Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/2009

Mál nr. 4/2009:

Álit kærunefndar jafnréttismála

 

A

gegn

Icelandair ehf.

 

Lausn frá starfsskyldum. Uppsögn. Kynbundin og kynferðisleg áreitni. Lagaskil. Kærufrestur. Frávísun.

 

Kærandi starfaði hjá Icelandair ehf. sem flugþjónn frá apríl 2001. Hann var leystur frá starfsskyldum 5. mars 2008 og tilkynnt um uppsögn með bréfi dagsettu 28. mars 2008. Ástæður uppsagnar munu hafa verið ræddar á fundi kæranda og Icelandair ehf. hinn 17. mars 2008. Af hálfu kæranda er til þess vísað að uppsögnin hafi farið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, en hann telur sig hafa orðið fyrir beinni mismunun á grundvelli kynferðis, þ.e. fengið óhagstæðari meðferð en einstaklingar af gagnstæðu kyni við sambærilegar aðstæður. Þá hafi kærandi orðið fyrir ítrekaðri kynbundinni og kynferðislegri áreitni í starfi. Af hálfu Icelandair ehf. er því hafnað að uppsögnin hafi farið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Uppsögnin hafi upphaflega eingöngu verið rakin til mats á frammistöðu og erfiðra samskipta við kæranda. Þá vísar Icelandair ehf. því á bug að kærandi hafi orðið fyrir kynbundnu og kynferðislegu áreiti. Jafnframt telur Icelandair ehf. að kærufrestur hafi verið liðinn er kæra barst nefndinni þar sem meira en ár var liðið frá því að kæranda var sagt upp og hann leystur frá starfsskyldum.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 26. ágúst 2009 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru dagsettri 27. mars 2009 óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Icelandair ehf. hefði brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með uppsögn hans úr starfi hjá fyrirtækinu með bréfi dagsettu 28. mars 2008.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Icelandair ehf. með bréfi dagsettu 21. apríl 2009. Umsögn Samtaka atvinnulífsins, f.h. Icelandair ehf., barst með bréfi dagsettu 5. maí 2009 og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri með bréfi dagsettu 6. maí 2009.

Með vísan til þess að kærandi hafði óskað eftir að fá að sækja sjálfur þau gögn sem Icelandair ehf. sendi til kærunefndar hafði starfsmaður kærunefndar símasamband við kæranda 13. maí, 22. maí og 25. maí 2009 til að minna á greinargerð Samtaka atvinnulífsins, f.h. Icelandair ehf. Síðastnefnda daginn bað kærandi um að fyrrnefnd umsögn yrði send með símbréfi til Jafnréttisstofu. Hinn 27. maí 2009 óskaði Jafnréttisstofa eftir fresti til að gera athugasemdir til 5. júní 2009. Hinn 8. júní 2009 var haft samband á ný frá Jafnréttisstofu til að fá enn viðbótarfrest til 15. júní 2009. Voru Samtök atvinnulífsins upplýst um frestinn með bréfi dagsettu 8. júní 2009.

Hinn 11. júní 2009 bárust athugasemdir kæranda, dagsettar 9. júní 2009, og voru sendar Samtökum atvinnulífsins með bréfi nefndarinnar, dagsettu 11. júní 2009.

Með tölvupósti Samtaka atvinnulífsins, f.h. Icelandair ehf., dagsettum 26. júní 2009, voru fyrri kröfur ítrekaðar. Afrit af tölvupósti Samtaka atvinnulífsins var sent kæranda með bréfi til kynningar, dagsettu 26. júní 2009.

Engin frekari gögn eða athugasemdir bárust nefndinni.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Sjónarmið kæranda

Kærandi telur að Icelandair ehf. hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, er honum var sagt upp störfum hjá fyrirtækinu. Kærandi telur sig þannig hafa orðið fyrir beinni mismunun á grundvelli kynferðis, þ.e. fengið óhagstæðari meðferð en aðrir einstaklingar af gagnstæðu kyni við sambærilegar aðstæður.

Greint er meðal annars frá því í rökstuðningi með kæru til nefndarinnar að þann 28. mars 2008 hafi kæranda verið sent uppsagnarbréf frá Icelandair ehf., en hann hafi starfað hjá félaginu frá árinu 2001. Skömmu áður hafði kærandi verið boðaður með sólarhrings fyrirvara á fund með yfirmanni sínum og tilkynnt um tafarlausa uppsögn og lausn frá starfsskyldum hjá Icelandair ehf.

Kærandi telur að sér hafi verið sagt upp vegna þess að hann var karlmaður í kvennastarfi og að honum hafi því verið mismunað vegna kyns sem sé brot á 26. gr. laga nr. 10/2008. Einnig hafi kærandi orðið fyrir ítrekaðri kynbundinni og kynferðislegri áreitni í starfi, meðal annars af hálfu yfirmanna, sem Icelandair ehf. hafi látið óátalið, en það sé brot á 22. gr. sömu laga.

Kærandi rekur í kærunni störf sín frá því hann hóf fyrst störf sem flugþjónn hjá Icelandair ehf. í apríl 2001. Jafnframt rekur kærandi ítarlega samskipti sín við yfirmann sinn vegna fastráðninga, frammistöðu í starfi o.fl. sem og hvernig staðið hafi verið að uppsögnum hjá fyrirtækinu.

Þar kemur fram að hinn 5. mars 2008 hafi yfirmaður kæranda boðað hann á sinn fund. Þar hafi yfirmaðurinn gert kæranda grein fyrir því að hann væri leystur frá störfum fyrirvaralaust og gert að segja upp störfum eða sæta uppsögn.

Yfirmaður kæranda hafi engar ástæður borið fram fyrir þessari fyrirvaralausu uppsögn aðrar en þær að kærandi „hefði ekkert breyst“ og vísað þar í meira en fjögurra ára gamlar ásakanir samstarfskvenna, þótt það væri í hróplegu ósamræmi við hrósbréf og stöðuhækkun sem honum hafi hlotist í millitíðinni, sbr. meðal annars bréf dagsett 10. mars 2005, 7. maí 2005 og 25. september 2006. Breytti það engu þótt kærandi hafi bent yfirmanninum á einelti sem hann hefði orðið fyrir og áreitni, meðal annars af hálfu fyrrum yfirmanns.

Eftir fundinn hafi kærandi snúið sér til Flugfreyjufélags Íslands sem hafi útvegað honum lögmann sér til aðstoðar í þessu máli. Yfirmaður kæranda hafi ekki látið ná í sig fyrir lok mars 2008 og hafi kærandi fengið formlegt uppsagnarbréf í pósti dagsett 28. mars 2008.

Þá sendi kærandi félaginu bréf í lok júní 2008 þar sem hann hafi farið fram á að honum yrði bættur mismunur á launum þar sem hann hafi ekki fengið að vinna uppsagnarfrestinn og rýmri frímiðaréttindi eftir starflok sökum ómálefnalegrar uppsagnar. Einnig hafi kærandi farið fram á það að fá afhent þau gögn sem yfirmaður hans hafi haft undir höndum um mál kæranda sem og reynt að ná samningum við fyrirtækið, sbr. bréf dagsett 26. júlí 2008. Svarið hafi verið einhliða neitun, sbr. bréf dagsett 6. ágúst 2008. Kærandi hafi reynt að leita aðstoðar stéttarfélags sem hafi talið sig lítið geta gert fyrir hann.

Bendir kærandi á að skv. 24. gr. laga nr. 10/2008 sé hvers kyns mismun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, óheimil. Jafnframt segi í 18. gr. laganna að atvinnurekendur skuli „vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna“ á vinnumarkaði og að atvinnurekendur skuli „sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns“ og „stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf“.

Þarna telur kærandi að Icelandair ehf. hafi algerlega brugðist og því brotið lög með fyrirvaralausri uppsögn hans og brottvikningu úr starfi án málefnalegra ástæðna.

Kærandi óskar eftir því að kæran sé tekin til umfjöllunar þótt tæpt ár sé liðið frá uppsögninni. Í 6. gr. laga nr. 10/2008 segi að erindi skuli berast nefndinni skriflega innan sex mánaða frá því að ætlað brot á lögunum lá fyrir. Jafnframt segi að kærunefndin geti þegar sérstaklega stendur á ákveðið að taka erindi til umfjöllunar þótt framangreindur frestur sé liðinn, þó aldrei ef liðið er meira en eitt ár. Uppsagnarbréfið til kæranda hafi verið dagsett 28. mars 2008, en fram að þeim tíma hafi kærandi vonast eftir því að hætt yrði við uppsögnina sem honum hafi verið tilkynnt munnlega 5. mars 2008 og hafi kærandi verið að vinna með lögfræðingi stéttarfélagsins að því.

Hins vegar hafi kærandi ekki fyrr en nýlega vitað að unnt væri að kæra uppsögnina til kærunefndar jafnréttismála á grundvelli jafnréttislaga. Kærandi hafi þá leitað til Jafnréttisstofu og verið tjáð að þótt sex mánaða kærufrestur væri útrunninn gæti hann óskað eftir undanþágu á grundvelli sérstakra aðstæðna.

Kærandi telur það mjög mikilvægt fyrir alla þá sem gegna og hafa gegnt starfi flugþjóna að þetta mál verði tekið fyrir og einnig telur kærandi það mikilvægt að í þeirri hrinu uppsagna sem nú gangi yfir samfélagið að það sé skýrt hvað atvinnurekendum leyfist og leyfist ekki að gera varðandi uppsagnir á grundvelli kyns, sérstaklega þegar um sé að ræða einstaklinga eins og kæranda sem sé í miklum minnihluta í sinni starfsgrein, í hefðbundnu kvenna- eða karlastarfi.

 

III.

Sjónarmið Icelandair ehf.

Icelandair ehf. bendir meðal annars á í athugasemdum sínum til kærunefndar jafnréttismála að kærandi hafi starfað sem flugþjónn hjá Icelandair ehf. þar til hann hafi verið leystur frá störfum samhliða því að honum hafi verið tilkynnt um uppsögn úr starfi þann 5. mars 2008. Í kærunni hafi einnig komið fram að kærandi hafi þá þegar snúið sér til Flugfreyjufélags Íslands sem hafi útvegað honum lögmann til aðstoðar í málinu. Þá hafi hann sjálfur óskað eftir fundi hjá þáverandi starfsmannastjóra Icelandair ehf., sem fram fór þann 17. mars 2008. Á þeim fundi hafi verið farið yfir starfslok hans og ástæðu uppsagnarinnar. Uppsögn kæranda hafi síðan verið staðfest skriflega með bréfi dagsettu 28. mars 2008. Í því sambandi bendir Icelandair ehf. á að staðfest sé með dómi Félagsdóms í máli nr. 20/2001, Flugfreyjufélag Íslands gegn Samtökum atvinnulífsins f.h. Flugleiða hf., að munnleg uppsögn sé fullgild.

Eins og fram komi hér að framan hafi kæranda verið sagt upp störfum 5. mars 2008 og ítrekað við hann þann 17. mars 2008 að uppsögnin stæði. Erindi kæranda sem dagsett sé 27. mars 2009 komi fram rúmu hálfu ári eftir að almennur kærufrestur skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008 hafi verið liðinn. Þá hafi tólf mánaða kærufrestur sömu greinar sem einungis verði beitt þegar sérstaklega stendur á einnig verið liðinn. Engar þær aðstæður sem réttlætt gætu þann frest séu heldur fyrir hendi í málinu. Kærandi hafi auk þess notið lögfræðiaðstoðar eftir uppsögnina.

Icelandair ehf. bendir í athugasemdum sínum á að viðurkennt sé af hálfu kæranda að honum hafi verið sagt upp störfum fyrri hluta marsmánaðar 2008, sbr. kæru til kærunefndarinnar, en í niðurlagi kærunnar komi fram að bréf félagsins frá 28. mars 2008 sé tilgreint sem „Staðfesting á uppsögn“. Þá liggi fyrir að kæranda hafi verið sagt upp og hann leystur frá störfum þann 5. mars 2008 og að farið hafi verið yfir starfslok hans og ástæður uppsagnar hans þann 17. mars 2008. Kærufrestir hafi því verið liðnir er erindið barst nefndinni þann 27. mars 2009 og geti nefndin af þeim sökum ekki tekið málið til meðferðar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008.

Um aðdraganda uppsagnar kæranda vísar Icelandair ehf. til greinargerðar starfsmanns félagsins sem fylgdi umsögn Samtaka atvinnulífsins til nefndarinnar 5. maí 2009. Eins og þar komi fram hafi ástæða uppsagnar kæranda verið slök frammistaða og erfið samskipti í störfum. Að mati félagsins hafi samskipti kæranda við samstarfsfólk versnað stöðugt árin 2007 og 2008 og stjórnendum borist ítrekaðar kvartanir frá samstarfsfólki og viðskiptavinum.

Það sé alrangt að kæranda hafi verið sagt upp vegna þess að hann „var karlmaður í kvennastarfi“. Sú ásökun eigi ekki við nein rök að styðjast. Félagið hafi gjarnan viljað hafa fleiri flugþjóna í starfi.

Kærandi hafi hvorki áður nefnt eða kvartað yfir kynbundinni og kynferðislegri áreitni né hafi kærandi gert líklegt að svo hafi verið. Félagið taki ákveðið á málum berist fregnir af því að starfsmenn sæti slíkri áreitni. Ásökunum kæranda á hendur félaginu og stjórnendum þess hvað það varði sé því harðlega mótmælt af hálfu Icelandair ehf.

Með vísan til framangreinds er því alfarið hafnað að Icelandair ehf. hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

IV.

Niðurstaða

Í kæru sinni til nefndarinnar fer kærandi þess á leit við nefndina að hún fjalli um og taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, þegar kærandi var leystur frá störfum sínum hjá Icelandair ehf., þ.e. hinn 5. mars 2008, og síðan sagt upp störfum þann 28. mars 2008. Kærandi telur sig hafa orðið fyrir beinni mismunun á grundvelli kynferðis, þ.e. hlotið óhagstæðari meðferð við ákvörðun um uppsögn en einstaklingar af gagnstæðu kyni. Í því sambandi bendir kærandi einnig á að færri karlar hafi starfað sem flugþjónar hjá Icelandair ehf.

Af hálfu kæranda er nánar tiltekið litið svo á að brotið hafi verið gegn 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008 sem leggi víðtækar skyldur á vinnuveitendur og stéttarfélög að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði, auk þess sem brotið hafi verið gegn 1. mgr. 24. gr. laganna sem banni mismunun vegna kynferðis við uppsagnir. Vegna þess að færri karlar en konur starfi sem flugþjónar hjá Icelandair ehf. hafi sérstök ástæða verið til þess að mati kæranda að gæta þess að segja honum ekki upp. Jafnframt telur kærandi að Icelandair ehf. hafi brotið gegn 22. gr. laganna þar sem félagið hafi látið viðgangast kynbundna og kynferðislega áreitni gagnvart sér.

Hinn 5. mars 2008 var kærandi boðaður á fund yfirmanns síns og honum tilkynnt um tafarlausa uppsögn og lausn frá starfsskyldum hjá Icelandair ehf., svo sem rakið er í kæru til nefndarinnar. Þá greinir kærandi frá því að eftir fundinn hafi hann snúið sér til Flugfreyjufélags Íslands sem hafi útvegað honum lögmann sér til aðstoðar. Hinn 17. mars 2008 hafi kærandi gengið á fund Icelandair ehf. þar sem farið var yfir starfslok kæranda og ástæður uppsagnarinnar.

Í bréfi Icelandair ehf. til kæranda, dagsettu 28. mars 2008, kemur fram að með vísan til bréfs, sem dagsett er 14. september 2004, og með vísan til samtals yfirmanna hans og starfsmannastjóra komist félagið ekki hjá því að segja honum upp starfi með þriggja mánaða samningsbundnum fyrirvara. Í lok bréfsins kemur fram að kærandi hafi verið leystur frá öllum starfsskyldum Icelandair ehf. frá og með 5. mars 2008.

Í bréfi Icelandair ehf., dagsettu 6. ágúst 2008, bendir yfirflugfreyja félagsins meðal annars á að á fundinum 17. mars 2008 hafi verið farið yfir starfslok kæranda og hver ástæða uppsagnar hans væri. Á fundinum hafi kæranda verið gefinn kostur á að segja starfinu lausu eða vera sagt upp störfum.

Hinn 18. mars 2008 tóku gildi ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Af hálfu nefndarinnar er litið svo á að nefndin skuli miða álit sitt við lög sem í gildi voru þegar atvik þau urðu sem eru tilefni kæru til nefndarinnar. Líta verður svo á að á fundi kæranda og Icelandair ehf. hinn 5. mars 2008 hafi kæranda verið gerð grein fyrir ákvörðun Icelandair ehf. um starfslok kæranda og slit ráðningarsamningsins, sbr. og fund málsaðila hinn 17. mars 2008. Þegar við þessa ákvörðun bar Icelandair ehf. að gæta að ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í þessu samhengi er ekki talið skipta máli að formlegt uppsagnarbréf til kæranda, sem líta ber á sem staðfestingu á fyrri samskiptum aðila, eins og hér stendur á, sé dagsett síðar eða hinn 28. mars 2008. Þá er ljóst að ásakanir um meinta kynbundna og kynferðislega áreitni tóku til tímabils á meðan kærandi gegndi starfi hjá Icelandair ehf. Meint brot á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í máli þessu féllu því undir eldri lög, nr. 96/2000.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 96/2000 er kærufrestur eitt ár frá því að ætlað brot á lögunum lá fyrir eða frá því að sá er málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot. Með vísan til þess að kæra þessi barst ekki kærunefnd jafnréttismála fyrr en 27. mars 2009 telst hún hafa borist eftir að kærufresti lauk og ber því að vísa máli þessu frá nefndinni. Telur kærunefnd að ekki séu lagaskilyrði til að víkja frá nefndum kærufresti, sbr. til hliðsjónar 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Það athugast að kærufrestur samkvæmt nýjum lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, er að jafnaði sex mánuðir. Jafnvel þótt að talið yrði að meint brot máls þessa ættu undir lög nr. 10/2008 teldist kærufrestur laganna liðinn. Kærunefnd væri þó heimilt ef sérstaklega stæði á að lengja þann frest í allt að eitt ár. Í því sambandi er hins vegar bent á að ekki verður séð að sérstakar ástæður búi að baki þeim drætti sem varð á kæru til nefndarinnar vegna ágreiningsmáls þessa. Engin samskipti virðast þannig hafa verið milli málsaðila frá ágústmánuði 2008, þ.e. eftir að kæranda barst bréf Icelandair ehf., dagsett 6. ágúst 2008. Þá liggur og fyrir að kærandi leitaði aðstoðar stéttarfélags og naut að einhverju leyti lögfræðiráðgjafar.

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Andri Árnason

Ingibjörg Rafnar

Þórey S. Þórðardóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta