Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 25/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 25. júní 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 25/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 8. febrúar 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að í ljósi þess að hann hefði fengið greiddar atvinnuleysisbætur á því tímabili sem um ræði í 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis VI við lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, eins og þeim var breytt með lögum nr. 134/2009, ætti hann rétt á atvinnuleysisbótum á grundvelli ákvæðisins til 28. febrúar 2010. Greiðslur atvinnuleysisbóta til hans myndu falla niður frá og með 1. mars 2010 að óbreyttum aðstæðum. Kærandi kærði þessa ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi dags. 11. febrúar 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi kveðst vera launþegi hjá X

 ehf. og ekki vera sáttur við að falla undir lög nr. 134/2009 sem tóku gildi 1. janúar 2010. Hann sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 15. janúar 2009 fyrir gildistöku laga nr. 37/2009 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt vottorði vinnuveitanda hafði kærandi starfað hjá X ehf. sem vörubílstjóri í fullu starfi frá 1. janúar 2002 til 31. desember 2008 og í hálfu starfi frá 1. janúar 2009. Fyrirtækið var að hálfu í eigu kæranda og óskaði hann eftir 50% hlutabótum á móti því starfi sem hann gegndi áfram hjá fyrirtækinu. Kæranda var reiknaður bótaréttur í samræmi við þágildandi reglur og var talinn eiga 100% bótarétt sem sjálfstætt starfandi einstaklingur.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 20. maí 2010, kemur fram að samkvæmt þágildandi 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi tryggingarhlutfall kæranda, þegar hann sótti um atvinnuleysisbætur þann 15. janúar 2009, byggt á reglum er gilt hafi um sjálfstætt starfandi einstaklinga innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Vinnumálastofnun hafi verið gert, skv. þágildandi 4. mgr. 19. gr. laganna, að taka mið af skrám skattyfirvalda til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi einstaklinga á ávinnslutímabili. Hafi verið litið til þess hvort staðið hafi verið skil á tryggingargjaldi á ávinnslutímabili og ekki horft til þeirra launa sem atvinnuleitandi hafi greitt sér á tímabilinu.

Með lögum nr. 37/2009 um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi skilgreiningu á sjálfstætt starfandi einstaklingum verið breytt og eingöngu þeir sem höfðu starfað við rekstur á eigin kennitölu skilgreindir sem sjálfstætt starfandi einstaklingar innan kerfisins. Breytingin hafi átt við um þá sem sótt hafi um atvinnuleysisbætur eftir 8. apríl 2009 þegar lagabreytingin tók gildi. Þeir sem störfuðu hjá eigin einkahlutafélögum, sameignarfélögum eða hlutafélögum lutu þar með reglum um launafólk, sbr. a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kveðið er á um lagaskil í bráðabirgðaákvæði VII með lögum nr. 37/2009 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 37/2009 þótti ástæða til að leggja til að breytingar þær sem tóku gildi með lögunum hefðu ekki áhrif á rétt þeirra sem þegar fengu greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði nema breytingarnar leiddu til betri réttar fyrir hinn tryggða. Var þeim sem þegar höfðu fengið greiddar atvinnuleysisbætur gert að óska leiðréttinga á greiðslum fyrir 1. júní 2009. Framangreindar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar leiddu ekki til betri réttar fyrir kæranda og hann óskaði heldur ekki leiðréttinga á grundvelli ákvæðisins. Því hafi kærandi áfram verið skráður sem sjálfstætt starfandi einstaklingur og hafi bótaréttur hans haldist í 100% eins og áður hafi verið ákveðið.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að ágreiningur í máli þessu snúi að því hvort breyting sú sem samþykkt var með lögum nr. 134/2009 á bráðabirgðaákvæði VI með lögum um atvinnuleysistryggingar eigi við í máli kæranda. Kærandi telji að hann eigi ekki að falla undir ákvæðið þar sem hann sé launþegi hjá X ehf. Sú regla sem komi fram í 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis VI eigi við um þá sem kunni að eiga rétt til greiðslu eða hafi fengið greitt á grundvelli 1. og 2. mgr. ákvæðisins. Kærandi hafi þegið greiðslur á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI með lögum um atvinnuleysistryggingar. Með tilkomu 4. mgr. bráðabirgðaákvæðisins hafi löggjafinn ákvarðað að þrír mánuðir séu hæfilegur tími fyrir sjálfstæða atvinnurekendur á atvinnuleysisbótum í minnkuðu starfshlutfalli til að meta hvort rekstrarforsendur fyrirtækis séu brostnar. Þeir sem þegar hafi fengið greitt á grundvelli ákvæðisins eigi rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli þess í tvo mánuði frá gildistöku laganna. Með vísan til framangreindra sjónarmiða telji stofnunin að kærandi falli undir bráðabirgðaákvæði VI með lögum um atvinnuleysistryggingar og þar af leiðandi 4. mgr. sama ákvæðis. Í ljósi þess að kærandi hafi fengið greiddar bætur á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI telji stofnunin að kærandi hafi átt rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins til 1. mars 2010.

Þegar heimild samkvæmt bráðabirgðaákvæði VI með lögum um atvinnuleysistryggingar sleppi, taki við almenn skilyrði laganna. Samkvæmt f- og g-lið 18. gr. laganna sé eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga að þeir hafi stöðvað rekstur og leggi fram staðfestingu um stöðvun reksturs, sbr. 21. gr. laganna. Í samræmi við 21. gr. laganna telji Vinnumálastofnun nægilegt að umsækjendur skili staðfestingu á lokun launagreiðendaskrá frá ríkisskattstjóra. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggi hjá Vinnumálastofnun hafi kærandi ekki stöðvar rekstur og beri því að synja honum um atvinnuleysisbætur.

Kæranda var send greinargerð Vinnumálastofnunar með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. maí 2010, og var honum veittur frestur til 4. júní 2010 til að koma frekari athugasemdum á framfæri í máli þessu. Kærandi hefur ekki komið frekari gögnum á framfæri.

 

2.

Niðurstaða

Sú meginregla hefur gilt að sjálfstætt starfandi einstaklingur þurfi meðal annars að hafa stöðvað rekstur og lagt fram vottorð um stöðvun slíks rekstrar til að geta fengið greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. nú f–g-liði 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Frá þessum skilyrðum voru gerðar tilteknar tímabundnar undantekningar, sbr. b-lið 1. gr. laga nr. 131/2008 sem varð að upphaflegu bráðabirgðaákvæði VI með lögum um atvinnuleysistryggingar. Þessar undantekningar þýddu meðal annars að sjálfstætt starfandi einstaklingum var gefinn kostur á að halda áfram sinni starfsemi, en að þeir fengju eigi að síður greiddar atvinnuleysisbætur að hluta. Gildistími bráðabirgðaákvæðis VI með lögum um atvinnuleysistryggingar var til 1. maí 2009 en var svo framlengdur til ársloka 2009, sbr. b-lið 26. gr. laga nr. 37/2009. Strangari skilyrði voru sett fyrir veitingu atvinnuleysisbóta á þessum grundvelli þegar ákvæðinu var breytt með 26. gr. laga nr. 134/2009.

Kæranda voru veittar atvinnuleysisbætur á grundvelli framangreinds bráðabirgðaákvæðis VI með lögum um atvinnuleysistryggingar þar sem sýnt þótti að umsókn hans frá 15. janúar 2009 uppfyllti þau skilyrði sem komu fram í ákvæðinu. Hann var því skilgreindur sem sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og þeirri skilgreiningu á stöðu hans var ekki haggað þótt breytingar hafi orðið á hugtakinu sjálfstætt starfandi einstaklingi með lögum nr. 37/2009. Eins og Vinnumálastofnun hefur bent á stóð honum til boða að breyta réttarstöðu sinni að þessu leyti fyrir 1. júní 2009 en hann kaus að gera það ekki. Kærandi var með öðrum orðum áfram sjálfstætt starfandi einstaklingur þrátt fyrir gildistöku laga nr. 37/2009.

Þegar lög nr. 37/2009 gengu í gildi gat kærandi vænst þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt bráðabirgðaákvæði VI með lögum um atvinnuleysistryggingar til ársloka 2009. Frekari væntingar gat hann ekki haft nema að því tilskildu að hann myndi stöðva rekstur sinn og skila vottorði þar að lútandi. Með a-lið 26. gr. laga nr. 134/2009 var sérstaklega tekið á stöðu þeirra sem voru í sambærilegri stöðu og kærandi, sbr. gildandi 2. málsl. 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis VI laga um atvinnuleysistryggingar:

Þeir sem þegar hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðis þessa á tímabilinu frá 21. nóvember 2008 til 31. desember 2009 eiga rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins í allt að tvo mánuði að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

Á grundvelli þessa ákvæðis var hin kærða ákvörðun tekin. Að teknu tilliti til framangreindra athugasemda og röksemda þeirra sem Vinnumálastofnun hefur fært fram í málinu verður hin kærða ákvörðun staðfest.

 

 

Úr­skurðar­orð

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiðslur atvinnuleysisbóta til A falli niður frá og með 1. mars 2010 er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta