Hoppa yfir valmynd

A 282/2008 Úrskurður frá 29. júlí 2008

 

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 29. júlí 2008 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-282/2008.

 

Kæruefni

Með bréfi, dags. 3. janúar 2008, kærði [...], synjun heilbrigðisráðuneytisins frá 13. desember 2007 á beiðni hans um fjölda starfslokasamninga sem gerðir hefðu verið hjá ráðuneytinu frá áramótum 1995/1996 og hversu mikið hver þeirra kostaði ráðuneytið.

 

Með erindi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 26. mars 2008, afmarkaði kærandi beiðni sína þannig að óskað væri upplýsinga um það hversu margir starfslokasamningar hefðu verið gerðir á vegum heilbrigðisráðuneytisins á tímabilinu 2004 til 2008 við yfirmenn stofnana og starfsmenn í stjórnunarstöðum, sundurliðað eftir kynjum, og hversu mikið þessir samningar hefðu kostað hver og einn. Í tölvubréfi heilbrigðisráðuneytisins, dags. 23. apríl 2008, sem barst bæði úrskurðarnefnd um upplýsingamál og kæranda, var erindinu synjað.

 

Ber samkvæmt framangreindu að afmarka kæruefni málsins við synjun heilbrigðisráðuneytisins á framangreindri beiðni kæranda um upplýsingar um starfslokasamninga sem gerðir voru á vegum ráðuneytisins á tímabilinu 2004 til 2008.

 

Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins óskaði kærandi, með tölvubréfi til heilbrigðisráðuneytisins, dags. 13. desember 2007, eftir upplýsingum um fjölda starfslokasamninga sem gerðir hefðu verið hjá ráðuneytinu frá áramótum 1995/1996 og hversu mikið hver þeirra kostaði ráðuneytið. Með tölvubréfi sem kæranda barst þann sama dag synjaði ráðuneytið kæranda um aðgang að umbeðnum upplýsingum með vísan til 1. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, þar sem hún varðaði ekki tiltekið mál, eða tiltekin fyrirliggjandi gögn.

 

Með bréfi, dags. 21. janúar 2008, var kæran kynnt heilbrigðisráðuneytinu og því veittur frestur til 29. sama mánaðar til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var þess óskað að ráðuneytið léti nefndinni í té afrit þeirra gagna sem kæran laut að innan sama frests. Ítrekun var send ráðuneytinu 5. febrúar. Svar ráðuneytisins barst úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 12. febrúar. Segir þar m.a. svo:

 

„Ráðuneytið bendir á að upplýsingar um starfslokasamninga á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis er að finna í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi um starfslokasamninga á tímabilinu 1994 til og með 2003 (130. löggjafarþing 2003-2004, þskj. 854 – 299 mál og þskj. 1834 – 589. mál).

 

Vegna tímabilsins 2004 til 2008 telur ráðuneytið ekki ljóst hvort verið er að óska eftir upplýsingum um starfslokasamninga sem snerta undirstofnanir ráðuneytisins en þess ber að geta að ráðuneytið hefur ekki gert starfslokasamninga við starfsmenn ráðuneytisins á þessu tímabili.“

 

Með bréfi, dags. 13. febrúar, var kæranda kynnt svar heilbrigðisráðuneytisins. Kom þar fram að af hálfu úrskurðarnefndarinnar væri ekki tilefni til að hafast frekar að í málinu nema kærandi teldi að ekki hefðu komið fram upplýsingar sem kæra hans lyti að. Með bréfi, dags. 17. mars 2008, var erindi þetta ítrekað og lýst þeirri afstöðu nefndarinnar að gert væri ráð fyrir að kæra málsins væri niður fallin nema kærandi teldi að honum hefði verið synjað um aðgang að einhverjum umbeðnum gögnum. Í því tilfelli var þess óskað að kærandi gerði nefndinni viðvart eigi síðar en 26. mars.

 

Með tölvubréfi frá kæranda, dags. 26. mars 2008, til úrskurðarnefndarinnar óskaði kærandi formlega eftir upplýsingum um starfslokasamninga á vegum heilbrigðisráðuneytisins fyrir tímabilið 2004 til 2008. Segir svo í tölvubréfinu:

 

„Þær upplýsingar eiga að grundvallast á sömu upplýsingum og svar fjármálaráðherra við fyrirspurn [A] um starfslokasamninga sem gefið var á 130. löggjafarþingi.

 

Sú fyrirspurn, með breytingum á ártölum hljóðar svo:

 

  1. Hversu margir starfslokasamningar hafa verið gerðir á ári á tímabilinu 2004 til 2008 við yfirmenn stofnana á vegum hins opinbera og starfsmenn í stjórnunarstöðum hjá hinu opinbera, sundurliðað eftir kynjum?
  2. Hversu mikið kostuðu þessir starfslokasamningar hver og einn?“

 

Tilvitnað erindi kæranda var framsent heilbrigðisráðuneytinu með bréfi, dags. 14. apríl 2008. Í bréfi úrskurðarnefndarinnar til ráðuneytisins segir m.a. svo:

 

„Hér með framsendir úrskurðarnefnd um upplýsingamál yður umrædda kæru þannig að heilbrigðisráðuneytið geti tekið beiðni þá sem þar kemur fram til sjálfstæðrar afgreiðslu. Verði umrædd upplýsingabeiðni kæranda tekin til afgreiðslu óskast afrit af ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins sent úrskurðarnefnd um upplýsingamál um leið og ákvörðunin er kynnt kæranda. Synji ráðuneytið um afgreiðslu þessa erindis er ráðuneytinu með vísan til 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 3. gr. laga nr. 80/2003, hér með veittur frestur til að gera athugasemdir við beiðni þessa og koma að frekari rökstuðningi fyrir synjun til miðvikudagsins 23. apríl nk. Jafnframt er þess óskað að úrskurðarnefndinni verði innan sama frests látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.“

 

Svar heilbrigðisráðuneytisins barst kæranda og úrskurðarnefnd um upplýsingamál með tölvubréfi ráðuneytisins 23. apríl 2008. Kemur þar fram að með vísan til 1. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sé beiðni kæranda sem barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 14. apríl, synjað þar sem hún varði ekki tiltekið mál eða tiltekin fyrirliggjandi gögn.

 

Afstaða ráðuneytisins var formlega kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. maí 2008. Í athugasemdum kæranda, sem bárust úrskurðarnefndinni af því tilefni með erindi hans, dags. 11. júní, kemur fram að hann óski eftir því að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð í málinu. Segir þar m.a. svo: „Ég tel mig ekki geta vísað til  tiltekinna mála né tiltekinna fyrirliggjandi gagna þar sem ég veit ekkert um fjölda né eðli starfslokasamninganna sem beðið var um. Í því felst enda fyrirspurnin.“ 

 

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Kæruheimildin er bundin því skilyrði að ágreiningur sé upp um annað tveggja, skyldu stjórnvalds til að veita aðgang að gögnum eða skyldu þess til að veita aðgang í formi ljósrits af skjölum eða afrits að öðrum gögnum.

 

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, er stjórnvöldum skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. laganna. Segir enn fremur í ákvæðinu að stjórnvöldum sé þó ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr. laganna. Í 10. gr. upplýsingalaga, sbr. 2. gr. laga nr. 161/2006, kemur einnig fram að sá sem fer fram á aðgang að gögnum skuli tilgreina þau gögn máls sem hann óski að kynna sér. Þá geti hann óskað eftir að fá að kynna sér öll gögn um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða. Af framangreindu leiðir að réttur til upplýsinga á grundvelli 3. gr. upplýsingalaga tekur einvörðungu til gagna sem fyrir liggja þegar um þau er beðið en leggur ekki á stjórnvöld skyldu til að útbúa ný gögn sem ekki eru fyrirliggjandi, þegar eftir þeim sé leitað.

 

Kæra máls þessa, eins og hana ber að afmarka með vísan til erindis kæranda til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 26. mars 2008, beinist að synjun heilbrigðisráðuneytisins á að láta kæranda í té upplýsingar um fjölda starfslokasamninga á vegum ráðuneytisins á tímabilinu 2004-2008 við yfirmenn stofnan og starfsmenn í stjórnunarstöðum, sundurliðað eftir kynjum, og hversu mikið þessir samningar hafi kostað hver og einn. Fram kemur í bréfi ráðuneytisins til úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. febrúar 2008, að ráðuneytið hafi ekki gert starfslokasamninga við starfsmenn ráðuneytisins á tímabilinu 2004-2008, en af gögnum málsins að öðru leyti verður ráðið að beiðni kæranda um upplýsingar varði ekki gögn sem séu fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu. Samkvæmt framansögðu liggur ekki fyrir synjun stjórnvalds á að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Þegar af þeirri ástæðu verður að vísa kæru þessari frá nefndinni.

 

Úrskurðarorð

Kæru [...], á hendur heilbrigðisráðuneytinu er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. 

 

 

Friðgeir Björnsson

formaður

 

 

                 Sigurveig Jónsdóttir                                                                          Trausti Fannar Valsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta