Hoppa yfir valmynd

Nr. 364/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 25. júlí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 364/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19040114

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 30. apríl 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […], og vera ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. apríl 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar, í fyrsta lagi á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 1. mgr. 42. gr. laganna og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og í öðru lagi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 19. nóvember 2018. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 20. nóvember 2018, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Bretlandi. Þann 27. nóvember 2018 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Bretlandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá breskum yfirvöldum, dags. 11. desember 2018, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 15. apríl 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 16. apríl 2019 og kærði kærandi ákvörðunina þann 30. apríl 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum barst kærunefnd 10. maí 2019. Þann 14. júní 2019 leiðbeindi kærunefnd kæranda um framlagningu frekari gagna og bárust þau nefndinni þann 18. júní sl.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að bresk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Bretlands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Bretlands.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir kröfu sína um að umsókn hans skuli tekin til efnismeðferðar á Íslandi á því að ótækt sé að beita heimild c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í máli hans. Kærandi vísar til grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement sem sé lögfest í 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. laganna. Kærandi fjallar almennt um regluna, inntak hennar og gildissvið auk þess sem hann bendi m.a. á að reglan hafi verið tekin upp í fjölda alþjóðlegra samninga, t.d. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi telji ótækt að senda sig aftur til Bretlands þar sem hans bíði að öllum líkindum áframsending til Pakistan, en kærandi hafi þegar hlotið tvær synjanir í máli sínu hjá breskum stjórnvöldum.

Krafa kæranda er jafnframt reist á því að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í máli hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í þeim efnum fjallar kærandi almennt um og gerir grein fyrir inntaki og túlkun á 2. mgr. 36. gr. laganna, m.a. með hliðsjón af lögskýringargögnum, fyrri úrskurðum kærunefndar útlendingamála og hugtakinu sérstaklega viðkvæm staða, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji að hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, en hann hafi gert tilraun til að taka eigið líf hér á landi og í kjölfarið verið færður á Geðdeild Landspítalans. Þá hafi kærandi m.a. greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann sé stressaður og finni fyrir óöryggi.

Þá vísar kærandi jafnframt til fyrri úrskurða kærunefndar útlendingamála um mat á því hvenær einstaklingar teljist eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki og telur að horfa verði til þeirra sjónarmiða sem þar komi fram. Kærandi áréttar enn fremur að hann hafi í tvígang hlotið lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Bretlandi og ef hann hljóti synjun í þriðja sinn muni hann ekki fá neinn stuðning frá þarlendum stjórnvöldum. Kærandi muni þurfa að treysta á góðgerðarsamtök til að fá fæði og klæði. Með vísan til framangreindra sjónarmiða telji kærandi að skilyrði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt.

Kærandi gerir jafnframt nokkrar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Í fyrsta lagi, að Útlendingastofnun hafi m.a. ranglega dregið þá ályktun að ekkert bendi til þess í máli kæranda að hann verði hnepptur í varðhald við komuna til Bretlands. Með vísan til skýrslna þar sem fjallað sé um varðhald á Bretlandi telji kærandi þvert á móti að hið gagnstæða geti átt við í máli hans. Í öðru lagi, að þrátt fyrir að fallast megi á með Útlendingastofnun að kærandi eigi rétt á fjárhagsaðstoð og búsetuúrræði á Bretlandi þá sé víða pottur brotinn í þessum efnum, t.d. geti móttökumiðstöðvar oft verið yfirfullar og þá sé fæði lélegt.

Í þriðja lagi, hafi Útlendingastofnun m.a. ekki fjallað með fullnægjandi hætti um aðgang umsækjenda að heilbrigðiskerfinu, einkum hvað varðar geðheilbrigðisþjónustu, en hann sé ýmsum takmörkunum háður. Hindranir á aðgangi að geðheilbrigðisþjónustu standi m.a. saman af tungumálaörðugleikum, skorti á túlkum o.fl. Loks gerir kærandi ýmsar athugasemdir við reglugerð nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2018, svo sem að reglugerðina skorti lagastoð, ákvæði hennar gangi framar ákvæðum laga um útlendinga og að viðmið sem þar séu nefnd um hvað teljist til sérstakra ástæðna séu eingöngu talin upp í dæmaskyni.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Bretlands á umsókn kæranda er byggð á b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi sé með umsókn um alþjóðlega vernd þar í landi til meðferðar. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja bresk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi kvæntur, þriggja barna faðir á […] aldri sem kom hingað til lands einn síns liðs. Við meðferð málsins hefur kærandi greint frá því að fjölskylda hans sé stödd í heimaríki. Í málinu liggja fyrir gögn um heilsufar kæranda, en af þeim er m.a. ljóst að andlegu heilsufari kæranda hafi verið nokkuð áfátt en hann hefur m.a. verið greindur með kvíða- og geðlægðarröskun og verið ávísað lyfjum vegna þessa.

Þá kemur fram í gögnum málsins að í apríl 2019 hafi kærandi gert tilraun til að svipta sig lífi og í kjölfarið verið nauðungarvistaður á legudeild bráðageðdeildar Landspítalans. Kærandi hafi verið útskrifaður þaðan þann 3. maí sl. en við útskrift hann hafi ekki verið metinn í bráðri sjálfsvígshættu. Kærandi heimsótti Göngudeild sóttvarna þann 3. júní sl. og í samskiptaseðli kemur fram að tilefni komu hafi verið andleg vanlíðan. Kærandi hafi fengið leiðbeiningar og ráð frá hjúkrunarfræðingi og jafnframt bókaður tími hjá sálfræðingi.

Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að kærandi hefur glímt við andlega erfiðleika, gert tilraun til að svipta sig lífi og þurft á þó nokkurri heilbrigðisþjónustu að halda hér á landi vegna þessa, en hann hafi hlotið meðferð, lyfjagjöf og ráð vegna framangreinds. Það er þó mat kærunefndar að gögn málsins beri ekki með sér að heilsufari kæranda sé nú svo ástatt að hann teljist hafa sérþarfir í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem taka þurfi tillit til við meðferð málsins.

Aðstæður í Bretlandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Bretlandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Freedom in the World 2019 – United Kingdom (Freedom House, 2019);
  • 2018 Country Reports on Human Rights Practices – United Kingdom (United States Department of State, 13. mars 2019);
  • Asylum Information Database Country Report: United Kingdom (European Council on Refugees and Exiles, mars 2019);
  • Amnesty International Report 2017/18 – United Kingdom (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • BRIEFING: Immigration Detention in the UK (The Migration Observatory at the University of Oxford, 29. maí 2019);
  • Information Note on Directive 2013/33/EU of the European Parliament and of the Council of 26 June 2013 laying down standards for the reception of applicants for international protection (recast) (European Council on Refugees and Exiles, júlí 2015);
  • Information Note on Directive 2013/32/EU of the European Parliament and of the Council of 26 June 2013 on common procedures for granting and withdrawing international protection (recast) (European Council on Refugees and Exiles, desember 2014);
  • Upplýsingar af vefsíðu breskra yfirvalda (www.gov.uk).

Í ofangreindum gögnum kemur fram að bæði í löggjöf og framkvæmd er umsækjendum um alþjóðlega vernd í Bretlandi tryggður réttur til viðtals sem og túlkaþjónusta. Ef umsókn um alþjóðlega vernd er synjað hjá bresku útlendingastofnuninni (e. UK Visas and Immigration) geta umsækjendur borið synjunina undir sérstakan dómstól (e. First Tier Tribunal (Immigration and Asylum Chamber)) og frestar kæra almennt réttaráhrifum. Synjun dómstólsins er hægt að áfrýja til æðri dómstóls, að fengnu leyfi. Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Bretlandi kemur fram að umsækjendum séu tryggð búsetuúrræði og fjárhagsaðstoð í formi peningagreiðslna eða innkaupakorta að upphæð 153-163 pund á mánuði. Umsækjendur hafa almennt ekki aðgang að vinnumarkaðnum en umsækjendur á barnsaldri hafa aðgang að skólakerfinu. Aðgangur umsækjenda að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu er tryggður með lögum en í framkvæmd glíma umsækjendur við ýmsar kerfislægar hindranir við nýtingu þjónustunnar. Þá kemur fram að aðgangur að geðheilbrigðisþjónustu sé ekki tryggður og oft ábótavant.

Alþjóðlegar stofnanir og félagasamtök hafa gagnrýnt að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Bretlandi sæti varðhaldi í of ríkum mæli. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er varðhaldi sjaldan beitt í efnismeðferðarmálum en nokkuð tíðar í Dyflinnarmálum. Þá er varðhaldi gjarnan beitt þegar umsókn um vernd hefur verið hafnað, í þeim tilgangi að tryggja greiðan flutning umsækjanda til heimaríkis eða ríkis sem ber ábyrgð á umsókn hans samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni. Umsækjendur geta að eigin frumkvæði fengið skorið úr um lögmæti varðhalds. Lögum samkvæmt skal þeim tryggð lögfræðiaðstoð við rekstur slíks máls en brestir hafa verið á því í framkvæmd. Umsækjendum sem settir eru í varðhald hefur þó fækkað á síðustu árum, en árið 2014 stóð fjöldinn í 14.056 einstaklingum en var 12.637 árið 2018.

Samkvæmt breskri útlendingalöggjöf skulu umsækjendur um alþjóðlega vernd í Bretlandi eiga raunhæfan kost á því að útvega sér lögfræðiaðstoð (e. „asylum seekers shall be allowed an effective opportunity to obtain legal advice“). Í framkvæmd er endurgjaldslaus lögfræðiaðstoð til handa umsækjendum þó ekki fyllilega tryggð af hinu opinbera á fyrsta stjórnsýslustigi eða kærustigi. Bretland er ekki aðildarríki að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2013/32/ESB um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Á meðan ríkið er enn hluti af Evrópusambandinu er það þó bundið af tilskipun ráðsins nr. 2005/85/EB frá 1. desember 2005 um lágmarkskröfur varðandi málsmeðferðir í aðildarríkjunum við veitingu og afturköllun réttarstöðu flóttamanns.

Í ofangreindum gögnum kemur jafnframt fram að á árinu 2018 hafi andúð og fordómar gagnvart innflytjendum aukist nokkuð, sem að einhverju leyti hafi verið tengt við fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og hryðjuverkaárásir sem átt hafi sér stað á meginlandi Evrópu á síðastliðnum árum. Þá hafi tilkynningum vegna meintra hatursglæpa gegn innflytjendum og einkum múslimum fjölgað nokkuð á árinu. Á Bretlandi séu þó til staðar skilvirk löggæsluyfirvöld sem þolendur geti leitað til auk þess sem stofnanir sem fari með ákæru- og dómsvald séu starfræktar. Mál séu almennt rannsökuð og eftir atvikum séu ákærur gefnar út og gerendum gert að sæta viðurlögum í samræmi við þarlenda löggjöf.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstólinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016. Í því sambandi hefur dómstólinn lagt ákveðna áherslu á að umsækjendur um alþjóðlega vernd tilheyri jaðarsettum og viðkvæmum þjóðfélagshóp sem þurfi sérstaka vernd, sbr. t.d. dóm í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012. Þrátt fyrir það verði 3. gr. mannréttindasáttmálans ekki túlkuð á þann hátt að í greininni felist skylda aðildarríkja til að sjá umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum, sbr. dóm í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011.

Með vísan til umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Bretlandi er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins jafnframt með sér að í Bretlandi sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða endursent til ríkja þar sem það eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem lífi þess og frelsi er ógnað. Í því sambandi hefur kærunefnd einkum litið til þess að gögnin benda til þess meðferð breskra stjórnvalda á umsóknum um alþjóðlega vernd sé með þeim hætti að lagt sé einstaklingsbundið mat á aðstæður þeirra. Þótt fyrir liggi að kærandi hafi tvisvar sinnum fengið synjun á umsókn sinn um alþjóðlega vernd og bíði niðurstöðu í þriðja skiptið telur kærunefnd að gögn málsins gefi ekki til kynna að endursending kæranda til viðtökuríkis sé í andstöðu við 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Bretlandi, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst og telur kærunefnd að þær séu ekki þess eðlis að viðmið sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga eigi við í málinu. Í því sambandi hefur nefndin m.a. litið til þess að heilsufar kæranda sé ekki með þeim hætti að hann teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi eða að aðstæður hans að því leyti séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið. Hvað varðar heilsufar kæranda nánar tiltekið þá gefa gögn málsins til kynna að kærandi hafi glímt við nokkur andleg veikindi og gert tilraun til að taka eigið líf hér á landi. Kærandi hafi jafnframt þegið nokkra þjónustu og meðferð hjá heilbrigðisstofnunum hér á landi vegna þessa. Nefndin telur þó að framlögð gögn gefi ekki til kynna að andlegu heilsufari kæranda sé verulega áfátt og þá sé hann t.d. ekki í meðferð hér á landi sem óforsvaranlegt sé að rjúfa. Til hliðsjónar tekur kærunefnd fram að við meðferð málsins hefur kærandi greint frá því að hann hafi haft aðgang að þjónustu sálfræðings á Bretlandi.

Þá telur kærunefnd að gögn málsins beri ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki. Við meðferð málsins hefur kærandi m.a. greint frá því að hann hafi getað dvalið í búsetuúrræði á vegum breskra stjórnvalda, fengið framfærslu, notið þjónustu sálfræðings, haft aðgang að heilbrigðisþjónustu og ókeypis lögfræðiþjónustu. Þá telur nefndin að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi til kynna að kærandi muni sæta varðhaldsvist við komuna til Bretlands. Jafnframt telur kærunefnd að kærandi geti leitað ásjár þarlendra löggæsluyfirvalda telji hann að öryggi sínu sé ógnað þar í landi, svo sem vegna fordóma eða hatursglæpa.

Tekur nefndin m.a. fram í því samhengi að samkvæmt því sem kærandi greindi frá í viðtali hjá Útlendingastofnun þá bíður hann eftir þriðju ákvörðun í máli sínu um alþjóðlega vernd í Bretlandi. Telur kærunefnd því ekki útséð hvort kæranda muni t.d. vera gerð brottvísunarákvörðun frá Bretlandi, líkt og af er látið í greinargerð. Kærunefnd tekur þó fram til hliðsjónar að gögn málsins gefa til kynna að undir tilteknum aðstæðum geri bresk stjórnvöld þeim útlendingum sem gerð hefur verið brottvísun að sæta varðhaldi. Að mati kærunefndar benda gögn málsins þó jafnframt ekki til annars en að málsmeðferð við ákvörðun um varðhald í Bretlandi tryggi réttindi einstaklinga með fullnægjandi hætti.

Það er jafnframt mat kærunefndar að málsástæður kæranda að öðru leyti verði ekki taldar til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. 

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 16. janúar 2019 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 19. nóvember 2018.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi í greinargerð sinni athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þ. á m. mat Útlendingastofnunar á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda og beitingu 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja honum um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg en áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar að reglugerðina skorti ekki lagastoð. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda.

Frávísun

Kærandi kom hingað til lands þann 19. nóvember 2018 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Bretlands innan tilskilins frests nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa bresk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Bretlands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Ívar Örn Ívarsson                                                                                                           Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta