá því að Tryggingastofnun hafi 4. september 2020 svarað fyrirspurn hans frá 28. maí 2020 varðandi mismun á uppgefnum tekjum Tryggingastofnunar til Skattsins og uppgefnum tekjum sem stofnunin hafði lagt til grundvallar við endurreikning ársins 2019. Kröfu Tryggingastofnunar að fjárhæð 216.321 hafi verið dreift á 12 mánuði. Í kæru er greint frá því að kærandi hafi ítrekað þurft að spyrjast fyrir um svör stofnunarinnar við andmælum sínum.

Forsaga málsins sé sú að í byrjun árs 2018 hafi kærandi verið [...] við B sem hafi ekki lokið fyrr en um miðjan desember 2018, kærandi hafi ekki fengið greitt [...] fyrr en í febrúar 2019. Í desember 2018 hafi kærandi verið [...] við C. [...] og hafi honum verið greitt fyrir vinnuna í mars 2019.

Þann 7. mars 2019 hafi kæranda borist tilkynning frá Tryggingastofnun um breytingu á tekjuáætlun þar sem honum hafi verið áætlaðar 8.134.000 kr. í launatekjur á árinu. Kærandi hafi spurt hvernig stæði á þessari breytingu og hafi svör Tryggingastofnunar verið þau að samkvæmt staðgreiðsluskrá hafi komið í ljós misræmi sem stofnunin hafi brugðist við og þess vegna væri krafist endurgreiðslu á greiddum lífeyri fyrir árið 2019. Hann hafi einnig verið upplýstur um að allar greiðslur á árinu myndu falla niður. Þessu hafi kærandi mótmælt og hafi honum þá verið sagt að hann bæri ábyrgð á gerð tekjuáætlunarinnar. Kærandi hafi bent á að hann hafi ekki getað breytt tekjuáætluninni þar sem honum hafi ekki borist launaseðlar en það hafi ekki verið fyrr en 8. mars 2019 að kæranda hafi borist launaseðlarnir og hafi hann þá gert nýja tekjuáætlun. Bent sé á að Tryggingastofnun hefði getað sent honum ábendingu um þetta misræmi og óskað eftir viðbrögðum af hans hálfu en hafi ekki gert það heldur hafi upp á sitt einsdæmi tekið ákvörðun um að breyta tekjuáætluninni sem sé á hans ábyrgð.

Samkvæmt reglum stofnunarinnar eigi greiðslur að eiga sér stað fyrsta hvers mánaðar og fara eftir greiðsluáætlun eins og hún sé þann 15. fyrirliðins mánaðar. Tryggingastofnun fari ekki eftir þessu frekar en að treysta ekki samstarfsaðilanum til að sinna sinni skyldu til að halda tekjuáætlun réttri.

Með bréfi, dags. 4. september 2020, hafi fylgt samantekt á greiðslum Tryggingastofnunar á árinu 2019. Í yfirlitinu komi fram færsla upp á 437.904 kr. þann 7. mars 2019 sem kærandi reikni með að sé krafa um endurgreiðslu, byggð á ákvörðun vegna greiðslu frá D. Það sem geri þetta óskiljanlegt sé að þann 13. mars 2019 hafi þessi færsla verið leiðrétt en þó aðeins með 265.269 kr. og einnig sé óskiljanlegt hvers vegna lífeyrisgreiðsla 1. apríl 2019 sé aðeins 88.757 kr. og síðan hafi komið greiðslur 1. maí upp á 212.360 kr. og 141.513 kr. Að lokum séu vaxtagreiðslur upp á 5.405 kr. og 848 kr. færðar sem skuld og svo teknar aftur. Það hafi verið Tryggingastofnun sem hafi með vilja reiknað búsetuhlutfallið rangt en hann þurfi að bera kostnaðinn.

Málið sé flókið og framsetningin þannig gerð að allt sé ógegnsætt. Kærandi óski eftir að fá framsetninguna leiðrétta þannig að hún sé skiljanleg. Farið sé fram á að fá leiðrétt uppgjör. Tryggingastofnun beri að fylgja lögum.

Í athugasemdum kæranda, dags. 15. nóvember 2020, komi fram að kærandi sé engu nær um niðurstöðu endurreikningsins. Það sem kærandi lesi úr greinargerð stofnunarinnar sé að allt hafi verið framkvæmt lögum samkvæmt en hann sé engu nær um niðurstöðuna eða tilkomu hennar. Rangir hlutir verði ekki réttir með tilvísun í lagabókstafi. Hamrað hafi verið á að kæranda hafi borið að upplýsa um allar breytingar og frávik.

Samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 sé kæranda veittur lögvarinn réttur til að vita hvaða gögn er hann varði stjórnsýslan vinni með. Þann 28. maí 2020 hafi kærandi sent fyrirspurn til Tryggingastofnunar varðandi mismun í skattauppgjöri frá febrúar 2020 til maí 2020 og fyrirspurn um uppgjör stofnunarinnar og endurkröfubréf. Eftir ítrekanir hafi kæranda ekki verið svarað fyrr í september 2020.

Kærandi bendi á að forsætisráðuneytið hafi gefið út leiðbeiningarit 2007 um upplýsingalögin. Þar segi um svartíma: „Það á ekki að taka langan tíma að fá upplýsingar úr stjórnkerfinu. Beiðni um upplýsingar ber að afgreiða eins fljótt og verða má og hafi hún ekki verið afgreidd innan sjö daga, þarf að skýra umsækjanda frá aðstæðum tafarinnar og láta vita hvenær ákvörðunar sé að vænta.“ Þar sem ekki liggi fyrir aðrar upplýsingar um svartíma gangi kærandi út frá því að þessar upplýsingar séu enn í gildi. Kæranda finnist alvarlega á honum brotið að svar hafi ekki legið fyrir fyrr en í byrjun september við fyrirspurn sem hann hafi sent inn í lok maí 2020.

Eftirfarandi sé að finna á heimasíðu Tryggingastofnunar sem sé tíundað í greinargerð stofnunarinnar sem mikilvæg atriði: „Tekjuáætlun er á ábyrgð lífeyrisþega. Mikilvægt er að gefa upp réttar upplýsingar um tekjur og bera lífeyrisþegar ábyrgð á því að upplýsa ef breytingar verða á tekjum eða aðstæðum.“ Í greinargerð Tryggingastofnunar komi fram að búin hafi verið til ný tekjuáætlun á grundvelli upplýsinga í staðgreiðsluskrá. Þarna stangast á annars vegar framsetning Tryggingastofnunar um ábyrgð lífeyrisþega og hins vegar starfsaðferðir stofnunarinnar. Hér taki stofnunin fram fyrir hendur kæranda og taki ákvarðanir sem séu í mótsögn við þau atriði sem lögð sé áhersla á í upplýsingum til lífeyrisþega. Kærandi vísar í 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um gildissvið laganna, 13. gr. sömu laga um andmælarétt og 14. gr. um tilkynningu um meðferð máls. Eins og fram komi í greinargerð stofnunarinnar hafi ákvörðun um að breyta tekjuáætlun kæranda verið án samráðs þótt slíks sé krafist í stjórnsýslulögum.

Með greinargerð Tryggingstofnunar hafi fylgt yfirlit yfir greiðslur frá stofnuninni. Bent sé á að atriði sem þar komi fram hafi ekkert að gera með greiðsluflæðið til hans frá stofnuninni.

Greiðsla lífeyristrygginga, dags. 7. mars 2019, vegna breytingar á tekjuáætlun 437.904 kr., en hér sé um að ræða kröfu Tryggingastofnunar um endurgreiðslu á lífeyrisgreiðslum sem hann hafi fengið í janúar, febrúar og mars 2019, eða þrisvar sinnum 145.968 kr. Þann 13. mars 2019 hafi verið sett inn greiðsla lífeyristrygginga vegna breytinga á tekjuáætlun -256.269 kr. Kærandi hafi ekki fengið útskýringu á því hvernig þessi færsla sé tilkomin og vilji benda á að mismunurinn á þessum tveim færslum sé 172.637 kr.

Kæranda sé ómögulegt að finna út hvað sé rétt og hvað sé rangt vegna framsetningar stofnunarinnar. Kæranda finnist undarlegt að inn í uppgjör Tryggingastofnunar skuli hafa verið tekin 437.904 kr. krafa sem sé tilkomin vegna einhliða ákvörðunar stofnunarinnar, að greiðslu sem hann hafi fengið fyrir [...] frá 2018 sem fyrst hafi verið greidd út í janúar 2019 skuli vera ígildi árslauna upp á 8.124.000 kr. þó að enginn samningur um slíkt starf hafi verið til staðar eða verið til umræðu. Kærandi vilji einnig benda á að Tryggingastofnun hafi ekki haft samband við kæranda til að fá útskýringar á þessu tekjuflæði eða upplýsingar um hvort framhald yrði á því áður en ákvörðunin hafi verið tekin.

Bent sé á að eftir að stofnunin hafi tekið til greina breytingu kæranda á tekjuáætlun hafi þessi upphæð ekki verið leiðrétt nema með 265.269 kr.

Það veki furðu að kærandi sé aðeins mataður með tölum og orðum, kærandi hafi beðið um útreikninga á þeim greiðslum og réttindum sem hann hafi samkvæmt lögum. Það hafi stofnunin ekki lagt fram þó að um það hafi verið beðið oftar en einu sinni. Bent sé á að kærandi sé menntaður í X og því í stakk búinn til að skilja framsett talnaefni og útreikninga.

Í athugasemdum kæranda frá 29. mars 2021 kemur fram að Tryggingastofnun hafi 15. mars 2021 svarað erindi kæranda frá 17. febrúar 2021 en þar hafi ekki komið fram umbeðnar upplýsingar sem stofnunin hafi þó í bréfi 22. desember 2020 upplýst að myndi verða framsent til hans. Þetta sé gert þó að Tryggingastofnun hafi upplýst í bréfi frá 15. mars 2021 að ekki sé hægt að færa mál/erindi á tveimur stjórnsýslustigum í einu.

Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 11. desember 2020, hafi komið fram að stofnunin hafi ákveðið að líta fram hjá þessu ákvæði og svara honum beint fram hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Kærandi vilji upplýsa að hann hafi ekki fengið þær upplýsingar frá Tryggingastofnun sem hann hafi óskað eftir, þrátt fyrir að hann eigi lögvarðan rétt á þessum upplýsingum samkvæmt 5. gr. laga nr. 140/2012.

Eftir skoðun gagna málsins sé það ljóst að Tryggingastofnun beri fyrir sig í öllum tilfellum skráningar og aðgerðir Skattsins, nema þegar breytingar virki jákvætt fyrir lífeyrisþega.

Samkvæmt skattalögum sé eftirfarandi skylda við færslu bókhalds. Í fyrsta lagi skuli tekjur færast til bókar á þeim degi sem nóta fyrir viðskiptum sé gefin út. Hvorki fyrr né síðar. Í öðru lagi skuli útgjöld færast til bókar á þeim degi sem til þeirra sé stofnað. Hvorki fyrr né síðar þó að það geti verið hagkvæmt fyrir fyrirtækið að svo sé gert. Í þriðja skuli bókhald vera réttsýnt.

Þegar framkvæmd Tryggingastofnunar sé skoðuð virðist sem þessi mikilvægu atriði úr reikningshaldi séu ekki höfð að leiðarljósi við lögbundið uppgjör hjá lífeyrisþegum. Þrátt fyrir að í öllum svörum sé vitnað í Skattinn og reglur sem stofnuninni séu settar. Geti einstaklingur sem hafi misst starfsgetuna ekki vænst þess að starfsmenn Tryggingastofnunar séu réttsýnir og að samfella sé í þeim reglum sem unnið sé eftir innan ríkisstofnana.

Bent sé á að Tryggingstofnun hafi tekið leigutekjur, sem hafi komið til í október, til inntektar í janúar og noti það til skerðingar. Þetta sé ekki í samræmi við það sem búast megi við.

Tryggingastofnun segist vera skyldug til að fylgjast með tekjum sem einstaklingurinn hafi og bregðast við eftir því. Það hafi samt ekki verið fyrr en kærandi hafi bent á að misskráning hafi orðið á leigutekjum í október 2019 og leiðrétting hafi verið gerð hjá Skattinum að Tryggingastofnun hafi brugðist við.

Kærandi spyrji hvernig útreikningum sé háttað eftir 1. júní 2019 þegar kærandi hafi farið frá örorkulífeyri yfir á aldurstengdan lífeyri en hafi ekki fengið nein svör.

Í athugasemdum kæranda frá 10. september 2021 segir að þau skjöl sem kærandi hafi fengið send 7. september 2021 séu ósamhljóma og geri málið enn flóknara fyrir hann. Á heimasíðu Tryggingastofnunar sé að finna skjal sem heiti „Upphæðir bóta Almannatrygginga 1. janúar 2019“. Þar sé gefið upp að hámark ellilífeyris sé 248.105 kr. og einnig tölur fyrir örorkubætur. Í töflu sem Tryggingastofnun hafi sent úrskurðarnefndinni 7. janúar 2021 sé ellilífeyrir fyrir árið 2019 sagður vera 262.773 kr. og það sé sama upphæð og sé sögð vera fyrir örorkulífeyri. Í annarri töflu sé gefin upp enn ein upphæð fyrir elli- og örorkulífeyri, þ.e. að hann sé 257.356 kr. Kærandi spyr hver sé hin rétta upphæð.

Kærandi hafi einnig spurningar um töflu sem sé stimpluð móttekin 1. júní 2021, þ.e frádrátt vegna atvinnutekna að fjárhæð 24.320 kr. og frádrátt vegna annarra tekna að fjárhæð 108.036 kr. Hvað varði ellilífeyrinn þá sé gefið upp á heimasíðu Tryggingastofnunar að fyrir árið 2019 sé frítekjumarkið 1.200.000 kr. á ári eða 100.000 kr. á mánuði. Samkvæmt skattframtali 2020 fyrir 2019 hafi kærandi fengið greiddar 950.654 kr. fyrir störf sem X í tveimur X. Í fyrrnefndu upplýsingaskjali frá Tryggingastofnun séu frítekjumörk fyrir öryrkja 1.315.000 kr. á ári. Þar sem kærandi hafi tekið við örorkubótum á tímabilinu janúar til maí og ellilífeyri frá júní til desember hafi frítekjumark hans fyrir árið 2019 átt að vera 1.247.916 kr. Tekjur hans samkvæmt skattframtali 2020 hafi verið 950.654 kr. sem sé talsvert undir þeim mörkum sem Tryggingastofnun upplýsi um á heimasíðu sinni. Það sé því óskiljanlegt að Tryggingastofnun skuli vinna með skerðingar vegna atvinnutekna í þessum skjölum.

Á framtali fyrir árið 2019 séu fjármagnstekjur fjölskyldunnar 965.942 kr. sem kærandi teljist eiga til jafns við eiginkonu sína. Samkvæmt skattalögum tilheyri 482.971 kr. honum og hinn helmingurinn eiginkonunni. Kærandi hafi fengið örorkubætur frá janúar til maí 2019 og á þeim tíma hafi fjármagnstekjur hans verið 127.210 kr. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar hafi frítekjumarkið verið 98.640 kr. á ári. Af því leiðir að 41.100 kr. af fjármagnstekjum eigi ekki að koma til skerðingar.

Afganginn af árinu hafi kærandi móttekið ellilífeyri. Á tímabilinu júní til september hafi fjármagnstekjurnar verið 101.768 kr. og síðustu þrjá mánuði ársins hafi þær verið 252.667 kr.

Hvað varði greiðslur úr lífeyrissjóði komi það fram í fyrrnefndu skjali frá Tryggingastofnun að það sé munur á frítekjumörkum og skerðingum þegar um sé að ræða annars vegar örorkulífeyri og hins vegar aldurstengdan lífeyri. Hvað varði örorkulífeyri sé frítekjumörkum fyrir lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur ekki slegið saman eins og fyrir aldurstengdan lífeyri. Því sé ekki rétt farið með þessar stærðir í útreikningnum. Það verði því að leiðrétta upphæðina sem notuð sé til skerðingar hvað varði lífeyrissjóðstekjurnar.

Frítekjumörkin vegna lífeyristekna vegna örorkulífeyrisgreiðslna sé 328.800 kr. á ári. Þar sem kærandi hafi verið á örorkulífeyrisgreiðslum frá janúar til maí 2019 beri að leiðrétta útreikningana hvað þessa mánuði varði með 27.400 kr. á mánuði. Þar sem lífeyrissjóðsgreiðslurnar hafi verið 93.123 kr. á mánuði verði þær eftir leiðréttingu 65.723 kr. á mánuði frá janúar til maí 2019.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta 2019.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Í a-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um fjármagnstekjur og sé ákvæðið svohljóðandi: „Ef um hjón sé að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.“

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 2. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar komi fram að Tryggingastofnun megi endurskoða grundvöll bótaréttar hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem hafi orðið á aðstæðum greiðsluþega.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum. Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Á árinu 2019 hafi kærandi verið með örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá 1. janúar til 31. maí 2019 og ellilífeyri frá 1. júní til 31. desember 2019. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til 216.321 kr. ofgreiðslu að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2020 vegna tekjuársins 2019 hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.

Kærandi hafi fengið senda tillögu að tekjuáætlun þann 17. janúar 2019 sem hafi gert ráð fyrir að á árinu 2019 væri hann með 689.700 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 7.764 kr. í vexti og verðbætur, sameiginlegar með maka. Engin tekjuáætlun hafi borist frá kæranda og engar athugasemdir hafi verið gerðar. Kæranda hafi verið greitt eftir þessari áætlun frá 1. janúar til 31. mars 2019.

Við reglubundið eftirlit Tryggingastofnunar í mars 2019 hafi komið í ljós misræmi á milli tekjuáætlunar kæranda og upplýsinga úr staðgreiðsluskrá Skattsins. Tryggingastofnun hafi búið til nýja tillögu að tekjuáætlun á grundvelli upplýsinga úr staðgreiðsluskrá og hafi kæranda verið sent bréf þann 7. mars 2019 þar sem tilkynnt hafi verið um hina nýju tillögu að tekjuáætlun. Samkvæmt henni hafi verið gert ráð fyrir 8.134.000 kr. í launatekjur á árinu en einnig hafi verið gert ráð fyrir 325.360 kr. iðgjaldi í lífeyrissjóð til frádráttar. Ekki hafi verið gert ráð fyrir öðrum tekjum. Kærandi hafi ekki fengið greitt samkvæmt þessari tekjuáætlun þar sem hann hafi brugðist við þessari tillögu.

Kærandi hafi skilað inn nýrri tekjuáætlun 8. mars 2019 þar sem gert hafði verið ráð fyrir 1.554.000 kr. í launatekjur á árinu, 689.700 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 584.064 kr. í erlendan grunnlífeyri og 7.620 kr. í vexti og verðbætur, sameiginlega með maka. Einnig hafi verið gert ráð fyrir 62.160 kr. iðgjaldi í lífeyrissjóð til frádráttar. Tryggingastofnun hafi fallist á forsendur kæranda og hafi greitt honum í samræmi við þær frá 1. apríl 2019 til 31. desember 2019.

Við uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2019 hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi verið hærri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun. Á árinu 2019 hafði kærandi 1.554.000 kr. í launatekjur, 1.117.479 kr. í lífeyrissjóðstekjur og sameignlegar tekjur með maka hafi verið 2.578 kr. í vexti og verðbætur og 1.085.333 kr. í leigutekjur. Einnig hafi verið tekið tilliti til 62.160 kr. greiðslu iðgjalds í lífeyrissjóð til frádráttar.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2019, dags. 22. maí 2020, hafi verið sú að greiðslur hafi verið ofgreiddar um 216.321 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Tryggingastofnun hafi borist andmæli þann 3. júní 2020 og hafi þeim verið svarað með bréfi stofnunarinnar þann 4. september 2020.

Kærð ákvörðun sé í samræmi við lög og reglur sem gilda um uppgjör og endurreikning tekjutengdra bóta. Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun stofnunarinnar.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 16. desember 2020, kemur fram að stofnunin hafi skoðað gögn kæranda og sjái ekki ástæðu til þess að koma með frekari efnislegrar athugasemdir. Tryggingastofnun vilji þó taka það fram að stofnunin hafi talið sig hafa fullsvarað upphaflegu erindi kæranda. Af kæru og viðbótargögnum megi þó ráða að kærandi vilji einnig ítarlegri útreikninga. Stofnunin muni bregðast við því og senda honum þá á næstu dögum.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 25. mars 2021, kemur fram að kærandi hafi sent stofnuninni erindi 17. febrúar 2021 og það hafi verið skilningur stofnunarinnar að úrskurðarnefndin hafi einnig fengið erindið. Þar sem að nefndinni hafi ekki borist framangreint erindi sé það hér með sent ásamt fylgiskjölum, auk svars Tryggingastofnunar ásamt þeim breytingum sem hafi orðið á réttindum kæranda árið 2019 í kjölfar upplýsinga frá skattyfirvöldum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2019.

Kærandi fékk greiddan örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun frá 1. janúar til 31. maí 2019 og ellilífeyri frá 1. júní til 31. desember 2019. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með tilteknum undantekningum. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að Tryggingastofnun skuli hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin aflar úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið erum í 40. gr. Í 1. málsl. 1. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að Tryggingastofnun skuli reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er Tryggingastofnun heimilt að endurskoða grundvöll bótaréttar hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem hafi orðið á aðstæðum greiðsluþega.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Samkvæmt gögnum málsins sendi Tryggingastofnun kæranda tekjuáætlun, dags. 17. janúar 2019, vegna ársins 2019 þar sem gert var ráð fyrir 689.700 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 7.764 kr. í vexti og verðbætur og 32.448 DKK í grunnlífeyri. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun og voru bótaréttindi því reiknuð og bætur greiddar í samræmi við þær tekjuforsendur frá janúar til mars 2019. Í kjölfar samtímaeftirlits Tryggingastofnunar við staðgreiðsluskrá í mars 2019 kom í ljós að kærandi hafði verið með launatekjur á árinu. Var í kjölfarið útbúin ný tekjuáætlun, dags. 7. mars 2019, þar sem gert var ráð fyrir 8.134.000 kr. í launatekjur, 325.360 kr. í iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar og óbreyttum lífeyrissjóðstekjum og fjármagnstekjum. Kærandi var upplýstur um áætlaða kröfu að fjárhæð 377.746 kr. vegna tímabilsins janúar til og með mars 2019 sem ekki yrði innheimt fyrr en að loknu uppgjöri bóta ársins. Þar sem kærandi lagði fram nýja tekjuáætlun 8. mars 2019 greiddi Tryggingastofnun kæranda ekki samkvæmt framangreindri tekjuáætlun. Samkvæmt innsendri tekjuáætlun kæranda frá 8. mars 2019 var gert ráð fyrir 1.554.000 kr. í laun, 62.160 kr. í iðgjald í lífeyrissjóð en að öðru leyti voru aðrar tekjur óbreyttar. Framangreind tekjuáætlun var staðfest og var kæranda tilkynnt að honum yrði greitt samkvæmt henni út árið 2019.

Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2019 reyndist kærandi hafa verið með 1.554.000 kr. í launatekjur, 62.160 kr. í frádrátt vegna iðgjalds í lífeyrissjóð, 1.117.479 kr. í lífeyrisjóðstekjur og 1.087.911 kr. í fjármagnstekjur, sameiginlegar með maka á árinu. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins leiddi í ljós 216.321 kr. ofgreiðslu á árinu 2019, að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu og innborgunar á fyrri kröfu. Undir rekstri málsins tók Tryggingastofnun ríkisins nýja ákvörðun, dags. 11. mars 2021, á grundvelli breytinga á skattframtali kæranda, nánar til tekið reyndust sameiginlegar fjármagnstekjur ársins 2019 með maka hafa verið 957.911 kr. í stað 1.087.911 kr. Nýr endurreikningur leiddi í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 110.061 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu og innborgunar á eldri kröfu. Samkvæmt endurreikningnum fékk kærandi ofgreitt í bótaflokkunum örorkulífeyri, tekjutryggingu, orlofs- og desemberuppbótum og ellilífeyri.

Úrskurðarnefnd velferðarmála mun í úrskurði þessum fara yfir endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna frá 11. mars 2021. Eins og áður segir fékk kærandi örorkulífeyri og tengdar greiðslur fyrstu fimm mánuði ársins 2019 og ellilífeyri í kjölfarið út árið. Við útreikning á örorkulífeyri og tengdum greiðslum eru lífeyrissjóðstekjur, launatekjur og fjármagnstekjur tekjustofnar sem hafa áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-liðar og C-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Lífeyrissjóðstekjur hafa hvorki áhrif á útreikning grunnlífeyris né aldurstengdrar örorkuuppbótar, sbr. 3. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, en fjármagnstekjur og launatekjur hafa áhrif á framangreinda bótaflokka. Fjármagnstekjur og launatekjur höfðu þó hvorki áhrif á grunnlífeyri né aldurstengda örorkuuppbót í tilviki kæranda þar sem tekjur hans voru undir frítekjumarki örorkulífeyris, þ.e. 214.602 kr. á mánuði á árinu 2019.

Á grundvelli 22. gr. laga um almannatryggingar skal greiða tekjutryggingu þeim sem fá örorkulífeyri. Skattskyldar tekjur samkvæmt 2. mgr. 16. gr. sömu laga, sem fara yfir frítekjumark, skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna sem umfram eru. Frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna var 328.800 kr. á árinu 2019, sbr. reglugerð nr. 1205/2018. Við útreikning tekjutryggingar í tilviki kæranda var horft til 13. tölul. ákvæðis til bráðabirgða þar sem fram kemur að við útreikning tekjutryggingar örorkulífeyrisþega sem fá greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum skuli skerðingarhlutfall vera 45% á árinu 2019. Samkvæmt 18. tölulið ákvæðis til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar skal við útreikning tekjutryggingar þeirra örorkulífeyrisþega, sem fá greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum á tímabilinu 1. janúar 2019 til og með 31. desember 2019, gera samanburð á útreikningi tekjutryggingar, annars vegar samkvæmt þeim reglum sem gilda á árinu 2019 og hins vegar samkvæmt þeim reglum sem voru í gildi á árinu 2013, auk 36,23% hækkunar og að teknu tilliti til þess tekjumarks sem myndast hefur við framkvæmd 16. tölul. ákvæðis þessa. Beita skal þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna. Við gerð þess samanburðar telur úrskurðarnefndin ljóst samkvæmt gögnum málsins að það er hagstæðara fyrir kæranda að útreikningur tekjutryggingar miðist við framangreint bráðabirgðaákvæði heldur en 22. gr. laga um almannatryggingar. Frítekjumark vegna útreiknings tekjutryggingar 2019 samkvæmt aðalreglu er 328.000 kr. en samkvæmt samanburðarreglu fyrir árið 2013 er frítekjumarkið 744.698 kr.

Samkvæmt framangreindu hafa launatekjur, lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur áhrif á rétt til greiðslna tekjutryggingar, sbr. einnig A- og C-liði 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Á árinu 2019 var óskert tekjutrygging 148.848 kr. á mánuði, sbr. reglugerð nr. 1202/2018 um fjárhæðir bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar. Á árinu 2019 var frítekjumark tekjutryggingar vegna launatekna 1.315.200 kr., frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna 328.800 kr. á ári og frítekjumark fjármagnstekna 98.640 kr. á ári, sbr. reglugerð nr. 1205/2018 um fjárhæðir frítekjumarka (tekjumarka) almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2019. Uppreiknaðar viðmiðunartekjur kæranda á árinu 2019 voru 3.088.272 kr. í launatekjur, lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur. Að teknu tilliti til frítekjumarks 1.315.200 kr. vegna launatekna, 744.698 kr. vegna lífeyrissjóðstekna, sbr. 18. tölul. til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar, og 95.640 kr. vegna fjármagnstekna og 45% skerðingarhlutfalls var reiknuð tekjuskerðing því 418.380 kr. á umræddu fimm mánaða tímabili. Tekjuskerðing á mánuði á grundvelli framangreindra forsendna er því 34.865 kr. á mánuði og í ljósi þess átti kærandi rétt á 476.380 kr. í tekjutryggingu fyrstu fimm mánuði ársins 2019, að teknu tilliti til 83,80% búsetuhlutfalls.

Kærandi fékk greiddan ellilífeyri frá 1. júní 2019 og út árið. Í 23. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um útreikning ellilífeyris en þar segir að ellilífeyrir skuli lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr. laganna, uns lífeyririnn fellur niður að undanskildum greiðslum frá Tryggingastofnun, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og úttekt á séreignarlífeyrissparnaði. Á árinu 2019 var sérstakt frítekjumark ellilífeyris vegna launatekna 1.200.000 kr. og almennt frítekjumark 300.000 kr. á ári, sbr. reglugerð nr. 1205/2018 um fjárhæðir frítekjumarka (tekjumarka) almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2019. Viðmiðunartekjur kæranda á árinu 2019 voru 3.088.272 kr. í laun, lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur. Að teknu tilliti til sérstaks frítekjumarks 1.200.000 kr. vegna launatekna, 300.000 kr. vegna annarra tekna og 45% skerðingarhlutfalls var reiknuð tekjuskerðing á mánuði 59.560 kr. Þar sem kærandi er með 83,80% búsetuskerðingu átti hann rétt á 1.106.000 kr. vegna tímabilsins júní til desember 2019.

Í kæru eru gerðar ýmsar athugasemdir við málsmeðferð Tryggingastofnunar ríkisins. Fyrst og fremst er byggt á því að Tryggingastofnun hafi svarað erindum kæranda seint og að framsetning tölulegra gagna í tengslum við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2019 hafi verið ruglingsleg. Úrskurðarnefnd velferðarmála fellst á að gögn og upplýsingar sem Tryggingastofnun sendi kæranda hafi ekki verið til þess fallin að skýra hvaða forsendur hafi legið til grundvallar greiðslum á árinu 2019. Úrskurðarnefndin óskaði eftir nánari skýringum á útreikningum undir rekstri málsins og telur nú að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir. Úrskurðarnefndin telur því ekki tilefni til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi með vísan til framangreindrar málsástæðu kæranda. 

Kærandi gerir athugasemd við að Tryggingastofnun hafi við gerð nýrrar tekjuáætlunar þann 7. mars 2019 brotið gegn 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, annars vegar um andmælarétt og hins vegar um tilkynningu um meðferð máls þar sem ekki hafi verið haft samráð við kæranda. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi ekki greitt samkvæmt framangreindri tekjuáætlun þar sem hann sendi sjálfur inn nýja tekjuáætlun 8. mars 2019 með nýjum tekjuforsendum sem Tryggingastofnun samþykkti. Þegar af þeirri ástæðu verður hin kærða ákvörðun ekki felld úr gildi með vísan til framangreindrar málsástæðu kæranda.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2019 staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2019, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta