Hoppa yfir valmynd

Nr. 369/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 25. júlí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 369/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19040112

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 30. apríl 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. apríl 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, í fyrsta lagi á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. sbr. 1. mgr. 42. gr. sömu laga, og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, og í öðru lagi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 17. desember 2018 ásamt maka sínum [...]. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 18. desember 2018, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Grikklandi. Þann 7. janúar 2019 var upplýsingabeiðni beint til yfirvalda í Grikklandi, sbr. 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá grískum yfirvöldum, dags. 1. febrúar 2019, kom fram að kæranda hefði verið veitt viðbótarvernd í Grikklandi þann 26. október 2018 og væri með gilt dvalarleyfi þar í landi til 6. nóvember 2021. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. þann 20. febrúar 2019, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 11. apríl 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 16. apríl 2019 og kærði kærandi ákvörðunina þann 30. apríl 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 10. maí 2019 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi. Umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Grikklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Grikklands.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í sameiginlegri greinargerð kæranda og maka hans kemur m.a. fram að hann hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun mótmælt því að vera sendur aftur til Grikklands. Kærandi hafi fengið takmarkaða framfærslu frá yfirvöldum og þurft að hafast við í flóttamannabúðum á afskekktri eyju þar sem aðstæður hafi verið erfiðar og ferðafrelsi takmarkað. Þá hafi kærandi upplifað öryggisleysi sem hafi fylgt því að vera [...] í Grikklandi. Í því sambandi greinir kærandi frá fordómum og alvarlegum árásum sem hann og maki hans hafi orðið fyrir eftir að upp hafi komist um samband þeirra en kærandi hafi m.a. hlotið brotið nef og opið sár. Kærandi hafi leitað aðstoðar lögreglu í Grikklandi og lagt fram kæru á hendur manninum sem hafi nefbrotið hann en í stað þess að veita honum aðstoð hafi lögreglan handtekið hann og sett í fangaklefa þar sem hann hafi verið í tvo daga án aðhlynningar. Hann hafi leitað á spítala eftir að hann hafi losnað úr fangelsinu en ekki fengið tíma hjá lækni fyrr en um mánuði síðar. Þá hafi kærandi greint frá því að í Grikklandi hafi hann [...]. Kvaðst kærandi glíma við minnisleysi, fá martraðir og sofa lítið. Þá kvað kærandi að hann og þáverandi [...] hans hafi orðið fyrir skotárás í heimaríki þar sem kærandi hafi verið skotinn í fótinn en [...] hans í brjóstið og [...] hafi látist af sárum sínum. Þessir atburði hafi enn þann dag í dag mikil áhrif á andlegu heilsu hans. Kærandi kvaðst vera mótfallinn endursendingu til Grikklands og að hann íhugi frekar að taka eigið líf en að snúa aftur þangað.

Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi, með því að taka ekki afstöðu til stöðu [...] flóttafólks í Grikklandi, brotið alvarlega gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá gerir kærandi ýmsar athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar í hinni kærðu ákvörðun og vísar í því sambandi til alþjóðlegra skýrslna og heimilda. Í fyrsta lagi telur kærandi að honum muni ekki standa til boða fullnægjandi heilbrigðisþjónusta, aðgangur að atvinnumarkaði eða húsnæði þrátt fyrir staðhæfingar stofnunarinnar þess efnis. Kærandi vísi til þess að víðtækur niðurskurður innan heilbrigðiskerfisins í Grikklandi hafi komið niður á heilbrigðisþjónustu þar í landi. Til að mynda skorti mikið á fullnægjandi geðheilbrigðisþjónustu fyrir flóttafólk sem kærandi telji sig hafa verulega þörf á. Þá sé atvinnuleysi í Grikklandi það hæsta í Evrópu, auk þess sem tungumálaerfiðleikar og fordómar geri flóttafólki erfitt fyrir að finna sér atvinnu þar í landi. Þá séu engin húsnæðisúrræði sérstaklega ætluð þeim sem njóti alþjóðlegrar verndar og enginn fjárstuðningur veittur þeim einstaklingum, auk þess sem flóttafólk verði fyrir mismunun á almennum húsnæðismarkaði.

Í öðru lagi telur kærandi að mat Útlendingastofnunar þess efnis að raunhæf úrræði séu til staðar fyrir fórnarlömb hatursglæpa í Grikklandi sé ekki á rökum reist. Í því sambandi vísi kærandi m.a. til ársskýrslu Racist Violence Recording Network fyrir árið 2018 þar sem fram komi m.a. að aðgerðir grískra yfirvalda til að sporna við hatursglæpum, kynþáttafordómum og útlendingahatri hafi ekki gengið eftir. Ofbeldi gagnvart flóttafólki og innflytjendum, m.a. af hendi opinberra starfsmanna og lögreglumanna, hafi aukist. Þá hafi LGBTIQ fólk verið sérstakt skotmark árásarmanna í Grikklandi. Þá vísi kærandi til þess að skv. skýrslu European Commission against Racism and Intolerance (ECRI) sé hatursorðræða og hatursglæpir alvarlegt og útbreitt vandamál í Grikklandi, sem beinist m.a. að innflytjendum og múslimum. Kærandi vísi þá til þess að hann hafi verið settur í fangaklefa í tvo daga, án nauðsynlegrar aðhlynningar, eftir að hann hafi leitað aðstoðar lögreglu. Kærandi telji því að öryggi hans í Grikklandi yrði ekki tryggt þar sem líklegt sé að hann yrði fyrir verulegu aðkasti og ofbeldi af hálfu yfirvalda og almennings.

Í þriðja lagi gerir kærandi athugasemd við að því sé haldið fram að auðvelt muni vera fyrir hann að endurnýja dvalarleyfi sitt í Grikklandi en slíkt geti verið vandkvæðum bundið. Í því sambandi vísi kærandi til þess m.a. að engin lögfræðiaðstoð sé veitt í tengslum við endurnýjun á dvalarleyfum og umsókn um slíkt geti einnig tekið langan tíma. Geti það haft þau áhrif að einstaklingar eigi í erfiðleikum með að fá aðgang að þjónustu, t.d. á vegum félagsmálayfirvalda, meðan umsókn þeirra sé til meðferðar. Þá séu ströng skilyrði sett fyrir útgáfu langtímadvalarleyfa í Grikklandi.

Í greinargerð sinni hvetur kærandi þá kærunefnd til að gera alvarlega athugasemd við þá mismunun sem hann og maki hans hafi upplifað í málsmeðferð og þjónustu hjá Útlendingastofnun sem [...] par. Kveði kærandi að þrátt fyrir að þeir hafi upplýst stofnunina og aðra hlutaðeigandi aðila að þeir eigi í [...] hafi verið farið með mál þeirra líkt og þeir væru einstaklingar sem séu einir á ferð. Í því sambandi greini kærandi m.a. frá því að þeim hafi verið úthlutað gistirými í [...]. Þá hafi stofnunin ekki orðið við óskum þeirra um flutning þrátt fyrir að þeir hafi kvartað undan áreiti og aðkasti í þeirra garð í búsetuúrræðinu.

Þá gerir kærandi athugasemd við beitingu Útlendingastofnunar á reglugerð nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga. Gerðar hafi verið athugasemdir við lagastoð reglugerðarinnar vegna þeirra skilyrða sem þar séu sett fram, sem m.a. gangi lengra en ákvæði laga um útlendinga. Þá veki kærandi athygli á orðalagi 32. gr. a reglugerðarinnar þar sem fram komi að þau viðmið sem sett séu fram í greininni um hvað geti talist til sérstakra ástæðna séu nefnd í dæmaskyni. Kærandi telji því að ekki sé um að ræða tæmandi talningu á þeim þáttum sem taka beri tillit til við mat á því hvort sérstakar ástæður eigi við og að umrædd viðmið geti því ekki komið í stað heildarmats á einstaklingsbundnum aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd. Kærandi kveði að aðstæður hans og maka hans séu það sérstakar að leggja verði sérstakt mat á stöðu þeirra og þarfir sem [...] einstaklingar í sambandi. Þá kveði kærandi að framlögð heilsufarsgögn beri með það með sér að hann og maki hans séu einstaklingar í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Auk þess bendi margt til þess að kærandi og maki hans muni eiga afar erfitt uppdráttar í Grikklandi. Að framangreindu virtu telji kærandi að Útlendingastofnun hafi borið að framkvæma heildarmat á aðstæðum þeirra sem og þeim aðstæðum sem þeir muni standa frammi fyrir í Grikklandi komi til endursendingar frekar en að horfa til afmarkaðra skilyrða umræddrar reglugerðar.

Kröfu sína um efnismeðferð byggir kærandi í fyrsta lagi á því að ótækt sé að beita heimild a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem hann njóti verndar 1. mgr. 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr. laganna. Kærandi bendi á að íslenska ríkið sé bundið af grundvallarreglunni um non-refoulement þar sem lagt sé bann við því að senda einstakling þangað sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu. Með 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga hafi verið áréttaður sá vilji löggjafans að við möguleg brot gegn grundvallarreglunni með endursendingu til annars Evrópuríkis skuli taka umsóknir um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Lýsing kæranda á aðstæðum sínum á Grikklandi komi heim og saman við þær heimildir sem vísað sé til í greinargerð kæranda um aðstæður flóttafólks þar í landi. Telji kærandi að aðstæður flóttafólks í Grikklandi séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og skilgreiningu á ofsóknum í skilningi flóttamannahugtaksins. Endursending kæranda til Grikklands myndi því vera brot gegn 3. mgr. 36. gr., sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða brot gegn reglunni um non-refoulement.

Kröfu sína um efnismeðferð byggir kærandi í öðru lagi á því að taka skuli umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar hér á landi þar sem sérstakar ástæður mæli með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Til stuðnings kröfu sinni vísi kærandi m.a. til lögskýringargagna að baki ákvæðinu og fyrri úrskurða kærunefndar og telji að það gefi til kynna að stjórnvöld þurfi, við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi, að kanna hvort kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki, annað hvort vegna einstaklingsbundinna aðstæðna eða vegna almennra aðstæðna í viðtökuríki.

Kærandi telji að Útlendingastofnun hafi ekki framkvæmt fullnægjandi mat á stöðu hans og og maka hans en margt bendi til þess að þeir séu einstaklingar í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Til að mynda geri einstök staða þeirra, þ.e. sem [...] einstaklingar af [...] uppruna og með flóttamannabakgrunn, þá afar berskjaldaða fyrir hvers kyns mismunun og ofbeldi í Grikklandi. Að lokum telji kærandi ljóst, m.a. í ljósi þeirra fordóma og alvarlegu árása sem hann og maki hans hafi orðið fyrir í Grikklandi vegna kynþáttar og kynhneigðar þeirra, að staða þeirra yrði verulega síðri en staða almennings þar í landi. Um mat á því hvenær einstaklingar teljist eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vísi kærandi til nánar tilgreindra úrskurða kærunefndar útlendingamála frá árinu 2017.

Varakrafa kæranda er byggð á því að Útlendingastofnun hafi, með því að taka ekki afstöðu til stöðu kæranda sem [...] einstaklings í Grikklandi, brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Vísi kærandi í því samhengi til umfjöllunar í greinargerð sinni um athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar.

V.Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kæranda veitt viðbótarvernd í Grikklandi þann 26. október 2018 og hefur gilt dvalarleyfi þar í landi til 6. nóvember 2021. Að mati kærunefndar felur sú vernd sem kærandi nýtur í Grikklandi í sér virka alþjóðlega vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi [...] karlmaður sem kveðst vera [...] og hafa komið til lands með maka sínum. Af ákvörðun Útlendingastofnunar verður ekki annað ráðið en að stofnunin hafi talið frásögn kæranda trúverðuga að þessu leyti. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að draga það mat í efa.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun m.a. hafa orðið fyrir skotárás í heimaríki sínu og fengið skot í fótinn. Þá hafi hann sætt ýmsu ofbeldi í Grikklandi og m.a. hlotið nefbrot eftir árás þar í landi. Hann hafi ekki fengið rétta meðhöndlun vegna nefbrotsins og þurfi meðhöndlun sérfræðilækna vegna þess. Þá kvaðst hann eiga erfitt með svefn [...]. Í gögnum um heilsufar kæranda kemur m.a. fram að hann glími við minnisleysi, fái martraðir og sofi illa. Honum hafi verið ávísað lyfjum vegna svefnvandamála og hafi rætt einu sinni við sálfræðing hér á landi.

Það er mat kærunefndar að gögn málsins, þ. á m. viðtöl við kæranda hjá Útlendingastofnun og framlögð heilsufarsgögn, beri ekki með sér að kærandi hafi sérþarfir í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem taka þurfi tillit til við meðferð málsins.

Aðstæður í Grikklandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Grikklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • 2018 – Country Reports on Human Rights Practices – Greece (United States Department of State, 13. mars 2019);
  • Amnesty International Report 2017/18 – Greece (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Asylum Information Database, National Country Report: Greece (European Council on Refugees and Exiles, 29. mars 2019);
  • Commissioner for Human Rights: Report of the Commissioner for Human Rights of the Council of Europe, Dunja Mijatovic, following her visit to Greece from 25 to 29 June 2018 (Council of Europe, 6. nóvember 2018);
  • ECRI Report on Greece (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 24. febrúar 2015);
  • EU/Greece: Pressure to Minimize Number of Migrants Identified as ´vulnerable´ (Human Rights Watch, 1. júní 2017); Freedom in the World 2018 – Greece (Freedom House, 1. ágúst 2018);
  • Greece as a Country of Asylum – UNHCR‘s Recommendations (UNHCR, 6. apríl 2015);
  • Migration Flows and Refugee Protection – Administrative challenges and human rights issues (The Greek Ombudsman, apríl 2017);
  • Petition to the European Parliament – Regarding degrading reception conditions and EU funding in Greece (Solidarity Now, mars 2017);
  • Racist Violence Report Network: Annual Report 2018 (The UN Refugee Agency, 18. apríl 2019);
  • Reports of the Special Rapporteur on the human rights of migrants on his mission to Greece, (United Nations, General Assembly, 24. apríl 2017);
  • State of the World‘s Minorities and Indigenous Peoples 2016 – Greece (Minority Rights Group International, 12. júlí 2016);
  • Upplýsingar af vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal): https://e-justice.europa.eu, og
  • World Report 2019 – European Union (Human Rights Watch, 17. janúar 2019).

Af ofangreindum gögnum verður ráðið að grísk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna þar í landi. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur m.a. bent á þau neikvæðu áhrif sem efnahagur Grikklands hefur haft á aðstæður einstaklinga sem hafa hlotið alþjóðlega vernd þar í landi og möguleika þeirra á að aðlagast grísku samfélagi. Að mati kærunefndar er ljóst af framangreindum gögnum að þeir einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi lifa oft á jaðri samfélagsins og búa í sumum tilvikum við félagslega einangrun. Einstaklingar með alþjóðlega vernd eiga hins vegar sama rétt til félagslegrar aðstoðar og grískir ríkisborgarar og í dvalarleyfi þeirra felst jafnframt sjálfkrafa aðgangur að vinnumarkaði. Þá veita frjáls félagasamtök einstaklingum með alþjóðlega vernd aðstoð við að kynna sér réttindi sín í Grikklandi.

Einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi eiga rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu, þ. á m. nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu og lyfjum. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Grikklandi hefur bág fjárhagsstaða gríska ríkisins haft mikil áhrif á heilbrigðiskerfi landsins og hefur kostnaðarþátttaka almennings aukist við kaup á lyfjum og þjónustu. Þannig geti verið vandkvæðum bundið að sækja sér heilbrigðisþjónustu þar í landi og þá sérstaklega sérhæfða heilbrigðisþjónustu, m.a. vegna skorts á fjármagni og starfsfólki. Á þetta jafnt við um alla borgara Grikklands, bæði gríska ríkisborgara og aðra sem hafa rétt til dvalar í ríkinu.

Sem fyrr segir eiga einstaklingar með alþjóðlega vernd sama rétt til félagslegrar aðstoðar og grískir ríkisborgarar en aðgengi þeirra að húsnæði er háð sömu skilyrðum og takmörkunum og aðgengi annarra ríkisborgara þriðju ríkja með löglega dvöl í Grikklandi. Fá gistiskýli eru í boði fyrir heimilislausa auk þess sem ekkert húsnæði er til staðar sem einungis er ætlað einstaklingum með alþjóðlega vernd. Erfitt getur reynst að fá pláss í gistiskýlum þar sem aðsóknin er mikil og eru dæmi um að einstaklingar með alþjóðlega vernd hafist við í yfirgefnum húsum við mjög bágar aðstæður. Á þetta einnig við um einstaklinga sem hafa verið sendir til Grikklands frá öðrum Evrópuríkjum.

Í framangreindum gögnum kemur fram að grísk yfirvöld veiti einstaklingum með alþjóðlega vernd sem búa undir fátæktarmörkum fjárhagsaðstoð í formi mánaðarlegra greiðslna. Einstaklingar sem hyggjast nýta sér úrræðið þurfa að uppfylla ýmis skilyrði og má sem dæmi nefna að þeir þurfa að hafa kennitölu, skattnúmer, gilt dvalarleyfi og bankareikning. Þá þurfa þeir m.a. að framvísa leigusamningi í þeim tilvikum þegar þeir búa í leiguhúsnæði og í tilviki heimilislausra einstaklinga þurfa þeir að framvísa vottorði um heimilisleysi frá gistiskýlinu eða sveitarfélaginu þar sem þeir búa. Þá kemur fram í fyrrnefndum gögnum að engin sérúrræði eru til staðar varðandi félagsþjónustu fyrir fólk í viðkvæmri stöðu, s.s. þolendur pyndinga.

Í framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að dæmi séu um að flóttafólk sé beitt ofbeldi, þ. á m. af hendi grísku lögreglunnar. Þá kemur fram að þarlend lög og stjórnarskrá leggi bann við pyndingum og annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Enn fremur séu ofbeldisbrot rannsökuð af grísku lögreglunni en embætti umboðsmanns rannsaki meint brot lögreglu. Af framangreindri skýrslu verður ráðið að ýmsir annmarkar séu á dómskerfi landsins en sjálfstæði dómstóla sé tryggt í framkvæmd, svo og réttindi brotaþola og sakborninga. Þá kemur fram á vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal) að útlendingar í Grikklandi sem séu þolendur glæpa og tali hvorki né skilji grísku eigi rétt á túlkaþjónustu og upplýsingum um mál þeirra á tungumáli sem þeir skilji. Í áðurnefndri skýrslu Asylum Information Database kemur fram að óheimilt sé samkvæmt grískum lögum að setja umsækjendur um alþjóðlega vernd í varðhald nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, t.d. í því skyni að að staðfesta auðkenni viðkomandi flóttamanns eða í þágu almannaöryggis og allsherjarreglu. Þá kemur fram í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins að fangelsisrými séu af skornum skammti í Grikklandi og því séu þau yfirfull með tilheyrandi vandamálum, t.d. sé öryggi í yfirfullum fangelsum ófullnægjandi auk þess sem þau glíma við skort á hreinlæti og heilbrigðisþjónustu.

Í framangreindri skýrslu Asylum Information Database kemur fram að dvalarleyfi einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd eða viðbótarvernd í Grikklandi séu gefin út til þriggja ára í senn. Umsókn um endurnýjun dvalarleyfis þurfi að berast 30 dögum áður en að leyfið renni út en ef umsókn berist eftir þann tíma leiði það þó ekki eitt og sér til þess að umsókn sé synjað. Umsókn sé þá að jafnaði endurnýjuð. Við málsmeðferð umsókna um endurnýjun dvalarleyfis sé þó framkvæmd könnun á sakaferli sem geti leitt til þess að alþjóðleg vernd umsækjanda sé afturkölluð og honum í kjölfarið synjað um endurnýjun dvalarleyfis. Þá sé málsmeðferðartími umsókna um endurnýjun dvalarleyfis u.þ.b. tveir mánuðir en þó séu dæmi um að það tímabil geti lengst upp í sex mánuði, en á meðan umsókn sé í vinnslu fái umsækjendur sérstakt kort sem veiti þeim sömu réttindi og fylgi dvalarleyfinu útgefið til tveggja mánaða.

Í framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins og skýrslu samtaka um skráningu ofbeldis sem grundvallast á fordómum (e. Racist Violence Recording Network), kemur fram að á árinu 2018 hafi formlegir og óformlegir hópar þjóðernissinna og starfsemi þeirra eflst og að slíkir hópar hafi staðið að baki árásum á umsækjendur um alþjóðlega vernd, flóttamenn og aðra innflytjendur í Grikklandi. Aukning hafi orðið á ofbeldi og áreiti af hálfu lögreglumanna og opinberra starfsmanna sem lýsi sér m.a. í neikvæðum viðhorfum sem og líkamlegu ofbeldi gegn einstaklingum af erlendum uppruna. Þá sé áreiti og mismunun í garð LGBTI einstaklinga útbreitt vandamál í Grikklandi. Dæmi séu um að LGBTI einstaklingar séu beittir ofbeldi, m.a. af hendi opinberra starfsmanna, og hafi 27 slík tilvik verið skráð árið 2018. Aðgerðasinnar hafi þá komið því á framfæri að LGBTI einstaklingar hafi verið tregir til að tilkynna slík tilvik vegna vantrausts í garð yfirvalda. Grísk löggjöf kveði á um vernd gegn hatursglæpum, t.d. framfylgi stjórnvöld lögum sem leggi bann við mismunun á grundvelli m.a. kynþáttar, uppruna, kynhneigðar og kynvitundar og kveði á um refsiauka í tilviki hatursglæpa á sama grundvelli.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstóllinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016.

Í ákvörðun í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013 kemur m.a. fram að það eitt að efnahagsstaða einstaklings versni við brottvísun eða frávísun frá aðildarríki nái ekki alvarleikastigi 3. gr. mannréttindasáttmálans. Þá verði greinin ekki túlkuð þannig að í henni felist skylda aðildarríkja til að sjá einstaklingum sem njóta alþjóðlegrar verndar fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum. Dómstóllinn áréttaði jafnframt að einstaklingur sem stendur til að vísa brott geti ekki gert kröfu um áframhaldandi dvöl í ríki í því skyni að njóta þar heilbrigðis- eða félagsþjónustu. Veruleg skerðing lífsgæða sé ekki nægjanleg til að valda broti á 3. gr. mannréttindasáttmálans nema sérstaklega sannfærandi mannúðarástæður mæltu gegn endursendingu.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga er fjallað um mat á því hvort taka eigi umsókn til efnislegrar meðferðar hér á landi vegna sérstakra aðstæðna og eru ákveðin viðmið nefnd þar í dæmaskyni. Er þar m.a. átt við þau tilvik þegar umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, s.s. ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar, eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða ef umsækjandi getur vænst þess að staða hans, í ljósi framangreindra ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki. Kærunefnd telur að með orðasambandinu „framangreindra ástæðna“ sé verið að vísa til ástæður mismununar, þ.e. kynhneigð,kynþáttar eða kyns, en ekki aðgerðir ríkisins sem beint eða óbeint koma í veg fyrir að einstaklingar geti sótt sér þá þjónustu eða réttindi sem tilgreind er í ákvæðinu.

Kærandi hefur greint frá því að hann hafi orðið fyrir ofbeldi og átt erfitt uppdráttar í Grikklandi vegna uppruna síns sem og kynhneigðar sinnar. Þá hafi hann reynt að leita aðstoðar lögreglu vegna ofbeldis sem hann hafi sætt en mætt neikvæðu viðhorfi.

Af skýrslum má ráða að kærandi eigi á hættu áreiti og mismunun á grundvelli uppruna síns. Þá er ljóst að viðhorf til [...] einstaklinga sé neikvætt í grísku samfélagi sem getur aukið á erfiðleika kæranda við að nýta þau réttindi sem hann hefur og sannanlega þarfnast, þ.m.t. heilbrigðisþjónustu. Það er jafnframt mat kærunefndar að kærandi hafi takmarkað eða ekkert bakland af hálfu fjölskyldu, nærsamfélags eða samlanda sinna í Grikklandi, m.a. vegna kynhneigðar sinnar. Að mati kærunefndar eru samlegðaráhrif þeirra mismununar sem kærandi eigi á hættu í Grikklandi þess eðlis að telja verði, eins og atvikum er háttað sérstaklega í þessu máli, að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki.

Að framangreindu virtu og þegar litið er á mál kæranda í heild sinni, er það mat kærunefndar að þrátt fyrir að kærandi hafi hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi þá séu einstaklingsbundnar aðstæður kæranda þess eðlis að rétt sé að taka umsókn hans til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna. Hefur kærunefnd við það mat litið til þeirra félagslegu aðstæðna sem bíða kæranda í Grikklandi sem [...] manns af [...] uppruna, eins og að framan hefur verið rakið. Því er það niðurstaða kærunefndar að fella beri úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og leggja fyrir stofnunina að taka mál kæranda til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu telur kærunefnd ekki tilefni til þess að fjalla sérstaklega um athugasemdir kæranda varðandi ákvörðun Útlendingastofnunar.

Samantekt

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of the application of the applicant for asylum in Iceland.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                                        Ívar Örn Ívarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta