Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 21. desember 2005.

Ár 2005, miðvikudaginn 21. desember, er í matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið nr. 15/2005

                                   Kópavogsbær

                                    gegn

                                    Ingibjarti Jóhannessyni

                                    og Guðnýju Elise Jóhannesdóttur

og í því kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

Úrskurð þennan kveða upp Allan Vagn Magnússon, héraðsdómari og varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt meðnefndarmönnunum Sverri Kristinssyni, löggiltum fasteignasala, og Vífli Oddssyni verkfræðingi, en formaður hefur kvatt þá til starfa í málinu skv. heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Með bréfi dagsettu 9. ágúst sl. beiddist Kópavogskaupstaður þess að Matsnefnd eignarnámsbóta mæti hæfilegar bætur vegna skerðingar sem verði á lóðinni að Vatnsendabletti 156 í Kópavogi. Kemur fram í beiðninni að vegna framkvæmda á deiliskipulagi í Þingum í Vatnsendalandi hafi tekist samkomulag við lögmann eignarnámsþola um að nefndin mæti bætur til þeirra vegna skerðingar á lóðarréttindum sem af framkvæmd skipulags leiði.

Samkvæmt leigusamningi um Vatnsendablett  156 sem er útgefinn 8. júlí 1985 til 30 ára er lóðin 5.000 fm, en samkvæmt leiðréttingum, sem einnig var þinglýst með samþykki fyrri landeiganda á lóð, skv. samningi að vera 7.500 fm. Innan girðinga er útmæld lóð 10.006,3 fm, en ekki er vitað frá hvað tíma þessar girðingar eru. Núverandi lóðarhafar hafa samkvæmt þessu haft afnot af 2.500 fm án endurgjalds.

 Samkomulag er um að núverandi sumarbústaður á lóðinni megi standa áfram og öðlist stöðurétt sem íbúðarhús.  Samkvæmt deiliskipulagi má byggja parhús á lóðinni og verður lóðarstærð skv. deiliskipulagi 1.410 fm.  Skerðing á lóð skv. leigusamningi verður þannig u. þ. b. 6.090 fm, auk þess sem niður falla endurgjaldlausu afnotin sem lóðarhafar hafa haft af 2.500 fm. innan girðinga væntanlega með samþykki fyrri landeiganda.  Greiða þarf gatnagerðargjöld af byggingamagni umfram núverandi hús á lóðinni en ekki yfirtökugjöld.  

 

 

 

 

Sjónarmið eignarnema

Við mat beri að líta til þess að eignarnemi muni taka að sér og kosta aðlögun lóðar að nýjum lóðamörkum. Þá beri einnig að líta til þess að eignarnemi annist á sinn kostnað tengingu fráveitu frá núverandi húsi við lagnakerfi bæjarins.

Við mat á bótum vegna skerðingarinnar beri að líta til þess að hér sé um sumarbústaðalóð að  ræða og gildistaka deiliskipulags  hafi það í för með sér að veruleg verðhækkun verði bæði á því leigulandi sem lóðarhafi haldi eftir og sumarhúsi sem á því standi.  Þrátt fyrir skerðingu verði lóðin rúm.

Fyrir gildistöku deiliskipulags hafi sumarhúsið haft ótryggan stöðurétt og nýting verið  bundin við hefðbundna nýtingu sumarhúsa.  Óumdeilt sé að gildistaka deiliskipulagsins hafi þannig ótvírætt í för með sér verulega hækkun á verðmæti þeirrar leigulóðar sem lóðarhafi haldi eftir, en um hana verði gerður nýr lóðarleigusamningur. 

Á það sé lögð áhersla af hálfu eignarnema að samkvæmt ákvæðum 4. gr. leigusamningsins frá 8. júlí 1985 sé landeiganda heimilt að segja upp leigusamningi með 1 árs fyrirvara, en þá sé hann skyldur að kaupa hús og önnur mannvirki eftir mati óvilhallra manna, er bæjarfógeti tilnefni.  Ákvæði þetta um heimild til uppsagnar með 1 árs fyrirvara dragi verulega úr vægi tímalengdar samningsins og undirstriki þann mikla ávinning sem sé af því fyrir lóðarhafa að fá tryggan stöðurétt skv. deiliskipulaginu og nýjan lóðarleigusamning skv. almennum reglum í Kópavogi.  Þá hafi deiliskipulagið í för með sér að núverandi hús fái betri tengingu við samgöngukerfi bæjarins, en hingað til hafi aðkoma að húsinu verið frá gömlum vegslóða.  Þá sé til þess að líta að notagildi þess lands sem skerðingin taki til hafi eingöngu verið til ræktunar og útivistar en enginn byggingaréttur umfram sumarhúsið sem stendur á lóðinni.  Eins og áður segi hafi lóðarhafi haft endurgjaldslaus afnot af öðru landi innan girðinga og ekki sé mikil ræktun á því landi.  Fjárhagslegt tjón sé því  ekkert við missi þess lands þar sem lítil ræktun hafi verið þar. Við mat á missi leiguréttar sé rétt að líta til þess að leigugjald sé lítilræði, sbr. 2. gr. leigusamningsins og önnur afnot í greiðaskyni af hálfu fyrri landeiganda. 

Fyrir liggi að deiliskipulagið hafi leitt til verulegrar verðmætaaukingar á lóð þeirri sem eftir verði og mannvirkjum á henni og hafi sú verðhækkun orðið um leið og deiliskipulagið hafi tekið gildi og muni verða enn meiri þegar gatnagerð og öðrum framkvæmdum sé lokið á svæðinu í samræmi við deiliskipulag.

Í þessu sambandi sé af hálfu eignarnema vísað til þess að samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skuli við ákvörðun bóta vegna skipulagsaðgerða taka tillit til þeirrar verðhækkunar sem þær muni hafa á eignina sem eftir stendur.  Í því sambandi beri að líta annars vegar til markaðsverðs áður en svæðið hafi verið deiliskipulagt og hins vegar markaðsverðs nú eftir að deiliskipulag hafi tekið gildi.

Þá sé jafnframt á það bent að eignarnemi hafi leyst til sín fjölda leigulanda og greitt bætur vegna skerðingar á lóðum á svæðinu sem deiliskipulagið tatki til og rétt að litið sé til þeirra samninga varðandi jafnræði milli þeirra aðila er orðið hafa fyrir skerðingu á lóðum vegna deiliskipulagsins.

 

Sjónarmið eignarnámsþola

Af hálfu eignarnámsþola er sú krafa gerð að bætur til handa eignarnámsþolum vegna þeirra eignaskerðinga og verðmætarýrnunar sem hljótast muni af framkvæmdum eignarnema verði metnar að minnsta kosti að fjárhæð 45.000.000 króna.  Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi matsbeiðanda.

Fyrir liggi að eignarnámsþolar séu handhafar lóðarréttinda að Vatnsendabletti 156, sem upphaflega hafi verið stofnað til á árinu 1944, en gerður hafi verið nýr leigusamningur til 30 ára árið 1985.  Ágreiningslaust sé að þau lóðarréttindi sem eignarnámsþoli hafi haft til umráða nemi samtals 10.006,3 fm, þar af 7.500 fm samkvæmt tilgreiningu í samningi en í raun 10.006,3 fm alls.  Hafi það land verið afgirt allt frá árinu 1944, þegar forveri (heimildarmaður) eignarnámsþola hafi tekið landið upphaflega á leigu til 50 ára.  Þá sé ágreiningslaust að eftir að húsi eignarnámsþola hafi verið afmörkuð lóð, samtals 1.410 fm,  nái skerðingin til lands, sem sé samtals 8.596,3 fm.  Vísað sé til samningsins um efni hans, en hann sé sambærilegur öðrum samningum, sem eigandi Vatnsenda hafi gert á sinni tíð við aðra á svæðinu.  Á umræddu landi hafi í gegnum árin verið staðið að umfangsmikilli ræktun, bæði af fyrri lóðarhafa, sem og eignarnámsþolum.  Hafi af þeirra hálfu verið tekin saman skýrsla um þá ræktun, umfang og verðmæti hennar og er hún lögð fram sem skjal nr. 29.

Af hálfu eignarnámsþola eru jafnframt lögð fram nokkur gögn sem varða samskipti þeirra við eignarnema á fyrri stigum og sýna með öðru fram á réttmæti væntinga þeirra til áframhaldandi og viðvarandi lóðarréttinda á þrætuspildunni.  Er í þessu sambandi vakin sérstök athygli á bréfi þáverandi lögmanns eignarnámsþola til eignarnema, dags. 10. maí 2001.  Þá eru rakin gögn sem varða samningaumleitanir aðila á liðnu sumri en í tölvubréfi eignarnema frá 19. júlí, eru boðnar sem heildargreiðsla fyrir umrædd réttindi, þ.e. 8.596,3 fm ásamt gróðri, kr. 6.000.000.-  Töldu eignarnámsþolar það boð fjarri öllu sanni.

Með vísan til forsögu málsins og þeirrar réttarstöðu sem eignarnámsþolar og þeir aðilar sem hann leiðir rétt frá hafa haft telur eignarnámsþoli ekki forsendur til þess að gera í verðmati neinn greinarmun á því landi sem meta skal.  Mat nefndarinnar beri því að miða við það að eignarnemi greiði eignarnámsþola bætur fyrir umrætt 8.596,3 fm land, auk þeirrar ræktunar sem er á hinum innleysta hluta lóðarinnar.

Í máli þessu sé ágreiningur með aðilum um það hvaða verði meta eigi lóðarréttindi eignarnámsþola. Af hálfu eignarnámsþola er einkum vísað til eftirfarandi sjónarmiða til stuðnings kröfu hans sem hann telur að þýðingu eigi að hafa við matið.

Í 1. mgr. i.f. 72. gr. stjórnarskrárinnar segi að fullt verð skuli koma fyrir hlut sem eignarnám er gert í. Samkvæmt hefðbundnum sjónarmiðum við verðlagningu eigna sé rétt, við mat á því hvað teljist fullt verð í skilningi stjórnarskrárákvæðisins, að líta til þess hvert sé líklegt söluverðmæti eignarinnar, notagildi eignarinnar eða hver kostnaður sé fyrir eignarnámsþola að útvega sér sambærilega eign. Því sjónarmiði sem teljist hagstæðast fyrir eignarnámsþola beri að beita.

Hin umþrættu lóðarréttindi liggi á mjög fögrum stað við Elliðavatn. Öruggt megi telja að mikil eftirspurn verði eftir lóðum á þessu svæði til bygginga íbúðarhúsa, vegna nálægðar við vatnið og friðlandið í Heiðmörk.  Eignarnemi hafi undanfarið úthlutað lóðum á þessu svæði og hafi verið gríðarleg eftirspurn eftir þeim.  Venjulegt lóðarverð þar nú fyrir einbýlishúsalóð sé um 7,5 milljónir samkvæmt málsgögnum, en ekki sé ósennilegt að verð á frjálsum markaði sé miklum mun hærra. Af verðinu sem greitt sé til eignarnema fyrir lóðir á svæðinu séu  3.900.000 krónur í svokallað yfirtökugjald sem sé í raun gjaldið fyrir lóðina. Sé miðað við 780 fm lóð sé því lóðarverðið sjálft 5.000 krónur pr. fm.  Auk þessa greiði lóðarhafar gatnagerðargjöld og önnur gjöld til að mæta útlögðum kostnaði eignarnema vegna lóðanna.  Þess beri að geta að lóðarhafar fái einungis leigulóðarréttindi en eignist ekki lóðirnar.  Aðstaða þeirra sé því sambærileg þeirri sem eignarnemi sé í núna.  Þess beri að geta að verðskrá sú sem lögð sé fram í málinu, sé lágmarks gatnagerðar- og yfirtökugjaldsskrá og miðist við verðlag í júní 2005.  Eignarnámsþolar hafi um það rökstuddar upplýsingar að við endurráðstöfun/framsal lóða á umræddu svæði fáist enn hærra verð, m.a. vegna náttúrufegurðar, nálægðar við vatnið o.fl.  Þá verði að taka tillit til verðlagshækkana til úrskurðardags.  Það verðviðmið sem byggt sé á í kröfugerð eignarnámsþola hljóti því alltaf að vera lágmarksviðmið.  Af þessu tilefni hafi eignarnámsþolar sérstaklega aflað gagna um verðþróun lóða á Norðlingaholtssvæðinu, sem helst verði talið sambærilegt í þessu sambandi, og liggi þau frammi. Sýnist enginn vafi leika á því að eftirspurn eftir lóðum á þessum jaðarsvæðum tengdu Elliðavatni og Heiðmörk sé gríðarleg og hækkun mælanleg frá mánuði til mánaðar.  Þannig komi fram að í Norðlingaholti sé heildarverð lóðar fyrir einbýlishús um 14,5 milljónir króna.  Miðað við þær forsendur og þá staðreynd að þrætulandið í þessu máli sé síst eftirsóknarverðara en umrætt land í Norðlingaholti megi tvöfalda framangreint fermetraverð.  Minnt sé á að nefndin sé ekki bundin af tölulegum kröfum aðila heldur eigi þvert á móti frjálst mat við verðákvörðun.

Augljóst sé því samkvæmt framangreindu að eignarnámsþolar hljóti að verða að fá bætur ákvarðaðar í samræmi við markaðsverð lóðarinnar eða a.m.k. kr. 5.000.- x 8596,3 fm = kr. 42.981.500 krónur.  Að auki eigi eignarnámsþolar að fá bætur fyrir alla þá ræktun sem fyrirfinnist á hinni eignarnumdu spildu. Af því tilefni hafi eignarnámsþolar aflað mats þeirra Kristins Þorsteinssonar garðplöntufræðings og Héðins Björnssonar skrúðgarðyrkjumeistara.  Mat þeirra nemi 2.022.340 krónum.  Loks beri að bæta eignarnámsþolum að álitum þau tímabundnu óþægindi og röskun sem þeir hafi orðið fyrir á framkvæmdatíma eignarnema á svæðinu, þar sem unnið hafi verið með stórvirkum vinnuvélum, leiðir tepptar o.s.frv. Þá sé öll frekari uppbygging eftir á svæðinu með tilheyrandi raski og óþægindum.  Heildarverðmæti hins eignarnumda nemi því samtals að lágmarki 45.000.000 króna. 

Sé eignarnámsþolum greitt minna verð fyrir hið eignarnumda sé fyrirsjáanlegt að eignarnemi muni í krafti eignarnámsheimilda auðgast á kostnað eignarnámsþola og með þeirri niðurstöðu fengju eignarnámsþolar ekki fullt verð fyrir hið eignarnumda svo sem skylt sé skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Til vara  vísa eignarnámsþolar til úskurðar Matsnefndar Eignarnámsbóta  frá 6. apríl 2004 í málinu nr. 1/2004, sem varðaði mat eignarnuminna landsréttinda að Vatnsendabletti 240 í Kópavogi.  Megi segja að málavextir og kringumstæður hafi um margt verið sambærilegar því máli sem hér sé til meðferðar og forsendur leigusamnings í alla staði sambærilegar, þ.m.t. sérstakur áskilnaður um heimild eignarnema (leigusala) til uppsagnar samningsins með eins árs fyrrivara undir sértökum kringumstæðum.  Þá fyrirvara verði þó að gera við samanburð þessara tilvika að það land sem fjallað hafi verið um í úrskurðinum frá 6. apríl 2004 hafi á engan hátt verið jafn eftirsóknarvert til byggingar íbúðarhúsa með tilliti til umhverfis og náttúru.  Í annan stað verði að taka tillit til þess að liðið sé rúmt eitt og hálft ár frá þeim tíma sem sá úrskurður gekk og reikna megi með að lóðarverð hafi hækkað um a.m.k. 100% á þeim tíma.  Í tilvitnuðum úrskurði sé miðað við að 3.500.000 krónur væru greiddar í bætur fyrir 1.500 fm, sem geri 2.333 krónur pr fm.  Í þessu tilviki hafi það leitt til þess að lóðarréttindi yrðu bætt með  20.054.468 krónum.  Heildarverðmæti hins eignarnumda næmi samkvæmt því samtals  22.500.000 krónum.  Minnt sé þó á framangreinda fyrirvara sem óhjákvæmilega leiði til hækkunar frá þessum verðforsendum.  

Við málatilbúnað eignarnema eru þær athugasemdir gerðar að í fyrsta lagi geti ekki komið til álita að bætur verði lækkaðar til eignarnámsþola vegna þess að eignarnemi muni taka að sér að kosta aðlögun lóðar að nýjum lóðarmörkum og annast tengingu við lagnakerfi bæjarins.  Fyrir liggi samkomulag þess efnis að eignarnámsþolar muni halda eftir lóð að stærð 1.410 fm með núverandi húsi, sem fái stöðu íbúðarhúss, en hafi heimild til þess að reisa parhús í samræmi við deiliskipulag og beri þeim þá að greiða gatnagerðargjöld af byggingamagni umfram núverandi hús.  Við bótaákvörðun í málinu geti enginn annar kostnaður sem tengist þessari tilhögun eða framkvæmdum á svæðinu komið til frádráttar úrskurðuðum bótum. 

Í öðru lagi sé þeim málatilbúnaði mótmælt að sú  verðhækkun lands sem leiði af deiliskipulaginu eigi að koma til sérstakrar lækkunar ákvörðuðum bótum.  Í því sambandi leggja eignarnámsþolar á það áherslu að við túlkun 2. mgr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga beri að leggja til grundvallar að eingöngu beri að taka tillit til þeirrar sértæku verðhækkunar sem verða kunni á viðkomandi eign.  Almenn verðhækkun sem verði á umræddu svæði vegna áhrifa deiliskipulagsins komi ekki sérstaklega til lækkunar, sbr. meginreglur í íslenskri eignarnámsframkvæmd, en 2. mgr. 33. gr. verði að sjálfsögðu túlkuð og skýrð með hliðsjón af þeim. 

Í þriðja lagi sé því svo sérstaklega mótmælt að lóðarréttindi og bygging eignarnámsþola hafi haft með einhverjum hætti ótrygga stöðu.  Þvert á móti sé um að ræða sambærileg lóðarleiguréttindi og fjöldi annarra aðila hafi í gegnum áratugina notið á grundvelli samninga sem gerðir hafi verið við eigendur jarðarinnar Vatnsenda.  Hafi þessi réttindi þvert á móti verið varanleg og endurnýjuð til langs tíma eftir þörfum og óskum einstakra lóðarhafa.  Vegna tilvísunar eignarnema til 4. gr. samningsins er tekið fram að eignarnámsþolar byggja á því að eignarnemi geti ekki beitt greindu ákvæði samningsins.  Hafa verði í huga að tilgangur greinds ákvæðis samningsins hafi upphaflega verið að gefa þáverandi eiganda kost á að taka landið til eigin nota og þá landbúnaðarnota, ef á þyrfti að halda, enda hafi löggiltur erfingi á Vatnsenda hverju sinni verið skyldugur til að halda þar búskap ætlaði hann að halda þeim réttindum sem arfleiðsluskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 mælti fyrir um og fjallað er um í Hrd. 1968, bls. 422, sbr. 4. gr. arfleiðsluskrárinnar.  Af framangreindu leiði að túlka verði 4. gr. leigusamningsins þannig að landeiganda hafi verið heimilt að segja upp samningnum þyrfti hann að nota landið sjálfur og í ljósi framangreinds hafi það einungis verið hægt á grundvelli hugsanlegrar nýtingar landsins til landbúnaðar en ekki til að reisa þar skipulagt íbúðahverfi eða aðra notkun.

Þá hafi eignarnemi veitt heilsársleyfi fyrir fasteign eignarnámsþola árið 1994, þ.e. samþykkt að heimilt væri að búa í fasteigninni árið um kring og þar með væri ekki lengur um sumarhús að ræða.  Á þessum tíma hafi sumarhús í íslenskum lögum verið skilgreint sem bygging sem reist sé eða ætluð til að búa í að sumri til og einungis endrum og eins á öðrum tímum árs, sbr. 2. mgr. 10. gr. jarðalaga nr. 65/1976 og gr. 6.10.7.1. í byggingarreglugerð nr. 318/1985 með síðari breytingum.  Með veitingu heilsársleyfis fyrir fasteignina hafi eignarnemi samþykkt að hér væri um fasteign að ræða sem nyti þá sömu stöðu og réttinda og aðrar sambærilegar eignir.  Í reglum byggingarnefndar Kópavogs frá 1987 segir m.a. að engum kvöðum verði þinglýst um brottnám bygginga (ársbústaða).

Þá er bent á að lóðarleigusamningurinn sé ritaður á stöðluðu formi, sem landeigandi hafi sjálfur lagt til.  Samningurinn sé upphaflega gerður til 50 ára og komi núgildandi samningur í stað eldri samnings aðila.  Samningurinn sé því tímabundinn en jafnframt sé að finna uppsagnarákvæði, sem reyndar sé mótsagnakennt.  Umræddum samningi svipi um margt til svokallaðra erfðafestusamninga.  M.a. sé ekki tekið fram í samningnum hvernig fara skuli með leiguréttindin að þeim tíma liðnum, sem tilgreindur er í samningnum.  Þá sé mælt fyrir um forkaupsrétt landeiganda en segja megi að ef ætlunin hefði verið að hafa umrædda leigu tímabundna hefði ekki verið ástæða til að mæla fyrir um slíkt.  Ennfremur getur landeigandi gengið að húsum og mannvirkjum til tryggingar leigugreiðslum, m.ö.o. samið er um lögtaksrétt honum til handa, en slík ákvæði séu jafnan í hefðbundnum erfðafestusamningum. 

Loks sé um stöðu þess lands sem ekki er sérstaklega tilgreint í samningi en tilheyrir óumdeilt lóðinni, 2500 fm vísað til 7., sbr. 2. gr. hefðarlaga nr. 46/1905.

 Vísað er til 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar, hefðarlaga nr. 46/1905, 2. mgr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997  og hefðbundinna sjónarmiða við verðmat eigna við eignarnám og innlausn.

 

NIÐURSTAÐA

            Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Lóðin er í fallegu umhverfi og þaðan er þokkalegt útsýni.

            Fram kemur í gögnum málsins að lóð eignarnámsþola samkvæmt leigulóðarsamningi nemur 7.500 fm. Auk þess kemur fram í málinu að eignarnámsþola hefur haft endurgjaldslaus afnot 2.506,3 fm lands innan girðingar en án samnings. Eftir að land það sem eignarnámsþoli hefur haft til afnota hefur verið skert heldur hann eftir 1.410 fm lands og telur nefndin að það land sé hluti þess lands sem lóðarleigusamningurinn tekur til. Nemur skerðing á landi samkvæmt samningi eignarnámsþola 6.090 fm. Þá missir hann umráð 2.506,3 fm lands sem hann hefur haft endurgjaldslaust.

Við mat á verðmæti þeirrar skerðingar verður litið til úrlausnar Matsnefndar Eignarnámsbóta í málinu nr. 1/2004 frá 6. apríl 2004 þar sem metnar voru bætur til lóðarhafa vegna skerðingar á lóð á sama svæði. Voru aðstæður og sambærilegar að því leyti að sams konar uppsagnarákvæði var í lóðarleigusamningi og í því máli sem hér er leyst úr, þ.e. samningi mátti segja upp með eins árs fyrirvara og í því tilviki skyldi leigusali kaupa hús og önnur mannvirki eftir mati óvilhallra manna. Þá verður litið til þróunar verðs á fasteignum almennt og á þessu svæði sérstaklega og einnig litið til þess að stór svæði fara til sameiginlegra nota svo sem undir vegi og græn svæði. Þá verður ekki fram hjá því litið við mat þetta að annars vegar er tekið úr umráðum eignarnámsþola land sem han hafði samkvæmt lóðaleigusamningi og nemur 6.090 fm. og hins vegar 2.506,3 fm. lands sem hann hafði endurgjaldslaust. Matsnefndin lítur svo á að með hliðsjón af dómi Hæstaréttar frá 6. október 2005 í málinu nr. 101/2005 skapi hin endurgjaldslausu afnot framangreinds lands eignarnámsþola ekki rétt til bóta fyrir að það land sé tekið úr umráðum hans. Að þessum atriðum virtum þykja bætur hæfilega ákveðnar 3.800 krónur á hvern fermetra skertrar lóðar samkvæmt lóðarleigusamningi eða 23.142.000 krónur samtals. Þá liggur fyrir mat á því að gróður sem fyrir er og skerðist við skipulagsaðgerðir er að verðmæti 2.022.340 krónur, sem ekki er mótmælt af hálfu eignarnema og samkvæmt þessu nema bætur til eignarnámsþola vegna skerðingar á lóðarréttindum og gróðri  samtals 25.164.340 krónum.

            Við úrlausn þessa verður ekki fram hjá því litið að eignarnámsþoli heldur verulegum hluta lóðarréttinda þeirra sem hann hafði samkvæmt lóðarleigusamningi og hefur heimild til að nýta lóðina undir sumarbústað auk þess að samkvæmt deiliskipulaginu má byggja einbýlishús með kjallara á lóðinni.  Hins vegar þarf eignarnámsþoli að greiða gatnagerðargjöld af viðbyggingum eða því byggingarmagni sem er umfram stærð núverandi bústaðar, sé hann rifinn. Þá þarf eignarnámsþoli ekki að greiða yfirtökugjald.

             Samkvæmt framansögðu þykja matsnefndinni hæfilegar bætur fyrir skerðingu á leigulóðarréttindum eignarnámsþola vera samtals 25.164.340 krónur. Eignarnemi skal að auki greiða eignarnámsþola 412.293 krónur þar með talinn virðisaukaskatt í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni og 420.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ

            Eignarnemi, Kópavogsbær, greiði eignarnámsþolum, Ingibjarti Jóhannessyni og Guðnýju Elise Jóhannesdóttur, 25.164.340 krónur og 412.293 krónur í málskostnað.

            Eignarnemi greiði 420.000 krónur til ríkissjóðs vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

                                                                        Allan V. Magnússon

                                                                        Sverrir Kristinsson

                                                                        Vífill Oddsson

 

 

 

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta