Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 358/2021 - Úrskurður

 

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 358/2021

Fimmtudaginn 14. október 2021

A og B

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 15. júlí 2021, kærðu A og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 27. apríl 2021, um synjun á umsókn um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda barns.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærendur þiggja greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna dóttur sinnar sem fæddist X. Með læknisvottorði, dags. 8. mars 2021, sótti kærandi um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda barns. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 27. apríl 2021, var umsókn kærenda synjað á þeirri forsendu að ekki væri um að ræða alvarlegan sjúkleika barns né alvarlega fötlun sem krefðist nánari umönnunar foreldris.

Kærandendur kærðu framangreinda ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, dags. 15. júlí 2021. Með bréfi, dags. 19. júlí 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 31. ágúst 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 1. september 2021, var greinargerðin send kærendum til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur greina frá því að kærð sé synjun umsóknar um lengingu fæðingarorlofs vegna barns þeirra sem fæddist með klumbufót. Fram kemur að kæran sé lögð fram á grundvelli þess að barnið hafi þurft að ganga í gegnum dæmigerða meðferð. Meðferðin sé þannig að hún hafi byrjað fimm daga gömul í gifsmeðferð þar sem hún hafi fengið nýtt gifs vikulega í þrjár vikur. Síðan hafi barnið þurft að fara í aðgerð á hásin þar sem sinin hafi verið tekin í sundur og fór barnið þá í gifs í þrjár vikur, síðan tóku við mánuðir í spelkum allan daginn og alla nóttina. Barnið þurfi að sofa með spelkuna til fimm ára aldurs. Samkvæmt sérfræðingi sé meðferðin við klumbufæti alltaf sú sama, en stundum þurfa börn ekki að gangast undir hásinarlengingu sem dóttir kærenda þurfti að gangast undir.

Kærendur telja að þar sem það séu fordæmi fyrir lengingu fæðingarorlofs vegna klumbufóts  og með synjuninni sé um mismunun að ræða.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til þess að í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof sé að finna heimildarákvæði til að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um allt að sjö mánuði ef um sé að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefjist nánari umönnunar foreldris. Rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og stofnuninni sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið. Óskað hafi verið umsagnar sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs við matið.

Í athugasemdum með 1. mgr. 19. gr. laga nr. 144/2020 megi finna leiðbeiningu við matið. Þar komi meðal annars fram að litið verði til þess að ástand barnsins krefjist nánari umönnunar foreldranna umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna, án tillits til þess hvort barn liggi í lengri eða skemmri tíma á sjúkrahúsi. Þá skuli miðað við að barn greinist með alvarlegan sjúkdóm eða alvarlega fötlun og sé þá ekki átt við tilfallandi veikindi barna, svo sem hlaupabólu, eyrnabólgu eða aðra álíka sjúkdóma, enda þótt veikindin geti verið þrálát. Þá segir einnig í athugasemdum við greinina: „Þykir eðlilegt að líta til þeirra tilvika er eiga undir lög um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, þegar meta skal hvort einstök tilvik geta fallið undir ákvæði þetta enda stefnt að því að tryggja foreldrum þessara barna heildstæðan rétt að þessu leyti.“

Af ákvæðinu og athugasemdunum sé ljóst að annars vegar þurfi að vera til staðar alvarlegur sjúkleiki barns eða alvarleg fötlun og hins vegar þurfi ástand barnsins að vera þannig að það krefjist nánari umönnunar foreldris og þá umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna. Sé ástand barnsins þannig að það krefjist ekki nánari umönnunar foreldris umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna, til að mynda vegna ungs aldurs barnsins, sé heldur ekki þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi. Þá sé einnig ljóst að tímalengd lengingarinnar getur verið breytileg en þó að hámarki sjö mánuðir og þá fari tímalengdin eftir alvarleika sjúkdóms eða fötlunar barns og umönnunar foreldranna umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna. Þannig sé ekki útilokað, hafi foreldrum verið synjað um framlengingu fæðingarorlofs eða verið ákvarðaður skemmri tími en sjö mánuðir í framlengingu, að til framlengingar eða frekari framlengingar komi síðar gerist þess þörf og berist um það vottorð með rökstuðningi þess sérfræðilæknis sem annast hafi barnið. Í framkvæmdinni sé slíkt alls ekki óalgengt, sbr. til dæmis úrskurð úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 21/2014.

Eitt læknisvottorð vegna lengingar fæðingarorlofs hafi borist í málinu, dags. 8. mars 2021, en einnig liggi fyrir umsögn sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs.

Í læknisvottorði C, dags. 8. mars 2021, en mótteknu 12. apríl 2021, sé greining á veikindum barns Talipes equinovarus Q66.0. Lýsing á sjúkdómi barns sé: „Um er að ræða stúlku sem fædd er með klubrufót vi. megin. Hóf gipsun í dag og mun verða gipsuð í sex til átta vikur, eftir það spelkumeðferð allan sólahringinn í þrjá mán. og þar á eftir alltaf þegar hún sefur. Verður það a.m.k. í ca. þrjú ár að lágmarki. Áætlað er að líklegt sé að hásinarlenging verði gerð við sex til átta vikna aldur.“

Í umsögn D sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. ágúst 2021, sem kom að matinu segir meðal annars:

“Klumbufótur er meðfædd fötlun barns, oftast tímabundin, þar sem í flestum tilfellum er hægt að laga ástand varanlega með gips- og spelkumeðferð. Hinsvegar er alvarleiki slíks ástands breytilegur og getur verið frá vægu stigi og upp í alvarlegt stig og því mismunandi meðferðum beitt og tímalengd og umfang slíkra meðferða breytilegt. Gips og spelkumeðferð hjá barni á þessum aldri krefst að sjálfsögðu einhverrar aukinnar umönnunar, en skv. vottorði var gert ráð fyrir nokkuð hefðibundinni meðferð og alvarleikastigi eða afbrigða ekki getið í vottorði, enda ekki komin reynsla af meðferðinni þegar vottorð er ritað. Það er því mitt mat að við hefðbundna meðferð sem gengur eðlilega ætti að öllu jöfnu ekki að vera svo mikið aukin umönnunarþörf umfram venjubundna umönnun ungbarna, að foreldrar geti ekki notið eðlilegs fæðingarorlofs vegna þessa og tel því ekki ástæðu til lengingar í þessu máli miðað við fyrirliggjandi upplýsingar. Að mínu mati er þetta í samræmi við fjölmargar aðrar afgreiðslur Fæðingarorlofssjóðs í slíkum málum. Reynist þessi meðferð hinsvegar ekki nægjanleg og komi til meiri umönnunarkrefjandi meðferðar eins getur viðkomandi sérfræðilæknir barnsins sent inn nýtt vottorð þar að lútandi“.

Með vísan til læknisvottorðs C og umsagnar D telji Vinnumálastofnun - Fæðingarorlofssjóður að þó að gips- og spelkumeðferð kunni að krefjast einhverrar aukinnar umönnunar, sé ástand barnsins og sú hefðbundna meðferð sem það hafi fengið til þessa, ekki með þeim hætti að þörf sé framlengingar á fæðingarorlofi samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 144/2020, sbr. einnig úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 120/2017 en í því máli hafi aðstæður verið með sambærilegum hætti og í þessu máli.

Að lokum taki Fæðingarorlofssjóður fram að aðstæður í máli kærenda og máli nr. 21/2014 séu um margt ólíkar hvað varðar þörf fyrir slíka framlengingu. Því sé ekki hægt að líta á ástand barns og aðstæður í því máli sem fordæmisgefandi hvað mál kærenda varðar. Fæðingarorlofssjóður bendir á að verði breyting á ástandi barns kærenda þannig að það leiði til nánari umönnunar umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna sé unnt að senda læknisvottorð þar um með rökstuðningi þess sérfræðilæknis sem annast hafi barnið og muni sjóðurinn taka afstöðu til þess.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kærendum um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda dóttur þeirra.

Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram að heimilt sé að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um allt að sjö mánuði ef um sé að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefjist nánari umönnunar foreldris. Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis sem annast hefur barnið og skal Vinnumálastofnun berast frumrit af framangreindu vottorði. Vinnumálastofnun skal meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og stofnuninni sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið.

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um fæðingar- og foreldaraorlof kemur fram að við mat á því hvort framlengja skuli fæðingarorlofi, sé gert ráð fyrir að eingöngu verði litið til þess að ástand barnsins krefjist nánari umönnunar foreldraranna umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna, án tilllits til þess hvort barn liggi í lengri eða skemmri tíma á sjúkrahúsi. Oft komi alvarleg fötlun eða sjúkdómar, svo sem hjartagallar, ekki fram þegar við fæðingu en geti hins vegar komið fram á fystu dögum í lífi barns. Þá skal miðað við að barn greinist með alvarlegan sjúkdóm eða alvarlega föltun og sé þá ekki átt við tilfallandi veikindi barna, svo sem hlaupabólu, eyrnabólgu eða aðra sambærilega sjúkdóma, enda þótt veikindin geti verið þrálát. Eðlilegt þykir að líta til þeirra tilvika er eiga undir lög nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna þegar metið sé hvort einstök tilvik geti fallið undir ákvæðið, enda stefnt að því að tryggja foreldrum þessara barna heildstæðan rétt að þessu leyti.

Samkvæmt gögnum málsins fæddist dóttir kærenda með klumbufót. Í læknisvottorði C, dags. 8. mars 2021, er greining á sjúkdómi barns Talipes equinovarus. Þá er sjúkdómi barnsins, læknisskoðun og batahorfum lýst á eftirfarandi hátt: „Um er að ræða stúlku sem fædd er með klubrufót vi. megin. Hóf gipsun í dag og mun verða gipsuð í sex til átta vikur, eftir það spelkumeðferð allan sólahringinn í þrjá mán. og þar á eftir alltaf þegar hún sefur. Verður það a.m.k. í ca. þrjú ár að lágmarki. Áætlað er að líklegt sé að hásinarlenging verði gerð við sex til átta vikna aldur.“

Í umsögn D sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. ágúst 2021, kemur meðal annars fram að klumbufótur sé meðfædd fötlun barns, oftast tímabundin, þar sem yfirleitt er hægt að laga ástand varanlega með gips- og spelkumeðferð. Alvarleiki slíks ástands sé þó breytilegur og geti verið frá vægu stigi upp í alvarlegt stig. Því sé mismunandi meðferðum beitt og tímalengd og umfang slíkrar meðferðar breytilegt. Gips- og spelkumeðferð hjá barni á þessum aldri krefjist að sjálfsögðu einhverrar aukinnar umönnunar, en samkvæmt vottorðum hafi verið um hefðbundna meðferð að ræða og alvarleika eða afbrigða sé ekki getið í vottorðum. Það sé hans mat að við hefðbundna meðferð, sem gangi eðlilega, ætti alla jafna ekki að vera svo mikil aukin umönnun umfram venjubundna umönnun ungbarna.

Með hliðsjón af gögnum málsins tekur úrskurðarnefndin, sem meðal annars er skipuð lækni, undir sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs um að ástand barns kærenda og sú hefðbundna meðferð sem það hefur fengið til þessa, sé ekki með þeim hætti að þörf sé á lengingu fæðingarorlofs samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 144/2020. Úrskurðarnefndin telur rétt að benda á að líkt og fram kemur í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs geta kærendur sótt á ný um framlengingu fæðingarorlofs, reynist barn þeirra þurfa á aukinni umönnun að halda sökum veikinda.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 27. apríl 2021, um synjun á umsókn A og B, um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda barns, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

_______________________________________

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta