Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/2003

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 4/2003

 

A

gegn

Flugleiðum hf. og Icelandair ehf.

 

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 21. nóvember 2003 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með kæru, dags. 31. mars 2003, óskaði kærandi, A, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort tilteknar auglýsingar Flugleiða hf./Icelandair ehf. á flugferðum félaganna til Íslands sem birtar hafa verið á Netinu og víða erlendis að undanförnu brytu gegn ákvæðum 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kæran var kynnt Flugleiðum hf./Icelandair ehf. með bréfi dags. 22. apríl 2003. Var þar með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000 óskað eftir afstöðu félaganna til málsins og upplýsingum um það hver hefði hannað viðkomandi auglýsingar.

Umsögn Flugleiða hf./Icelandair ehf. var veitt með bréfi B hdl., dags. 14. maí 2003.

Með bréfi, dags. 19. maí 2003, var kæranda kynnt umsögn Flugleiða hf./Icelandair ehf. og óskað eftir frekari athugasemdum. Athugasemdir bárust með bréfi, dags. 11. júní 2003.

Með bréfi, dags. 25. júní 2003, var Flugleiðum hf./Icelandair ehf. gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir kæranda.

Með bréfi, dags. 16. júlí 2003, var Flugleiðum hf./Icelandair ehf. gerð grein fyrir bókun kærunefndar jafnréttismála frá 9. júlí 2003 þar sem kærunefndin beindi því til Flugleiða hf./Icelandair ehf. að félögin létu kærunefnd jafnréttismála í té upplýsinga- og kynningarefni sem félögin hefðu sem auglýsendur hagnýtt til kynningar á ferðum til Íslands á tímabilinu 1. apríl 2002 til 31. mars 2003 og birt hefði verið undir vígorðunum: „Fancy a dirty Weekend in Iceland“, „One Night Stand in Reykjavík“, „Free Dip every Trip“, „Tvær í takinu“ og „Pester a Beauty Queen“. Jafnframt var óskað eftir upplýsingum og gögnum um tölvuleikina „Halldor gets lucky in the Blue Lagoon“ og „Hildur gets lucky in the Blue Lagoon“ og um aðra sambærilega tölvuleiki sem nýttir hefðu verið sem auglýsinga- og kynningarefni. Einnig var óskað eftir upplýsingum um það hvar og hvernig háttað hefði verið birtingu á ofangreindu kynningarefni. Loks var óskað eftir upplýsingum um það hvaða aðilar, þar með taldar auglýsingastofur, hafi annast gerð umrædds auglýsinga- og kynningarefnis fyrir félögin.

Með bréfi, dags. 25. júlí 2003, komu Flugleiðir hf./Icelandair ehf. á framfæri þeim upplýsingum sem kærunefnd jafnréttismála hafði óskað eftir, auk athugasemda við umsögn kæranda, dags. 11. júní 2003. Með bréfi, dags. 20. ágúst 2003, var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð Flugleiða hf./Icelandair ehf., dags. 25. júlí 2003. Þær athugasemdir bárust með bréfi, dags. 10. september 2003, og voru kynntar Flugleiðum hf./Icelandair ehf. með bréfi, dags. 23. september 2003.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II

Málavextir

Í máli þessu er leitað álits kærunefndar jafnréttismála á því hvort tiltekið auglýsinga- og kynningarefni, sem Flugleiðir hf./Icelandair ehf. hafa notað til kynningar á starfsemi sinni, hafi farið í bága við ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Auglýsingar þær sem hér um ræðir eru taldar vera eftirfarandi, sbr. einnig ljósrit af auglýsingunum sem liggja fyrir í gögnum málsins:

„Fancy a dirty Weekend in Iceland?“ Þessi auglýsing birtist á veggspjöldum á neðanjarðarlestarstöðvum í London, upphaflega veturinn 2001–2002, en einnig á tímabilinu 15. september til 31. október 2002 og aftur 15. janúar til 15. mars 2003. Sömu myndir og fyrirsagnir voru einnig birtar á heimasíðu Flugleiða hf./Icelandair ehf. í Bretlandi.

„One Night Stand in Reykjavík“. Þessi auglýsing birtist síðast í Bretlandi fyrir um sex árum.

„Free Dip every Trip“. Kynningarbæklingur Flugleiða hf. /Icelandair ehf. með þessari yfirskrift var gefinn út og dreift í Skotlandi, einkum Glasgow, síðastliðinn vetur. Sams konar auglýsingar voru einnig gerðar fyrir flutningabíla í Skotlandi.

„Tvær í takinu“. Þann 24. september 2002 var sendur tölvupóstur til hérlendra netklúbbsfélaga Flugleiða hf. og segir í upphafi skeytisins „Nú ertu með tvær í takinu“.

Þá voru aðgengilegir á heimasíðu Flugleiða hf. eftirfarandi tölvuleikir sem bera yfirskriftina: „Halldor gets lucky in the Blue Lagoon“ og „Hildur gets lucky in the Blue Lagoon“. Þeir birtust fyrst í maí 2002 og voru á heimasíðum Flugleiða hf. í Skandinavíu fram á haust það ár.

Kærandi skaut máli þessu til kærunefndar jafnréttismála með kæru, dags. 31. mars 2003. Taldi kærandi að ákvæði 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, hefðu verið brotin.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er Icelandair ehf. dótturfélag Flugleiða hf. og mun hafa tekið við rekstri millilandaflugs Flugleiða hf. í byrjun árs 2003.

 

III

Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst um nokkurt skeið hafa fylgst með auglýsingum og annarri kynningu Flugleiða hf./Icelandair ehf. erlendis og á Netinu og hafi framkvæmdastjóri A meðal annars gert óformlega athugasemd við Flugleiði hf. í september 2002 í tilefni þess að tölvupóstur með yfirskriftinni „tvær í takinu“ barst henni. Nokkru síðar hafi kæranda hins vegar borist ítrekaðar athugasemdir varðandi umræddar auglýsingar Flugleiða hf./Icelandair ehf. í kjölfar mikillar umræðu í fjölmiðlum og á póstlistanum feministinn.is og skorað hafi verið á framkvæmdastjóra A að láta málið til sín taka.

Kærandi tilgreinir eftirfarandi slagorð úr auglýsingum Flugleiða hf./Icelandair ehf. í kæru sinni: „Fancy a dirty Weekend in Iceland?“, „One Night Stand in Reykjavík“, „Free Dip every Trip“, „Tvær í takinu“ og „Pester a Beauty Queen“. Einnig er tiltekið að birst hafi á vefsíðum Flugleiða hf. erlendis tölvuleikirnir „Halldor gets lucky in the Blue Lagoon“ og „Hildur gets lucky in the Blue Lagoon“.

Af hálfu kæranda er á því byggt að brotið sé gegn 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þar sem talið er að auglýsingarnar gefi í skyn að íslenskar konur séu lauslátar og auðfengnar í kynlíf. Kærandi óskar eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki umræddar auglýsingar til athugunar með tilliti til jafnréttis kynjanna og taki afstöðu til þess hvort þær teljist öðru kyninu til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnrétti kynjanna.

Kærandi telur að Flugleiðir hf./Icelandair ehf. verði að bera ábyrgð á þeim auglýsingum sem birtast á þeirra vegum hvar og hvenær sem þær birtast. Ef svo væri ekki væri ómögulegt að fylgja lögunum eftir gagnvart slíkum fyrirtækjum. Þá tiltekur kærandi að þar sem sumar auglýsingar séu birtar á heimasíðum Flugleiða hf./Icelandair ehf. í Bretlandi og víðar, teljist slík birting einnig birting hér á landi þar sem Netið sé alþjóðlegt. Tengla á allar heimasíður Flugleiða hf./Icelandair ehf. sé að finna á íslensku heimasíðunni og aðgengi þannig opið fyrir einstaklinga hér á landi og erlendis. Veraldarvefurinn sé eins og nafnið beri með sér án landamæra og allt sem þar birtist á vegum íslenskra fyrirtækja hljóti þar af leiðandi að teljast birting hérlendis og því háð íslenskum lögum. Til frekari rökstuðnings er vísað til 7. gr. almennra hegningarlaga og 33. gr. laga um meðferð einkamála. Þá er þess getið að kærunefnd jafnréttismála sé álitsgjafi en ekki dómstóll og hafi því annars konar svigrúm og lagareglur að miða við við málsmeðferðina en dómstólar.

Kærandi heldur því einnig fram að þrátt fyrir að auglýsingar séu margræðar þá leiði það ekki til þess að þær teljist samræmast jafnréttislögum. Hafnað er að miða eigi við siðferðisviðhorf og lífsgildi sem eru í viðkomandi landi vegna þess að áhrif þessara auglýsinga séu hér á landi og beinist gegn íslenskum konum.

  

IV

Sjónarmið Flugleiða hf./Icelandair ehf.

Af hálfu Flugleiða hf./Icelandair ehf. er á því byggt, að lög sem sett séu af Alþingi gildi að meginstefnu til einungis á íslensku landssvæði. Því taki 18. gr. laga nr. 96/2000 aðeins til auglýsinga sem birtar eru hér á landi eða auglýsinga sem hannaðar eru hér á landi. Ætti annað að gilda þyrfti að kveða sérstaklega á um það í lögunum. Með einni undantekningu hafi þær auglýsingar og það kynningarefni sem kærandi bendir á, máli sínu til stuðnings, ekki birst eða verið dreift hér á landi. Þá hafi öll hönnun auglýsinganna farið fram erlendis. Eina kynningarefnið sem birst hafi hér á landi hafi verið netpósturinn „með tvær í takinu“. Með tilliti til ofangreindra raka telja Flugleiðir hf./Icelandair ehf. að kærunefnd jafnréttismála sé ekki bær til að taka ákvörðun í málinu. Félögin óski eigi að síður eftir því að kærunefndin taki málið til efnislegrar meðferðar þar sem það hafi fengið mikla almenna umfjöllun og mikilvægt að fá niðurstöðu í því.

Flugleiðir hf./Icelandair ehf. kveða auglýsingar félaganna hannaðar erlendis og birtar á vegum svæðisskrifstofa í þeim löndum sem þau hafi starfað. Við gerð þeirra sé tekið mið af markaðsaðstæðum í hverju landi og menningu og hefðum í auglýsingagerð sem þar ríki. Á undanförnum árum og áratugum hafi félögin látið hanna og birta þúsundir auglýsinga víða um heim og eðli málsins samkvæmt séu þær mjög ólíkar og taki mið af stað- og tímabundnum aðstæðum.

Flugleiðir hf./Icelandair ehf. hafna því alfarið að auglýsingar félaganna, bæði þær sem birst hafa hérlendis og erlendis, hafi nokkur þau skilaboð að geyma sem fela í sér minnkun eða lítilsvirðingu fyrir íslenskar konur. Félögin hafi ávallt kappkostað að kynna land og þjóð á jákvæðan hátt fyrir erlendum ferðamönnum og öðrum þeim sem koma til landsins. Telja félögin að kærandi geri ekki greinarmun á auglýsingum félaganna og almennri umfjöllun erlendra fjölmiðla um land og þjóð. Að mati Flugleiða hf./Icelandair ehf. eru auglýsingar þess eðlis að skilaboð sem þær gefa kunni að vera misvísandi og fyrirfram mótaðar hugmyndir þess sem auglýsinguna sjái geti haft mikil áhrif. Þannig kunni auglýsingar eða hlutar þeirra að fara fyrir brjóstið á einum án þess að öðrum finnist þær nokkuð athugaverðar. Hins vegar þurfi alltaf að skoða auglýsingar í heild sinni, lesa saman myndmál og texta og meta skilaboð með auglýsingu í heild. Það að auglýsingar séu margræðar, þ.e. að hægt sé að lesa út úr þeim margvísleg skilaboð, geti ekki falið í sér brot á 18. gr. jafnréttislaga. Til að uppfylla það að teljast til minnkunar fyrir annað kynið eða vera lítilsvirðing þurfi að fara fram ákveðið mat, sem geti aldrei orðið annað en huglægt að stærstum hluta. Það verði hins vegar alltaf að vera hafið yfir allan vafa að matið sé í samræmi við viðurkennd viðhorf í þjóðfélaginu svo þessi skilyrði séu uppfyllt og 18. gr. laganna eigi við. Þannig verði að vera sýnt fram á það að almennt sé það viðhorf í þjóðfélaginu að auglýsingarnar geri á einhvern hátt á hlut annars kynsins, ekki síst í ljósi meginreglunnar um rit- og prentfrelsi og skoðanafrelsi. Þá þurfi og að taka mið af þeim siðferðisviðhorfum og lífsgildum í því landi þar sem viðkomandi auglýsing birtist.

Að því er varðar einstakar auglýsingar sem kærandi tilgreinir máli sínu til stuðnings vísa Flugleiðir hf./Icelandair ehf. til eftirfarandi sjónarmiða:

a)      Auglýsingamyndir úr Bláa lóninu („Fancy a dirty Weekend“) – Umræddar auglýsingamyndir hafi birst á veggspjöldum á neðanjarðarlestarstöðvum í London, upphaflega veturinn 2001/2002 en einnig á tímabilinu 15. september til 31. október 2002 og aftur 15. janúar til 15. mars 2003. Sömu myndir og fyrirsagnir hafi einnig verið birtar á heimasíðu Icelandair í Bretlandi þar sem nánari grein var gerð fyrir verði og öðrum skilmálum Íslandsferðar og ferða í Bláa Lónið. Auglýsingarnar voru hannaðar af auglýsingastofunni E, London.

Flugleiðir hf./Icelandair ehf. gera jafnframt nánar grein fyrir hugmyndinni að baki umræddri auglýsingu og þeirri herferð sem hún var hluti af. Herferðin hafi tekið mið af strandferðum Breta og styðjist við slagorð og tengingar sem breskur almenningur kannast við og setji í ákveðið samhengi. Félögin halda því fram að í Bretlandi sé yfirskriftin „Fancy a dirty Weekend“ oft notuð í auglýsingum, svo sem fyrir fjallahjólaferðir og gróðursetningaferðir um helgar, og gefi þessi dæmi skýrar vísbendingar um það hvaða skilningur sé lagður í orðin „dirty Weekend“ í Bretlandi. Í öllum tilfellum sé hugmyndin sú sama, þ.e. að tengja saman óhreinindi, „dirt“, sem til dæmis fylgir lagningu göngustíga eða gróðursetningu, eða för í Bláa lónið, og þá kímni sem felst í hugtakinu „dirty Weekend“ sem bresk hjón hafa notað um árabil yfir það að komast í burtu frá heimilisamstri. Það sé því misskilningur á enskri tungu og menningu að þessi auglýsing hafi eitthvað með íslenskar konur að gera. Þarna sé verið að auglýsa Bláa lónið með orðaleik, en tvíræðir orðaleikir séu algengir í Bretlandi.

b)      Auglýsingamynd þar sem áletrunin „Kiss me quick“ kemur fram á húfu fyrirsætu. Umrædd auglýsing var ein af auglýsingunum sem birtist í þeirri auglýsingaherferð sem lýst er í a). Þessi auglýsing var síðast birt í janúar 2002.

c)      Netpóstur („Tvær í takinu...“). Um hafi verið að ræða eina kynningarefnið sem nefnt sé í kærunni og birst hafi hérlendis, en það hafi verið sent til félaga í netklúbbnum á Íslandi þann 24. september 2002.

Í umræddum netpósti hafi verið kynnt tilboð um ferðir til tveggja borga í útlöndum þar sem fyrirsögnin var „Tvær í takinu“ og síðan hafi komið lýsing á tilboðum til þessara borga.

d)      Tölvuleikir („Halldor gets lucky in the Blue Lagoon, Hildur gets lucky in the Blue Lagoon“). Umræddir tölvuleikir voru settir inn á heimasíðu Icelandair í Skandinavíu (Danmörk, Noreg og Svíþjóð) vorið 2002. Hönnuður þeirra er auglýsingastofan D  í Kaupmannahöfn.

Fram kemur af hálfu Flugleiða hf. að hér hafi verið um að ræða einfalda tölvuleiki í teiknimyndastíl og hafi þeir átt að skapa jákvæða og skemmtilega upplifun. Hugmyndin með þessu hafi verið sú að fjölga félögum í netklúbbi Icelandair ehf. í Skandinavíu. Flugleiðir hf. telja, miðað við orðalag 18. gr. jafnréttislaga og lögskýringagögn, að umræddir tölvuleikir teljist tæplega til auglýsinga. Þá telja Flugleiðir hf. að jafnvel þótt hugtakið auglýsingar sé talið ná til tölvuleikja sé ekkert í nefndum tölvuleikjum sem feli í sér að gengið sé á hlut kvenna á nokkurn hátt, hvorki með minnkun eða lítilsvirðingu og feli því ekki í sér brot gegn 18. gr. jafnréttislaga.

e)      Kynningarbæklingur með yfirskriftinni („free Dip in every Trip“). Umræddur bæklingur var gefinn út og dreift á meðal ferðaþjónustufyrirtækja og viðskiptavina í Skotlandi, einkum Glasgow, veturinn 2002/2003. Þá voru gerð veggspjöld með sömu mynd og fyrirsögn og birt í Glasgow. Samskonar auglýsingar voru einnig gerðar fyrir flutningabíla í Skotlandi. Auglýsingastofan E, London, hannaði bæklinginn.

Fram kemur hjá Flugleiðum hf./Icelandair ehf. að þarna sé vísað til þess að boðið hafi verið upp á heimsókn í Bláa lónið endurgjaldslaust fyrir farþega sem komu frá Glasgow á leið til Bandaríkjanna síðdegis sama dag. Í texta auglýsingarinnar sé baðferð í Bláa lónið lýst í fáum orðum. Á mynd megi sjá flugfreyju bera fram drykk í Bláa lóninu. Með því sé vísað til þess að ferð í Bláa lónið sé hluti af flugferðinni sem slíkri, þ.e hluti af þeirri þjónustu sem flugfélagið bjóði upp á.

Flugleiðir hf./Icelandair ehf. fá ekki séð að nokkuð í nefndri auglýsingu teljist til þess fallið að vera til minnkunar eða lítilsvirðingar fyrir konur og hafnar því að um brot gegn 18. gr. jafnréttislaga sé að ræða. Fyrir farþega á leið til Bandaríkjanna frá Glasgow, markhóp auglýsingarinnar, sé biðtími eftir flugi frá Keflavík til Bandaríkjanna 4–5 klst. Auglýsingin eigi að taka til þess hvernig sá tími sé best nýttur, en hafi ekkert með það að gera hvernig skemmtanalíf er á Íslandi eða hver kynhegðun þeirra er sem hér búa.

f)        Aðrar auglýsingar.

i)                    Auglýsing með yfirskriftinni „One Night Stand“ hafi birst síðast í Bretlandi fyrir sex árum síðan og falli því utan þess tímaramma sem miðað er við í lögum nr. 96/2000.

ii)                   Ekki sé ljóst hvað sé átt við með tilvísun kæranda til yfirskriftarinnar „Miss Iceland Awaits“. Talið er að átt sé við þátttöku Icelandair í kynningu á keppninni Ungfrú Ísland fyrir nokkrum árum og kynningarefni sem birtist á þeim tíma. Töldu Flugleiðir hf. ekki ástæðu til að fjalla frekar um þessar kynningar vegna þess hve langt væri síðan þær áttu sér stað.

iii)                 Flugleiðir hf. kannast ekki við auglýsingar með yfirskriftinni „Get lucky“, þó orðasamböndin „Leifur the lucky Fares“ og „Lucky Fares“ hafi verið notað í kynningarefni.

iv)                 Auglýsing með yfirskriftinni „Pester a Beauty Queen“ hafi aldrei verið framleidd eða birt af hálfu félagsins.

 

 V

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. jafnréttislaga nr. 96/2000 er markmið laganna að koma á og viðhalda jafnrétti kynjanna, meðal annars með því að gæta jafnræðissjónarmiða á öllum sviðum samfélagsins. Ákvæði jafnréttislaga mæla af þessu tilefni að nokkru fyrir um skyldur í samfélaginu, meðal annars þá að auglýsandi skuli sjá til þess að auglýsing sé öðru kyninu ekki til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt.

Kvörtun kæranda lýtur aðallega að auglýsingum og kynningum Flugleiða hf./Icelandair ehf. sem birst hafa erlendis og á Netinu, og hafa beinst að erlendum viðskiptavinum félaganna. Í einu tilviki lýtur kvörtunin þó að kynningu sem átti sér stað hér á landi. Óumdeilt er að fyrrnefndu auglýsingarnar voru birtar á markaðssvæðum félaganna, einkum á Englandi, í Skotlandi og Skandinavíu. Upplýst hefur verið við meðferð málsins hjá kærunefnd, að söluskrifstofur félaganna á viðkomandi markaðssvæðum hafi haft forgöngu um gerð auglýsinga- og kynningarefnisins og ráðið til þess auglýsingastofur á viðkomandi svæðum.

Í máli þessu er meðal annars deilt um það, hvort auglýsinga- og kynningarefni Flugleiða hf./Icelandair ehf., sem í mörgum tilvikum felur í sér beitingu erlendra orðatiltækja eða orðasambanda, sem kærandi telur að geti falið í sér tvíræðni, teljist öðru kyninu til minnkunar eða lítilsvirðingar. Af hálfu Flugleiða hf./Icelandair ehf. er á því byggt að við hönnun auglýsinga- og kynningarefnis fyrir erlenda markaði hafi sjónum verið beint að tilteknum markhópum á viðkomandi markaðssvæði og við gerð efnisins tekið mið af þeim siðum og venjum sem þar ríkja.

Íslenskum jafnréttislögum er ætlað að gilda hér á landi. Er það því ekki hlutverk kærunefndar jafnréttismála að taka afstöðu til þess hvort auglýsingar sem birtast erlendis og er fyrst og fremst beint að erlendum mörkuðum, teljist vera í samræmi við 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Í því sambandi ber að hafa í huga að við gerð auglýsinga hlýtur jafnan að vera tekið mið af aðstæðum og lagaumhverfi í viðkomandi ríki (markaðssvæði) þar sem auglýsing á að birtast, þar með töldum lagareglum um jafnrétti kynjanna. Þá lúta slíkar auglýsingar jafnan eftirliti viðeigandi eftirlitsaðila í samræmi við gildandi réttarreglur í viðkomandi ríki.

Með vísan til landfræðilegrar afmörkunar íslenskra jafnréttislaga og að virtum framangreindum sjónarmiðum, að við gerð auglýsinga- og kynningarefnis sé jafnan tekið mið af þeim aðstæðum og lagareglum, sem gilda á því landsvæði þar sem því er ætlað að birtast, telur kærunefnd jafnréttismála að það falli utan lögbundins verksviðs nefndarinnar að fjalla um auglýsinga- og kynningarefni Flugleiða hf./Icelandair ehf., sem birt var á eða beint var að erlendum mörkuðum, sbr. hér að framan, eða hvort slíkt efni kunni að fara gegn 18. gr. jafnréttislaga.

Svo sem að framan er rakið lýtur kvörtun kæranda einnig að kynningarefni sem beint var að viðskiptavinum Flugleiða hf. hér á landi. Um var að ræða tölvupóstsendingu hinn 24. september 2002 til netklúbbsfélaga, þar sem sagði eftirfarandi:

„Kæri/a [Jón Jón Jónsson [email protected]]

Nú ertu með tvær í takinu. Annars vegar er það stórborgin New York og hins vegar ein fegursta borg Norðurlanda, Osló. Hvor um sig hefur upp á skemmtilega afþreyingu að bjóða, veitingastaði sem og hótel og því um að gera að stökkva á nettilboð núna um helgina.“

Í tölvupóstsendingunni var síðan nánari kynning á New York borg og Oslóarborg auk þess sem birtar voru yfirlitsmyndir frá þeim.

Þrátt fyrir notkun á orðatiltækinu „tvær í takinu“ telst ekkert í umræddri kynningu, þegar hún er skoðuð í viðeigandi samhengi, vera öðru kyninu til minnkunar eða lítilsvirðingar eða brjóta á annan hátt í bága við 18. gr. laga nr. 96/2000, jafnréttislaga.

Það er því álit kærunefndar jafnréttismála, að framangreind auglýsing, sem fram kom í tölvupóstsendingu 24. september 2002, teljist ekki hafa falið í sér brot gegn 18. gr. laga nr. 96/2000.

Kvörtun A sem lýtur að birtingu auglýsinga- og kynningarefnis Flugleiða hf./Icelandair ehf. erlendis, er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

 

Andri Árnason

Ragnheiður Thorlacius

Þuríður Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta