Hoppa yfir valmynd

Nr. 508/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 508/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18080013

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 7. ágúst 2018 kærði maður er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. júní 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verðu felld úr gildi og að kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar á ný.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 16. ágúst 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 16. og 23. maí 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 25. júní 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda var birt ákvörðunin þann 25. júlí 2018. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 7. ágúst 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 24. ágúst 2018. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 8. nóvember 2018 ásamt talsmanni sínum og túlki.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til framburðar hans í viðtali hjá Útlendingastofnun en þar hafi hann greint frá því að vera fæddur og uppalinn í höfuðborg [...]. Aðspurður um hvaða atvik í lífi hans hafi gert það að verkum að hann hafi lagt á flótta frá heimaríki hafi kærandi vísað til uppreisnar gegn stjórnvöldum í heimaríki hans þann [...]. Föðurbróðir kæranda hafi verið í lögreglunni á þessum tíma og látist í uppreisninni. Þá hafi faðir kæranda farið í felur þann [...] sama ár þar sem stjórnvöld hafi verið á eftir honum. Ekkert hafi spurst til föður hans síðan þá en ofsóknir í garð kæranda, móður hans og systkina hans hafi hafist eftir þessa atburði. Stjórnvöld í heimaríki hans telji föður hans hafa átt þátt í uppreisninni þar sem þau hafi undir höndum myndband af fundi sem hafi verið haldinn áður en uppreisnin hafi átt sér stað. Lögreglan hafi komið á heimili kæranda og fjölskyldu hans þann 12. febrúar [...] og óskað upplýsinga um föður hans. Þá hafi lögreglan afhent þeim gögn sem hafi vakið grun um að faðir hans hafi tekið þátt í uppreisninni og kallað þau hryðjuverkamenn. Þann 16. mars [...] hafi lögreglan komið öðru sinni og tjáð þeim að faðir kæranda væri ákærður fyrir hryðjuverkastarfsemi og að hann yrði handtekinn. Í greinargerð kemur fram að kærandi viti ekki hvort faðir hans hafi verið hluti af uppreisninni en miðað við gögn sem stjórnvöld hafi lagt fyrir þau megi ætla að svo hafi verið.

Kærandi kveður að lögreglan hafi handtekið bróður hans og móður og fært þau til yfirheyrslu, en kærandi hafi verið hjá móðurbróður sínum þegar þetta hafi átt sér stað. Móður kæranda hafi verið sleppt en bróðir hans sé enn í haldi. Þegar móðir hans hafi verið látin laus hafi hún og bróðir hennar tekið ákvörðun um að koma kæranda úr landi af ótta við að hann yrði einnig handtekinn í þeim tilgangi að setja þrýsting á að faðir hans gæfi sig fram. Móðurbróðir kæranda hafi komið honum í hendur smyglara sem hafi aðstoðað hann, en flóttinn frá heimaríki til Íslands hafi tekið nokkra mánuði.

Kærandi kveður ekkert hafa spurst til bróður síns eftir að hann hafi verið tekinn höndum af yfirvöldum og að honum sé haldið í fangelsi án dóms og laga. Fjölskylda hans hafi hvorki fengið að hitta hann né útvega honum aðstoð lögfræðings. Fjölskyldan hafi fengið myndband í hendur þann 2. janúar 2017 þar sem bróðir kæranda grátbiðji þau að segja hvar faðir kæranda sé niðurkominn. Eftir að kærandi hafi yfirgefið heimaríki sitt hafi yngri systkini kæranda, fædd árin [...] og [...], einnig verið handtekin af stjórnvöldum og yfirheyrð.

Kærandi kveður stjórnvöld hafa brennt húsið þeirra til grunna og tekið íbúð og eignir af þeim þar sem hann sé stimplaður sem hryðjuverkamaður af stjórnvöldum. Þá sé öll fjölskyldan undir smásjá stjórnvalda og að fylgst sé með þeim. Lögregla í heimaríki kæranda hafi tjáð fjölskyldu hans að hann væri meðlimur í samtökum að nafni [...] og að hann hafi verið með samtökunum í Istanbúl í Tyrklandi í september 2017. Kærandi hafi hins vegar verið hér á landi á þeim tíma og að hann hafi þar að auki engin tengsl við samtökin. Í greinargerð kemur fram að kærandi reyni að vera í eins litlum samskiptum við móður sína eins og hann getur enda telji hann að sími móður sinnar sé hleraður af stjórnvöldum í heimaríki hans. Kærandi hafi fengið gögn send frá móður sinni, m.a. myndir af brenndu húsi þeirra og bréf frá slökkviliðinu sem staðfesti brunann, en að móðir hans myndi leggja líf sitt í hættu með því að afla frekari gagna frá lögreglu í heimaríki þeirra. Fram kemur að kærandi óttist ríkisvaldið í heimaríki sínu og að verða settur í fangelsi og drepinn. Þá geti hann ekki leitað verndar yfirvalda eða lögreglu þar sem þeir séu gerendur í þeim ofsóknum sem eigi sér stað á hendur fjölskyldu hans.

Í greinargerð vísar kærandi til þess að synjun Útlendingastofnunar á umsókn kæranda hafi nær alfarið byggst á því að kærandi hafi ekki lagt fram gögn er gætu m.a. stutt frásögn hans um hin pólitísku tengsl föður hans, handtöku bróður hans eða annað sem gæti rennt stoðum undir frásögn hans. Byggir kærandi á því að ákvörðunin sé að þessu leyti í andstöðu m.a. við tilmæli flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og að í ljósi aðstæðna eigi kærandi að njóta vafans hvað varðar sönnun á einstökum hlutum frásagnar sinnar. Telur kærandi að það mat Útlendingastofnunar að honum sé „í lófa lagið“ að afla sönnunargagna um framangreind atriði vera fráleitt. Gögn sem kærandi hafi lagt fram séu ekki þess eðlis að hann þurfi að setja sig í samband við opinbera aðila sem staðið gætu að baki ofsóknum gegn stjórnarandstæðingum. Sé einnig óvíst hvaða gögn það gætu verið sem gætu stutt frásögn kæranda varðandi framangreind atriði og virðist sem Útlendingastofnun gangi út frá því að slík gögn séu til án þess að útskýra nánar hvaða gögn sé um að ræða.

Í greinargerð er fjallað um aldursgreiningu kæranda á vegum Útlendingastofnunar. Kærandi kveðst vera fæddur þann [...] en hann hafi þann 11. október 2017 samþykkt að gangast undir „aldursgreiningu á tönnum“. Hvergi í yfirlýsingunni hafi komið fram að rannsóknin myndi fela í sér nokkuð annað en að teknar yrðu röntgenmyndir af tönnum. Í aldursgreiningunni hafi hins vegar einnig verið teknar röntgenmyndir af úlnliðsbeinum kæranda. Hafi niðurstöður aldursgreiningarinnar verið þær að uppgefinn aldur kæranda gæti ekki staðist. Í skýrslu um aldursgreiningu komi m.a. fram að samkvæmt greiningu handar og úlnliðs sé aldur kæranda a.m.k. 18 ár. Fram kemur að talsmaður kæranda hafi fengið tölvupóst frá Útlendingastofnun þann 13. apríl þess efnis að farið yrði með mál kæranda sem um fullorðinn einstakling væri að ræða.

Kærandi byggir á því að leggja beri til grundvallar að hann sé barn að aldri og að hann sé þar af leiðandi í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem fylgdarlaust barn í leit að alþjóðlegri vernd. Kærandi hafi lagt fram gögn til stuðnings aldri sínum, m.a. fæðingarvottorð, vottorð frá skóla og læknisvottorð. Byggir kærandi einnig á því að aldursgreining byggð á röntgenmyndatökum af tönnum sé ónákvæm og að heildstætt mat þurfi að fara fram á aldri kæranda. Sú afstaða Útlendingastofnunar að telja kæranda eldri en 18 ára virðist byggja á framangreindri aldursgreiningu, en kærandi telur að horfa skuli með öllu framhjá aldursgreiningunni vegna þeirra alvarlegu annmarka sem voru á framkvæmd hennar. Þá vísar kærandi til þess að Útlendingastofnun hafi talið framlögð gögn frá kæranda sanna auðkenni hans en ekki aldur.

Í greinargerðinni er atburðarásin þann [...] rakin. Fram kemur að hópur manna hafi ráðist að opinberri byggingu í landinu og myrt [...] lögreglumenn, en stjórnvöld segi fyrrverandi aðstoðarvarnarmálaráðherra landsins hafa borið ábyrgð á árásinni. Er einnig fjallað um stöðu mannréttindamála í heimaríki kæranda, en alþjóðlegar skýrslur beri með sér að meðlimir og fjölskyldumeðlimir þeirra sem hafi tengsl við [...] eða aðra hópa sem hafi gagnrýnt stjórnvöld hafi sætt geðþóttavarðhaldi og fangelsisvist af hálfu stjórnvalda. Með dómi Hæstaréttar í [...] hafi samtökin verið skilgreind sem hryðjuverkasamtök. Heimildir beri einnig með sér að stjórnvöld í heimaríki kæranda handtaki, fangelsi og pyndi einstaklinga sem gagnrýni stjórnvöld og að stjórnvöld ofsæki meinta gagnrýnendur sem hafi búsetu í öðrum löndum og leiti eftir því að þeir verði settir í varðhald og framseldir þangað. Þeir einstaklingar sem hafi náð að flýja land segi að stjórnvöld í landinu beiti hefndaraðgerðum í garð fjölskyldumeðlima þeirra sem enn séu í landinu m.a. með hótunum, varðhaldi og jafnvel ofbeldi. Allar heimildir um landið varpi ljósi á grafalvarleg mannréttindabrot stjórnvalda, einkum í garð stjórnarandstæðinga og fjölskyldumeðlima þeirra og að þær renni stoðum undir frásögn kæranda af ástæðu flótta hans og stöðu fjölskyldu hans í kjölfar fyrrnefndra atburða í [...].

Kærandi byggir aðalkröfu sína um vernd samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á því að stjórnvöld hafi ofsótt fjölskyldumeðlimi hans allt frá hvarfi föður hans. Ofsóknir stjórnvalda í garð kæranda og fjölskyldu hans komi heim og saman við þær heimildir sem raktar hafi verið. Telur kærandi, með vísan til framangreinds, að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga um ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana. Í handbók flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna komi fram að ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana feli m.a. í sér að yfirvöld ætli umsækjanda skoðanir sem séu stjórnvöldum ekki þóknanlegar. Við mat á því hvort kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir beri að nefna að kærandi hafi gefið greinargóða og nákvæma lýsingu á ástæðum flótta síns og lagt fram gögn máli sínu til stuðnings. Fjölskylda hans sé undir smásjá yfirvalda og sæti bróðir hans illri meðferð í varðhaldi stjórnvalda, en kærandi óttist að verða settur í fangelsi og drepinn.

Til stuðnings varakröfu um vernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga byggir kærandi á því að raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimaríkis. Jafnframt sé augljóst að kærandi geti ekki leitað verndar hjá yfirvöldum enda sé hann að flýja ofsóknir þeirra. Þrautavarakrafa kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða er einkum reist á því að í heimaríki kæranda eigi sér stað viðvarandi mannréttindabrot af hálfu stjórnvalda og að kærandi muni búa við afar slæmar félagslegar aðstæður. Að því virtu og með hliðsjón af því að kærandi sé barn að aldri sé það honum fyrir bestu að verða ekki sendur aftur til heimaríkis. Þrautaþrautavarakrafa kæranda er byggð á því að hin kærða ákvörðun hafi verið haldin svo alvarlegum annmörkum að hana beri að fella úr gildi og vísa til meðferðar hjá Útlendingastofnun á ný. Í þessu sambandi vísar kærandi til framangreindra annmarka á aldursgreiningu og sönnunarmati Útlendingastofnunar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi lagt fram fæðingarvottorð með handskrifuðum upplýsingum um kæranda ásamt handskrifuðum gögnum frá skóla. Taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði leitt líkur að því hver kærandi er, að aldri hans undanskildum. Var það mat Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki sannað hver hann væri með fullnægjandi hætti. Leysti stofnunin því úr auðkenni kæranda á grundvelli mats á trúverðugleika frásagnar hans með þeirri niðurstöðu að kærandi væri frá [...]og að hann væri sá sem hann kveðst vera. Að framangreindu virtu og framburði kæranda í viðtali hjá kærunefnd útlendingamála verður lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari [...].

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...]m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...]

[...]

Í ofangreindum gögnum kemur fram að [...]. Ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann [...] og alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þann [...]. Í ríkinu sé forsetalýðræði og sé forseti landsins í senn þjóðhöfðingi og æðsti handhafi framkvæmdavalds í landinu. Stjórnarskrá landsins geri ráð fyrir því að margir stjórnmálaflokkar séu starfræktir í landinu en ríkisstjórn landsins hafi í gegnum tíðina hins vegar hindrað fjölbreytileika stjórnmálaflokka og virka stjórnarandstöðu. Í [...] hafi forseti landsins lýst sig sem „leiðtoga þjóðarinnar“ og styrkti stöðu sína eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í landinu um breytingar á stjórnarskrá sem hafi falið í sér m.a. að tímamörk á kjörtímabili forsetans hafi verið afnumin og að hann njóti ævilangrar friðhelgi.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins, [...], kemur fram að árið 1999 hafi lög verið sett um baráttu við hryðjuverk og að ríkisstjórn landsins hafi notað þá löggjöf til að bæla niður stjórnarandstöðu. Í skýrslunni er rakið að ríkisstjórn landsins haldi lista yfir þá borgara sem séu skilgreindir sem hryðjuverkamenn. Eftir þingkosningar í landinu árið [...], þar sem flokkur forsetans hafi hlotið afgerandi meirihluti þingsæta, hafi stjórnarandstöðuflokkurinn [...] verið bannaður og skilgreindur sem hryðjuverkasamtök af hæstarétti landsins.

Í skýrslu Human Rights Watch frá september 2016, [...], segir að síðustu tvö ár fyrir útgáfu skýrslunnar hafi stjórnvöld í [...] handtekið, fangelsað og pyntað einstaklinga sem séu meðlimir í eða tengdir stjórnarandstöðuflokkum. Stjórnvöld hafi einnig látið handtaka lögmenn, blaðamenn og aðra sem hafi gagnrýnt stjórnvöld á samfélagsmiðlum. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins, [...], kemur fram að stjórnvöld hafi látið handtaka og ákæra tiltekna stjórnarandstæðinga. Samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum séu [...] einstaklingar í fangelsum landsins vegna aðildar að stjórnmálaflokkum eða hreyfingum sem séu á bannlista. Í skýrslunni er greint frá því að í [...] hafi maður verið dæmdur til sjö ára fangelsisvistar vegna þátttöku í fundi á vegum samtaka sem beri heitið [...]. Upplýsingar um hópinn gefa til kynna að hópurinn sé stjórnarandstöðuhreyfing og að stjórnvöld hafi bannað starfsemi hans árið 2014 eftir að hafa skilgreint hann sem öfgahóp. Eftir það hafi starfsemi hópsins aðallega farið fram í öðrum ríkjum. Þá kemur fram í síðastnefndri skýrslu að yfirvöld hafi hindrað aðgang einstaklinga sem hafi verið ákærðir af stjórnmálalegum ástæðum að lögmannsaðstoð.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að meðal helstu mannréttindabrota í landinu séu pyndingar og misþyrmingar öryggissveita á einstaklingum í varðhaldi, geðþóttahandtökur og varðhald, þ. á m. á fjölskyldumeðlimum, slæmur aðbúnaður í fangelsum, takmarkanir á stjórnmálaþátttöku og fangelsun á pólitískum aðgerðasinnum. Heimildir beri með sér að mörg dæmi séu þess að yfirvöld beri rangar sakir á einstaklinga eða blási upp smávægileg atvik í því skyni að framkvæma handtökur vegna stjórnmálaskoðana. Er greint frá því að fjölskyldumeðlimir aðgerðarsinna sem séu í útlegð hafi verið refsað fyrir meint brot framin af ættingjum sínum í þeim tilgangi að fá aðgerðasinnana til að láta af starfsemi sinni erlendis. Fram kemur að einstaklingar í varðhaldi sem séu grunaðir um brot sem varði þjóðaröryggi eða tengsl við öfgahópa hafi verið haldið í lengri tíma án þess að vera formlega ákærðir.

Í skýrslu Freedom House um aðstæður í [...] kemur fram að stjórnvöld hafi strangt eftirlit með trúarlegum athöfnum og takmarki trúarlegt tjáningarfrelsi í skjóli baráttunnar gegn íslömskum öfgahópum. Þá segir að dómskerfið í landinu sé undir miklum áhrifum frá ráðandi stjórnvöldum og að réttarhöld yfir pólitískum andstæðingum fari fram fyrir luktum dyrum. Fram kemur að „öfgafullar skoðanir“ séu skilgreindar lauslega í lögum um það efni sem og hegningarlögum, sem opni á að hver sem sé álitinn andstæðingur stjórnvalda geti talist hafa slíkar skoðanir. Kemur einnig fram í skýrslunni að spilling sé mikil á öllum sviðum samfélagsins.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem kærunefnd hefur kynnt sér réðst hópur manna, að undirlagi fyrrverandi aðstoðarvarnarmálaráðherra landsins, [...], að opinberri byggingu í [...] þann [...] með þeim afleiðingum að níu lögreglumenn létust. Benda heimildir til þess að [...] og 10-15 fylgismenn hans hafi lagt á flótta en síðar látið lífið í átökum við öryggissveitir þann [...] sama ár. Þá hafi nokkrir tugir verið handteknir í kjölfar árásarinnar vegna gruns um aðild að henni.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Krafa kæranda um alþjóðlega vernd er byggð á því að hann og fjölskylda hans hafi verið ofsótt í kjölfar framangreinda atburða í heimaríki hans í [...] þegar fjöldi manna, að undirlagi fyrrverandi aðstoðarvarnarmálaráðherra landsins, réðst að opinberri byggingu með þeim afleiðingum að níu lögreglumenn létu lífið. Faðir kæranda hafi horfið tveimur dögum eftir árásina og að ekkert hafi spurst til hans síðan. Lögregla hafi síðar komið tvívegis á heimili kæranda í leit að föður hans, annars vegar í febrúar [...] og hins vegar í mars sama ár. Lögreglan hafi handtekið móður kæranda og eldri bróður hans. Móður kæranda hafi verið sleppt úr haldi en bróðir hans sitji enn í fangelsi án þess að dómsmál hafi verið höfðað gegn honum og án þess að hann hafi fengið að hitta lögmann. Eftir að kærandi hafi lagt á flótta frá heimaríki hafi móðir hans og yngri systkini verið handtekin og færð til yfirheyrslu. Byggir kærandi á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu stjórnvalda í heimaríki vegna ætlaðra stjórnmálaskoðana og að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála þann 8. nóvember 2018. Í viðtalinu greindi kærandi frá því að föðurbróðir hans hefði tekið þátt í fyrrnefndri árás og hefði látið lífið í átökum við yfirvöld þann [...]. Aðspurður um ástæður þess að yfirvöld í heimaríki hans teldu föður hans hafa átt þátt í að skipuleggja árásina kvað kærandi að yfirvöld hefðu í sínum fórum myndband af fundi þar sem faðir kæranda hafi verið viðstaddur. Í viðtalinu kvaðst kærandi ekki vita hvað hafi farið fram á fundinum eða af hverju faðir hans hafi verið viðstaddur. Föðurbróðir kæranda hafi jafnframt verið viðstaddur fundinn, sem hafi átt sér stað skömmu fyrir árásina.Í kjölfar árásarinnar hafi faðir kæranda horfið en eftir það hafi stjórnvöld haft eftirlit með fjölskyldu kæranda. Greindi kærandi frá því að í febrúar [...] hafi lögreglan komið á heimili kæranda og fjölskyldu hans og óskað eftir upplýsingum um hvar faðir hans væri niður kominn. Móðir kæranda og bróðir hafi verið handtekin, en eftir að móður hans hafi verið sleppt úr haldi hafi hún ákveðið að koma kæranda úr landi. Kvað kærandi bróður sinn enn vera í haldi í þeim tilgangi að knýja föður hans til að koma úr felum. Eftir að kærandi hafi yfirgefið heimaríki hafi lögregla komið aftur á heimili fjölskyldu hans í mars [...] og lagt fram gögn um að faðir kæranda væri álitinn hryðjuverkamaður. Þá hafi móðir hans verið færð í varðhald öðru sinni eftir að kærandi hafi yfirgefið landið. Í máli kæranda kom einnig fram að yfirvöld telji hann vera meðlim í samtökunum [...]. Kvað kærandi stjórnvöld í heimaríki hans líta á fjölskylduna sem hryðjuverkamenn og að þau teldu bróður hans einnig vera meðlim í [...].

Framangreind gögn um aðstæður í heimaríki kæranda bera með sér að stjórnvöld nýti löggjöf um baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi til að bæla niður stjórnarandstöðu í landinu. Stjórnarandstöðuflokkar og aðrir hópar sem séu andvígir stjórnvöldum hafi verið skilgreindir sem hryðjuverkasamtök af dómstólum landsins, sem séu undir miklum áhrifum frá stjórnvöldum. Gefa gögnin til kynna að réttarhöld yfir meintum andstæðingum stjórnvalda fari fram fyrir luktum dyrum og að stjórnvöld hafi hindrað aðgang þeirra að lögmannsaðstoð. Bera gögnin með sér að talsverður fjöldi einstaklinga sæti fangelsi vegna aðildar að hreyfingum í stjórnarandstöðu og að þeir hafi mátt þola pyndingar, auk þess sem fjölskyldumeðlimir þeirra sem séu grunaðir um aðild að stjórnarandstöðuhreyfingum hafi verið handteknir og sætt varðhaldi.

Framburður kæranda í viðtali hjá kærunefnd var í öllum meginatriðum í samræmi við frásögn hans í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Fær nákvæmur framburður kæranda um framangreinda árás í heimaríki hans þann [...] og atburði í kjölfar hennar enn fremur stoð í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér. Með vísan til þeirra gagna sem rakin hafa verið um aðstæður í heimaríki kæranda og aðgerðir stjórnvalda gegn einstaklingum sem álitnir eru stjórnarandstæðingar telur kærunefnd frásögn kæranda af afskiptum lögreglu af fjölskyldu hans og varðhaldi bróður hans vera trúverðuga. Þótt kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem styðja beint við frásögn hans af ofsóknum stjórnvalda í garð hans og fjölskyldu hans verður trúverðugur framburður kæranda lagður til grundvallar við úrlausn málsins.

Í umfjöllun í handbók flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna um stjórnmálaskoðanir í skilningi alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 1951 kemur fram að gert sé ráð fyrir því að stjórnvöldum sé kunnugt um skoðanir sem feli í sér gagnrýni á stefnu eða aðferðir stjórnvalda, sem séu stjórnvöldum ekki þóknanlegar, eða að stjórnvöld ætli að umsækjandi hafi slíkar skoðanir. Við mat á því hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir á grundvelli stjórnmálaskoðana í skilningi samningsins er þannig ekki skilyrði að viðkomandi hafi skoðanir sem feli í sér gagnrýni á stjórnvöld, heldur aðeins að stjórnvöld ætli að umsækjandi hafi slíkar skoðanir. Samkvæmt e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga vísa stjórnmálaskoðanir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laganna einkum til skoðana á stefnumótun og aðferðum stjórnvalda sem kunna að beita ofsóknum án tillits til þess hvort viðkomandi hefur aðhafst eitthvað til að tjá skoðanir sínar. Með vísan til þess sem fram kemur í umfjöllun í handbók flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna verður þó lagt til grundvallar að ætlaðar stjórnamálaskoðanir geti einnig fallið undir e-lið 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd greindi kærandi frá því að lögregla í heimaríki hans hafi komið á heimili kæranda og fjölskyldu hans og handtekið móður hans, eldri bróður og yngri systkini í kjölfar fyrrnefndrar árásar. Lögregla hafi einnig sagt fjölskylduna vera hryðjuverkamenn og að kærandi hafi tengsl við [...]. Með hliðsjón af framburði kæranda í málinu verður byggt á því að stjórnvöld í heimaríki kæranda ætli honum skoðanir sem feli í sér gagnrýni á eða andstöðu við stjórnvöld.

Að virtum framburði kæranda um aðgerðir lögreglu gegn fjölskyldu hans, þeirra gagna og heimilda sem styðja við frásögn kæranda af aðgerðum stjórnvalda í heimaríki hans gegn einstaklingum sem teljast andstæðingar stjórnvalda og fjölskyldum þeirra, auk ætlaðra stjórnmálaskoðana kæranda, er það mat kærunefndar að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu stjórnvalda vegna stjórnmálaskoðana, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar sem ótti kæranda við ofsóknir stafar frá stjórnvöldum er það mat kærunefndar að kærandi geti ekki flutt sig um set innanlands og fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta í heimaríki, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því ljóst að að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi og að hann hafi því rétt til alþjóðlegrar verndar hér á landi, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga.

Kærandi hefur við meðferð máls síns hjá íslenskum stjórnvöldum haldið því fram að sé yngri en 18 ára og hefur því til stuðnings lagt fram gögn sem gefa til kynna aldur hans. Eins og fram hefur komið gaf sú líkamsrannsókn á aldri sem liggur fyrir í málinu til kynna að hann væri 18 ára eða eldri. Í ljósi niðurstöðu þessa máls er ekki ástæða til að taka afstöðu til aldurs kæranda.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita kæranda alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðsamnings um stöðu flóttamanna.

Í ljósi þess að kærunefnd útlendingamála hefur fallist á aðalkröfu kæranda verða varakrafa, þrautavarakrafa og þrautaþrautavarakrafa kæranda ekki teknar til umfjöllunar í máli þessu.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue him residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Anna Tryggvadóttir                                            Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta