Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 566/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 566/2021

Miðvikudaginn 6. apríl 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 31. október 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. október 2021 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 10. október 2021. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 19. október 2021, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 31. október 2021. Með bréfi, dags. 2. nóvember 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 26. nóvember 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. nóvember 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 9. desember 2021 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. desember 2021. Með bréfi, dags. 10. febrúar 2022, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. febrúar 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja umsókn kæranda um örorkumat. Í ákvörðun segi að kærandi þurfi að fara í endurhæfingu. Kærandi ætli að sýna fram á að hún hafi nú þegar reynt margskonar endurhæfingu og að það sé fullreynt að hún geti snúið aftur á vinnumarkað, miðað við núverandi ástand.

Sjúkrasaga kæranda sé orðin löng og hún hafi í gegnum árin reynt að vinna sig í gegnum veikindin, án allrar aðstoðar Tryggingastofnunar ríkisins eða annarra. Árið 1999 hafi kærandi veikst fyrst og hafi þá verið nemi […]. Þá hafi hún hitt geðlækni og farið á geðlyfið Zoloft. Eftir að hafa hætt háskólanámi vegna veikinda hafi hún verið greind með Narcolepsy og Cataplexy árið 2007 eftir ítarlega rannsókn sem hafi verið gerð af yfirlækni hjá svefnrannsóknadeild Landspítala. Þá hafi hún fengið lyfið Modiodal. Árið 2008 hafi hún greinst með vanvirkan skjaldkirtil, Hashimotos, og verið meðhöndluð með Levaxin. Eftir barnsburð […] hafi hún verið greind með alvarlegt þunglyndi. Þá hafi kærandi tekið þátt í verkefni, endurhæfingu, á Landspítala sem hafi nefnst Fæðing og meðganga og hafi farið reglulega í viðtöl það ár. Árið 2012 hafi kærandi hætt að taka Fluoxitin vegna meðgöngu og þá hafi sjúkdómseinkenni hennar versnað til muna. Þá hafi veikindi hennar verið komin á þann stað að þau hafi verið farið að hamla daglegu lífi. Þá hafi hún farið til sálfræðings á geðdeild Landspítala í endurhæfingu. Þá hafi greiningin verið þessi:

„Depression Anxiety Stress Scale (DASS). Fékk 28 stig fyrir þunglyndi (mjög alvarlegt), 18 stig fyrir kvíða (alvarlegan) og 36 stig fyrir streitu (mjög alvarlega).

Patient Health Questionnaire (PHQ-9). Fékk 19 stig, bendir til alvarlegs þunglyndis.

Standardised Assessment of Personality - Abbreviated Scale (SAPAS). Fékk 4 stig, bendir til að mögulega þurfi að skoða persónuleikaröskun betur.

General Anxiety Scale (GAD). Fékk 17 stig, bendir til frekar alvarlegs kvíða.“

„Skjólst. reynist með alvarlegt þunglyndi og félagsfælni en er að auki með PTSD og OCD einkenni.

Vandamálið er alvarlegt, hamlar henni í daglegu lífi, líðan, heilsu, samskiptum við aðra og sjálfsþrifnaði.

Þörf er á frekari rannsóknum til að útiloka aðrar líkamlegar orsakir vanlíðanar“

Í framhaldi af greiningu hafi verið lagt til að hún færi í endurhæfingu, hugræna atferlismeðferð. Hún hafi tekið þátt í þeirri endurhæfingu og hafi fyrst farið vikulega og síðan hálfsmánaðarlega í viðtöl til sálfræðings, eða alveg þar til hún hafi flutt til B árið 2014. Árið X hafi veikindin versnað eftir andvana fæðingu […] og lyfin Fluoxitin og Modioal hafi hætt að hafa tilætluð áhrif. Hún hafi í framhaldi farið í regluleg viðtöl og endurhæfingu hjá geðteymi í K. Árið 2019 hafi hún verið greind með alvarlegt þunglyndi. Hún hafi prófað átta tegundir af þunglyndis- og kvíðalyfjum sem hafi ekki haft tilætluð áhrif. Sökum þess að erfiðlega hafi gengið að stilla inn lyfjagjöf þar sem kærandi hafi ekki einungis verið að glíma við þunglyndi og kvíða heldur einnig Narcolepsy og Hashimotos, hafi gengið mjög erfiðlega að stilla inn lyfjagjöf fyrir hana. Kærandi hafi því verið send áfram til meðferðar á háskólasjúkrahúsið í C, […]. Þar hafi yfirlæknir geðteymis háskólasjúkrahússins í C tekið við henni. Þar hafi farið fram endurhæfing í formi einstaklings- og hópviðtala frá febrúar 2020 til júlí 2021, eða í 17 mánuði þar til hún hafi flutt aftur til Íslands í ágúst 2021.

Í ágúst 2021 hafi kærandi flutt aftur til Íslands, aðallega vegna veikinda sinna og til að fá stuðning frá fjölskyldu sinni. Hún hafi farið í viðtal vegna starfsendurhæfingar hjá D lækni hjá VIRK. Samkvæmt því mati sé „algjör færnisskerðing hjá einstaklingi.“ Samkvæmt viðtali við D telji hann ekki raunhæft að hún reyni endurhæfingu hjá VIRK. Þrátt fyrir að hann mæli með geðsviði E telji hann það ekki raunhæft á næstunni. Fyrst þurfi hún að ná betri heilsu. „Langvinn einkenni sem þarfnast langtíma meðferðar áður en það er raunsætt að stefna á atvinnuþátttöku.“

Að framangreindu virtu megi sjá að kærandi hafi sannarlega reynt alla þá endurhæfingu sem henni hafi boðist, bæði hérlendis og í B, og hafi reynt allt sem hún geti til að öðlast bata. Hún hafi ekki sótt um neinar sjúkrabætur eða annan stuðning fram að þessu. En nú sé svo komið að þessi veikindi hennar séu farin að hamla alvarlega daglegum athöfnum hennar og þurfi hún stuðning til að geta séð fram úr því.

Að sjálfsögðu muni kærandi halda áfram að reyna að ná bata og hafi nú þegar verið send umsókn um viðtal hjá geðlækni og taugalækni þar sem hún sé á biðlista eftir meðferð hjá geðteymi F í G og endurhæfingu á E.

Í athugasemdum kæranda, dags. 9. desember 2021, segir að kærandi vilji leiðrétta misskilning sem komi fram í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins. Í greinargerð segi „Í læknisvottorði er þó tilgreint að hún […] hafi verið á örorku í B sl. 3 ár.“ Kærandi hafi ekki fengið örorkugreiðslur frá B heldur greiðslur sem kallist I, félagsleg hjálp eða endurhæfingarlífeyrir, sem hún hafi fengið gegn reglubundinni mætingu í endurhæfingu.

Talað sé um að Tryggingastofnun ríkisins hafi gert örorkumat, dags. 19. október 2021, en eingöngu hafi verið um umsókn að ræða og matið hafi eingöngu verið byggt á þeirri umsókn. Aldrei hafi verið um viðtal við lækni eða annan einstakling að ræða. Viðeigandi væri að Tryggingastofnun framkvæmdi örorkumat af lækni með þekkingu á taugaröskunum, svo sem Narcolepsy.

Í starfsgetumati VIRK, dags. 27. september 2021, segi í áliti D sérfræðilæknis í endurhæfingu að kærandi sé „ekki kandídat í starfsendurhæfingu. Mælt með geðsviði E áður en afstaða er tekin til starfsendurhæfingar að nýju.“ Einnig segi hann í niðurstöðu í áliti sínu: „Starfsendurhæfing hjá VIRK er talin óraunhæf. Ekki er talið raunhæft að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði. Einstaklingur sem er langt frá vinnumarkaði.“ Og bæti síðan við: „Það er ekki talið raunhæft að hún geti sinnt endurhæfingu þar sem hún á þegar í basli með að sinna sjálfri sér og heimili. Mögulega væri gagnlegt að sækja um geðsvið E til að ná upp einhverri virkni og framtíðarsýn áður en hægt er að stefna á atvinnuþátttöku.“ Að lokum segi hann og það geti varla orðið skýrara: „Ekki kandídat í starfsendurhæfingu.“

Niðurstaða Tryggingastofnunar ríkisins eftir þessa upptalningu í greinargerð sé: „Tryggingastofnun telur að synjun á örorkumati, á grundvelli þess að endurhæfing sé ekki fullreynd, hafi verið rétt ákvörðun.“

Það sé erfitt að sjá hvernig Tryggingastofnun ríkisins geti farið fram á endurhæfingu hjá manneskju sem eftir mat hjá endurhæfingarlækni á vegum VIRK sé ekki talin hæf í endurhæfingu. Vísað sé í 2. gr. reglna um örorkumat.

Þetta sé einungis mat á geðrænum veikindum kæranda en veikindi hennar séu fjölþætt og komi í veg fyrir möguleika á endurhæfingu og endurkomu inn á atvinnumarkaðinn. Öll endurhæfing hennar væri einungis til að bæta lífsgæði.

Kærandi vilji taka það fram að hún sé komin af stað í meðferð hjá geðheilsuteymi F og sé einnig á biðlista eftir tíma hjá taugalækni og geðlækni.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 9. desember 2021, segi að hún hafi farið í matsviðtal hjá J í geðheilsuteymi F föstudaginn 3. desember 2021. Kærandi hafi fengið svar úr þeirri greiningu á þá leið að kærandi sé of veik til að taka þátt í endurhæfingu á þeirra vegum.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um örorkulífeyri á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur.

Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Um framkvæmd endurhæfingarlífeyris sé fjallað í reglugerð um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum nr. 661/2020 um félagslega aðstoð.

Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gildi ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Um aðrar tengdar bætur fari eftir sömu reglum og gildi um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð.

Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Þá sé í 37. gr. laganna meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum sem stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skulu staða og réttindi umsækjenda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins.

Kærandi hafi sótt um örorkumat með umsókn, dags. 10. október 2021. Með örorkumati, dags. 19. október 2021, hafi verið synjað um örorkumat á grundvelli þess að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kærandi hafi flutt til Íslands frá B […] 2021 eftir að hafa búið þar í landi frá […] 2017. Í umsókn sé tekið fram að ef þess sé þörf sé hægt að útvega staðfestingu/skýrslu vegna veikinda og meðferða frá læknum við C í B. Kærandi hafi ekki áður sótt um örorkugreiðslur hér á landi og ekki liggi fyrir upplýsingar um hvort kærandi hafi fengið greiðslur vegna örorku í B á meðan hún hafi búið þar. Í læknisvottorði sé þó tilgreint að hún hafi verið á örorku í B síðastliðin þrjú ár.

Við örorkumat lífeyristrygginga þann 19. október 2021 hafi legið fyrir umsókn, dags. 10. október 2021, læknisvottorð L, dags. 7. október 2021, svör kæranda við spurningalista, mótteknum 10. október 2021, og starfslokaskýrsla VIRK, dags. 27. september 2021.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá því sem fram kemur í læknisvottorði, dags. 7. október 2021, og svörum kæranda við spurningalista, mótteknum 18. júní 2021.

Tryggingastofnun telji að synjun á örorkumati, á grundvelli þess að endurhæfing sé ekki fullreynd, hafi verið rétt ákvörðun.

Jafnframt skuli áréttað að ákvörðunin sem hafi verið kærð byggist á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 10. febrúar 2022, kemur fram að farið hafi verið yfir athugasemdir kæranda en þær gefi ekki tilefni til breytinga á afgreiðslu Tryggingastofnunar í málinu. Texti í greinargerð Tryggingastofnunar hafi verið svohljóðandi:

„Kærandi hefur ekki áður sótt um örorkugreiðslur hér á landi og ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort kærandi hafi fengið greiðslur vegna örorku í B meðan hún bjó þar. Í læknisvottorði er þó tilgreint að hún hafi verið á örorku í B sl. 3 ár.“

Athugasemdir kæranda séu þannig ekki í samræmi við það sem hafi sagt í greinargerðinni. Einnig skuli á það bent að eins og fram komi í athugasemdum kæranda virðist hún hafa fengið I á grundvelli þess að hún væri að stunda endurhæfingu, það er að greidd I hafi verið sambærilegar greiðslum endurhæfingarlífeyris hér á landi. B almannatryggingakerfið sé byggt upp á annan hátt en íslenska almannatryggingakerfið og geti sú staða komið upp að greiðslur sem væru greiddar úr almannatryggingakerfinu hér á landi séu greiddar sem I/félagslegar greiðslur þar í landi.

Með tilvísun í örorkumat, dags 19. október 2021, hafi verið átt við ákvörðun læknis sem vinni hjá Tryggingastofnun um að synja um örorkumat sem hafi byggst á þeim gögnum sem borist höfðu stofnuninni með umsókninni. Þau gögn hafi ekki gefið tilefni til að boða kæranda í skoðun vegna örorkumats.

Í starfsgetumati VIRK komi fram að mælt sé með geðsviði E áður en afstaða sé tekin til starfsendurhæfingar að nýju. Þessi texti feli ekki í sér að endurhæfing sé fullreynd heldur að meðferð/endurhæfing á geðsviði þurfi að koma til áður en starfsendurhæfing hjá VIRK geti komið til. Í þessu sambandi sé bent á að VIRK sé ekki eini aðilinn hér á landi sem geti annast endurhæfingu sem greiðslur endurhæfingarlífeyris frá Tryggingastofnun geti byggst á.

Fullyrðingar kæranda um annars vegar að hún sé komin af stað í meðferðinni hjá geðheilsuteymi F og sé á biðlista eftir tíma hjá taugalækni og geðlækni og hins vegar sú viðbótarfullyrðing að hún hafi fengið það svar frá geðheilsuteyminu að hún sé of veik til að taka þátt í endurhæfingu á vegum teymisins nægi ekki til þess að Tryggingastofnun breyti ákvörðun sinni í málinu.

Ef kæranda hafi borist gögn frá geðheilsuteymi F, sem hún telji að breyti þeim aðstæðum sem hafi átt við þegar kærð ákvörðun hafi verið tekin, geti hún lagt inn nýja umsókn ásamt viðeigandi gögnum og yrði þá ný ákvörðun tekin á grundvelli þeirra gagna. Ekki sé að svo stöddu hægt að fullyrða að um aðra niðurstöðu yrði þá að ræða.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. október 2021 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð L, dags. 7. október 2021. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„[Hypothyroidism, unspecified

Social phobias

Narcolepsy and cataplexy

Depression nos

Kvíði]“

Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segir í vottorðinu:

„X ára gömul kona með fyrri sögu um þunglyndi, narcolepsy og Hashimoto thyroditis. Vann síðast 3-4 klst á dag […] í B […], hætti þar vegna andvana fæðingar og ekki treyst sér aftur á vinnumarka vegna einkenna kvíða og þunglyndis aðallega vonleysi, depurð og framtaksleysi.

Fór í verulega djúpt þunglyndi fyrir rúmum 3 árum. Bjó þá í B og fluttti heim […] 2021. Búið að reyna ýmsar meðferðir bæði sálfræðiþjónustu og ólíkar lyfjameðferðir.var án lyfja í 40 daga sl vetur, mikil depurð þá. Á erfitt með að fara út úr húsi og hitta fólk. Nýlega byrjuð hjá geðlækni í B sem hefur reynt ýmislegt. Nú verið að reyna anafranil sem er eitthvað að auka virkni og bæta líðan en þó töluvert langt í land. Hefur leitað á M geðdeikdar vegna mikillar vanlíðan og algjörrar vanvirkni. Nú verið að hækka lyfjaskammt.“

Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi í vottorðinu:

„Er verulega flöt og áberandi kvíðin í samtali. stutt í tárin. Ber á miklu vonleysi.

Kemur í fylgd móður, treysti sér ekki ein.“

Í vottorðinu segir að kærandi hafi verið óvinnufær frá 1. desember 2018.

Í starfsgetumati VIRK, dags. 27. september 2021, kemur fram að líkamlegir og andlegir þættir valdi algjörri færniskerðingu hjá kæranda. Þá segir svo í niðurstöðu:

„Heilsubrestur til staðar sem veldur óvinnufærni. Starfsendurhæfing hjá Virk er talin óraunhæf. Ekki er talið raunhæft að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði. Einstaklingur sem er langt frá vinnumarkaði. Ekki unnið sl ár vegna geðvanda og verið að vinna í því að koma henni að hjá geðlækni á Íslandi. Skv beiðni læknis gæti þurft betri greiningarvinnu hjá geðlækni. Vanvirkur skjaldkritill, narcolepsy, kvíði og þunglyndi skýrir óvinnufærni. Er í raun ekki að stefna aftur á vinnumarkað þar sem vanvirkni er svo lítil að hún reynir að nota þá litlu orku sem hún hefur yfir daginn í börnin sín. Lyf gera takmarkað gagn fyrir hana. Það er ekki talið raunhæft að hún geti sinnt endurhæfingu þar sem hún á þegar í basli með að sinna sjálfri sér og heimili. Mögulega væri gagnlegt að sækja um geðsvið E til að ná upp einhverri virkni og framtíðarsýn áður en hægt er að stefna á atvinnuþátttöku. Óvinnufær af kvíða og þunglyndi með algjöru framtaksleysi. Engar dagvenjur til staðar. Þolir ekkert áreiti eða kröfur. Ekki kandídat í starfsendurhæfingu. Mælt með geðsviði E áður en afstaða er tekin til starfsendurhæfingar að nýju.“

Einnig liggur fyrir sjúkraskrá kæranda vegna áranna 2013 og 2014 og mat N sérfræðihjúkrunarfræðings, dags. 15. júlí 2021. Í matinu segir meðal annars svo:

„[…].“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um þau endurhæfingarúrræði sem væru í boði.

Í fyrrgreindu læknisvottorði K, dags. 7. október 2021, kemur fram að kærandi sé óvinnufær. Þá er greint frá því að kærandi hafi komið í fylgd móður sinnar þar sem hún hafi ekki treyst sér ein. Kærandi sé að kljást við mikla vanlíðan og vanvirkni og hafi meðal annars reynt meðferð hjá sérhæfðu geðteymi í B og ólíka, sérhæfða viðtals-, atferlis- og lyfjameðferð. Í starfsgetumati VIRK frá 15. september 2021 kemur fram að líkamlegir og andlegir þættir valdi algjörri færniskerðingu hjá kæranda. Þá kemur fram að starfsendurhæfing sé talin óraunhæf og að ekki sé talið raunhæft að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði.

Með vísan til framangreinds og með hliðsjón af eðli veikinda kæranda er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að endurhæfing með starfshæfni að markmiði sé fullreynd í tilviki kæranda að svo stöddu. Úrskurðarnefndin telur því rétt að Tryggingastofnun ríkisins meti örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er því felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til Tryggingastofnunar ríkisins til mats á örorku.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til Tryggingastofnunar ríkisins til mats á örorku.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta